Stranda á milli: Pistill eftir Björn R. Lúðvíksson

birt 18. mars 2018

Pistill eftir Björn R. Lúðvíksson um þátttöku hans í TransGranCanaría, 125 km utanvegahlaup með 7500m hækkun.

Það var guðdómlegt veður, morgunsólin skartaði sínu fegursta þennan fallega haustdag og sleikti hlíðar Hengilsvæðisins þar sem ég skokkaði eftir einum af mínum upphalds stígum og nálgaðist hratt Sköflung. Þetta er lífíð, nú var ég ákveðinn í því að skella mér í annað ultra hlaup og hugurinn stefndi til TransGranCanaria hlaupsins. Það sem ég hafði lesið mér til um það hlaup, þá uppfyllti það flest allt sem dregur mig áfram í þessu frábæra sporti. Þar myndi ég fara aðeins lengra og aðeins hærra en ég hafði áður farið. Einnig er það hluti af Ultra-Trail  World Tour mótaröðinni og dregur því að marga af bestu ultratrail hlaupurum í heiminum í dag og skapar því afar skemmtilega umgjörð og stemmingu.

Nokkrar sekúndur í startiðÞví var ekki til setunnar boðið og sótti ég um skráningu sem gekk eftir. Uppselt varð fljótlega í hlaupið með ríflega 1000 skráða í TransGranCanaria hluta hlaupsins þar sem hlaupið er þvert yfir eyjuna. Byrjað í höfuðborginni Las Palmas og endað í Maspalomas, 125+ km seinna þar heildar hækkun leiðarinnar er 7500+ m. Ekki skyggði á gleðina að eiginkonan og tveir af sonum okkar skráðu sig einnig til leiks í Maraþon hluta hlaupsins, ríflega 42 km með u.þ.b. 1300 m hækkun.Vetrar undirbúningurNú hófst undirbúningstímabil sem byrjaði eiginlega með NY maraþoninu í nóvember. Við tóku síðan stífar, en skemmtilegar æfingar þar sem hlaupið var um allar helstu leiðir Heiðmerkur, Helgafells og nágrennis.

Einnig reyndi ég að fara eins oft í Esjuna og veður leyfði. Þetta þýddi þó að ansi oft var hlaupið í gríðarlegu frosti þar sem snjór (oft upp undir hné) og ís þöktu oftar en ekki þá stíga og leiðir sem farnar voru í hvert sinn. Því reyndi verulega á góðan búnað s.s. ísbrodda undir hlaupaskóna af stærri gerðinni, mörg lög af fatnaði og höfuðljós. Einnig lenti ég oft í vandræðum með það að vatnið fraus í bakpokanum sem gerði manni oft erfitt fyrir á lengri æfingum.Í þetta sinn studdist ég við æfinga plan sem erlendur þjálfari sendi mér reglulega, en fram að þessu hafði ég séð um öll mín hlaupa plön sjálfur að mestu leiti með þokkalegum árangri. Það sem var athyglisvert við þetta plan að nú var öll áhersla á mínútur á fótum, en ekki hlaupna km. Einnig var mjög lítið um hraðaæfingar eða tempó hlaup, sem ég saknaði ekki nokkurn skapaðan hlut. Hins vegar, voru brekkusprettir oftar á dagskránni og þá sérstaklega ný tegund af brekkusprettum sem bera nafnið Kenyan hills. Þar er haldið jöfnu tempói í ákveðinn tíma, hvort heldur þegar hlaupið er upp eða niður. Lengsta æfingin á undirbúningstímanum voru rúmlega 6 klst., þar sem ég hljóp u.þ.b. 48 km og klifraði um 1800 m (þ.m.t. 3x Esjuna upp að steini og hring til Mosfellsbæjar).Lítið var um langar "back to back" æfingar og voru sunnudagsæfingarnar sjaldnar lengri en 2 klst. (þó einu sinni tók ég eina 3 klst. æfingu daginn eftir 5 ½ klst. æfingu).Las Palomas ströndin í fjarska.

