Pistill eftir Axel Einar Guðnason: Berlín maraþon 2017

birt 14. janúar 2018

Berlin maraþon 24. september 2017 - framhald af fyrri pistli á hlaup.is sem nefnist  „Leiðin til Berlin"


Stoltur með íburðarmikinn verðlaunapening.

Síðasti pistill endaði í hávaðaroki út í Vestmannaeyjum, laugardaginn 2. september, þremur vikum fyrir Berlin Marathon. Vikan á eftir var síðasta erfiða vikan í Hlaupahópi FH og var bara nokkuð strembin. Laugardagsæfingin var hálfgerð generalprufa þar sem við fórum 28 km, þar af 22 á maraþonhraða. Það gekk bara nokkuð vel - meðalhraðinn var rétt undir 5 mín/km sem væri draumahraðinn í Berlin. Þetta var samt erfitt og ég hefði ekki getað hlaupið mikið lengra en það vakti samt engar sérstakar áhyggjur. Hlaupahópurinn var orðinn svolítið þreyttur eftir stífar æfingar og því ekkert óeðlilegt að vera svolítið kraftlaus 15 dögum fyrir maraþon þegar æfingamagnið hefur náð hámarki. Næstu tvær vikur voru bara léttar og snérust um að trappa sig niður og safna orku en stóra spurningin er, verður hægt að hlaupa 20 km til viðbótar á þessum hraða?

Einn til Berlín - restin í Montreal
Spennan og tilhlökkunin fór stigvaxandi, allt leit vel út fyrir Berlin en fyrstu tölur fyrir Montreal maraþonið ollu verulegum áhyggjum, þar var megnið af Hlaupahóp FH (hlaupahópnum mínum) skráð til leiks. Spáð var yfir 20 stiga hita og að hitinn myndi fara upp í 30 stig í glampandi sólskini eftir því sem liði á morguninn. Allar væntingar um góðan lokatíma fóru því fyrir lítið og fjórum dögum fyrir hlaup var tilkynnt að maraþonhlaupinu yrði aflýst, þeim sem höfðu skráð sig í heilt maraþon var boðið að hlaupa hálft í staðinn.

Góður hluti hópsins hafði undirbúið sig samviskusamlega fyrir heilt og varð eflaust fyrir miklum vonbrigðum en auðvitað er öryggið ofar öllu. Það er ekkert vit í að hlaupa langhlaup í svona miklum hita enda þurftu tæplega þúsund manns að fá aðstoð bráðaliða eftir hálfa maraþonið en allir FH-ingar skiluðu sér heilir í mark. Það sem gerir þetta enn grátlegra er að örfáum dögum síðar var komið eðlilegt haustveður í Montreal, ef maraþonið hefði verið viku síðar væri verið að keppa við toppaðstæður.

En hópferð í keppnishlaup snýst auðvitað um fleira en lokatíma, ferðin til Montreal var algjört æði og mig grunar að einhverjir FH-ingar muni skrá sig í heilt maraþon í hinu árlega Haustmaraþoni í október.

Hlaupið með breyttum formerkjum
En sólóferðin mín til Berlin gekk þokkalega, það var pakkaferð með Bændaferðum og við vorum átta manns í hópnum. Það er erfitt að rífa sig upp um miðja nótt til að fara í flug enda fór stór hluti af ferðadeginum í slæmt mígreniskast - en við náðum þó að fara og sækja rásnúmerið og skoða okkur um á Expo-inu. Fer engum sérstökum sögum af öðru áhugaverðu í þessari skemmtilegu borg, fyrr en varði var komið að hlaupadegi. Ég hafði kviðið örlítið fyrir deginum og svaf ekkert vel nóttina áður - hafði einfaldlega ekki góða tilfinningu fyrir hlaupinu.

Það hafði örugglega áhrif að það varð alvarlegt slys daginn fyrir hlaup þegar keyrt var á einn úr hópnum okkar og þar með breyttist auðvitað öll stemning.

