Lavaredo Ultra Trail: Pistill eftir Björn Rúnar Lúðvíksson

birt 27. september 2017

Björn í miðjum helli, stórbrotið landslag. Það var kominn október, og engin markmið fyrir næsta ár komin á blað. Hásinin vinstra megin var enn að plaga mig, en hún ætti að hafa náð að gróa. Einnig var hægri kálfinn enn aumur eftir að hafa slitnað að hluta eftir hjólaævintýrið frá því í júlí.Þetta gekk ekki, best að setja sér háleitt markmið fyrir næsta sumar. Hugurinn stefndi að aðeins lengra og meira krefjandi hlaupi eftir Zugspitz ultra (101,6 km; 5412 m hækkun) en mér hafði tekist að klára það með vinstri hásinina hálf slitna. Fyrir valinu varð Lavaredo ultra trail í Cortina Ítalíu, 120 km og 6000 m hækkun. Til að fá inngöngu þarf maður að hafa lokið fjögurra punkta hlaupi árinu á undan (sem ég hafði frá Zugspitz).

Tæplega 4000 hlauparar sóttu um þau 1500 pláss sem í boði voru og varð ég svo "heppinn" að vera dreginn út!

Í framhaldinu sannfærði ég Rósu að taka þátt í Cortina ultra trail hlaupinu (48 km og 2650 m hækkun) sem fer fram á sama stað (byrjar og endar á sömu hlaupleið og lengri leggurinn). Þar voru einnig "einungis" 1500 sæti í boði og varð það úr að bæði hún og yngsti sonur okkar, Guðbjörn Snær, fengu inni í hlaupinu. Þá var komið markmið og ég fann kraftinn og tilhlökkunina fyrir því undirbúningsferli sem framundan var streyma fram í alla þræði líkama og sálar.

Undirbúningur hefst
Var því sett saman æfingaplan fyrir okkur öll sem byrjaði strax í desember. Var megin áherslan lögð á styrk, brekkur og langar æfingar. Einnig byrjaði ég strax í janúar að taka langa laugardagsæfingu og síðan fjall á sunnudegi. Fórum við því fyrstu ferðina á Helgafellið í byrjun janúar, en fyrsta Esjuferðin var ekki farin fyrr en í febrúarbyrjun. Byrjaði ég mjög snemma að hlaupa utanvegar og eftir stígum, oft í töluverðum snjó og ís sem gerði þetta bara miklu skemmtilegra og meira krefjandi. Það er ótrúlega fallegt að hlaupa í myrkri og horfa á ljós höfuðborgarinnar í fjarska þegar á einhvern tind er komið í þeim perlum sem er að finna í nágrenni hennar, einn með sjálfum sér og náttúrunni.

Ekki leiðinlegt að eiga mynd af sér í landslagi sem er meira í ætt við málverk.

Upp úr apríl fór ég að hlaupa meira á Hengilsvæðinu og komu þá broddarnir sem ég hafði fjárfest í (lengri en almennt gerist) sér oft vel í ísilögðum hlíðum þessa magnaða umhverfis og þeirra fjölmörgu hlaupaleiða sem þar er að finna. Í maíbyrjun vorum við búin að færa Esjuhlaup á þriðjudaga (byrjaði á einni ferð, endaði á þremur), og var þá  búinn að bæta 20 - 32 km "back to back" löngu hlaupi í brekku- og utanvega umhverfi á sunnudögum við æfinga planið.

Hægt og rólega fór sjálfstraustið að vaxa, sérstaklega þar sem í maíbyrjun var ég nánast búinn að jafna mig að fullu af meiðslunum sem ég varð fyrir árinu á undan. Fór ég þá að bæta við meira af hraðaæfingum og komu þá brekkusprettirnir með hlaupahópi Stjörnunnar að góðum notum. Nú var mögnuðum undirbúningstíma lokið þar sem ég hafði hlaupið mikið af áður ókönnuðum leiðum og sett saman aðrar mjög skemmtilegar ferðir. Frá því í janúar hafði ég lagt 1979 km að baki, 7sjö ferðir á Helgafellið, Vormaraþon (42,2 km), nítján Esjuferðir að Steini, Kambahlaupið, Ölkelduhlaupið og þrjár ferðir upp á Vörðuskeggja. Lengsta vikan varð 136 km, lengsta æfingin sjö klst (48 km með 1800 m hækkun), þannig að ég var tilbúinn!

