Pistill 25: Hlutverk FRÍ varðandi almenningshlaup

birt 01. febrúar 2004
Á ársþingi Fjálsíþróttasambands Íslands (FRÍ), sem haldið var í Grafarvogi í byrjun apríl sl., var ég kjörinn í stjórn sambandsins. Það er í fyrsta sinn sem ég á sæti í aðalstjórn FRÍ, en ég var í varastjórn um tveggja ára skeið fyrir 15 árum. Á fyrsta fundi nýrrar stjórnar var sú verkaskipting ákveðin að ég myndi fara með málefni almenningsíþrótta þ.m.t. götu-, víðavangs-, og fjallahlaup. Auk þess er mér ætlað að leita leiða til að hvetja og bæta árangur okkar bestu langhlaupara í samvinnu við landsliðsþjálfara og aðra sem áhuga hafa á því máli.

Ég stend nú frammi fyrir því erfiða máli að finna lausn á samskiptavandamálum FRÍ og stjórnar Reykjavíkurmaraþons (RM), en þar virðist allt hlaupið í harðan hnút. FRÍ hefur ekki átt aðild að stjórn RM síðan haustið 2000 og fyrir viku síðan sá ég drög að samningi milli Reykjavíkurborgar, Flugleiða, DV, ÍBR og FÍRR (Frjálsíþróttaráðs Reykjavíkur) þess efnis að þessir aðilar geri með sér samstarfssamning um rekstur RM. Þessir aðilar verði þar með eignaraðilar að Reykjavíkurmaraþoni.

Mér brá illilega við að sjá þessi samningsdrög þar sem FRÍ er útilokað frá aðild. Það er óumdeilt að FRÍ og frjálsíþróttamenn byggðu upp íþróttalega hlutann af RM. Hvernig getur Borgin staðið að slíku og af hverju ætti ÍBR, sem hefur það helsta hlutverk að deila út peningum og tímum milli íþróttafélaganna í Reykjavík, að sjá um framkvæmd á stærsta götuhlaupi landsins? Hvernig geta stuðningsaðilar orðið eignaraðilar að RM? Reykjavíkurborg hefur reynst RM mjög öflugur bakhjarl í gegnum árin, - um það er ekki deilt. Hins vegar finnst mér skrítið ef Borgin ætlar að fara að standa sjálf fyrir slíkum íþróttaviðburðum.

Eina skýringin sem ég hef í augnablikinu á þessum hnút er að orsökina sé að finna í persónulegum ósveigjanleika á milli manna, - menn geti ekki lyft sér upp fyrir dægurþrasið og horft á málið með hagsmuni heildarinnar að leiðarljósi þ.e. íþróttarinnar og viðskiptavinanna (þátttakendanna). Rétt að segja ekki meira þar sem ég á eftir að kynna mér málið betur.

Keppni í götuhlaupum, þar með RM, fellur skv. alþjóðlegri skilgreiningu undir starfsemi FRÍ. Árangur í maraþonhlaupi og hálfmaraþonhlaupi er ekki löglegur nema að viðkomandi hlaup hafi staðfestingu FRÍ. Kannski hefur vantað eitthvað upp á formlegheitin almennt. FRÍ og nefndir á vegum þess hefðu örugglega getað staðið sig betur undanfarin ár hvað varðar setningu á reglum og stöðlum og eftirlit með framkvæmd. Lengi vel var starfsmanni RM ætlað það hlutverk, en það hefur orðið óljósara með hverju árinu. Það eina sem eftir stendur af hlutverki starfsmanns RM fyrir FRÍ er líklegast hlaupaskráin, sem hefur alla tíð verið tekin saman undir merkjum FRÍ.

Ég vil gjarnan fá skoðanir ykkar á lausn þessa máls svo og hvernig þið lítið á hlutverk FRÍ varðandi almenningshlaupin. Fyrst ég tók þetta embætti að mér tek ég á mig þá ábyrgð að finna leiðir til framþróunar. Það vil ég gera í sem bestu samráði og sátt við þá sem áhuga hafa á lengri hlaupum.

Hlaup.is notar vafrakökur

 

Með því að ýta á samþykkja hér fyrir neðan, samþykkir þú notkun á vafrakökum til að bæta upplifun þína á vefnum.

 
Skilmálar