Pistill: Áramótahlaupaannáll frá Gunnari Ármannssyni

birt 06. janúar 2018

Þetta hlaupaár er búið að vera virkilega skemmtilegt og viðburðarríkt. Af því tilefni að til stóð að reyna að ná 50 ára aldri á árinu var ég búinn að skipuleggja nokkur maraþonhlaup til að halda uppá áfangann. Þegar upp er staðið náði ég aldurstakmarkinu og maraþonhlaupin urðu heldur fleiri en upphaflega var planað og enduðu með því að verða tíu talsins. Að auki hljóp ég tvöfalda Vesturgötu og örfá skemmtileg hlaup til viðbótar. Á árinu hljóp ég 509,5 km í keppnishlaupum en það hef ég ekki gert áður og reikna svo sem ekki með því að gera það aftur.

Eins og venjulega er hvert og eitt maraþonhlaup sérstakt og alltaf eitthvað sem gerist eða kemur uppá sem hefur ekki gerst áður. En það er líka ein stærsta ástæða þess að mér þykir þessi vegalengd hvað skemmtilegust. Ég efast ekkert um að enn lengri hlaup séu svipuðu marki brennd og hef reyndar sjálfur upplifað það nokkrum sinnum. En þar sem mér er ráðlagt af mínum ágæta hjartalækni að hlaupa ekki lengra í einu en maraþonvegalengdina er það mín uppáhaldsvegalengd (hann sagði ekki orð um ráðlagðan fjölda pr. ár!).

Ég hef áður bloggað nokkuð ýtarlega um þessi hlaup þannig að í þessari samantekt læt ég duga að þylja upp dagsetningar, tíma og einhver aðalatriði fyrir hvert hlaup.

Gunnar í fullum skrúða í Gamlárshlaupi ÍRKrampi í rasskinn í Dubai maraþoniÞann 20. janúar hljóp ég Dubai maraþonið. Þar prófaði ég í fyrsta skipti að fá krampa í rasskinn og þurfti að hlaupa með hann í einhverja 15 km. Það var ekkert sérstök upplifun og hægði töluvert á mér. Að auki hitnaði hressilega þegar leið á hlaupið þannig að tíminn var töluvert frá væntingum eða 3:31:27.Þann 22. apríl hljóp ég vormaraþonið. Þess verður helst minnst fyrir negatívt splitt upp á rúmar 6 mínútur. Það er besta negatíva splittið á ferlinum til þessa. Þarna var ég kominn í góða æfingu fyrir júnímaraþonið sem átti að verða það hraðasta á árinu. Ég hljóp fyrsta fjórðunginn mjög rólega en jók þá hraðann og náði að gera það jafnt og þétt til loka og endaði á 3:27:42.

Þriðja maraþonið á árinu var Kópavogsmaraþonið þann 13. maí. Það var sérstakt. En þess verður helst minnst af minni hálfu fyrir að hafa hlaupið lengri leið en aðrir keppendur í því hlaupi og að það átti að stoppa mig af eftir hálft maraþon. Ég sem sagt hljóp inná Kópavogsvöllinn og hring þar eftir fyrri lúppuna í maraþoninu, sem ég átti víst ekki að gera, og í gegnum hálfmaraþon markið. Þegar ég var að fá mér vatnssopa eftir að hafa farið þar í gegn kom starfsmaður sem ætlaði að taka af mér tímatökuflöguna þar sem hlaupinu væri lokið. Ég afþakkaði þá þjónustu og hljóp aftur út í brautina. Það er rétt að taka fram að ég fékk fyrirmæli frá brautarverði að hlaupa þessa leið enda var það í samræmi við hlaupalýsinguna sem var á heimasíðunni fyrir hlaupið. Þarna er örugglega rými til bætinga hjá hlaupahöldurum. En tíminn í þessu hlaupi var 3:35:13 og negatívt splitt.