Nú er haldið af stað
Það var mögnuð tilfinning að vera kominn í startið með 1500 ultra-hlaupurum í miðbæ Cortina. Hlaupið hefst kl 23, svart myrkrið umlykur bæinn og sveipar tignarlegum fjöllum Alpanna undraverðum dulúðlegum blæ. Gæsahúðin nær svo fullkomnum tökum á manni við hið magnaða tónstef Ectasy of Gold eftir Ennio Morricone sem flestir kannast við úr mynd Clint Easwood The good, the bad, and the ugly en verkið er spilað við upphaf hlaupsins. Nafn myndarinnar átti eftir að passa vel við gang hlaupsins hjá undirrituðum. Hlaupið var byrjað! Mjög fljótlega vorum við komin í svarta myrkur, allir með höfuðljós þar sem hver og einn finnur sinn hraða og takt.

Ég kom mér fljótlega í hóp hlaupara sem mér fannst vera á svipuðu róli og skiptust menn á því að leiða án þess að nokkur orðaskipti ættu sér stað. Þannig liðuðumst við í gegnum mismunandi stíga, brekkur og landslag í náttmyrkrinu næstu 6 -7 klst. Þegar komið var á þriðju stöð (Rifugio Auronzo, 49 km) var ég á mjög góðum tíma 7:43:18 og líðan verulega góð. Þetta gekk eins og í sögu.Þarna var farið að birta og hafði ég slökkt á höfuðljósinu nokkuð fyrr. Nú tók við dásamlegur kafli þar sem stórbrotið umhverfi og fjallsýn Dolomiti tekur á móti manni í hverju skrefi út allt hlaupið (t.d. Cristallo, Tofane, Cinque Torri, og the Tre Cime).Þéttur hópur hlaupara með höfuðljós í upphafi hlaups.

Einnig fór að hitna verulega, en spáin gerði ráð fyrir óvenjulega miklum hita um daginn (sem átti eftir að fara illa með fjölmarga hlaupara, þ.m.t. undirritaðann). Hlaupaplanið var að ganga nokkuð vel upp, drekka og borða reglulega en þó hafði ég hægt ómeðvitað á hvoru tveggja þegar á þetta stig var komið.

Hæðir og hiti
Á Cimbanche (þar var stöð þar sem hægt var að komast í vara-birgðir af mat, fötum og drykk) var ég í góðum gír, 67 km, stór hluti hækkunar að baki og á góðum tíma 10:03:03. Borðaði nokkuð vel og drakk. Nú var hins vegar hitinn orðinn nokkuð meiri og upp úr 80 km fór flökurleiki að gera mér lífið leitt. Þetta var ný reynsla fyrir mig á hlaupum og hafði ég gleymt að hugsa vel út í þennan möguleika og hvað væri skynsamlegast að gera í slíkum tilvikum. Auðvitað gerði ég það sem ég átti ALLS ekki að gera, hætti að drekka og borða! Það endaði á því að við 85 km byrjaði ég að kast upp eins og átti við um marga aðra hlaupafélaga mína. Hér fór verulega að draga úr mér, mikill hiti og vanlíðan tóku að varpa skugga á hina hlið hlaupsins sem var hið margbreytilega og flotta landslag sem við manni blasti hvert sem litið var. Einnig voru stígarnir að mörgu leiti erfiðari en ég hafði gert ráð fyrir.

