Pistlar Kristínar Irene Valdimarsdóttur: Tina Emilie Forsberg, tindar, trú og þróttur

birt 08. febrúar 2018

Nýr pistlahöfundur hefur gengið til liðs við hlaup.is. Kristín Irene Valdemarsdóttir er kennari, skíðakona og hlaupari. Hún hefur stundað hlaup frá árinu 1996 og hefur einlægan áhuga á öllu því sem viðkemur hlaupum, hreyfingu og útivist. Kristín heldur utan um vefsíðuna www.skottast.is þar sem hún safnar saman áhugaverðu efni, fróðleik og greinum um ofangreint. Einnig má finna fésbókarsíðu skottast.is undir sama nafni.Hlaup.is er í leit að fleiri pistlahöfundum sem eru tilbúnir að láta gamminn geysa um allt sem sem tengist hlaupum. Skilyrði er að viðkomandi sé bæði ritfær og áhugasamur um okkar ástkæra áhugamál, hlaupaíþróttina. Áhugasamir hafið samband við heimir@hlaup.is eða torfi@hlaup.is. Hér að neðan má sjá fyrsta pistil Kristínar.

Tina Emilie Forsberg, tindar, trú og þróttur 

Hún fer hratt yfir, staldrar stutt við og gefur ekkert eftir í brekkunum. Breitt brosið er sjaldnast skilið eftir heima. Emelie Tina Forsberg fæddist í litlu þorpi í austurhluta Svíþjóðar árið 1986. Hún er ein af sterkustu fjallvegahlaupurum Svía og þó víðar væri leitað. Hún hefur unnið til ótal verðlauna á heimsvísu og er þekkt fyrir endalausa bjartsýni og ótrúlegt þolgæði.

Forsberg var alin upp, ásamt systur sinni, af einstæðri móður. Hún er lítillát, með stórt hjarta og ber sérstaka umhyggju fyrir umhverfi og náttúru. Segja má að Forsberg hafi hlotið fjallamennsku, klifur, skíðamennsku og berja- og sveppatínslu í vöggugjöf, - enn í dag eru þessir þættir stór hluti af lífi hennar.Um 15 til 20 ára skilgreindi Forsberg sig fyrst og fremst sem klifrara, en um 18 ára aldur byrjaði hún að vinna sem þjónn á hóteli á skíðasvæðinu í Åre í Svíþjóð og í vaktafríum hljóp hún upp til fjalla af eintómri gleði eða til að koma sér frá einum stað og yfir á annan, - frá einu þorpi til annars.

Hlaupaferillinn hefst fyrir alvöru
Fyrsta alvöru fjallvegahlaup Forsberg var árið 2009, þá mætti hún til leiks með bakpoka sem hún hafði fengið að láni hjá góðum vini og nýbakaðar súkkulaðikökur sem hún borðaði í einni pásunni á leiðinni.  Hlaupið vann hún með miklum glæsibrag þrátt fyrir 20 mínútna nestisstopp í einni brekkunni. Ári síðar tók hún aftur þátt í sama hlaupi, vann og bætti fyrra met um 30 mínútur. Þarna hófst hlaupaferillinn fyrir alvöru. Nú tók hún þátt í hverju hlaupinu á fætur öðru og bar oft sigur úr býtum. Í beinu framhaldi af sigurgöngu Forsberg var henni boðin þátttaka í alþjóðlegum hlaupum, þar sem hún lenti oftast í einu af fyrstu sætunum. Þá gerði hún sér grein fyrir því að, það sem hafði meðal annars veitt henni gleði og hamingju í heimahögunum var í raun keppnisgrein í Ölpunum, skyrunning eða tindahlaup. Árið 2012 var Forsberg svo boðinn styrkur á vegum útivistafyrirtækisins Salomon og þar með var ekki aftur snúið, nú var hún búin að sanna hæfileika sína, styrk og getu á alþjóða mælikvarða.

Þá flutti Forsberg til Tromsø í Noregi til að stunda nám í jarðfræði við háskólann þar og til að hlaupa á háu fjöllin í nágrenni bæjarins. Um þetta leyti byrjuðu hún og Kilian Jornet saman (hann, einn sterkasti fjall- og utanvegahlaupari í heimi). Óhætt er að fullyrða að þar með höfðu tveir af frambærilegustu einstaklingunum á þessu sviði fundið hvorn annan.

Þykir best að hafa engan þjálfara
Um 2012, eða fljótlega eftir að Forsberg flutti til Tromsø, bætti hún markvisst skíðaæfingum inn í æfingakerfið yfir vetrartímann. Jú, hún hafði verið vön að skíða í Svíþjóð en nú tók hún skíðin og æfingarnar fastari tökum. Fjallaskíðamennska sem keppnisgrein, eins og hún þekkist víða í Evrópu og í Bandaríkjunum varð nú að alvöru, skinnum skellt undir skíði og skundað af stað upp á fjallstoppa og skíðað niður. Hratt upp og hratt niður. Nú urðu þau Jornet nánast því ósigrandi í utanvegahlaupum, fjallahlaupum og skíðamaraþonum. Hjúin stigu svo skrefinu lengra með því að koma á fót tindahlaupi í Tromsø í Noregi, Tromsø Skyrace, sem hefur verið vel sótt.

