Ég gekk Laugaveginn í fyrsta skipti í síðustu viku. Við vorum fjögur saman og ákváðum að skipta leiðinni í þrennt. Fyrsti áfanginn var upp í Hrafntinnusker ca. 10 km. Fórum síðan langan annan dag ca. 27 km og áðum í Emstrum. Síðasti áfanginn var svo í Húsadal ca. 14-15 km. Þessi áætlun kom vel út. Við vorum mjög heppin með veður alla dagana. Bjart yfir og gott útsýni og oftast þægilegur meðvindur. Lentum einungis í þoku í Hrafntinnuskeri. Færið var gott, árnar greiðfærar, en snjórinn umhverfis Hrafntinnusker var reyndar nokkuð þungur yfirferðar.
Þetta var töluvert önnur reynsla en þegar ég hljóp Laugaveginn fyrir tveimur árum. Nú gaf maður sér tíma til að skoða og njóta náttúrunnar. Margt var maður að uppgötva í fyrsta sinn t.d. Stórahver á leiðinni upp í Hrafntinnusker. Eins gaf maður sér tíma til að átta sig á nöfnum helstu tinda og fjalla á leiðinni og svo auðvitað að skoða hin stórfenglegu Markárfljótsgljúfur.
Töluverð umferð fólks var á leiðinni og virtist okkur flestir koma frá Þýskalandi, Hollandi, Frakklandi og Danmörku. Nær undantekningarlaust sýndist okkur þetta vera þaulreynt og skipulagt göngufólk. Kom okkur því mjög á óvart þegar við gengum fram á rúmlega tvítuga danska stúlku eina á ferð rétt eftir Hvanngil. Hún stóð ráðvillt við Kaldaklofskvísl. Kom í ljós að hún hafði villst, þó svo leiðin sé nokkuð augljós, og var búin að fara langt niður með ánni og hafði vaðið yfir hana og svo aftur til baka. Þessi á er vatnsmikil og brúuð enda hafði vatnið náð stúlkunni í mitti. Við nánari kynni sagðist stúlkan vera klassískur dansari og ætti að mæta aftur í vinnuna eftir 5 daga. Hún slóst í för með okkur yfir sandauðnina til Emstrur. Þrátt fyrir að vera klambúleruð á fótum eftir viðureignina við ána gaf hún okkur ekkert eftir á göngunni. Þótti okkur nokkuð til um seigluna í stúlkunni, sem hafði af tilviljun lesið um Laugaveginn í ferðabæklingi.
Það fór ekki hjá því að mér yrði oft hugsað til hlaupsins fyrir tveimur árum. Sérstaklega þegar farið var upp hverja brekkuna á eftir annarri. Í gegnum hugann flugu óljósar minningar um mjólkursýru, auma ökla og hugarangist. Man reyndar vel hvernig mér leið þegar ég kom að Kápunni þegar um 3 km voru eftir af hlaupinu, þrotinn af kröftum. Enn ein helv………brekkan minnir mig að ég hafi öskrað út í Þórsmerkurkyrrðina. Já, Laugavegurinn er erfiður og enginn skyldi hlaupa hann án þess að hafa undirbúið sig vel. Hvort sem menn hlaupa leiðina á 4:48 klst. eða 10 klst. þá er það afrek.
Skynsami hlutinn af mér sagði sem svo: Hvernig datt mér þessi vitleysa í hug? Gamli keppnismaðurinn leit hins vegar oft í kringum sig, lagði leiðina og aðstæður á minnið og hugsaði sem svo: Þarna er hægt að gera betur. Já, það kitlar aðeins að reyna aftur og bæta sig, en til hvers? Nei annars, og þó, hver veit? Í gær (16.7) hringdi í mig Ameríkani, einn af þeim sem eru að kvikmynda Laugaveginn og vildi fá mig í viðtal. Hann var svo áhugasamur og ýtinn að minnstu munaði að ég hringdi strax í RM og skráði mig. Mér til happs (því hásinarnar hafa verið að plaga mig aðeins undanfarið) náði skynsami hlutinn yfirtökunum í þetta sinn.
Nokkrar ráðleggingar í lokin. Sýnið þolinmæði framan af því hlaupið er yfir 50 km. Setjið ekki of mikið púður í brekkurnar, gangið frekar hratt en að reyna að hlaupa. Mikilvægt að eyða ekki sykurbirgðunum (glykogen) of fljótt. Reyna að brenna sykri og fitu sem jafnast. Farið varlega niður brattar brekkur s.s. Jökultungurnar því annars mun mjólkursýra og eymsli í framlærisvöðvunum refsa ykkur. Ég gerði þau mistök 1999 að fara allt of hratt niður brekkurnar og gat því ekki notað sem skyldi minn aðalstyrkleika, sem er rúllið á flatanum. Drykkir eru mikilvægir í svo löngu hlaupi og mér fannst gelið hjálpa líka (notaði 5-6 pakka). Ég komst af með sama skóparið alla leið, milliþykkir en rifflaðir æfingaskór. Mér fannst ekki koma að sök þó þeir blotnuðu eitthvað. Bar vaselín vel á allar tær og á hælana. Síðast en ekki síst er að hafa gaman af þessu. Laugavegurinn með sínum brekkum, fjöllum, ám og söndum er erfitt en skemmtilegt verkefni.