Fjórða maraþonið var Stokkhólmsmaraþonið þann 3. júní. Þarna ætlaði ég mér að taka mitt hraðasta maraþon á árinu. Það gekk eftir þótt ég hafi stefnt á betri tíma. Ég ætlaði mér að reyna að vera á undir 3:15 en endaði á 3:19:25. Það er reyndar vel ásættanlegt því þótt ég hafi verið búinn að heyra að brautin væri frekar erfið var hún erfiðari en ég hafði gert ráð fyrir. Brekkurnar voru bæði fleiri og brattari og því var seinni hringurinn af tveimur þyngri undir fæti en ég hefði viljað.

Brautarmet í SnældubeinsstaðamaraþoniFimmta maraþonið var hið margrómaða Snældubeinsstaðamaraþon í Reykholtsdal í Borgarfirði þann 1. júlí. Þetta var í fyrsta sinn sem þetta hlaup er haldið en alveg örugglega ekki í síðasta sinn og gerðu þátttakendur góðan róm að allri skipulagningu og umgjörð. Í þessu fyrsta hlaupi tóku þátt 10 keppendur en sú nýjung í íslenskri hlaupaflóru var tekin upp í þessu hlaupi að keppendur velja sér sjálfir vegalengd að vild og geta hlaupið eða gengið frá 1 km og upp í 42,195 km. Hefðbundnar keppnisvegalengdir, 10 km, 21,1 km og 42,195 km, voru merktar sérstaklega en þeir sem vildu hlaupa aðrar vegalengdir notuðu eigin hlaupaúr til að staðfesta vegalengd og tíma.Íþróttakennari svæðisins Guðjón Guðmundsson sá um að starta keppendum, brynna þeim á leiðinni og taka á móti þeim í markinu! Ég hef áður bloggað um að það er mikill munur á því að hlaupa í stóru keppnishlaupunum úti í heimi eða fámennum hlaupum hér á Íslandi.Þetta hlaup sló reyndar öll met í þessum efnum því ég hljóp einn maraþonvegalengdina og var því ótvíræður sigurvegari bæði í aldursflokki og yfir heildina. En þetta var dásamlegur dagur, sól skein í heiði, lömb að leik á túnum, baulandi beljur, hneggjandi hestar, galandi hanar, syngjandi fuglar og árásargjarnar kríur.Gunnar sigri hrósandi að loknu NY maraþoni, síðasta af sex stóru.

Þar sem hlaupaleiðin er töluvert rúllandi er þetta kjörin leið fyrir þá sem eru að æfa fyrir hlaup eins og Laugaveginn eða Jökulsárhlaupið eða svo sem hvaða hlaup sem er. Nú þegar hafa margir skráð sig til leiks sumarið 2018 en stefnt er að því að hlaupið verði laugardaginn 23. júní eða 30. júní. Fyrir áhugasama um maraþonvegalengdina má geta þess að brautarmetið er 3:42:01.

Ástralir eftirbátar Íslendinga í umgjörð og skipulagningu
Sjötta maraþonið var hlaupið þann 6. ágúst í Brisbane í Ástralíu. Það var reglulega skemmtilegt og áhugavert að bera saman við t.d. Reykjavíkurmaraþonið. Um margt ekki ólík hlaup og fjöldi þátttakenda svipaður þótt Reykjavíkurmaraþonið hafi vinninginn ef allar vegalengdir eru taldar. En þarna er um svipað fyrirkomulag að ræða hvað varðar það að fyrri hlutann hlaupa hálfmaraþonhlauparar og maraþonhlauparar saman þannig að seinni hluta hlaupsins fækkar verulega í brautinni. En skipuleggjendur Reykjavíkurmaraþonsins standa sig þó klárlega betur þegar kemur að allri skipulagningu og umgjörð því í samanburðinum finnst manni Brisbane maraþonið frekar sveitalegt. Við Þóra hlupum þetta saman og enduðum á tímanum 4:19:22 sem var PB hjá henni.

