Pistill eftir Axel Einar Guðnason - Leiðin til Tokyo 2018

birt 20. febrúar 2018

Snemma sumars 2017 fékk ég þá flugu í höfuðið að skottast í hlaupaferð til Japans og taka þátt í Tokyo Marathon 25. febrúar 2018. Ástæðan er einföld og upplýsist hér með, ég ætla að taka þátt í öllum Abbott World Marathon Majors, sem eru sex af stærstu maraþonhlaupum í heiminum og reyna að klára fyrir fimmtugsafmælið mitt í maí 2020. Og hvers vegna í ósköpunum er ég að því? Jú, fyrst ég var óvart búinn með eitt slíkt í London 2014, þá voru bara fimm eftir - þið vitið; hálfnað verk þá hafið er.

Margir sterkustu hlauparar heims verða í Tokyo.Svo sameinar þessi della tvö skemmtileg áhugamál; að þvælast um heiminn og að hlaupa í brjálæðislegri stemningu. Það er líka ágætt að vera búinn að plana næstu þrjú hlaupaár í grófum dráttum, þá losna ég við spennufallið eftir stóru hlaupin og þarf ekkert að velta fyrir mér hvaða tekur við næst. Og það stefnir í metár 2018, tvö heil maraþon, einn Laugavegur, dágóður slatti af styttri hlaupum og jafnvel einn Hvannadalshnjúkur, grái fiðringurinn í botni.Krefst skipulagningar - markmiðið að klára í Boston 2020Þegar ákvörðun er tekin um að taka þessa hlaupaseríu á svona skömmum tíma þarf aðeins að skipuleggja það. Alls eru þetta fimm hlaup á tæplega þremur árum og ekki er gott að hafa of stuttan tíma á milli.

Já, lífið er Excelskjal og þar var serían sett upp á sem bestan hátt og dreift á sem lengstum tíma og það var heldur einfalt. Það yrði að byrja sem fyrst, Berlin í sept 2017, og endað á hlaupi sem næst fimmtugsafmælinu; Boston í apríl 2020. Hinum þremur yrði dreift sem jafnast á milli og því var skásti tíminn fyrir Tokyo strax á eftir Berlin. Þá yrðu 5 mánuðir á milli sem er stysti tíminn á milli hlaupa í allri seríunni, en ef Tokyo yrði tekið 2019 yrðu aðeins 3-4 mánuðir á milli. Það væri samt vel gerlegt, það liðu t.d. aðeins 10 vikur á milli Laugavegar og Berlin hjá mér en þar sem ég stjórna sjálfur uppröðuninni er mesta skynsemin í 5 mánuðum.

Auðvitað er vel hægt að taka þátt í maraþonhlaupi með styttri fyrirvara en mér finnst ekkert annað koma til greina en að undirbúa hvert hlaup sem allra best og vera í toppformi á hlaupadegi. Hvert maraþon verður þá gulrótin á endanum á hverju hlaupaprógrammi og sannkölluð uppskeruhátíð eftir erfiðar æfingar. En allavega, það stefnir í eitt maraþon á hverju hausti og vori fram að fimmtugu - nema vorið 2019 og auðvitað er ég kominn með ýmsar pælingar um eitthvað geggjað að gera þá, það þarf samt að gerjast svolítið betur...Nötra af tilhlökkun yfir TokyoÞað er skemmtilegt að ferðast á nýjar slóðir og Tokyo er klárlega mest framandi staðurinn í þessari hlaupaseríu, ég er búinn að nötra af tilhlökkun frá því í október og nú er að líða að brottför.Lengsta æfingin, frá Súfistanum og upp fyrir Árbæjarlaug og sömu leið til baka. Samtals 36 kílómetrar.