Í gegnum tíðina hefur Forsberg fengið spurningar er líta að þjálfun og skipulag. Hún hefur viðurkennt að henni henti best að hafa enga þjálfara. Þegar hún er spurðafhverju hefur svarið verið, að það hæfi henni best, þar sem hún keppi bæði á veturna og sumrin, í tveimur ólíkum greinum. Því sé best að hún sjái sjálf um þjálfunina.

Þá byggist meginhluti þjálfunarinnar upp á, annarsvegar löngum hlaupatúrum upp til fjalla, jafnvel í sex til tíu klukkutíma í senn og hinsvegar á tveimur styttri hlaupum, einn fyrri part dags og annar seinni part dags.  Þá byggir hún skíðaþjálfunin upp á svipaðan hátt yfir vetrartímann. Við þetta bætir Forsberg yoga og hugleiðslu sem hún telur mjög mikilvæga.

Kom til baka með látum eftir alvarleg meiðsli
Forsberg hefur unun af að hlaupa í tæknilega erfiðu landslagi; fjöll, stígar, grjót og klettar eru hennar sérsvið. Hún leggur áherslu á vellíðan á hlaupunum og bendir á að þannig geti hún ávallt tekist á við næstu áskorun. Hæfilegur hraði hentar henni best, hún gerir lítið úr því að ganga fram af sjálfri sér og hraðaæfingar eru henni ekki að skapi.

Í Evrópukeppninni í fjallaskíðun í Chamonix í Frakklandi í febrúar árið 2016 varð Forsberg fyrir því  óhappi  að keppandi keyrði yfir skíðið hennar með þeim afleiðingum að hún datt og meiddist á hné. Forsberg fór í aðgerð og í hönd fór langur tími í endurhæfingu en hún missti aldrei móðinn. Markvissar æfingar og yoga skilaði sér og á þrjóskunni var hún mætt í keppni innan við hálfu ári síðar. Það þótti með ólíkindum og enn meiri furðu vakti að 23. júlí sama ár vann hún Kendall fjallahlaupið í Colorado.

Fjallið Cho Oyu í Himalaya fjallgarðinum.Þá hefur Forsberg daðrað við drauma um háfjallamennsku með hlaupum og skíðamennsku.  Í apríl 2017 tilkynntu þau Jornet að þau hyggðust klífa fjallið Cho Oyu (8188 m) í Himalaya fjallgarðinum. Hugmyndin var að vera létt á göngunni og fara hratt yfir. Þá ætluðu þau sér að nota aðeins tvær vikur í leiðangurinn.Til undirbúnings svaf parið í tjaldi í um 5500 til 6000 metra hæð og æfði sig í Ölpunum við það að hlaupa upp á Mont Blanc fram og tilbaka á sjö klukkutímum, samtals 4000 metra, nokkrum sinnum.

Skemmst er frá því að segja að Forsberg snéri við vegna veðurs, þegar hún var komin í um 7700 m. Jornet hélt hinsvegar áfram og er enn óviss um hvort hann náði tindinum, þar sem skyggnið var afleitt. Í beinu framhaldi af Cho Oyu ævintýrinu nýtti Forsberg sér eigin kraft og styrk úr háfjallamennskunni og skellti sér strax í tinda- og fjallvegahlaup í Evrópu og náði þar nær alltaf vinningssætum.

Býr á bóndabæ og ræktar vistvænar afurðir
Enn í dag búa Forsberg og Jornet í Noregi. Þau hafa nú fest kaup á bóndabæ í Måndalen í Rauma, um 500 km norður af Bergen, og reyna fyrir sér í margskonar ræktun, með áherslu á vistvænar afurðir. Forsberg deilir áhuga sínum og ástríðu á málefninu á samfélagsmiðlum. Þar segir hún meðal annars frá kindunum sínum (Rufsa, Tufsa, Bruna og Lakrits), gefur lesendum góð ráð um ræktun og gaukar að fólki gómsætum uppskriftum.

Forsberg er með ótal styrktaraðila og viðurkennir að stærsta og mesta áskorun atvinnuhlauparans felist í því að viðhalda ástríðunni og hvatanum. Þá telur hún að án náttúrunnar og umhverfisins væri hún ekki sami íþróttamaðurinn og hún er í dag.  „my passion for being outside-running/skiing/climbing/picking berries/walking/having a picnic/gardening/farming -has always been there and I would not let anything take away my passion for that. That''s who I am..."

Svo mörg voru þau orð um þessa kraftmiklu íþróttakonu sem er enn að og á nóg eftir.

Heimildir:
https://en.wikipedia.org/wiki/Emelie_Forsberg
http://edition.cnn.com/2014/10/08/sport/emelie-forsberg-sky-running/index.html
http://www.emelieforsberg.com/
http://www.suunto.com/sports/News-Articles-container-page/Recovering-from-injury-with-Emelie-Forsberg/
https://tromsoskyrace.com/