Þátttakan í almenningshlaupunum var nokkuð svipuð og í fyrra. Nokkur fækkun varð í Víðavangshlaupi ÍR (223) á sumardaginn fyrsta. Hins vegar varð metþátttaka í Flugleiðahlaupinu (437) í byrjun maí. Heldur fjölgaði í Reykjavíkurmaraþoni. Þátttaka í Aquarius hlaupaseríunni var ávallt yfir 100 manns í hverju hlaupi og fór mest í 173 þann 14. nóvember, sem er frábært. Flest önnur hlaup héldu sínu. Nokkur óvissa var um hvort Akureyrarmaraþon yrði haldið og fór það að lokum fram um miðjan september. Fjallahlaupin héldu áfram að sækja í sig veðrið og var t.d. mjög góð þátttaka í Vatnesfjalla-skokkinu eða um 90 manns. Einn aðstandenda þess hlaups er Már Hermannsson, sem var einn besti langhlaupari landsins á árunum 1985-1993. Félag maraþonhlaupara tók að sér framkvæmd Meistaramóts Íslands í maraþonhlaupi og gerði það með miklum sóma. Hlaupið fór fram 28. september og voru þátttakendur 66.
Fjölmargir lögðu land undir fót og tóku þátt í hinum ýmsu maraþonhlaupum erlendis. Nefna má London, Boston, Stokkhólm, Berlín, Dublin, München og New York. Ekki er ólíklegt að nálægt 100 manns hafi hlaupið maraþonhlaup erlendis á árinu, sem er það mesta hingað til. Eins og vænta mátti bættu margir sig umtalsvert, enda mikil hvatning að taka þátt í slíkum stórhlaupum.
Eftir því sem ég veit best var framvæmd hlaupa yfirleitt í góðu lagi. Það segir sig sjálft að það má alltaf finna einhverja hnökra. Það sem mér finnst skipta miklu máli í undirbúningi hlaupa er að haga hlutum þannig að líkindi til mistaka verði sem minnst. Menn mega ekki, t.d. við ákvörðun á hlaupaleið, hafa hlutina svo flókna að mistök og misskilningur sé hreinlega óumflýjanlegur. Mæling, merking, brautarvarsla og tímataka eru grundvallaratriði sem mega ekki klikka.
Varðandi umfjöllun um flokka og aldursflokkamet er m.v. afmælisdag eins og alþjóðareglur segja til um.
Heildin:
Sveinn Margeirsson (78) bætti sig verulega á brautinni, hljóp 10.000 m á 30:47,06 mín. Hann, eins og flestir ungu langhlaupararnir, lagði hins vegar ekki mikið uppúr götuhlaupunum. Það er mjög eðlilegt, enda sjálfsagt að byggja fyrst upp hraða og styrk á brautinni. Kári Steinn Karlsson, 16 ára Seltirningur, sýndi að þar er mikið langhlauparaefni á ferð. Stórbætti sig á öllum vegalegdum og hljóp m.a. 10.000 m á braut á 33:21,18 mín. Ólafur Margeirsson (84) bætti sinn fyrri árangur einnig umtalsvert. Gauti Jóhannesson (79) bætti sig vel á árinu, braut m.a. 33 mín. múrinn í 10.000 m brautarhlaupi. Guðmundur Gíslason (79) er framtíðarmaður í maraþonhlaupi, en náði ekki að fylgja nægilega vel eftir árangri sínum árið 2001. Besta hlaup hans var hálfmaraþonið á Akranesi, sem hann vann á 1:18:18 klst. Skíðagöngumaðurinn Ólafur Thorlacíus (81) sýndi að hann er efni í góðan langhlaupara. Vann Óshlíðarhlaupið á 1:15:04 og bætti sig enn frekar með því að ná öðru sæti á MÍ á Selfossi (Brúarhlaupið) 1:14:38.