Þó svo að formið fór stöðugt fram á við síðustu vikurnar fyrir "stóra daginn" þá var smá nagandi efi hvort undirbúningurinn hafi verið nægur, sérstaklega þar sem veðrið gerði það oft að verkum að æfing dagsins endaði á hlaupa brettinu.

Skundað af stað
Fyrr en varði var ég mættur á ströndina í Las Palmas þann 23/2 ásamt þeim u.þ.b. 1000 hlaupurum sem voru skráðir til leiks þetta fallega föstudagskvöld. Stemmingin var rafmögnuð sem samanstóð af skemmtilegri blöndu tilhlökkunnar, kvíða og spennu fyrir verkefninu sem beið okkar. Kom ég mér fyrir aftarlega í startinu og ekki leist mér á blikuna að sjá í hversu gríðarlegu formi hvern og einasti hlaupari var auðsjáanlega í allt í kringum mig. Vonandi hafði ég ekki vanmetið vegalengdina og klifrið sem beið mín! Eftir glæsilegan flutning opnunarlagsins var hlaupið ræst af stað kl. 23:00 með stórbrotinni flugeldasýningu, hvílík byrjun. Adrenalínið flæddi um allar æðar líkamans og ég varð að taka á öllu sem ég gat til að taka ekki á sprett! Eftir að hafa hlaupið eftir ströndinni var stefnan tekin til fjalla.

Dásemd fjalla
Áður en varði var maður kominn í langa röð hlaupar sem liðust áfram í myrkri þar sem höfðuljós mynduðu ótrúlega fallega órjúfanlega heild sem liðaðist upp og niður brekkur og hæðir. Í fjarska og stundum óþægilega nærri heyrðust spangól eða urr villihunda sem hafa lagt undir sig fjallshíðarnar. Þetta byrjaði vel, ég passaði mig á því að halda mig við næringar- og drykkja planið til að forðast vandræðin sem Cortina hlaupið færði mér síðustu 40 km með viðvarandi ógleði og uppköstum.

Artenara eftir ellefu klukkustundir og 60 km ferðalag.Einnig reyndi ég að passa að halda mig við þægilegan skokk hraða og muna eftir því að ganga allar brekkur. Á þriðju stöð á Moya voru 39 km að baki og ég á góðum tíma, fimm að morgni. Með þessu áframhaldi gæti ég mögulega náð mínu ítrasta markmiði að klára hlaupið á u.þ.b 22 klst.  Nú tóku við nokkuð brattar hlíðar með erfiðum tæknilegum stígum.Einnig var skemmtilegt hversu mjög gróðurfarið hafði breyst. Eftir að hafa hlaupið meðfram mannhæða háum kaktusum af ýmsum gerðum og stöku pálmatré þá tóku nú við tignarleg furutré sem mynduðu margbreytilega myndaramma þeirrar stjörnudýrðar sem lýsti upp svart himinhvolfið.

Við fyrstu skimu morgunsólar fór skyndilega að bera á verulegri andlegri og líkamlegri þreytu, til að bæta gráu ofan á svart þá fór nú óheillakrákan ógleðin að gera vart við sig. Þetta mátti bara alls ekki að gerast, og allra síst núna þegar ég var rétt að koma inn til Artenara eftir 62,6 km. Ég var þó enn á þokkalega góðum tíma, 11 klst. og 40 mín, auk þess nú þegar búinn að klifra 4310m. Hugsanlega hafði ég farið síðasta hlutann of hratt! Átti ég kannski að fylgja fordæmi margra sem þarna höfðu greinilega ákveðið að hætta. Nei sem betur fer tókst mér að bægja þessari aumingja hugsun fljótt frá. Í staðinn ákvað ég að hægja verulega á, ganga ALLAR brekkur og minnka hraðann á niðurskokkinu.