Það er gríðarlega erfitt að fá þátttökurétt í hlaupinu og aðeins örfá númer sem Bændaferðir fengu í sölu. Bændaferðir eru sem sagt með umboð fyrir öll hlaupin í seríunni og ef hlaupari nær ekki uppsettum lágmarkstíma fyrir viðkomandi maraþonhlaup (sem er óhugsandi fyrir mig), né hefur heppnina með sér í e.k. útdráttarlottói mótshaldara, er frábært að geta treyst á þá. Þrátt fyrir ansi takmarkað framboð tókst mér að grenja mig til Tokyo eftir endalaus símtöl, einmitt þegar ég var nánast búinn að gefa það upp á bátinn.

Pakkinn samanstóð af hlaupanúmeri, hóteli í 4 nætur og akstri á hlaupadegi. Okkur hjónum þótti fjögurra nátta ferð heldur stutt fyrir svona langt ferðalag og þar sem við þurftum sjálf að bóka flugið, var ákveðið að mæta svolítið fyrr til Tokyo, lenda á mánudegi - 6 dögum fyrir hlaup. Vonandi verður flugið þægilegt og hótelið jafn glæsilegt og myndirnar á heimasíðunni, þetta verður örugglega mikið ævintýri hjá okkur hjónum.

Hlaupahópur FH á æfingu í glæsilegri inniaðstöðu í Kaplakria.Undirbúningurinn fyrir hlaupið fór fullhægt af stað, ég vildi taka því rólega eftir Berlin og leyfa líkamanum að jafna sig almennilega. Það voru bara örfá róleg hlaup fyrstu 5-6 vikurnar en meira um letilíf og svolítið sukk. Það er ágætt að kúpla sig aðeins út svo maður fái ekki leið á hlaupaæfingunum en það voru mistök að gera nánast ekki neitt. Það bættust við fáein aukakíló og formið var ansi fljótt að drabbast niður, svo gef ég oft blóð fljótlega eftir svona stór hlaup - get ómögulega verið að því í miðju æfingaprógrammi. Það var því svolítið átak að koma sér af stað aftur en það hafðist auðvitað.„Vel í lagt," sagði hlaupaþjálfarinn um æfingaáætluninaÉg var búinn að ákveða að taka meiri ábyrgð á undirbúningnum mínum og setti upp nokkuð metnaðarfulla 16 vikna æfingaáætlun sem Friðleifur Friðleifsson, hlaupagúrú og einn af þjálfurum Hlaupahóps FH, fór yfir og samþykkti; „vel í lagt", sagði hann.

Það er algjört grundvallaratriði að vera aldrei með tvo erfiða daga í röð og því er aðeins hægt að vera með þrjá slíka daga í viku, þess á milli yrðu róleg hlaup í tvo daga og hvíld í aðra tvo.

Markmiðið var að taka hluta af löngu laugardagshlaupunum og sprettæfingarnar á mánudögum með hlaupahópnum en vera einn þess á milli enda fáir í svona stífu hlaupaprógrammi yfir háveturinn. Fimmtudagar yrðu brekkuhlaup til að byrja með en tempohlaup eftir 9. viku, sem reyndar yrðu bara tvö, þrjú skipti vegna anna í keppnishlaupum. Þetta yrðu þessar þrjár erfiðu æfingar á viku, toppaðar með vikulegum styrktaræfingum og rólegu hlaupunum, og auðvitað einstaka keppnishlaupum sem lentu yfirleitt á fimmtudögum. Það skyldi því hlaupið fimm sinnum í viku, rúmlega 60 km að jafnaði ef veður héldist skaplegt en fórna rólegu hlaupunum ef ekki yrði hundi út sigandi.