Þó manneskjan hafi ekki tengst okkur hjónum neitt, hafði slysið samt áhrif á okkur - bæði varð mér hugsað til þess að þetta hefði alveg eins getað komið fyrir mig eða Sonju, og ekki síður hitt; að finna til með þeim hjónum sem í miðri ævintýraferð er kippt svona harkalega í aðstæður sem enginn ætti að þurfa að lenda í. En daginn eftir skyldi samt hlaupið maraþon, kannski með svolítið breyttum formerkjum og þakklæti fyrir að fá að taka þátt - það er víst ekki sjálfgefið.


Með hausverk, nesti og nýja skó fyrir utan expo höllina.

En við sendum þeim hjónum okkar bestu kveðjur og hlýjustu strauma, vonandi fer þetta allt vel hjá þeim.

Ógnaði hvorki Kára Steini né Kimetto
Það er talað um að brautin í Berlin sé hröð og að tilfinningin sé að alltaf sé verið að hlaupa aðeins niður á við eins og segir í ferðalýsingu Bændaferða, það er óhætt að taka undir það enda man ég varla eftir neinni brekku alla leiðina. Tíu heimsmet hafa verið sett í þessu hlaupi og núverandi heimsmet Kenya-búans Dennis Kimetto, 2:02:57, var einmitt sett í Berlin árið 2014. Í sama hlaupi, þremur árum fyrr setti Kári Steinn Karlsson Íslandsmet sem stendur enn, 2:17:12 sem er ótrúlegur tími. Meðalhraði Kára hefur verið 3:15 mín/km og í samhengi hlutanna gæti ég haldið þann hraða út í tæpan kílómeter, þannig að hvorki Kári Steinn né Dennis Kimetto þurftu að hafa miklar áhyggjur af því að miðaldra meðalhlauparinn úr Hafnarfirði myndi ógna metunum þeirra þetta árið.

En það stefndi í þrefalt einvígi um gullverðlaun karlanna og digurbarkalegar yfirlýsingar þeirra um að slá heimsmetið vöktu töluverða eftirvæntingu fyrir hlaupinu. Til að gera langa sögu stutta sigraði Kenya-búinn Eliud Kipchoge, 37 sekúndum frá heimsmetinu en ný maraþonstjarna var fædd: Eþíópíu-búinn Guye Adola var í öðru sæti í sínu fyrsta maraþonhlaupi og aðeins rétt á eftir sigurvegaranum, sá á væntanlega eftir að slá heimsmetið í framtíðinni og hugsanlega brjóta 2 klst múrinn. Hins vegar vann ég bæði Bekele og Kipsang nokkuð örugglega, enda hættu báðir keppni! Í kvennaflokki er sama afríska einokunin á verðlaunasætin, Gladys Cherono frá Kenya sigraði, 3:22 frá gildandi heimsmeti.


Á leið í ráshólf G.

Ég er alltaf sami naumhyggjumaðurinn þegar kemur að útbúnaði, nenni ekki að vera með einhvern óþarfa á mér og það var naumt í Berlin. Það voru sömu föt og Reykjavíkurmaraþoninu, stuttbuxur og ermalaus bolur ásamt ljótupeysu sem ég henti rétt fyrir startið. 7 gel, 4 GU steinefnatöflur sem fylgdu með rásnúmerinu og lítill vatnsbrúsi með nuun steinefna-freyðitöflu.

Auðvitað var síminn með í för sem og bluetooth heyrnatólin sem segja mér nýjustu hraðafréttir á kílómetra fresti. Allt þetta dót passar í tvo vasa á stuttbuxunum nema auðvitað heyrnatólin og brúsinn góði sem ég geymi vandræðalaust í buxnastrengnum.

