Pistill 18: Eljan og aginn skila árangri

birt 01. febrúar 2004

Til að ná árangri í langhlaupum þarf að leggja hart að sér. Ekki í nokkrar vikur eða mánuði, heldur ár eftir ár. Leiðin til árangurs getur stundum verið þyrnum stráð, en oftar en ekki mun sá dagur koma þegar erfiðið skilar sér. Þannig var það í síðasta Mývatnsmaraþoni. Þar bættu maraþongarparnir, Gautur Þorsteinsson, Þórhallur Jóhannesson, Hörður Sverrisson, Magnús Þór Jónsson, Helga Björnsdóttir, Pétur Ingi Frantzson og Gunnlaugur Júlíusson sig á bilinu 7 til 23 mínútur. Sérlega góðar bætingar og greinilegt að þessir ágætu hlauparar hafa lagt hart að sér við æfingar undanfarna mánuði. Hinn 22 ára Guðmundur Karl Gíslason stórbætti sig einnig og er yngstur Íslendinga til að fara undir 3 tíma í maraþoni. Sannarlega ánægjuleg tíðindi og vonandi að hann leggi rækt við hlaupin á næstu árum.

Til að ná góðum árangri er mikilvægt að hafa markmið. Það er í rauninni grundvallaratriði. Til að ná markmiðinu er mikilvægt að hafa áætlun. Þannig verður undirbúningurinn skipulagðari og markvissari en ella. Æfingaáætlun gefur nauðsynlegt aðhald og skráning æfingadagbókar hefur mikið upplýsingagildi fyrir framhaldið.

Í sambandi við afreksíþróttir er oft talað um sjálfsaga og fórnir. Ég er alveg sammála því að sjálfsagi skiptir miklu máli. Afreksíþróttamaðurinn verður að aðlaga líf sitt kröfum íþróttarinnar. Ef vel á að vera þarf líf hans að vera í mjög föstum skorðum s.s. mataræði og hvíld. Allar breytingar út frá hinni venjulegu rútínu s.s. ferðalög og þátttaka í samkvæmislífi verður að lágmarka og skipuleggja. Það er auðvitað misjafnt hversu alvarlega menn taka þessa hluti. Lífsmynstur margra erlendra stórhlaupara s.s. í Japan, Kenía og Marokkó virðist t.a.m. vera mjög einfalt og fábreytt. Oftar en ekki eru þeir í æfingabúðum fjarri ys og þys hins daglega lífs almennings og gera nánast ekkert annað en að æfa. Ég minnist þess að okkar besti hlaupari, Jón Diðriksson, lagði t.d. mikið upp úr því að fá nægan svefn. Hann æfði gjarnan tvisvar á dag og hafði það fyrir sið að fá sér hádegislúr. Það vissu fljótt allir og virtu að ekki mátti trufla hann á milli kl. eitt og þrjú.

Oft sér maður að blaðamenn spyrja íþóttamenn um fórnir, hvort það sé ekki erfitt að þurfa að fórna hinu og þessu. Sumir íþróttamenn falla í þá gryfju að játa því að þeir verði að fórna ýmsu. Ég hef aldrei verið sáttur við þetta viðhorf. Ef einhver vill ná settu markmiði gerir hann það sem til þarf. Fiðluleikari sem er tilbúinn að eyða 8 tímum á dag við æfingar til að komast í heimsklassa er að mínu mati ekki að fórna neinu. Þetta er hans val og leið til að ná sínu markmiði. Það er líka hann sem uppsker ef vel tekst til. Ég man eftir því sjálfur þegar ég var um og innan við tvítugt að margir minna menntaskólafélaga undruðust að ég skildi ,,fórna" hinum og þessum ballferðum í þágu hlaupanna. Tíðarandinn var meira í þá áttina að draga úr manni heldur en hvetja, enda fáir sem stunduðu hlaup á þeim árum. Á tímabili var ég meira að segja farinn að trúa því að ég væri að færa fórnir og fara á mis við lífið. Sem betur fer áttaði ég mig á því að það er misjafnt eftir mönnum hvað gefur lífinu gildi. Það sem er einum mikils virði skiptir annan e.t.v. engu máli.

Oft heyrist sú skoðun að við Íslendingar séum fremur agalaus þjóð. Það má vel vera að við stöndumst ekki samanburð við nágrannaþjóðir okkar t.d. varðandi fyrirhyggjusemi. Meðan Danir spara fyrir sumarleyfinu greiðum við sólarferðina með greiðslukorti. Þetta er rétt að nokkru leyti, en ég held þó að munurinn sé í raun ekki mikill. Við höfum allar forsendur til þess að vinna skipulega og beita okkur sjálfsaga ef við svo viljum. Staðreyndin er nefnilega sú að lífsmynstur okkar er meira og minna bundið aga. Klukkan er líklega okkar mesti daglegi agi, mæta hér og þar klukkan þetta og hitt. Við þurfum að skila verkefnum í vinnu og skóla á tilteknum tíma. Öll okkar samskipti byggja meira og minna á lögum og reglum, hefðum og siðum. Með hliðsjón af þessu er í raun ekkert stórmál fyrir hvern og einn að beita sig sjálfsaga í ákveðinn tíma til að ná settu markmiði. Það er auðvitað misjafnt hversu mikið pláss hlaupin geta skipað í lífi fólks, en reynsla mín er samt sú að plássið er stærra en fólk heldur í byrjun. Þar kemur til skipulagning og breytt forgangsröðun.