Veðrið oftast  betra en sýnist út um gluggannHins vegar er svo merkilegt að veðrið er yfirleitt mun skárra þegar hlaupið er af stað heldur en manni sýnist út um gluggann. Til viðbótar er Hafnarfjörður í ágætu skjóli fyrir hinni ríkjandi norðanátt og því kom slæmt veður lítið við sögu stærstan hluta æfinganna. Það er ekki þar með sagt að alltaf hafi verið blankalogn, heldur að vindurinn var ekki til of mikilla vandræða. Þó voru nokkrir hættulegir hálkudagar þar sem ég þurfti að láta af áralöngum fordómum gagnvart mannbroddum, mig langaði einfaldlega ekki til að vera á hækjum í Tokyo. En það féll engin æfing niður og heldur enginn afsláttur gefinn í jólafríinu.Aðeins í örfá skipti hnikaði ég til æfingadögum, sá sveigjanleiki er einn af kostunum við að æfa einn en auðvitað er miklu skemmtilegra að vera í hlaupahóp. Í FH er ótrúlegt samansafn af algjörum snillingum sem hafa veitt mér mikinn innblástur og hvatningu - aldrei hef ég komið að tómum kofanum hjá þessum viskubrunnum og reynsluboltum þegar mig hefur vantar góð ráð. Og trúið mér, það er svolítið glatað að vera aleinn í þessu brölti. Þó ég hafi æft mikið einn síðustu vikurnar, hef ég hitt hópinn a.m.k. einu sinni í viku sem mér hefur fundist gríðarlega mikilvægt.Tilvalið að mæta í hlaupaseríurnarEðlilega er lítið af almenningshlaupum á Íslandi yfir veturinn en á höfuðborgarsvæðinu eru tvær hlaupaseríur sem er skyldumæting í; Powerade-hlaupið og Hlaupasería FH og Bose. Svo er auðvitað tilvalið að heimsækja vini sína í Borgarnesi og taka þátt í Flandraspretti af og til sem er ansi skemmtileg hlaupasería, 5 km spretthlaup um bæinn.Klakinn fylgir hlaupunum á veturna.

Hér eru töluverðar líkur á að hitta foreldra Ragnheiðar frænku, Inga Vildís sinnir brautarvörslu á meðan Sveinbjörn er meira á heimavelli í heita pottinum, það er alltaf gaman að hitta ættingja og vini. En hlaupið byrjar og endar við íþróttamiðstöðina, farin er krókaleið upp á Borgarbraut, þaðan langleiðina upp á hringtorg við afleggjarann upp á Snæfellsnes, og svo stysta leið til baka. Brautin er lúmskt erfið enda þrjár litlar brekkur í hvora átt sem taka svolítið í þegar hlaupið er á fullu gasi og hækkunin er svolítið meiri en í FH hlaupinu. Aftur á móti dreifast brekkurnar betur á hlaupaleiðinni á meðan það er bara ein brekka í FH hlaupinu.

Skellt niður á jörðina í BorgarnesiEn ég fór sem sagt á flandur í nóvember og gekk illa, fann strax í fyrstu brekkunni að ég hafði engan kraft til að hlaupa hratt enda nýbyrjaður í undirbúningnum fyrir Tokyo. Snjórinn og vindurinn hafði svolítil áhrif en mestu munaði auðvitað um formið. Lærdómurinn er auðvitað að við uppskerum eins og við sáum og svo hitt; ef hraðinn er að trufla er best að skipta strax yfir í skemmtiskokkið og hætta öllum rembingi! Fer því engum sögum af lokatíma enda var þetta hægasta 5 km keppnishlaupið mitt frá upphafi og ég hef hlaupið þrjú hálfmaraþon á betra peisi en á þessu tiltekna nóvemberkvöldi í Borgarnesi.Ég fór í Flandrann beinlínis til að staðsetja mig í upphafi æfinganna og var svolítið brugðið en sem betur fer löguðust hlutirnir hratt eftir þetta. Það stóð til að fara í annan sprett í febrúar en í samráði við þjálfara var ákveðið að fresta því, enda aðeins 10 dagar í maraþonið sem allt þetta brölt snýst um.Eftir FH hlaupið í janúar, Axel, Ragnheiður Sveinbjörnsdóttir og Þóra Gísladóttir, einn af þjálfurum Hlaupahóps FH.