Ég hef reyndar fengið glósur frá félögum mínum vegna brúsans en sé bara ekkert athugavert við þetta fyrirkomulag mitt. Svo er sitthvor íþróttaplásturinn yfir brjóstin og vaselín á milli stóru tánna - meira er það ekki. Ég fór ekki einu sinni með poka með mér sem var hægt að geyma á rásstaðnum. Sonja, konan mín geymdi bakpoka með aukafötum en ég lét hann eiga sig eftir hlaup - það var svo stutt aftur upp á hótel.

Íslenskt sumarveður á hlaupadegi í Berlín
Morguninn var svolítið grámyglulegur, 12 stiga hiti, blautt og svolítið mistur, í fullu samræmi við fyrstu veðurspár og ekkert ólíkt blautum íslenskum sumardegi. Það rigndi aðeins á okkur en að öðru leyti fullkomið hlaupaveður. Upphitun fyrir hlaup fólst í hálftíma labbi frá hótelinu og niður að Reichstag, þinghúsinu í Berlin. Það var mikið mannhaf á rásstaðnum á sjálfan kosningadag Þjóðverja, um 40 þúsund manns voru skráðir í hlaupið. Keppni í styttri vegalengdum og línuskautahlaupi fór fram deginum áður og því enn fleiri sem tóku þátt í þessari maraþonhelgi.

Ég gerði þau mistök að fara í fyrstu klósettröðina sem ég sá, rétt við innganginn á rássvæðinu og telst til að hún hafi tekið hátt í 45 mínútur. Þegar röðin kom loksins að mér var pappírinn búinn í kamrinum mínum og þá hófust samningaviðræður við manneskjuna sem var fremst í röðinni að hleypa mér á undan sér á næsta lausa kamar - skemmtilegt! Þar með var allur lausi tíminn búinn og komið að því að finna G-ráshólfið mitt, það reyndist drjúgur göngutúr framhjá haug af lausum kömrum.

Ég hafði orðið fyrir nokkrum vonbrigðum að uppgötva að ég myndi ræsa í næstsíðasta ráshólfinu af alls átta, þar yrðu allir sem eru með skráðan lokatíma í maraþonhlaupi yfir 3:50 og ég ætlaði að hlaupa svolítið hraðar. Áhyggjur mínar af því að ræsa svona aftarlega reyndust réttmætar. Í startinu var hafsjór af hægari hlaupurum og því voru þeir hraðari einfaldlega fastir í mannhafinu. Öll taktík um að byrja hlaupið á hraðanum 5 mín/km fór því fyrir lítið og eftir að hafa bölvað svolítið yfir örlögum mínum, ákvað ég að láta þetta ekki hafa of mikil áhrif á mig - og eins gott því nánast allt hlaupið var svigkeppni kringum hægari hlaupara.

Svigið tók sinn toll
Því setti ég upp bros og ákvað að njóta hlaupsins, hlaupa bara í takt við aðra og stinga mér fram úr þegar færi gafst, til þess eins að hægja aftur á mér þegar hvergi var hægt að pota sér áfram. Svo bættist við algjört kaos á fyrstu drykkjarstöðvunum og því var ég feginn að hafa verið með eina einnota hálfs lítra flösku ásamt buxnastrengs-vatnsbrúsanum sem dugðu mér vel langleiðina í markið. Stundum breikkaði hlaupaleiðin og þá var hægt að gefa svolítið í en auðvitað mjókkaði hún fljótlega aftur og þá var allt aftur „stopp". Við þetta bættust regnpollar hér og þar, sem best var að reyna að tipla framhjá en auðvitað urðu allir votir í lappirnar og blautir af rigningu og svita. Það má samt alls ekki skilja þetta sem svo að upplifunin hafi verið slæm, eftir að ég tók þá meðvituðu ákvörðun að láta hraðann ekki trufla mig var hlaupið frábært þó mér gengi illa að komast leiðar minnar. Ótrúlega margt fólk að hvetja á leiðinni og mikill fjöldi hljómsveita af öllum stærðum og gerðum sem héldu uppi stemningunni á leiðinni og gleðin var allsráðandi. Ekki skemmdi fyrir að hlaupa framhjá aðdáendaklúbbnum mínum við 8 km markið, eina fólkið sem ég þekkti í öllum áhorfendaskaranum.

