Hugurinn reikaði til þess tíma þegar ég var sendur á þriggja vikna sundnámskeið í Skógarskóla vorin 1968 og 1969. Á þeim tíma var mikill kraftur í skólastarfinu á Skógum undir forystu Jóns R. Hjálmarssonar skólastjóra. Skólinn var þá þungamiðja íþrótta-, mennta- og menningarlífs í Rangárvallasýslu og Vestur - Skaftafellssýslu. Fyrir ungan sveitadreng var það gríðarleg opinberun og reynsla að fá að dvelja á slíkum stað. Við fórum í laugina þrisvar á dag og spiluðum fótbolta þar á milli. Komust líka í kynni við blak og handbolta. Tímarnir breytast, - tími Laugagerðisskóla sem og annarra héraðsskóla og þar með heimavistanna er víða að líða undir lok. Það gerir fækkunin í sveitunum svo og betri samgöngur. Af þessu er söknuður, enda var íþróttalífið í héraðsskólunum víðast hvar öflugt. Frjálsíþróttirnar nutu t.a.m. góðs af þessu starfi þó svo aðstaðan hafi ekki alltaf verið burðug. Það sem skiptir oft meira máli er forysta skólastjóra og kennara, félagsskapur og áhugi nemenda.
Hví er ég að ræða um þetta? Jú, ég er að velta fyrir mér hvert stefnir á næstu árum varðandi iðkun íþrótta í hinum dreifðu byggðum. Síðastliðinn áratug hefur mjög dregið úr starfi margra íþrótta- og ungmennafélaga þrátt fyrir bætta aðstöðu. Líklegt má telja að undanhald héraðsskólanna eigi töluverðan þátt í því. Sum félögin eins og UFA og UMSE hafa sameinast um keppnislið í fjálsíþróttum en önnur félög taka ekki lengur þátt í stærri mótum. Hvað er til ráða, er þetta e.t.v. óumflýjanleg þróun? Sennilega er ekki auðvelt að breyta þessu á fámennustu svæðunum eins og á Ströndum eða í Norður-Þingeyjarsýslu. Hvað með fjölmennari svæðin eins og Suðurland, Borgarfjörð og Eyjafjörð? Eru afþreyingarmöguleikarnir e.t.v. orðnir svo margir að hlaup og frjálsíþróttir verða undan í samkeppninni? Almenningshlaupin á landsbyggðinni hafa einnig átt undir högg að sækja á undanförnum árum. Jöklahlaup ÚSÚ er ekki lengur til staðar, ekki heldur Suðurnesjamaraþon, Egilstaðamaraþon og óvíst er um framhald á Akureyrarmaraþoni. Hvað verður um önnur hlaup? Sá að aðeins um 150 manns tóku þátt í síðasta Mývatnsmaraþoni. Vonandi láta framkvæmdaraðilar það ekki á sig fá og halda áfram með sitt góða hlaup.
Langhlaupari sigrar í landskeppni
Sveinn Margeirsson náði þeim glæsilega árangri að sigra í 3.000 m hindrunarhlaupi (8:55,10) í Evrópubikarkeppni 2. deildar í frjálsíþróttum er fram fór í Tallin um síðustu helgi. Það er orðið svo langt síðan að íslenskur langhlaupari sigraði síðast í landskeppni að ég man það ekki nákvæmlega. Sennilega um 20 ár, - á árunum þegar Ágúst Ásgeirsson, Sigfús Jónsson og Jón Diðriksson voru upp á sitt besta. Ágúst átti það til að sigra sér mun betri hlaupara á endaspretti í sömu grein og Sveinn. Þessi árangur Sveins svo og bæting hans í 5.000 m hlaupi (14:34,53) gefa vonir um enn betri árangur í sumar. Það býr mikið í Sveini og greinilegt að það styttist í að metaskráin í lengri hlaupunum verði umskrifuð.