Hlaupasería FH fékk nýjan styrktaraðila á árinu og er nú kennt við Bose. Hlaupaleiðin er óbreytt, farið er frá göngustígnum gegnt íþróttahúsinuE við Strandgötu og hlaupið meðfram strandlengjunni, aðeins upp fyrir Hrafnistu og sama leið til baka - alls 5 km. Kostirnir við þessi fram-og-til-baka hlaup er að við mætum öllum keppendunum við miðbik hlaupsins og það er alltaf gaman að sjá hraðann hjá forystusauðunum með eigin augum og dást að þrautseigjunni og kraftinum hjá þeim sem aftar eru. Leiðin er mjög skemmtileg og ekki skemmir fyrir að hún er á heimavelli mínum í Hafnarfirði, ég fer einhvern hluta leiðarinnar í flestum útihlaupum.

Bæting í Hlaupaseríu FH og Bose
Það er ein lítil brekka í henni, rétt áður en komið er að Hrafnistu, kringum 300 metra kafli með hóflegri 15m hækkun. Þegar ég var að byrja útihlaupin árið 2012, þá sneri ég einfaldlega við þegar komið var að brekkunni, treysti mér einfaldlega ekki upp þennan ókleyfa hjalla en ég er farinn að ráða betur við hana í dag.

Hluti Hlaupahóps FH eftir Powerade hlaupið í nóvember, veður og færð oft verið betri.Aðeins eru þrjú hlaup í seríunni frá janúar til mars, því er aðeins janúar hlaupið afstaðið og ég verð kominn til Tokyo þegar febrúar hlaupið verður haldið. Í janúar var veðrið eins og best verður á kosið í frostinu, nánast logn og brautin að mestu laus við klaka og snjó.Ég reiknaði með að aðeins stórslys gæti komið í veg fyrir bætingu hjá mér, þrátt fyrir svolítið kvef. Hlaupið gekk vel þó ég hafi farið heldur hratt af stað og fengið magaverk í bakaleiðinni. Taktíkin var að hanga í 20 mín hraðastjóranum alla leið í markið en eins og venjulega stakk hann mig af.Lokatíminn var 20:21 og auðvitað er ekkert hægt að kvarta yfir 32 sek bætingu frá mars 2015 þó mig hafi langað að fara svolítið hraðar.

Brekkan endalausa í Powerade hlaupinu
Powerade hlaupið er 10 km í þessari einstöku náttúruperlu sem við eigum í Elliðaárdalnum, alls sex hlaup yfir veturinn eins og í Flandra. Startið og markið er við Árbæjarlaugina og er hlaupinn „hringur" í laginu eins og boomerang, sitthvoru megin við ánna. Eini gallinn er að hlaupið er í svartamyrkri og því lítið hægt að gera annað en að horfa niður fyrir sig. En hlaupið er æðislegt og nokkuð erfitt, enda ríflega 80 metra hækkun á leiðinni og því eru væntanlega fáir sem eiga pb í þessu hlaupi. Ég hafði hlaupið 10 sinnum áður og man enn eftir fyrsta skiptinu fyrir þremur árum, þegar ég var að hlaupa glaður í bragði niður brekkuna fyrir neðan Höfðabakka. Þetta Powerade hlaup virtist ætla að vera ansi auðvelt en áfram hélt leiðin niður í móti og þá rann upp fyrir mér að í bakaleiðinni hlyti að bíða okkar önnur eins brekka upp í móti og það var auðvitað þannig.

Powerade hlaupið í des, glaður með árangurinn í góðra kvenna hópi.Nálægt 8 km, við rafstöðina birtist eeeendalaus löng brekka sem hefur setið í mér síðan. Ég fékk lengi vel svolítinn hnút í magann þegar hlaupið er yfir brúnna og beygt til hægri í átt að rafstöðinni. En eins og aðrar hindranir í hlaupunum er þetta bara í hausnum á mér.Ef ég hugsa stöðugt um hvað brekkan er erfið, þá verður hún skrambi erfið. Það er miklu betra að hugsa um eitthvað jákvætt og þá finnur maður mun minna fyrir henni - svo segir það sig sjálft að því betra formi sem viðkomandi er í, því auðveldari er brekkan. Hún hægir auðvitað á öllum en það er algjör óþarfi að missa hausinn yfir henni.