Sjöunda maraþonið á árinu var Reykjavíkurmaraþonið þann 21. ágúst. Það stóð reyndar ekki til að hlaupa það því ég lenti á Íslandi daginn áður eftir ferðalagið til Ástralíu og Thailands og hafði ekkert hlaupið frá því í Brisbane. Hins vegar var veðurspáin svo frábær að ég stóðst ekki mátið og brunaði inn í höll rétt fyrir lokun á föstudeginum og skráði mig. Eins og venjulega var þetta mikið gaman og allar aðstæður eins og best verður á kosið. Ég hljóp þetta afslappað og hægði jafnt og þétt á mér allt hlaupið þar til um 6 km voru eftir. Þá tók sig upp smá keppnisskap þannig að ég hélt hraða síðasta spölinn og náði að vinna mig upp um nokkur sæti. Lokatíminn 3:47:05 sem er aldeilis bærilegt miðað við hóglífið vikurnar áður.

Áttunda maraþonið á árinu var Berlínarmaraþonið þann 24. september. Þess verður helst minnst fyrir óhappið sem Unnur lenti í daginn fyrir maraþonið sem ég hef áður bloggað um. En að öðru leyti þá var þetta 5. hlaupið af þeim 6 stóru sem ég kláraði. Mér gekk vel í hlaupinu og var heldur fljótari en ég hafði gert væntingar um. Ég stefndi á að reyna að vera á undir 3:40 og var nánast á pari eftir hálft á 1:48:13. En þegar til kom tókst mér að bæta heldur í og endaði á 3:33:24 sem er negatívt uppá rétt rúmar 3 mínútur.

Níunda maraþonið var haustmaraþonið þann 21. október. Það hafði svo sem ekki verið á dagskrá en úr því að ég hljóp Reykjavíkurmaraþonið varð ég eiginlega að hlaupa þetta hlaup til þess að hlaupa 10 maraþon á árinu. Um þetta hlaup er óvenju lítið að segja því eiginlega gerðist ekkert sérlega eftirminnilegt í því. Kannski telst það þá eftirminnilegt þess vegna? En tíminn var 3:32:53 og munaði innan við mínútu á fyrri og seinni helmingi.

Hringnum lokað í stóra eplinuTíunda hlaupið var NY maraþonið þann 5. nóvember. Það má auðvitað segja að það hafi verið ákveðinn hápunktur á hlaupaárinu því með því að klára það tókst mér að ljúka við hin sex stóru (Tokýó, London, Berlín, NY, Boston og Chicago). Þetta var ennþá eftirminnilegra fyrir þær sakir að ég hljóp þetta með Þóru minni og gat notið alls sem brautin hafði uppá að bjóða betur fyrir vikið.Við lukum við hlaupið á tímanum 4:22:06 sem er aldeilis frábær tími þegar tillit er tekið til þess að Þóra datt í upphafi æfingatímans og brákaði eða braut rifbein sem háði henni allan undirbúnings tímann og í hlaupinu sjálfu. Þess má líka til gamans geta að þetta var 4. maraþonhlaupið hennar Þóru og það í fjórðu heimsálfunni (og þriðja maraþonið á þessu ári).

Tíu maraþon að baki 2017
Þessi 10 maraþon eru eðli málsins samkvæmt 421,95 km að lengd. Þannig að til að fylla upp í töluna 499,5 km þarf að telja nokkur hlaup til viðbótar.

Þann 6. maí hljóp ég 15 km í Neshlaupinu í fyrsta skiptið. Skemmtilegt hlaup sem ég á örugglega eftir að hlaupa aftur.

Þann 10. júní tók ég þátt í Gullsprettinum í fyrsta skiptið og það er annað skemmtilegt hlaup sem ég mun örugglega taka þátt í aftur. Gullspretturinn telst vera 8,5 km þannig að þar er þessi hálfi km kominn.

Þann 12. júní tók ég þátt í Álafosshlaupinu og það er enn eitt skemmtilega hlaupið sem ég hafði ekki prófað áður. Það telst vera 9 km.

Þann 16. júlí hljóp ég tvöfalda Vesturgötu, 45 km,  sem ég vildi að ég gæti sagt að hefði verið skemmtilegt. En þeir sem þarna voru vita að það rigndi og blés hressilega að vestan þannig að þetta var óttalegur barningur og barátta við náttúruöflin. En það er líka ákveðin áskorun og kallar á að þessi leið verði hlaupin aftur við betri aðstæður.