Þetta voru oft á tíðum mjög þröngir, snarbrattir- og grýttir stígar sem stundum kölluðu nánast á minni háttar klifur. Upp úr 90 km fór maður að hlaupa fram hjá hlaupurum sem voru einfaldlega búnir á því, lagstir í fjallshlíðina og bíða þess sem verða vildi. Á þessum kafla erum við stanslaust í 2000 - 2500m+ sem orsakar það að sú litla súrefnis minnkun sem á sér stað í slíkri hæð fer að gera vart við sig við þá miklu áreynslu sem á sér stað við utanvegahlaup.Megin einkenni fjallaveiki eru minnkuð matalyst, ógleði, uppköst, svimi og magnleysi, ég var kominn með ÖLL þessi einkenni og datt ekki í hug að það ætti við mig. Á þessum kafla fór ég á hraða snigilsins, var 2 klst. og 41 mín að fara 9 km leið!Brekkurnar eru miskunnarlausar í Lavaredo Ultra Trail.

Engin miskunn
Við Passo Giau (104 km) var ég einfaldlega búinn á því andlega og líkamlega. Hér ætlaði ég að hætta, gat ekki meir. Hélt engu niðri sama hvað ég reyndi. Þar sem ég lá í eymd minni og sjálfsvorkunn þá hringir eiginkonan í mig (hafði gleymt að láta vita af mér um nokkurn tíma, en hún var á þessu stigi að ljúka sínu hlaupi með glans). Þar sem ég er með grátstafinn í kverkunum þá les hún mér pistilinn, að ég eigi að rífa mig upp á buxunum fá mér kók og labba af stað. Það væri einfaldlega ekki í boði að fara hætta þegar svona stutt væri eftir! Eins og góðum eiginmanni sæmir þá hlýðir maður umyrðalaust sínum konum og af stað komst ég eftir að hafa náð að halda niðri einu kók glasi.

Nú beið mín mjög bratt klifur, ákvað ég því að ganga restina, enda enn á þokkalegum tíma (19:28:31) og hafði því 10 klst.  til að klára hlaupið. Þegar á topp var komið fengum við dísætt heitt te og náði ég að halda því niðri, sem gerbreytti allri líðan. Nú gat ég farið að jogga niður- og ganga aðeins hraðar upp brekkurnar. Við síðustu stöð, Rifugio Croda del Lago (111 km) reyndi ég að drekka kók og borða heita súpu, en það skilaði sér allt aftur til fósturjarðarinnar. En það undarlega gerðist að eftir að hafa kastað upp og kúgast endalaust eins og múkki þá fylltist ég af ótrúlegri orku og hljóp af stað niður fjallshlíðina með barnslegri gleði og bros í hjarta í átt að endamarkinu sem beið mín 10 km og 1100 m neðar. Á þessum kafla tók ég fram úr fjölmörgum hlaupurum og leið bara ljómandi vel þegar markið var komið í sjónlínu. Til að toppa þessa sælustund þá mæti ég Guðbirni þar sem hann og Rósa höfðu spottað mig á hlaupum þar sem þau voru að kaupa sér pizzu og áttu engan veginn von á mér svona fljótt.


Björn lenti heldur betur í hremmingum á leiðinni, en kláraði með sæmd og rúmlega það, í 465. sæti af 1064.

Það er ekki hægt að lýsa með orðum öllum þeim tilfinningum sem um mig hrísluðust þegar ég vissi að mér var að takast þetta. Enda lauk þessu þannig að ljósin slökknuðu u.þ.b. 30 - 50 sekúndum eftir að í mark var komið og mér komið fyrir í sjúkratjaldinu með vökva í æð þar sem enginn blóðþrýstingur fannst hjá gamla. Mögnuðu 120.9 km hlaupi (5850 metra heildar hækkun) og enn skemmtilegri undirbúning var lokið hjá okkur öllum, þar sem bæði Guðbjörn og Rósa kláruðu sín ofurhlaup með miklum ágætum og töluvert betri líðan í markinu en hjá gamla manninum. Loka tíminn var 22:47:50 (465 sæti af 1064 sem kláruðu,  en rúmlega 1500 byrjuðu).

Hvað svo? Nú fara æfingar aftur að byrja. Líklega verður Reykjavíkurmaraþon næsta verkefni og síðan New York í nóvember. En fjöllin, löngu hlaupin og nýjar áskoranir heilla. Það góða við minn aldur er hvað maður er ótrúlega fljótur að gleyma:)