Í síðasta pistli fjallaði ég um byrjendur. Það er staðreynd að þátttakendum í flestum almenningshlaupum hefur fækkað jafnt og þétt undanfarin ár. Líklega náði skokkbylgjan hámarki árin 1993-1995. Athyglisvert er að skoða tölur um þátttöku árið 1994. Þá tóku 3.760 manns þátt í Reykjavíkurmaraþoni, um 1.200 í Jónsmessuhlaupinu, um 500 í Akraneshlaupinu og Suðurnesjamaraþoni og um 800 í Húsasmiðjuhlaupinu svo nokkur dæmi séu tekin. Árið eftir var einnig ágætis þátttaka í flestum hlaupum t.d. um 500 manns í Vorhlaupi UFA á Akureyri, 666 í Húsasmiðjuhlaupinu, 1.350 í Jónsmessuhlaupinu, 420 í Akraneshlaupinu, 230 í Breiðholtshlaupi Leiknis og 230 í Skúlaskeiði.
Í flestum hlaupum hefur fækkað verulega undanfarin ár t.d. voru þátttakendur um 2.500 í Reykjavíkurmaraþoni 1999, um 200 í Akraneshlaupinu í júní s.l. og 165 í Ármannshlaupinu í lok júlí s.l. en fyrir nokkrum árum hlupu um 400 manns í því hlaupi. Sum hlaupin eru ekki lengur til eða mikið breytt s.s. Húsasmiðjuhlaupið og Suðurnesjamaraþonið. Rétt er að taka fram að nokkur ný hlaup hafa bæst við á hlaupaskránni og önnur hafa haldið sínu nokkurn veginn eða bætt við sig sbr. Flugleiðahlaupið.
Hverjar eru skýringarnar á þessari þróun? Eru almenningshlaupin ver framkvæmd en áður? Eru tilboð almenningshlaupanna (bolur, verðlaun, skemmtun o.fl.) ekki eins áhugaverð og áður? Eru almenningshlaupin stöðnuð? Eru almenningshlaupin of mörg? Skokka færri í dag en fyrir nokkrum árum eða hefur fólk leitað í aðra hreyfingu s.s. sund, hjólreiðar og göngu? Hafa skokkhóparnir ekki náð nægilega til hins almenna byrjanda? Áfram mætti telja, en skýringarnar eru sjálfsagt margar og að mínu mati enginn ein heldur er um samspil skýringa að ræða.
Einn ágætur forystumaður í skokkhópi sagði mér í vor að nýliðunin hefði verið lítil undanfarin misseri og nefndi í því sambandi Trimmklúbb Seltjarnarness, Skokkhóp Námsflokkanna og Hlaupahóp KKK á Akranesi, en mjög öflugt starf var í þessum hópum fyrir nokkrum árum. Ég get tekið undir þetta en spyr mig jafnframt að því hvert sé og eigi að vera hlutverk skokkhópanna. Eiga þeir að stefna að því að vera sem fjölmennastir eða frekar sem mátulega stór og skemmtileg félagsleg eining? Þetta fer auðvitað mikið eftir þeim sem eru í forystu hverju sinni. Spurningin í mínum huga er hins vegar sú, og þá kem ég aftur að byrjendunum, hverra kosta völ eiga þeir? Geta þeir auðveldlega nálgast skokkhópinn í sínu bæjarfélagi eða hverfi eða líta þeir e.t.v. á skokkhópinn sem lokaðan klúbb þar sem maður þarf að geta eitthvað til að vera með? Þetta er örugglega nokkuð misjafnt. Sumir hópar eru með mjög opið og virkt starf eins og Skokkhópur Grafarvogs sem er líklega öflugasti hópurinn núna meðan aðrir hópar byggja fyrst og fremst á því að fólk kemur á tiltekinn stað til að hlaupa saman í litlum hóp eins og Hlaupahópur Sundlaugar Vesturbæjar. Hvoru tveggja er hið besta mál.
Gaman væri að heyra skoðanir fólks á þessu svo og af hverju nýliðunin í almenningshlaupunum og skokkhópunum hefur farið minnkandi undanfarin ár. Ef ég man rétt var fyrir nokkrum árum talað um að setja á laggirnar samtök skokkhópa/félaga til að vinna að sameiginlegum hagsmunum. Ekki varð af því, en í staðinn varð til Félag maraþonhlaupara. Það félag er gott út af fyrir sig, en hefur eðlilega ekki það samræmingarhlutverk sem ég er hér að tala um. Hverju þarf að breyta?