Gleðilegt sumar. Hendingin úr þessari þekktu vísu á vel við þar sem hlaupatímabilið er nýhafið og gróandinn í starfinu mikill. Þátttakan í vorhlaupunum hefur í heildina verið með betra móti og margir að bæta sinn fyrri árangur. Greinilegt er að hið öfluga starf í skokkhópunum hefur skilað sér í enn meiri áhuga og metnaði. Aquarius hlaupin hafa til að mynda haldið mörgum við efnið í skammdeginu, en þátttakan var jafnan á annað hundrað. Sama má segja um Marsmaraþonið sem að þessu sinni var tileinkað minningu Halldórs Laxness, en aðstandendur þess hafa gert mikið til að vekja áhuga fólks fyrir maraþonvegalengdinni. Síðast en ekki síst, ótrúlegt en satt, þá hlupu samtals 43 Íslendingar í London maraþoni og Boston maraþoni í aprílmánuði. Það er af sem áður var þegar einn og einn Íslendingur tók þátt í stóru maraþonhlaupunum. Ég man það vel þegar frétt birtist í Morgunblaðinu fyrir u.þ.b. 25 árum um að Högni Óskarsson, geðlæknir, hefði hlaupið New York maraþon. Það þótti stórmerkilegt, enda ekki talið á færi nema þrautþjálfaðra kappa að takast á við maraþonvegalengdina. Nokkrum árum seinna skall skokkbylgjan á og fjöldinn fór að takast á við maraþonið. Svona brotna nú múrarnir.
Þrátt fyrir mikinn gróanda í maraþoninu, sbr. fjölmargar góðar bætingar í vor, þá vil ég gjarnan sjá meiri breidd meðal yngri hlaupara. Mesta þátttakan og flestar bætingarnar eru hjá þeim sem eru 40 ára og eldri. Tökum sem dæmi Flugleiðahlaupið. Hlaupararnir í 5. til 10. sæti voru allir yfir 40 ára og af 16 fyrstu voru 10 hlauparar yfir 40 ára. Vissulega vantaði nokkra góða yngri hlaupara, en þar er ekki um marga að ræða. Aldurshópurinn 25-34 ára er mjög fámennur, bæði hjá körlum og konum. Þetta er einmitt sá aldur sem hlauparar eru almennt á toppnum hvað varðar afreksgetu. Einhverra hluta vegna hefur þetta 10 ára aldursbil nær dottið út hvað varðar langhlaupin, sérstaklega hjá körlunum. Millivegalengdahlauparinn Sigurbjörn Á. Arngrímsson (73) er einna líklegastur til að brúa þetta bil, en hann hefur sýnt aukinn styrkleika í lengri vegalengdum síðustu misseri. Fríða Rún Þórðardóttir (70) hefur brugðið sér í lengri hlaup með ágætum árangri og Rannveig Oddsdóttir (73) hefur verið sterk í vor. Það jákvæðasta er að Sveinn Margeirsson (78) virðist í mjög góðu formi og dregur þá yngstu með sér. Kári Steinn Karlsson (86) og Ólafur Margeirsson (84) hafa báðir náð athyglisverðum árangri í vor og verður fróðlegt að fylgjast með þeim í sumar.
Hlaupadagskráin er svipuð og verið hefur. Mesta athygli vekur að Akureyrarmaraþonið er dottið út. Það er synd að ekki sé hægt að halda úti öflugu götuhlaupi í höfuðstað Norðurlands. Nokkuð merkilegt er að júlí virðist hafa þann sess að vera mánuður utanvegahlaupa, sem eru fjögur og reyndar er það fimmta 3. ágúst. Sá sem þetta skrifar stefnir að því að taka þátt í tveimur þessara hlaupa. Þegar maður er búinn að berja malbikið í fjölda ára er skemmtileg tilbreytni að hlaupa á slóðum yfir holt og hæðir.