Loksins á topp tíu í aldsursflokknum í Powerade hlaupinu
Í vetur tók ég þátt í öllum Powerade hlaupunum og markmiðið var einfalt; vera kringum 49 mín í fyrsta hlaupinu, skafa svo eina mín af hverju hlaupi og lokatakmarkið var að hlaupa undir 45 mín í febrúar sem virtist nokkuð raunhæft. Besti tíminn minn var 45:59 í sannkölluðu vetrarveðri í desember 2014, þegar undirbúningur fyrir Disney Marathon í janúar 2015 stóð sem hæst - maraþonhlaup sem ég reyndar missti af og var reglulega minntur á megnið af árinu. Anyway, fyrstu tvö hlaupin voru ekkert spes en í desember náði ég að fara undir 45 mín, tveimur mánuðum á undan áætlun og tilfinningin í markinu var æðisleg. Það hreinlega gekk allt upp í blíðskaparveðri og jákvæðu hugsanirnar gagnvart rafstöðvarbrekkunni skiluðu sér margfalt til baka. Ég geystist upp brekkuna og fram úr hverjum hlauparanum á fætur öðrum, ekki veit ég hvaðan þessi kraftur kom en mikið kom lokatíminn skemmtilega á óvart, 44:22. Það er stór áfangi að hlaupa 10 km undir 45 mín í fyrsta skiptið á flatri braut en allt annar handleggur að ná því í Powerade.

Þessi tími skilaði mér loksins inn á topp 10 í aldursflokknum mínum í þrettándu tilraun og mikið fannst mér það vera merkilegt. Í janúar-hlaupinu var vindur á köflum í kringum 14 m/sek, svipað var uppi á teningnum í febrúar; vindur, éljagangur og töluverður snjór á brautinni. Tímarnir voru sitthvoru megin við 46 mín sem er alls ekki svo slæmt en ég vonast til að ná aftur undir 45 mín í Powerade hlaupunum næsta vetur.Íslandsmeistari í grindarhlaupiFebrúar-hlaupið var síðasta keppnishlaupið fyrir Tokyo Marathon, ef frá er talið Íslandsmót öldunga í frjálsum íþróttum 10.-11. febrúar. Ég hafði laumast í fáein skipti á grindahlaupsbrautina eftir sprettæfingarnar á mánudögum og þyki bara nokkuð efnilegur. Því tók ég þátt í mótinu og er ótvíræður Íslandsmeistari í 60m grindahlaupi í aldursflokknum mínum enda enginn annar að taka þátt í svona skoppi.Svellkaldir FH-ingar í Kaldárseli við upphaf Kaldárhlaupsins, glittir í Helgafell í bakgrunni.

Það má því með sanni segja að ég sérhæfi mig í hlaupum frá 60 metrum upp í 55 kílómetra á árinu 2018.

Kaldárhlaupið og Gamlárshlaup ÍR mögnuð á sinn hátt
Tvö önnur vetrarhlaup verður að nefna, bæði haldin í desember. Kaldárhlaupið í Hafnarfirði er haldið á aðventunni á hreint út sagt magnaðri hlaupaleið. Farið er með rútum upp í Kaldársel og hlaupin 9,7 km leið til baka í gegnum uppsveitir Hafnarfjarðar og endað í Jólaþorpinu. Þetta árið var töluvert kalt og því ótrúleg upplifun að hlaupa í þessari náttúrufegurð í fullum vetrarskrúða, gróðurinn hrímaður af frosti og snjórinn brakaði við hvert skref. Ekki skemmir að það er ríflega 80m dropp í brautinni, það er hlaupið niður í móti nánast allt hlaupið og því vel hægt að taka til fótanna.

