Var að fá afmælisblað RM í hendurnar. Þar er m.a. viðtal við Knút Óskarsson, sem verið hefur formaður RM frá upphafi. Enn og aftur eignar hann sér tilurð hlaupsins og gerir hlut frjálsíþróttahreyfingarinnar lítinn sem engan. Hingað til hef ég ekki verið að eltast við þessa söguskýringu Knúts en finnst nú nóg komið. Knútur var árið 1983 starfsmaður ferðaskrifstofunnar Úrvals og var sem slíkur að leita tækifæra til að fá fleiri ferðamenn til landsins. Í viðtalinu kemur fram að tilraun ferðaskrifstofunnar til að halda alþjóðlega skíðagöngu ,,Lava Loppet" í Bláfjöllum gekk ekki upp á árunum 1981 og 1983. Ég var í varastjórn FRÍ árið 1983 og man eftir því að bréf frá Úrval var tekið til afgreiðslu í stjórn sambandsins. Örn Eiðsson, þáverandi formaður FRÍ, bað mig um að tala við Knút um þá hugmynd ferðaskrifstofunnar að efna til maraþons í Reykjavík. Það gerði ég og frá þeim tíma varð þetta samstarf til.
Á þeim tíma var þegar í gangi umræða innan frjálsíþróttahreyfingarinnar um maraþon í Reykjavík. Maraþonhlaup hafði þegar farið fram árið 1980 frá Kambabrún til Reykjavíkur að frumkvæði Guðmundar Þórarinssonar, þjálfara frjálsíþróttadeildar ÍR, og fleiri. Sigfús Jónsson, langhlaupari, stóð svo fyrir fyrsta Íslandsmeistarmótinu í maraþoni í Reykjavík árið 1981 og síðan hélt frjálsíþróttadeild FH Íslandsmótin 1982 og 1983. Það var því þegar búið að stíga fyrstu skrefin og leggja góðan grunn að því sem síðar varð. Knútur Óskarsson hefur því ekkert með upphaf maraþonhlaupa á Íslandi að gera.
Það sem okkur innan frjálsíþróttahreyfingarinnar fannst áhugavert í hugmyndum Knúts á þessum tíma var að fá öfluga stuðningsaðila bak við hlaupið og að kynna það erlendis. Á þessu sviði kom hann með nýjar tengingar og gat í gegnum Úrval kynnt hlaupið miklu betur á erlendum vettvangi en FRÍ hafði möguleika til. Fyrir þetta á Knútur þakkir skyldar. Það skal ekki frá honum tekið að hann kom með nýjar hugmyndir, nýja tengla og var áhugasamur. Hins vegar var sú reynsla og sú þekking sem var innan frjálsíþróttahreyfingarinnar af mótahaldi og framkvæmd götuhlaupa lykilatriði að því að hægt væri að framkvæma Reykjavíkurmaraþon. Starfsfólk RM hefur frá upphafi svo til eingöngu komið frá íþróttafélögum innan FRÍ. Á þátt þessa fólks og frjálsíþróttahreyfingarinnar í heild minnist Knútur ekki á. Ekki veit ég af hverju.
Sem dæmi nefnir hann að miklu máli hefði skipt í upphafi að hann hafi fengið góð ráð frá framkvæmdaraðilum Berlínar maraþons. Þetta hef ég ekki heyrt áður. Veit ekki betur en að við langhlauparanir á þeim tíma höfum lagt línuna hvað varðar framkvæmdina, skrifuðum upplýsingarbæklinginn, völdum og mældum hlaupaleiðina o.s.frv. Svo ég tali nú bara um sjálfan mig þá var ég þegar kominn með mikla reynslu af þátttöku í maraþonhlaupum árið 1983 og átti því auðvelt með að miðla henni til gagns fyrir RM. Fyrsti framkvæmdastjóri RM var Gunnar Páll Jóakimsson, sem einnig hafði mikla reynslu. Sennilega erum við ,,gömlu" hlaupararnir" eitthvað hógværari en Knútur varðandi framlag okkar til hlaupsins.