Eftir að hafa náð að innbyrða um 250 kcal, 2 salttöflur, kók og fylla á vatnsbrúsann var skundað af stað að nýju. Einnig hjálpaði ótrúlega fallegt útsýni og umhverfi sem við blasti í allar áttir til að gleyma allri þreytu og vanlíðan. Eftir langt niðurhlaup var næsta stöð kær komið stopp og ekki var síðra það frábæra viðmót og hjálpsemi sjálfboðaliða hlaupsins sem hvöttu okkur hlauparana vel áfram. Nú var komið að lengsta samfellda klifri hlaupsins sem taldi um 1100m og myndi enda í El Garanon þar sem auka pokinn beið mín. Við tóku endalausir krákustígar, sem margir hverjir voru ekki fyrir lofthrædda. Þetta klifur ætlaði engan endi að taka, en að endingu lá leiðin upp brattan og stórgrýttan stíg að hinum stórfenga skýja klettinum, Rouque Nublo (Rock in the Clauds). Sá stærri er 67 m á hæð og loksins stóð ég við fótskör hans í 1746 metrum, með ólýsanlegt útsýni yfir alla eyjuna.

Þarna í fjarska greindi ég sjóinn og endastöðina í Maspalomas, nú var bara að koma sér í varabirgðirnar með nýjum sokkum og orku til að takast á við síðasta hluta hlaupsins.En Adam var ekki lengi í paradís, allt í einu var öll orka úr skrokknum auk þess sem ógleðin ætlaði mig lifandi að drepa. Lærin voru farin, kálfarnir öskruðu á mig og lítill púki sem nú var farinn að leggja mig í einelti sagði mér að ég væri enginn maður í þetta, hefði ekki æft nóg og ætti að hætta þessari dellu strax og fara snúa mér alfarið að frímerkjasöfnun og lestri góðra bókmennta. Þannig var ég með nánast grátstafinn í kverkunum í El Garanon, nú voru 84 km að baki og klukkan var 16:56. Nú tók við gríðarleg innri barátta, ég gat með engu móti séð fyrir mér að geta haldið áfram í þær u.þ.b. 10 klst. sem ég taldi að það tæki mig að ganga restina, því gangtegund sem myndi lýkjast hlaupum var ekki í sjónmáli.Áfram veginnEftir að hafa þrælað ofan í mig pasta með tveimur GranCanari potatos (sem voru ljúffengar), auk þremur glösum af kóki fór að birta til í hausnum. Einnig fór ég á klósettið þar sem ég átti eina bestu "náðar stund" sem mitt minni rekur til, þá var enn og aftur arkað af stað. Einnig var það mér gríðarleg hvatning að hafa fengið skilaboð frá minni heitt elskuðu að bæði hún og drengirnir okkar höfðu náð að klára sitt hlaup með stæl (þann legg sem nú beið mín), um 42 km og 1321m hækkun. Hvílíkar hetjur, ég skyldi ekki vera sá eini í hópnum sem kláraði ekki, meira væl var ekki í boði. Rough Nublo, tæpir 80 km að baki.

Tejeda, ótúrlega falleg víðátta og fjallasýnUpp frá þessu reyndi ég að koma ofan í mig geli á u.þ.b. 45 min. fresti og drakk nú lítið annað en kók (cola) milli stöðva. Þessi lokahluti leiðarinnar var mun erfiðari en mig hafði órað fyrir. Stígarnir voru meira og minna þaktir stórgrýti, eða snarbrattir þar sem engin leið var að hlaupa nema leggja sig í stór hættu. Einnig þurfti blaðra undir hægri stórutá að gefa sig þannig að ég varð að vanda niðurstig, sem var nánast útilokað í þessu landslagi.Slóst ég í hóp japanskra hlaupara og fylgdi þeim eftir síðasta langa klifrið sem framundna var, um 895 m hækkun. Hægt og rólega öðlaðist ég kraft og sjálftraust að nýju og seig rólega fram úr þeim. Upp frá þessu var brautin aðallega niður á við. Fór ég nú að geta hlaupið við fót og þannig seig ég fram úr þó nokkrum hlaupurum, en þó voru alltaf einhverjir sem ég hleypti fram fyrir mig.