Eftir heldur hæga fyrstu 10 km tókst mér loks að hlaupa eitthvað nálægt fyrirhuguðum hraða fram að hálfmaraþon-markinu, þá hafði grisjast örlítið úr þvögunni. Með þessari rólegu byrjun taldi ég mig vera að spara orku en það hefur farið alltof mikið púður í þessa ballerínutakta við að tipla fram úr hægari hlaupurunum. Öll einbeiting fer í að passa sig á að stíga ekki á hælana á þeim sem voru fyrir framan, og að rekast ekki alvarlega utan í aðra hlaupara og svo þessar endalausu hraðabreytingar þegar hægt var að stinga sér fram úr.

"Maraþonhlaup byrjar eftir 30 km"
Ég byrjaði því að finna fyrir svolítilli þreytu kringum hálfmaraþonmarkið, staðnum sem ég skall á veggnum í London Marathon 2014. Einnig fann ég að annar plásturinn hafði losnað af öðru brjóstinu undir blautum bolnum og ekkert hægt að fá hann til að tolla á sínum stað. Þetta angraði mig ekkert að ráði og það var ekki fyrr en ég var kominn á hótelið að ég tók eftir að það hafði blætt svolítið í bolinn.

Það voru líka einhverjar skrámur á maganum sem ég hef ekki lent í áður, líklega eftir nælurnar sem festu rásnúmerið við bolinn. Ég var líka svolítið aumur í annarri ristinni, hafði reimað tímatökuflöguna of fast við skóinn en að öðru leyti var ég bara nokkuð sprækur eftir hlaupið, hafði bara klikkað á þessum smáatriðum.


Fagnað á síðustu metrunum.

Fljótlega eftir hálfmaraþonmarkið rifjuðust upp áminningar félaga minna í FH; „maraþonhlaup byrjar eftir 30 km". Því reyndi ég að fara svolítið varlega og nýtt markmið tekið við; að komast hlaupandi alla leið í endamarkið án þess að þurfa að taka neinn göngukafla utan drykkjarstöðvanna. Ég gekk í gegnum fáeinar stöðvar eftir 30 km markið til að þiggja vatn og volgt te, fram að því hafði ég algjörlega látið eiga sig að ganga þar í gegn en hafði fyrr í hlaupinu náð að grípa mér ýmsa næringu á hlaupum. Svo játa ég að hafa gengið í fáeinar sekúndur nálægt 38 km markinu til að súpa af brúsanum mínum, það voru samt bara örfá skref og hægt að réttlæta það með öllum drykkjarstöðvunum sem ég sleppti.

Glaðst yfir hverjum kilómetra
Það voru skemmtilegar andstæður að togast á í mér á lokakaflanum, verandi orðinn þreyttur og langa að hvíla mig, og svo hitt - að vita að það er lítið eftir og djöflast áfram. Það var því grannt fylgst með hverju kílómetramarki eftir 35 og glaðst yfir því hversu stutt væri eftir.

Það er einmitt svo frábært að hlaupa síðustu kílómetrana í svona löngu hlaupi, vitandi að maður getur vel klárað þetta. Tilfinningin þegar komið var í 40 km var æðisleg en 2 km er nú samt dágóður spotti þegar búið er að hlaupa svona langt.


Með sætustu stelpunni í markinu.

Á síðustu 15 km voru ansi margir byrjaðir að ganga og þeim fjölgaði verulega eftir því sem á leið. Stemningin á brautinni stigmagnaðist og eftir síðustu beygjuna blasti við Brandenburger Tor, það er algjörlega magnað að hlaupa þennan lokakafla. Endorfín og hvað þetta heitir allt, er í algleymi og ekki hægt að lýsa tilfinningunum í orðum nema ég fann að hárin risu og einhver alsæla greip mig. Þetta er það sem við hlaupararnir erum m.a. að sækja í, við erum upp til hópa náttúrulegir fíkniefnaneytendur að fixa okkur.

