Flestir hlauparar virðast vera í góðu formi í upphafi hlaupatímabils, enda var síðasti vetur með eindæmum góður. Ungu strákarnir Sveinn Margeirsson (78) og Gauti Jóhannesson (79) eru í mikilli framför og stóðu sig vel á Heimsmeistaramótinu í víðavangshlaupi er fram fór í Sviss í mars. Í apríl bætti Sveinn sig í 10.000 m er hann hljóp á 30:37,78 mín. og nálgast nú óðum Íslandsmetin í lengri vegalengdunum. Gerður Rún Guðlaugsdóttir (72) hefur undanfarin ár búið í Danmörku og hefur bætt fyrri árangur sinn verulega í vor (36:46 og 1:20:29).
Fjölmargir hafa tekið þátt í maraþonhlaupum erlendis í vor m.a. tóku 34 Íslendingar þátt í Kaupmannahafnarmaraþoni 18. maí. Þar vakti sérstaka athygli mína árangur Guðjóns Guðmundssonar frá Akranesi (3:08:54), sem fyrr á árum var einn af okkar allra bestu sundmönnum. Guðjón er nú orðinn 51 árs og hefur búið um langt árabil í Danmörku. Valur Þórisson, 28 ára bakari ættaður frá Neskaupstað, hljóp á 2:50:48 í Boston í sínu öðru maraþonhlaupi. Til að komast inn í hið fræga Boston maraþon, hafði hann hlaupið á 2:58. Valur er um þessar mundir að flytjast heim til Íslands, eftir að hafa starfað við iðn sína um nokkurra ára skeið í Boston, og hyggst taka þátt í Reykjavíkurmaraþoni í sumar. Jón Diðriksson (55), Íslandsmethafi í vegalendum 1.000 – 5.000 m, hefur búið í Boston frá því árið 1987 og lét nú loks verða af því að hlaupa maraþonvegalengdina. Hann gerði það af mátulegri alvöru en náði eigi að síður ágætum tíma (3:00:43). Magnús Gottfreðsson (65) er annar nýliði í maraþonhlaupi sem fróðlegt verður að fylgjast með – hljóp á 3:07:31 í London.
Hlaupadagskráin í ár er nokkuð hefðbundin, en þó má sjá nokkur ný hlaup s.s. Sólmyrkvahlaup UFA (31. maí), Madonnuhlaupið (7. júní) og Skaftárhlaupið (7. júní). Reykjavíkurmaraþonið í sumar verður afmælishlaup, en það fer fram í 20. skiptið. Það verður jafnframt Íslandsmótið í maraþonhlaupi en Óshlíðarhlaupið verður Íslandsmótið í hálfmaraþoni. Sem sagt nóg að gera hjá hlaupaáhugafólki í sumar og síðan bætast við haustferðir erlendis. Eftir því sem ég veit best ætla um 80 manns að taka þátt í Búdapest maraþoninu í október.
Hestamenn á villigötum
Ég er einn af þeim sem ber góðan hug til hestamanna, enda alinn upp í sveit. Mikil uppbygging reiðvega á höfuðborgarsvæðinu hefur verið mér fagnarefni. Þess vegna er ég bæði undrandi og sár þegar einstaka hestamenn virða ekki þær reglur (skilti) sem gilda um göngu- og skokkstíga. Í vor hefur verið óvenjumikið um það að hestar hafa farið inn á göngustíginn í Vífilstaðahlíðinni upp af Garðabæ. Á sumardaginn fyrsta hafði greinilega farið um nokkuð stór hópur, svo hér er ekki bara um einn og einn villusauð að ræða. Hestarnir róta upp undirlaginu og skilja eftir sig skít hér og þar. Svona lagað spillir þeirri gleði sem gangandi og hlaupandi vegfarendur sækjast eftir í Heiðmörkinni. Ég bið þá lesendur sem þekkja eitthvað til hestamanna á svæðinu að nefna þetta við þá þegar tækifæri gefst.
Viltu segja þína skoðun á þessu máli ? Farðu á umræðusvæðið eða sendu á hlaup@hlaup.is