Við tók hrjóstugra landslag með stöku kaktusum og óþekktum runnablómum. Höfðuljósið með aukarafhlöðu var komið á fyrir nokkru og lýsti leiðina í átt að endamarkinu sem virtist innan seilingar.

Aldrei segja aldrei
Loksins var ég komin til þorpsins Ayagaures eftir 109 km hlaup og eingöngu eftir að klára u.þ.b. 360m hækkun. Klukkan var núna orðin 21:24 (tæpum 2 klst. eftir áætlun m.v. 23 klst. takmarkið), en vel innan marka til að klára. Var mér virkilega að takast þetta! Þarna náði ég að innbyrða eitt gel, gómsætan hrísgrjónarétt með þremur kartöflum, 2 salttöflur, slatta af cola auk vatns. Eftir nokkra baráttu við að halda þessu niðri þá var haldið af stað í síðustu brekkuna. Sem betur fer var nú um að ræða þægilegan aflíðandi stíg sem hlykkjaðist upp eina af þeim hlíðum sem rammaði þetta fallega fjallaþorp inn. Lundin varð léttari, brekkan var á enda og eingöngu niðurhlaup og u.þ.b. 15 km eftir, húrra!

En fljótt kom í ljós að það var of snemmt að fagna. Við tóku verulega tæknilega erfiðir og stórgrýttir stígar. Hvernig þeim bestu tekst að hlaupa þarna er mér hullinn ráðgáta. Allavega var enginn á hlaupum nálægt mér að því er virtist og þegar niður var komið tók við enn stórgrýttari árfarvegur þar sem oftar en ekki, þegar hér var komið, var nánast útilokað að hlaupa. En nú var ég staðráðinn að klára og ég ætlaði að gera það hlaupandi hvað sem það kostaði, og af stað fór ég. Þannig silaðist ég fram úr 4 eða 6 hlaupurum þegar ógleðin helltist skyndilega yfir mig af slíkum krafti að engu var við komið. Þannig stóð ég spúandi eins og múkki þar til ekkert var eftir nema gall og táraflæði sársauka, gremju og reiði yfir vesaldómi þess manns sem þarna sat fastur.Var þetta endirinn? En þá mundi ég eftir orðum eiginkonunnar úr fyrra hlaupi þar sem mér var fyrirskipað að hætta þessu væli og drulla mér af stað! Þessi hugsun sparkaði hressilega í mig og dugði mér til þess að skokka þá 7 km sem eftir voru í markið eftir áveitu skurði sem tók okkur að endamarkinu í Maspalomas.Það voru miklar og heitar tilfinningar sem flæddu út í allar æðar þegar ég mætti Guðbirni og Valgeiri rétt við endamarkið sem þar voru mættir til að hvetja gamla manninn síðustu metrana. Ekki var síðra að sjá mína heitt elskuðu eiginkonu rétt við endamarkið, þannig var það úr að í endamarkið kom grátklökkur afi eftir 25 klst. og 21 mín ævintýarferð stranda á milli þessarar ævintýra eyju.Hamingjusamar fjallageitur. Guðbjörn Snær Björnsson (42.2 km, 1300m hækkun. Tími 4:56:36 (28 sæti í flokki)), undirritaður (128 km, +7500m hækkun; Tími 25:20:21 (54 sæti í flokki)), Rósa Karlsdóttir (42.2 km, 1300m hækkun. Tími 6:48:06 (14 sæti í flokki)), Valgeir Páll Björnsson (42.2 km, 1300m hækkun. Tími 5:34:12 (39 sæti í flokki).

Að baki lágu 128 km með +7500m heildar hækkun. Mér tókst því að ljúka hlaupinu í 483 sæti af þeim 676 sem kláruðu af þeim ríflega 1000 sem voru skráðir til leiks. Það skemmtilega er að núna er ég með tíma og árangur sem gerir mig hæfan til að reyna komast inn í Western100 2019, því fjöllin toga!