Það er full ástæða til að þakka framkvæmdaraðilum fyrir gott hlaup. Startið tókst furðu vel og átti ég ekki í erfiðleikum fyrstu kílómetrana. Mér fannst umferðin ekki meiri en venjulega og langflestir bílstjórar voru tillitsamir. Ákveðnir kaflar eru þó alltaf verri en aðrir t.d. finnst mér allaf vera mikil umferð um Borgartúnið. Merkingar og brautarvarlsa svo og drykkjarstöðvar voru með miklum ágætum. Heldur fleiri áhorfendur voru úti á hlaupaleiðinni en oft áður, en vissulega allt of fáir. Veðrið spilar að vísu stóra rullu í framkvæmd sem þessari en eigi að síður fannst mér vel til takst þó sjálfsagt sé hægt að finna finna að einhverju. Ég sá þau allavega ekki og er bara ánægður með þetta. Hins vegar hvet ég framkvæmdaraðilana til að skoða vel fyrr en seinna alla möguleika á að breyta hlaupaleiðinni. Við hljótum að geta fundið leið til að virkja stígakerfið og komast þar með út úr umferðinni að miklu leyti. Ég held einnig að það sé umhugsunarvert að flytja upphaf og endir hlaupsins inn í Laugardal. Þar er öll aðstaða fyrir hendi og skemmtilegt yrði að hlaupa um 300 m á hlaupabrautinni í endann með fulla áhorfendastúku. Þessi möguleiki var ræddur fyrir mörgum árum, en ég held að tími sé kominn til að ræða hann og skoða af fullri alvöru núna.
Hlaup mitt sýnir að maður má ekki vanmeta maraþonið, sem maður á að bera fulla virðingu fyrir. Ég fór fyrstu 10 km á 37:55 og hálft á 1:21:22 sem var skv. plani, en um 27 km varð ég skyndilega orkulítill og var í vandræðum eftir það. Veggurinn kom sem sagt ansi snemma og lexían er auðvitað sú að undirbúningurinn þarf að vera lengri og betri. Ég var að velta því fyrir mér hvort sunnudagslanghlaupin þyrftu e.t.v. að vera annað slagið mun hraðari en menn eru yfirleitt að hlaupa þau hér á landi. Ég minnist þess að sunnudagstúrarnir með hlaupurunum í Edinborg forðum daga voru yfirleitt ansi hraðir. Það var lenska þar, en gaf auðvitað mikinn styrk því menn voru að hlaupa 25-35 km nokkuð nálægt maraþonkeppnishraðanum. Þetta á auðvitað aðeins við þá sem eru að stefna að hálfmaraþoni og maraþoni. Það er engin ástæða til þess að hlauparar sem eru að stefna að árangri í 10 km eða styttri vegalengdum séu að hlaupa langhlaupin hratt. Brautaræfingarnar eru til þess.