Hér er ég aftur á heimavelli, þessa leið notuðum við oft í undirbúningi fyrir Laugaveginn í fyrra eftir að hafa komið við á Stórhöfða og/eða Helgafelli, og væntanlega aftur með vorinu. Hlaupaleiðin er ótrúlega skemmtileg þar sem hver árstíð hefur svo sannarlega sinn sjarma, eins og aðrar hlaupaleiðir úti í náttúrunni.

Hitt hlaupið er Gamlárshlaup ÍR sem eðli málsins samkvæmt, ber upp á gamlársdag. Það er hefð fyrir því að stór hluti keppenda mæti í búningi á meðan minnihlutinn er í hefðbundnum hlaupagalla.Í gegnum tíðina hef ég haft takmarkaðan áhuga á búningahlaupum eða fun-run, hef yfirleitt verið í keppnishlaupum til að hlaupa eins hratt og ég kemst þá stundina. Því var ég að prófa Gamlárshlaupið í fyrsta skiptið og fannst það æðislegt. Hins vegar lenti hlaupið á "rólegum degi" hjá mér og því mátti ég ekki taka á því, og hófst þá leit að heppilegum búningi.Hin fjögur fræknu; hraðastjórarnir og ofurkvendin Ragnheiður Sveinbjörnsdóttir og Katrín Lilja Sigurðardóttir, ofurmennið Arnar Karlsson og þjónninn ánægður að hafa komið kókflöskunni alla leið í markið.

Hljóp 10 km í þjónabúningi með silfurbakka
Flottasti búningur sem ég hef séð var Boss-drengjagengið í síðasta Reykjavíkurmaraþoni en auðvitað var ekki hægt að stela hugmyndinni óbreyttri. Því tók ég jakkafatahugmyndina örlítið lengra, klæddi mig upp sem þjónn í tilefni af því að nú eru liðin 30 ár síðan ég vann sem slíkur í fáeina mánuði á A.Hansen. Punkturinn yfir i-ið var að útvega mér silfurbakka og skokka alla 10 km með kókflösku og glas sem gekk ótrúlega vel. Gervið vakti heilmikla athygli og auðvitað algjör dómaraskandall að ég skyldi ekki sigra í búningakeppninni! Ég hef huggað mig við þá skýringu sem ég fékk hjá reyndum þjóni, að alvöru þjónar halda á bakkanum með vinstri hendi en ég hljóp að mestu leyti með hann í þeirri hægri.

Styttist í Tokyo - Bush fyrrum Bandaríkjaforseti gaf spark í rassinn
En nú er sem sagt að líða að brottför til Tokyo, það er brottför sunnudaginn 18. febrúar með örstuttu stoppi í Frankfurt. Hlaupataktíkin verður ákveðin fljótlega í samráði við félaga mína og þjálfara í hlaupahópnum og fínpússuð í startinu þegar allar aðstæður koma endanlega í ljós. Það hefur ýmislegt farið í gegnum kollinn á mér varðandi markmið í hlaupinu. Aðalmálið verður að sjálfsögðu að upplifa geggjað hlaup á þessum framandi slóðum og hlaupa brosandi alla leið í markið, góður lokatími verður bara bónus. En tíminn skiptir auðvitað máli líka.

