Pistlar Kristínar Irene Valdimarsdóttur: Rómaður Rocky

birt 13. mars 2018

Nýr pistlahöfundur hefur gengið til liðs við hlaup.is. Kristín Irene Valdemarsdóttir er kennari, skíðakona og hlaupari. Hún hefur stundað hlaup frá árinu 1996 og hefur einlægan áhuga á öllu því sem viðkemur hlaupum, hreyfingu og útivist. Kristín heldur utan um vefsíðuna www.skottast.is þar sem hún safnar saman áhugaverðu efni, fróðleik og greinum um ofangreint. Einnig má finna fésbókarsíðu skottast.is undir sama nafni.Hlaup.is er í leit að fleiri pistlahöfundum sem eru tilbúnir að láta gamminn geysa um allt sem sem tengist hlaupum. Skilyrði er að viðkomandi sé bæði ritfær og áhugasamur um okkar ástkæra áhugamál, hlaupaíþróttina. Áhugasamir hafið samband við heimir@hlaup.is eða torfi@hlaup.is. Hér að neðan má sjá fyrsta pistil Kristínar.

Rómaður Rocky

Sjaldnast hægt að stóla á blessaða blíðuna. Við stödd í ballarahafi, miðja vegu í algleyminu, Ameríka - Rússland. Golfstraumurinn lætur sér nægja að blása hingað heitum vindum endrum og eins, þess á milli noprum við í kuldanum. Hvað sem því líður, fastir liðir eins og venjulega; vinna, sofa, borða, þess á milli gerum við okkur far um að lífga upp á mannsandann. Hreyfing grundvöllurinn að betra lífi stendur einhversstaðar skrifað, - en hvað með allt þetta myrkur? Veturinn miskunnarlaus; kuldi, frost, næðingur og trekkur, og stundum ekkert annað hægt að gera í stöðunni en að kyngja stoltinu og taka því sem almættið býður.

Hundslappadrífa og íslenskur gaddur að norðan. Stend í heimaprjónuðu lopapilsi ótilgreidd í dyragættinni og velti því fyrir mér hvort ég eigi að láta slag standa, hunskast út í bylinn og takast á við móður náttúru.

Jú, íslenskur vetur í allri sinni dýrð, ekkert val. Þæfingur á gangstéttunum og skyggnið, ja svona nokkrir metrar. Ruðningar og velslípað svell undir lausamjöllinni.Íslenska þrjóskan segir mér að hver sem er geti átt við veðurhaminn, það eru aðeins sófadýr sem hafast við heima. Jú, í þetta skipti ætla ég mér út að hlaupa. Nútímakona á negldum hlaupaskóm. Sting annarri tánni út og sýp hveljur, um mig fer norðlenskur vetur. Geri mér far um að rýna í sortann og þykist góð þegar ég sé móta fyrir götulýsingunni. Jú, jú þetta verður í góð lagi, læt vaða og þumbast út. Kolsvart janúarmyrkrið lætur ekki á sér standa og gleypir mig.

Nú komin á góða ferð og líður bærilega. Bíll fer hjá á hægferð, hvíthrímaðar bílrúður og dugmiklar vinnukonur mega hafa sig allar við. Fyrir innan tvö árvökul augu, nú er að duga eða drepast, svo ég lendi ekki undir bílnum. Læt mig hafa það að hlaupa upp á einn ruðninginn, staldra við og hleypi óþolinmóðum bílstjóra framhjá.

Á hlaupunum læt ég hugann reika og dvel við minningu um Rocky Balboa. Ítalsk ættaðan vin minn úr tímamótaverki kvikmyndasögunnar frá árinu 1976. Uppdiktaður af sjálfum Sylvester Stallone og leikstýrt af John G. Avildsen. Rocky búsettur í Fíladelfíu í Bandaríkjunum lepur dauðan úr skel, fær tilboð um að taka þátt í bardaga við einn harðasta þungavigtarmann sögunnar. Til að gera langa sögu stutta ákveður Rocky að slá til, kemur sér í gott form með því að berja á upphengdum kjötskrokkum, mundar hnefana einbeittur og lætur höggin dynja á risavöxnu kjötstykki. Reiður, ungur maður á uppleið.

Nú er ég komin í gírinn, reyni að ná sambandi við minn eigin Rocky, sé hann fyrir mér í gráum joggingfötum á hlaupum um götur Fíladelfíu. Er einhvern veginn ekki lengi að tengja, þó að ég geri ráð fyrir að þar hafi verið ögn skárra veður en hér og nú. Jú, svört húfa á hausnum og vel girtar buxur, en enginn snjór í minningunni. Áfram hlaupum við, ég og Rocky, ég á Íslandi hann í Ameríku. Ekki margir á ferðinni í þetta skipti, ég ein, alein í norðankalsanum. Nú tekur Rocky sprettinn og ég ekki frá því að ég gefi aðeins í, skafrenningurinn ógurlegur og silast nú strætisvagn framhjá mér, fáeinar sálir mæna út um móðumæddar rúður. Ég gef ekkert eftir og hugsa til þess glaðbeitt þegar Rocky tekur tröppuatriðið, skref, fyrir skref ein trappa á fætur annarri, tónlistin bylur, ekki bumba og horn honum til dýrðar heldur taktfast rokk, auga tígursins uppglennt. Framtíðin er hans, stundin er núna. Hann er sigurvegarinn í eigin lífi. Hann er kominn til að vera, sama um veður og vinda, ást eða sorg stundin er hans, lífið er núna.