Fríða Rún Þórðardóttir (70) keppti lítið í götuhlaupunum, en vann þó 10 km í Brúarhlaupinu (39:18). Rannveig Oddsdóttir (73) bætti sig í hálfmaraþoni í Svíþjóð (1:25:40) og varð síðan fyrst kvenna í Reykjavíkurmaraþoni á 3:12:13. Hún sigraði einnig í hálfu á Akureyri (1:26:50). Bára Ketilsdóttir (68) hljóp sitt fyrsta maraþon í London (3:30:30) og bætti sig í 3:29:58 í Haustamaraþoni FM þar sem hún varð Íslandsmeistari. Ebba K. Baldvinsdóttir (74) hljóp á 1:30:03 á Akranesi.
35 ára flokkur:
Lárus Thorlacíus (64) hóf skipulagðar æfingar í byrjun sumars eftir nálega tveggja ára hlé. Hann var fljótur að ná sér á strik og bætti fyrri árangur sinn í hálfmaraþoni í Brúarhlaupinu (1:16:59). Hins vegar var undirbúningurinn ekki nægilegur fyrir MÍ í maraþoni og mátti Lárus sætta sig við 2:53:35. Bjartmar Birgisson (64) kom sterkur í Brúarhlaupið og bætti sig í 1:17:28. Sveinn Ásgeirsson (64) bætti sig einnig vel á árinu, varð annar í Akraneshlaupinu á 1:18:58 og bætti sig síðan í 1:18:06 í Brúarhlaupinu. Hljóp 10 km einnig vel, náði best 36:02 í Ármannshlaupinu. Þorlákur Jónsson (65) hefur bætt sig stöðugt undanfarin ár og náði athyglisverðum árangri í Reykjavíkurmaraþoni, hljóp á 2:52:45 og getur greinilega mun betur. Hann náði einnig ágætum árangri á styttri vegalengdunum, 36:05 og 1:20:19. Ívar Adólfsson (62) stórbætti sig í Bostonmaraþoni, hljóp á 2:57:09, en náði ekki að fylgja því nægilega vel eftir um sumarið.
40 ára flokkur:
Guðmann Elísson (58) átti sitt besta ár hingað til. Byrjunin var e.t.v. ekkert sérstök, en hann sótti sig mjög er leið á tímabilið. Bætti sig vel í Brúarhlaupinu (1:16:14) og fylgdi því síðan eftir með sínum besta árangri (2:42:35) í München maraþoni um miðjan október. Daníel S. Guðmundsson (61) æfði ekki eins mikið og oftast áður en keppti eigi að síður í mörgum hlaupum. Hljóp best á 1:16:03 í Brúarhlaupinu og 2:44:25 í Haustmaraþoni FM. Steinar Friðgeirsson (57) byrjaði tímabilið með látum og vann m.a. Miðnæturhlaupið á 35:15 og varð annar á Laugaveginum á stórgóðum tíma (4:58:08). Trausti Valdimarsson (57) lét fá hlaup framhjá sér fara. Byrjaði tímabilið með því að ná sínu besta maraþoni í Boston (2:56:29) og bætti sig síðan á Laugaveginum (5:17:37). Jón Jóhannesson (60) byrjaði tímabilið vel (1:20:48 á Akranesi), en lenti síðan í meiðslum. Gauti Höskuldsson (61) sýndi góða takta í 10 km og hljóp best á 37:07 í RM.
Þjálfarinn úr Grafarvogi, Erla Gunnarsdóttir (62), sigraði hálfmaraþonið í RM (1:33:46). Elísabet Sólbergsdóttir hljóp á 3:39:58 í RM. Katrín Þórarinsdóttir (58) styrkist einnig með ári hverju og hljóp á 1:40:45 í Brúarhlaupinu og síðan á 3:42:38 í Haustmaraþoninu.