Þann 31. desember tók ég síðan að sjálfsögðu þátt í Gamlárshlaupi ÍR, 10 km, prúðbúinn eins og margir aðrir hlauparar.

En sem sagt, þegar þessum vegalengdum er bætt við maraþonvegalengdirnar teljast vera komnir 509,5 km í keppnum á árinu en það þýðir einnig að 6. hver km sem ég hljóp á árinu var hlaupinn í keppnishlaupum.

En þótt þetta sé annáll vegna ársins 2017 er gaman að halda því til haga að á síðustu tveimur árum, 2016 og 2017, er ég búinn að hlaupa 20 keppnishlaup sem samsvara rétt rúmlega 20 maraþonvegalengdum. Árið 2016 hljóp ég 7 hefðbundin maraþon, einn Laugaveg (55 km) og eitt Jökulsárhlaup (32,7 km). Á þessu ári eru hefðbundin maraþon 10 og ein Vesturgata (45 km). Árið 2016 var vegalengdin í keppnishlaupum 393 km þannig að klári ég gamlárshlaupið verður keppnisvegalengdin þessi tvö ár 902,5 km.

Hljóp rúmlega 3000 km á árinu
Á árinu hljóp ég 3.021,3 km á 191 æfing (keppnishlaup meðtalin) og virkur hlaupatími var ca 268 klst. Samtals eru því km í árslok 29.869,3 (styttist í 30.000 km skoðunina!) síðan ég hóf að hlaupa skipulega á afmælisdaginn minn þann 10. apríl 2008. Þar með verð ég búinn með ¾ af hringnum í kringum hnöttinn ef miðað er við miðbaugslínu (40.075 km) þannig að nú er þetta farið að styttast!

Að baki eru nú 33 maraþon í 13 löndum, 9 höfuðborgum og 5 heimsálfum, 3 Laugavegir, 1 hundrað km hlaup og 1 tvöföld Vesturgata þannig að keppnishlaupin frá því að ég fór að æfa markvisst sem ná a.m.k. maraþonvegalengdinni eru orðin 38 á tæplega 10 árum. Að auki er ég búinn að hlaupa lengstu vegalengdina í Jökulsárhlaupinu, 32,7 km, 6 sinnum.

Markmið næsta árs eru heldur hófstilltari en síðustu tvö árin. Á árinu 2016 fékk ég þá flugu í höfuðið að hlaupa sem samsvarar 10 maraþonvegalengdum á 10 mánuðum af því tilefni að þá voru liðin 10 ár frá því að ég lauk við lyfjameðferð. Síðasta hlaupið í því átaki var jafnframt fyrsta hlaup ársins 2017. Það ár endaði síðan með því að ég hljóp 10 maraþon og eina Vesturgötu. Ég gæti svo sem haldið þessum leik áfram því þann 9. apríl 2018 verða liðin 10 ár frá því að ég hóf að æfa hlaup reglulega. En ætli ég fari ekki að dæmi Forrest Gump og láti þessum magnhlaupum lokið í bili þótt ég ætli alls ekki að hætta að hlaupa.

Spennandi hlaupaár framundan
Á hlaupadagskrána eru komin a.m.k. þrjú maraþonhlaup, Mendoza í Argentínu í lok apríl, Snældubeinsstaðamaraþonið í lok júní og Lissabon maraþonið í október. Mig langar að hlaupa í Þórshöfn í Færeyjum í byrjun júní en það fer aðeins eftir því hvort farið verði í víking til Rússlands eða ekki. Nú ég ætla að hlaupa Laugaveginn í 4. skiptið í júlí en annað er óráðið. Kannski RVK maraþonið ef það passar inní dagskrána en væntanlega ekki vor eða haustmaraþon að þessu sinni þar sem þau hlaup stangast á við Mendoza og Lissabon. Jú og ég stefni tvímælalaust á að hlaupa í nokkrum styttri keppnishlaupum.

„Það er engin leið að hætta", sungu Stuðmenn um árið og það á vel við.

Gleðilegt nýtt hlaupaár!