Ég gerði mér ekki nákvæma grein fyrir hvernig tímanum leið, vissi ekki hversu langt á eftir fyrsta ráshóp ég var og því var ekki mikið að græða á tímatökuklukkunum sem við hlupum reglulega framhjá en ég reiknaði með ca hálftíma. Endomondo appið mitt var orðið ónákvæmt og næstum heilum km á undan. Í miðju hlaupi reyndi ég því að taka tímann frá því að appið sagði einhverjum kílómetra lokið, þar til ég kom að raunverulegu kílómetramarki - og slökkti svo á heyrnatólunum. Þannig tókst mér að áætla að ég myndi enda einhversstaðar í kringum 3:40 miðað við þær upplýsingar sem ég hafði, ef ég myndi ná að halda dampi. Mér fannst samt lokatíminn ekkert mikilvægur lengur, bara að komast brosandi í markið.

Náði takmarkinu - 3:39:59
Ótrúlegt að eyða svona miklum tíma fyrir hlaup í pælingar um lokatíma sem skiptir svo engu máli þegar endamarkið nálgaðist. Fyrir hlaup var samt yfirlýst markmið 3:40 og því er auðvitað lyginni líkast að lokatíminn skyldi vera 3:39:59, einni sekúndu undir settu marki sem jafngildir 0,008% fráviki! Ég hafði reyndar ekki hugmynd um tímann fyrr en ég frétti af honum á Facebook uppi á hóteli og var auðvitað hæstánægður, enda alltaf gaman að vera með svona skemmtilegar tölur í lokatímanum. Ég er með markmið um að klára einhvern tímann maraþonhlaup undir 3:30 en það var bara ekki vinnandi vegur í þetta sinn en ég færist vonandi nær því í febrúar, þá mun ég væntanlega stefna á 3:35. Hins vegar er aldrei hægt að ganga að neinum lokatíma vísum, sama hversu vel hefur gengið í undirbúningnum. Það er einfaldlega svo margt sem þarf að ganga upp og fátt sem má fara úrskeiðis.

Ég hitti tvo Íslendinga á leiðinni, einn sem var með mér í Bændaferðahópnum og Atla Þór Jakobsson, sem var í sínu fyrsta maraþonhlaupi. Við hlupum á svipuðum hraða og urðum því samferða hluta leiðarinnar en það var ansi erfitt að „halda hópinn" í mannþrönginni nema að vera á sama skokkhraða og aðrir hlauparar í kringum okkur. Við höfðum húmor fyrir aðstæðunum og gátum hlegið svolítið að svigkeppninni. Auðvitað týndumst við í þvögunni í dágóðan tíma en fundumst aftur skömmu fyrir endamarkið. Atli átti meiri orku í lokin og kom því svolítið á undan mér í markið, frábærlega gert hjá honum. Fer litlum sögum af öðrum Íslendingum en alls luku 34 hlaupinu að þessu sinni, hver á sínum hraða.

Þurfti að hlaupa fram úr 30 þúsund hlaupurum
Mér finnst áhugavert að rýna betur í lokatímann og splittin á leiðinni, fyrri hlutinn var t.d. einni mínútu hraðari en sá seinni og því mætti ætla að hraðinn hafi verið nokkuð jafn allt hlaupið en það var ekki alveg svo. Fyrstu 10 km voru þeir hægustu hjá mér, svo náðist svolítill hraði fram að hálfmaraþonmarkinu sem lyfti upp meðalhraðanum. Seinni hlutinn var svo pínulítið hægari en mun jafnari. Að öllu jöfnu myndi ég gera ráð fyrir að hægustu kílómetrarnir væru seinni part hlaups þegar þreytan segir til sín, en meira að segja erfiðustu kaflarnir í seinni hlutanum voru hraðari en fyrstu 10 km, sem segir allt sem segja þarf um kraðakið í byrjun. Mér sýnast rúmlega 39 þúsund manns hafa lokið hlaupinu og að ég hafi endað í kringum 10.000. sæti og þar sem ég ræsti svona aftarlega, giska ég á að ég hafi þurft að hlaupa fram úr rúmlega 20 þúsund manns á leiðinni eða einum hlaupara á tveggja sekúndu fresti að jafnaði, allt hlaupið - geri aðrir betur.