45 ára flokkur:
Steinar Friðgeirsson (57) átti 45 ára afmæli daginn eftir RM, þar sem hann virkaði þreyttur. Kom hins vegar öllu hressari í Brúarhlaupið og bætti 11 ára Íslandsmet Jóhanns Heiðars Jóhannsonar í hálfmaraþoni um 34 sek, hljóp á 1:18:11. Örnólfur Oddsson (56) er ávallt í góðu formi, en keppti sjaldan, - náði best 37:41 í RM. Sigurjón Sigurbjörnsson (55) hélt sér hins vegar vel við efnið og lagði í ár meiri áherslu á lengri hlaupin. Byrjaði á því að hlaupa á 2:57:17 í London og bætti sig í 2:56:08 í München og bætti þar með 11 ára Íslandsmet Jóhanns Heiðars um 3 sek. Sterk innkoma hjá Sigurjóni á maraþonvegalengdinni. Hafnfirðingurinn Þórhallur Jóhannesson (53) er seigur og bætti sig tvívegis í maraþoninu, fyrst 3:04:53 á Mývatni ( 2. sæti) og varð síðan fjórði á MÍ í Haustmaraþoninu (3:02:10) og skaut þar nokkrum þekktari hlaupurum aftur fyrir sig. Pabbi Þórhalls kenndi mér handavinnu í grunnskóla og bróðir hans var með mér í bekk í tvö ár. Sigurður P. Sigmundsson (57) hafði fremur hægt um sig, hljóp best á 36:21 á Akranesi.
Helga Björnsdóttir (52) hljóp vel í hálfmaraþoni, og náði best 1:31:36 í Brúarhlaupinu þar sem hún sigraði. Guðný Þöll Aðalsteinsdóttir (55) vann hálfmaraþonið á Mývatni (1:38:29) og hljóp einnig vel í RM (1:38:55). Hún bætti svo um betur með því að verða þriðja í Haustmaraþoninu á sínum besta tíma (3:33:12). Valgerður Ester Jónsdóttir (53) hljóp hálft á 1:41:21 í RM og kom síðan mjög sterk í Haustmaraþonið og varð önnur á sínum besta tíma (3:32:12). Ísfirðingurinn Rósa Þorsteinsdóttir (54) hljóp vel í RM (3:42:14) og sama má segja um Herdísi Klausen (54) sem hljóp á 3:55:45. Hildur Ríkharðsdóttir (57) hljóp vel í London (3:44:54). Ásdís Ösp Aðalsteinsdóttir (52) vann Mývatnsmaraþonið og bætti sig síðan í RM (3.54:30) og aftur í Haustmaraþoninu (3:49:30). Anna Jeeves (54) hefur engu gleymt og vann sinn aldursflokk í RM (44:55).
50 ára flokkur:
Magnús Guðmundsson (50) er búinn að hlaupa lengi og er sterkur á lengri vegalengdunum. Hljóp á 3:16:04 í Haustmaraþoninu og náði einnig ágætum árangri í hálfu, 1:30:15 á Akranesi. Ómar Kristjánsson (48), ferðafrömuður, var skammt undan í sama hlaupi (1:30:53).
Helga Björnsdóttir (52) varð fimmtug 2. okt. og hélt upp á þann áfanga með því að bæta fyrri árangur sinn í maraþoni um 3 mínútur (3:15:49) í München 13. okt. og sigraði glæsilega í 50 ára flokki kvenna. Af sjálfsögðu nýtt Íslandsmet í flokknum. Bryndís Magnúsdóttir (50) er búin að hlaupa lengi og vann sinn aldursflokk í RM (45:37).
55 ára flokkur:
Stærstu tíðindin voru góður árangur Jóhanns Heiðars Jóhannssonar (45), sem virðist búinn að hrista af sér meiðsli sem hrjáðu hann í nokkur ár. Jóhann var ekkert að tvínóna við þetta og setti nýtt Íslandsmet er hann hljóp á 1:24:32 í Brúarhlaupinu. Gríðarlega góður árangur hjá 57 ára manni, sem ekki verður auðvelt að slá við. Vöggur Magnússon (47) er drjúgur og hljóp vel á árinu (41:31 - 1:34:25 - 3:21:44). Akureyringurinn Davíð Haraldsson (44) sem kallar sig gjarnan "gamli" var einnig sterkur, náði best 42:12 í RM. Orville G. Utley (44) náði einnig prýðisárangri (44:28) í RM.
