Pistill 26: Brautarhlaup sem æfing og keppni

birt 01. febrúar 2004

Margir sem hefja hlaupaiðkun á miðjum aldri láta sér nægja að hlaupa alltaf rólega. Það er í sjálfu sér hið besta mál, enda markmiðið oft einungis að vera í þokkalegu formi. Svo eru aðrir sem hafa gaman að taka á og setja sér markmið í keppni. Þá dugir ekki lengur að æfa alltaf á sama hraðanum. Til að bæta sig þarf maður að auka hraðann og hraðaúthaldið, styrk og hlaupastíl. Til þess eru hraðaæfingarnar.

Hraðaæfingar er hægt að taka hvar sem er. Fartleik er hægt að taka á götunum en skemmtilegast er að taka slíka æfingu á stígum á mjúku undirlagi þar sem nokkuð er um stuttar brekkur t.d. í Heiðmörkinni eða Kjarnaskógi á Akureyri.

Hraðaæfing á braut skilar að mínu mati besta aganum og þjálfar best hlaupastílinn. Áfangaæfingar (intervall) er hægt að útfæra á margan hátt, allt eftir því fyrir hvaða grein er verið að æfa og síðan skiptir árstíminn miklu máli. Sá sem er að æfa fyrir hálfmaraþon og maraþon þarf eðlilega ekki að leggja eins mikla áherslu á hraðaæfingar og sá sem stefnir að árangri í 5 og 10 km hlaupum. Brautaræfingar eru reyndar ekki nauðsynlegar fyrir maraþonhlaupara, - einstaka fartleikir og hröð hlaup 5-10 km nægja oftast. Þetta er spurning um hvar menn eru staddir á ferlinum. Sá sem byrjaði keppni sem millivegalengdahlaupari, færði sig síðan í 5.000 m og 10.000 m þarf ekki miklar hraðaæfingar til að halda nægilegu hraðaformi fyrir keppni í hálfmaraþoni. Nýliðinn í maraþoni þarf hins vegar að byggja upp hraðann, en verður að gæta þess að byggja fyrst upp góðann grunn með löngum hlaupum.

Brautaræfingar skerpa fókusinn og keppnisskapið. Maður kemur á völlinn, hitar upp, teygjir, tekur nokkrar hraðaaukningar og fer síðan á marklínuna tilbúinn til að takast á við ákveðið verkefni. Það er fólgið í því að hlaupa tiltekinn fjölda spretta á sem jöfnustum tíma með fyrirfram ákveðinni hvíld. Ef þetta tekst, skokkar maður niður og fer ánægður heim. Brautaræfingar eru erfiðari en langhlaup, en geta verið skemmtilegar, sérstaklega ef um nokkurn hóp er að ræða. Þá myndast spenna og samkeppni og maður tekur meira á og fær meira út úr æfingunni en ella.

Brautaræfingarnar eru góð mælistika á framfarir. Sá sem heldur dagbók getur flett í henni og borið æfingu dagsins saman við fyrri æfingar. Smám saman safnast reynslan. Þegar maður getur hlaupið eina æfingu á tilteknum tíma veit maður nokkurn veginn í hvaða keppnisformi maður er með vísan í árangur eftir fyrri æfingatíma.

Flestir þeirra sem byrjað hafa að hlaupa eftir þrítugt hafa verið hálfragir við að keppa í brautarhlaupum. Sumum finnst slík keppni kannski of fámenn og e.t.v. einungis fyrir unga íþróttamenn. Á þessu eru sem betur fer allmargar undantekningar, - fleiri og fleiri hafa uppgötvað brautarhlaupin sér til ánægju. Ég nefni sem dæmi Helgu Björnsdóttur, Jón Jóhannesson, Daða Garðarsson, Vögg Magnússon og Sigurjón Sigurbjörnsson, en þau hafa öll náð góðum árangri á braut og m.a. landað Norðurlandameistaratitlum öldunga.

Hvet þau sem eldri eru til að taka þátt í brautarhlaupum, sérstaklega í öldungamótunum. Við ykkur sem eruð yngri og eruð að æfa sérstaklega fyrir brautarhlaup segi ég: Ekki gleyma langhlaupunum (10-15 km) inn á milli því þau skipta líka máli til að halda styrk. ,,Ekkert hús verður byggt án grunns."