Þátttakendur í Heilsuhlaupi Krabbameinsfélagsins 7. júní sl. voru 240, um hundrað færri en í fyrra. Fækkunin var mest í stuttu vegalengdinni, 3 km, sérstaklega í yngstu aldursflokkunum. Sem dæmi má nefna að einungis þrír á aldrinum 15-18 ára tóku þátt í hlaupinu.
Á fundi undirbúningsnefndar Heilsuhlaupsins þriðjudaginn 12. júní var farið yfir niðurstöðu hlaupsins. Í ljósi minnkandi þátttöku undanfarinna ára og aukins fjölda tilboða um afþreyingu var tekin sú ákvörðun (óformleg ennþá) að Heilsuhlaupið myndi fara fram í síðasta sinn á næsta ári. Þá verður hlaupið haldið í 15 skiptið og fer vel á því við þau tímamót að láta staðar numið. Með sanni má segja að Krabbameinsfélagið hafi fyrir löngu náð því markmiði sem lagt var upp með í byrjun þ.e. að fá fólk til að hreyfa sig og ástunda holla lifnaðarhætti. Þegar mest var voru þátttakendur í hlaupinu í Reykjavík um 1.300 árið 1994.
Í flestum öðrum almenningshlaupum er um svipaða þróun að ræða. Fjöldi fullorðinna þátttakenda er nokkurn veginn sá sami milli ára, en krökkunum fækkar. Öflug kynning og aukið innihald í þátttökugjaldi s.s. útdráttarverðlaun, pastaveisla, bolir og peningar, virðast ekki duga til. Þátttakan eða réttara sagt þátttökuleysið í Akureyrarmaraþoni (um 200 manns) er umhugsunarefni. Mjög var vandað til undirbúnings undir styrkri forystu Gunnars Ragnars, fyrrum forstjóra Útgerðarfélags Akureyringa. Kynningin var öflug, m.a. þrjár heilsíðuauglýsingar í DV, og til boða stóðu þrjár utanlandsferðir í útdráttarverðlaun. Það var ekki Akraneshlaupið sem dró svona úr þátttökunni (í mesta lagi um 20-30 manns að mínu áliti) heldur náðist ekki til krakkana á Eyjafjarðarsvæðinu. Einhverra hluta vegna fannst þeim þessi viðburður ekki nógu áhugaverður. Það er rannsóknarefni. Reynslan sýnir að velgengni hlaups byggist fyrst og fremst á þátttöku heimamanna.
Ég gerði smá athugun á þátttöku yngstu aldurshópanna í Reykjavíkurmaraþoni undanfarin ár. Árið 1994 varð metþáttaka í RM (3.740). Þá hlupu 1.016 krakkar 14 ára og yngri 3 km og 126 hlupu 10 km. Mjög mikil fækkun hefur orðið frá þeim tíma, sérstaklega í 3 km hlaupinu. Árið 1995 hlupu 102 í 10 km, 71 árið 1996 og hefur verið á bilinu 53-65 undanfarin þrjú ár. Í aldurshópnum 15-17 ára hlupu 58 í 10 km árið 1994, 57 árið 1995 og verið á bilinu 21-26 undanfarin þrjú ár. Um helmingsfækkun hefur því orðið síðan 1994, en rétt er að geta þess að hugsanlega hafa línuskautarnir haft einhver áhrif á þátttökuna í 10 km hlaupinu undanfarin tvö ár.
Er samkeppnin um krakkana orðin svona mikil í dag eða er áhugi á hreyfingu á undanhaldi? Eru tilboð almenningshlaupanna kannski ekkert spennandi lengur þ.e. eru hlaupin ekki "INN" eins og krakkarnir segja? Munið þið eftir Landsbankahlaupinu, sem var mjög vinsælt í mörg ár, en lagðist af fyrir 2-3 árum? Taka foreldrarnir kannski börnin ekki með í hlaupin í sama mæli og áður? Eða eru foreldrarnir líka hættir að mæta, þ.e. orðnir sjálfum sér nógir um hreyfingu s.s. fjallgöngur og hjólatúrar? Hvað þarf til að snúa þessari þróun við? Þetta eru áleitnar spurningar.