Ég og Atli Þór Jakobsson hressir að hlaupi loknu.

Þetta leiðir hugann aftur að ráshólfa-skiptingunni, ég einfaldlega skil ekki hvernig svona margir hægari hlauparar höfðu unnið sér inn réttinn að mega ræsa svona framarlega. Í mörgum hlaupum er raðað í ráshólfin skv. áætluðum lokatíma sem hver keppandi gefur upp sjálfur sem er þó ekki gallalaus aðferð.

Í Laugavegshlaupinu gaf ég t.d. upp tíma sem var heilum klukkutíma undir þeim lokatíma sem ég endaði á. Ef nógu margir eru svo bjartsýnir í spánum sínum er þetta vandamál með ráshólfin óleyst, en líklega er það mun betra fyrirkomulag en það sem gildir í Berlin.

Til marks um óréttlætið hljóp ég fram úr þremur hraðastjórum á leiðinni sem voru að peisa þá sem stefndu á lokatíma 4:00, þeir voru væntanlega úr næstu þremur ráshólfum fyrir framan mig. Það er ansi sérstakt að bjóða þeim sem ætla að hlaupa á þeim hraða, að ræsa svo framarlega. Kannski er þetta gert til að jafna álaginu á hlaupabrautinni en þeir sem tapa á þessu fyrirkomulagi eru þeir sem eru örlítið hraðari en meðalhlauparinn og þurfa að ræsa aftarlega. En vonandi verður þessi 12 mínútu bæting hjá mér til þess að ég fái að ræsa svolítið framar í næsta hlaupi.

Hefði ég getað klárað á betri tíma ef ég hefði fengið að ræsa framar? Klárlega, en það þýðir lítið að velta sér upp úr „ef-og-hefði" enda er ýmislegt sem hlauparar hafa enga stjórn á og því þarf einfaldlega að bregðast við aðstæðum þegar á hólminn er komið. Ég heyrði reyndar af einum flottum hlaupara sem lenti í nákvæmlega sömu vandræðum í Berlin fyrir fáeinum árum, hann tók sig einfaldlega til og skráði sig í Haustmaraþonið þremur vikum síðar og bætti tímann sinn um 17 mínútur - en ég sel það ekki dýrara en ég keypti. Svo ætla ég ekki að nöldra meira yfir þessu, er bara að benda á eina skuggann sem bar á frábært hlaup.

Samanburður á maraþonunum í London og Berlín
Ef einhver er að velta fyrir sér að skrá sig í sitt fyrsta stóra maraþonhlaup, þá hef ég reynslu af tveimur; Berlin og London. Bæði hlaupin eru gríðarlega stór, eins og fyrstu kílómetrarnir í Reykjavíkurmaraþoni á sterum. Það er ótrúlega mögnuð upplifun að hlaupa í svona stórum hlaupum en hins vegar eru þau svolítið ólík þar sem í Berlin er hlaupinn hringur og því er byrjað og endað á sama stað, en í London er hlaupið frá A til B - startið er í Greenwich og markið rétt hjá Buckingham Palace, í rúmlega 10 km loftlínu frá upphafsstaðnum. Praktískt séð er hentugra að hlaupa í hring af ýmsum ástæðum, sérstaklega ef gistingin er nálægt rásstaðnum og þar hefur Berlin vinningin. Brautin í Berlin er líka töluvert auðveldari, það eru einhverjar brekkur í London þó þær séu hvorki langar né brattar.