Nýlega rifjaðist upp ástæða þess að ég ákvað að halda áfram langhlaupum eftir Celebration Marathon í janúar 2016, nefnilega nautsterk þrjóska. Þá var ég alveg tilbúinn að hætta í þessum maraþonhlaupum og láta jafnvel fjara undan þessum hlaupaáhuga í rólegheitum enda árangurinn ekkert til að hrópa húrra fyrir. Í framhaldinu rifjaðist upp grein sem ég las um lokatíma hinna ýmsu frægðarmenna og það sveið svolítið að George W. Bush skyldi eiga betri tíma í maraþoni en ég, 3:45. Já, það er misjafnt hvað drífur okkur áfram en þarna var sem sagt ákveðið að halda áfram að keppa í maraþonhlaupum.Á þessum ágæta lista má finna hin ótrúlegustu nöfn með svakalega flotta tíma: Joe heitinn Strummer úr Clash, 3:20 og undirbúningurinn? „Ekki hlaupa eina einustu mínútu síðustu fjórar vikurnar og drekka 10 hálfs lítra bjóra kvöldið fyrir hlaup!" Bryan Cranston úr Breaking Bad, líka 3:20, kjafthákurinn Gordon Ramsey, 3:31 og Flea úr Red Hot Chilli Peppers, 3:42.Jólaljósahlaup FH stillir sér upp í Jólaþorpinuí miðbæ Hafnarfjarðar.

Ég er alls ekki að láta það trufla mig að flestir af ofangreindum eigi betri tíma en ég, en það var mér mikið kappsmál að afgreiða tímann hans Bush. Svo hef ég gefið út að ég ætli einhvern tímann að klára heilt maraþon undir 3:30, hvenær sem það verður.

Markmiðið er 3:35 í Tokyo
Yfirlýst markmið í Tokyo verður 5 mín bæting á tímanum mínum í Berlin, lokatími upp á 3:35, bara svona út í loftið. Mér finnst einfaldlega ekki skynsamlegt að setja markið hærra að þessu sinni, t.d. er ræst upp úr miðnætti að íslenskum tíma og ýmislegt annað sem getur haft áhrif á frammistöðuna þegar hlaupið er níu tímabeltum frá heimahögunum. Hins vegar var Norðmaðurinn Sondre Moen að setja Evrópumet í maraþonhlaupi í desember sl., einmitt í Japan - svo kannski hefur fjarlægðin bara jákvæð áhrif?

Til viðbótar er komin staðfesting frá mótshöldurum að ég verði í ráshólfi C og eftir smá grúsk sýnist mér að hólfin nái alla leið upp í K - ef þetta eru réttar upplýsingar er ekki annað hægt en að hrósa happi, í Berlin var ég í næstsíðasta ráshólfi. Í framhaldinu rakst ég á hugleiðingar bandarísks hlaupara sem er töluvert hraðari en ég og ræsti í sama ráshólfi í Tokyo fyrir tveimur árum, honum fannst grisjast hratt úr þvögunni og gat því hlaupið á sínum hraða megnið af hlaupinu. Það er því ástæðulaust annað en að vera nokkuð brattur og mögulega á ég innstæðu fyrir aðeins betri tíma en 3:35 þar sem ég hef æft gríðarlega vel í vetur og mæti því þokkalega undirbúinn til leiks.

Ekki á vísan að róa með veðrið
Ég mun því klárlega gera atlögu að lokatíma undir 3:30 ef allar aðstæður verða í lagi, án þess að það verði opinbert markmið. Það er heldur ekki á vísan að róa með gott hlaupaveður, enda vetur í Tokyo - þrátt fyrir að liggja á svipaðri breiddargráðu og Gíbraltar er möguleiki á snjókomu og hressilegum vindi. En er ekki ágætt að ljúka þessum vangaveltum með því að vitna í sigurvegarann í síðasta Berlin Marathon, Eliud Kipchoge sem sagði nokkurn veginn eftirfarandi í viðtali eftir sigurinn: "Þú getur stjórnað æfingunum, þú getur undirbúið þig andlega en þú getur ekki stjórnað aðstæðum á keppnisdegi." Þetta kemur því allt saman í ljós, keppandi með rásnúmerið 81511 verður væntanlega að skríða í markið í kringum 4-leytið, sunnudagsmorguninn 25. febrúar og það eru góðar líkur á því að ferðalagið verði gert upp í öðrum pistli.

Myndir: Úr einkasafni og Pétur Helgason.

Sjá pistla eftir Axel Einar um þátttökuna í Berlínarmaraþoninu og undirbúning undir Berlínarmaraþonið.