Fríða Bjarnadóttir (46) og Elín Hjaltadóttir (47) hlutu sama tíma í 10 km í RM (49:44). Björg Magnúsdóttur (46) hljóp á 52:03 í Brúarhlaupinu og Birna G. Björnsdóttir (44) hljóp á 56:48 á Akranesi.
60 ára flokkur:
Sigurjón Andrésson (41) er búinn að vera lengi að og er alltaf frískur, náði best 1:44:41 í RM. Jörundur Guðmundsson (41) var einnig frískur í RM og hljóp 10 km á 45:06. Sigurður Gunnsteinsson (41) náði 1:48:09 á Akranesi. Stefán Briem (38) náði athyglisverðum árangri í Brúarhlaupinu, 49:09. Sama má segja um Ketil A. Hannesson (37) sem hljóp á 51:22 í sama hlaupi.
Emilía Súsanna Emilsdóttir (40) hefur gjarnan hlaupið 10 km í kringum 60 mín., en virðist hafa toppað í RM þar sem hún vann sinn aldursflokk á 55:36. Guðný Leósdóttir (41) hljóp einnig vel (64:55).
65 ára flokkur:
Höskuldur E. Guðmannsson (32) er alltaf jafn spengilegur og sporléttur, fór 10 km best á 53:49 í RM. Höskuldur var í gamla daga góður skautahlaupari.
70 ára flokkur:
Eysteinn Þorvaldsson (32), fyrrum júdókappi, varð sjötugur í júní og lét sig sjaldan vanta í hlaupin. Hljóp mörg 10 km hlaup og náði best 49:10 í RM. Unnsteinn Jóhannsson (31) hljóp 10 km á 52:38 í RM.
75 ára og eldri:
Akurnesingurinn Þorsteinn Þorvaldsson (24) er sá elsti sem ég veit til að tekur þátt í almenningshlaupum að staðaldri. Hann er orðinn 78 ára gamall, en braut eigi að síður 60 mín. múrinn er hann hljóp á 59:50 í Akraneshlaupinu. Jón Guðlaugsson (26) er aðeins yngri og er hvergi nærri hættur, hljóp á 4:55:42 í Reykjavík.
Hlaup ársins:
Í mínum huga eru tvö hlaup sem koma til greina sem hlaup ársins. Það er annars vegar Haustmaraþon FM sem jafnframt var Meistaramót Íslands. Þar var undirbúningur greinilega mikill og góður og framkvæmd og stemmning með því besta. Hins vegar vil ég nefna Aquarius hlaupin. Þau eru einföld í sniðum, en hafa gengið vel fyrir sig og vakið almenna hrifningu meðal hlaupara.
Öldungar ársins:
Guðmann Elísson og Helga Björnsdóttir náðu bæði mjög góðum árangri í München maraþonhlaupinu 13. október. Þau bættu sinn fyrri árangur verulega og varð Helga m.a. fyrst í flokki 50 ára.
Lokaorð:
Í pistli sem þessum er einungis hægt að geta þess helsta. Ég gæti nefnt marga fleiri sem náðu athyglisverðum árangri. Staðreyndin er einfaldlega sú að fólk bætir sig ár frá ári. Sérstaklega nefni ég aukna breidd í maraþonhlaupi kvenna. Greinilegt að hópurinn sem stundar reglubundnar æfingar fer stækkandi. Skokkhóparnir eru augljóslega að vinna mjög gott starf. Veturinn hefur hingað til verið hlaupurum hliðhollur og vil ég nota tækifærið og óska öllum hlaupurum góðs gengis og þakka fyrir ánægjuleg samskipti á liðnu hlaupatímabili.