Hins vegar er hlaupaleiðin í London svolítið túristavænni, það er farið yfir Tower Bridge og framhjá ýmsum öðrum skemmtilegum kennileitum borgarinnar og ansi margir að hlaupa í skrautlegum búningum, og þar hefur London vinningin. Einnig fannst mér brautin í London höndla betur hinn gríðarlega fjölda hlaupara. Að lokum fannst mér stemningin í London vera áberandi meiri, það voru hvetjandi áhorfendur nánast alla 42,2 km leiðarinnar og komust færri að en vildu, á meðan nokkrir hlutar leiðarinnar í Berlin voru nánast tómir. Væntanlega hefur veðrið í Berlin haft eitthvað að segja og kannski líka að hlaupið skyldi bera upp á kosningadaginn á meðan það var sól og blíða í London 2014. Við ræddum þetta aðeins í Bændaferðahópnum eftir hlaup og sitt sýndist hverjum um hvort hlaupið væri „betra", mín niðurstaða er London á meðan aðrir upplifðu Berlin sem mun betra hlaup.

Hvað sem öðru líður ættu hlauparar auðvitað að láta tilfinninguna ráða hvar þeir hlaupa sitt fyrsta maraþon en það er gríðarlegur munur að taka þátt í krúttlegu Reykjavíkurmaraþoni og þessum stóru. Það sem skiptir samt mestu máli er að vera nógu vel undirbúinn, hvar sem maraþonið er haldið. Ef aðalmarkmiðið er að hlaupa á sem skemmstum tíma er líklega betra að sleppa þessum stóru maraþonum og stefna frekar á fámennari hlaup.

Hlaupanámskeið hlaup.is nýttist vel - maraþon í febrúar
Nú taka við rólegri dagar langt inn í október, og pínulítið sukk - en ekki lengi, það góða við þessa hlaupadellu er að mesta löngunin í einhverja óhollustu hverfur. Svo er tíminn strax byrjaður að tikka. Næsta maraþon er í febrúar og það er komin svolítil löngun í að ná betri árangri, hafa undirbúninginn eins góðan og hægt er. Einn liður í því var að skrá mig í hlaupanámskeið á hlaup.is í kringum hlaupið mitt í Berlin en hvaða erindi á „vanur" hlaupari sem hefur hlaupið nokkuð reglulega í 5 ár, á slíkt námskeið? Það kom verulega á óvart hversu margt ég lærði og ýmislegt í mínu hlaupafari sem hefur einfaldlega ekki verið nógu gott. Hver hlaupari ber sjálfur ábyrgð á eigin undirbúningi þó hann sé í hlaupahóp og að flottir þjálfarar sjái um að setja upp æfingaáætlun, því mæli ég eindregið með svona hlaupanámskeiði.

Ég ætla að nördast svolítið betur í fræðunum áður en ég verð of gamall til að hlaupa hraðar. Það verður fróðlegt að sjá árangurinn eftir 5 mánuði, þangað til geri ég samt ekki ráð fyrir neinum bætingum í keppnishlaupum nema mögulega í 5 km - af skiljanlegum ástæðum er mun minna úrval af bætingarhlaupum yfir vetrartímann en hásumarið. En svo eru auðvitað aðrir hlauparar sem eru bara ekkert að spá í svona vitleysu, taka bara sín hlaup og eru hæstánægðir með sitt, eru í þessu fyrir hreyfinguna, félagsskapinn eða eitthvað annað - og ekkert nema gott um það að segja. Það er nefnilega það frábæra við hlaupin, að hver og einn er algjörlega á sínum eigin forsendum. Í hvaða annarri íþróttagrein getur hver sem er tekið þátt í sömu keppni og bestu íþróttamenn í heiminum, eins og í Berlin Marathon og öðrum stórum almenningshlaupum? Gangi okkur áfram sem allra best og þau ykkar sem langar að byrja, drífið ykkur af stað - lífið er núna.

Axel Einar Guðnason - október 2017.