Reykjavíkurmaraþon 2001 - Pétur Helgason

birt 01. febrúar 2004
Frásögn Péturs Helgasonar

Veðurútlitið var gott alla vikuna fyrir maraþonið en á miðvikudeginum kom langtímaspáin. Veðurfræðingurinn sagði að nú væri að myndast lægð vestur af Grænlandi og þar mættust heitur og kaldur loftmassi. Sem sagt gott fóður í djúpa og kröftuga lægð sem færi yfir landið um helgina. Var þetta nú ekki dæmigert. Búið að vera gott veður alla vikuna og svo kemur helgi með maraþoni og menningarnótt og þá gerir vitlaust veður. Þegar nær dró helginni batnaði þó spáin. Lægðin stefndi sunnar og var ekki eins illvíg og í fyrstu var talið.

Á laugardagsmorguninn var skaplegt veður, þurrt en dálítill vindur. Metþátttaka var í maraþoninu. Yfir 200 manns, mest útlendingar. Tveir Kenyamenn ætluðu að vera með og nokkur spenna í loftinu. Við Trausti hituðum upp saman. Trausti átti eftir að komast undir þrjá tíma og við ræddum um það hvort það myndi takast í þetta skipti. Hann var að hugsa um að fara hratt af stað en ég taldi það óráðlegt enda hafði slík taktík ekki gengið upp hingað til. Nú var í fyrsta skipti var hlaupin ný leið og þó við hefðum oft hlaupið þessa stíga áður var spennandi að sjá hvernig þetta kæmi út.

Það var þægilegt að koma sér fyrir ráslínuna. Nóg pláss og engin örtröð þar sem 10km og hálfmaraþonhlaupararnir voru ekki að blanda sér í hópinn. Nú fór spennan ört vaxandi, talið var niður og skotið reið af. Kenyamennirnir byrjuðu fyrir aftan okkur og er þetta í fyrsta skipti sem ég hef verið á undan slíkum görpum. Eftir tvo kílómetra renndu þeir fram úr okkur og hafa eflaust bara verið að hita upp þarna í byrjun. Guðmundur frændi og Ingólfur fasteingasali voru á undan okkur ásamt nokkrum útlendingum. Trausti ákvað að vera skynsamur og hlaupa með mér en samt var hraðinn allmikill. Ég hafði reiknað úr að við þyrftum að hlaupa kílómeterinn á 4:15 til að ná undir þrjá tíma en við vorum á 3:48 - 3:59 fimm fyrstu km. Svo róuðum við þetta aðeins og hlaupið féll í þægilegan rythma.

Þegar við komum fyrir nesið tók austanáttin að blása í fangið á okkur og við skiptumst á að kljúfa vindinn. Áfram var haldið eftir Sæbrautinni í átt að Skeiðarvogi. Þar var snúið við og þá mættum við hlaupurum sem voru á eftir okkur. Það er mjög gaman að hlaupa svona fram og tilbaka og hitta alla sem eru með manni í hlaupinu. Við kölluðum hvatningarorð yfir umferðareyjuna og fengum í flestum tilfellum svar um hæl. Nú var vindurinn í bakið mér leið ágætlega. Þegar komið var að Kringlumýrarbrautinni var farið eftir henni upp á Suðurlandsbraut.

Við vorum hálfnaðir við Olísstöðina við Álfheimana rétt hjá Glæsibæ og þá var ég orðinn dálítið móður og þreyttur en Trausti ennþá eldhress. Ég var að hugsa um að hægja aðeins á mér og láta hann fara en ákvað doka aðeins við og fylgja honum niður í Fossvogsdalinn. Þá fengum við vindinn aftur í bakið og ég fór að hressast.

Eftir 30 km var tíminn tveir tímar og fimm mínútur og ég sá að áttum góða möguleika á að komast undir þrjá tímana ef við héldum haus. Aftur vorum við svo komnir út á nes og fórum nú alveg út að Gróttu. Í hönd fóru síðustu 7 km og allnokkuð af okkur dregið. Þetta er alltaf erfiðasti hluti hlaupsins og oft er sagt að þarna byrji maraþonið fyrst fyrir alvöru. Þegar við komum fyrir nesið kom vindurinn aftur í fangið og leiðin út á Granda var erfið. Dísa hans Trausta, Pétur formaður og Ingólfur Örn hjóluðu með okkur síðasta spölinn og gáfu okkur að drekka eftir þörfum. Við reyndum að hvetja hvorn annan áfram. Hraðinn var kominn niður í 4:30 per km og nú var gott að eiga inni mínúturnar frá því í byrjun hlaupsins.

Þegar við snerum við úti á Granda og vindurinn var enn og aftur í bakið og aðeins tveir kílómetrar eftir fékk ég mér vel að drekka og hresstist svo við það að ég gat aukið hraðann til að ná þjóðverjanum sem var fyrir framan okkur. Þetta með þrjá tímana var líka farið að verða dálítið tæpt hjá okkur. Trausti fékk hvatningu frá Pétri formanni sem sagði að Þjóðverjinn, sem hann fór líka framúr, væri alveg að ná honum aftur. Þetta er gamalt trikk sem hann notar stundum. Þegar ég kom inn á Lækjargötuna sá ég að klukkan sýndi 02:58:30. Ég gaf allt sem ég átti og fékk mikla hvatningu frá áhorfendum. Ég kom í mark á 2:59:00 og Trausti kom rétt á eftir á 2:59:03. Við féllumst í faðma og óskuðum hvorum öðrum til hamingju með frábæran árangur. Við höfðum náð takmarkinu og gleðin var mikil. Trausti brosti út að eyrum. Þetta var 27. maraþonið hans og loksins var múrinn brotinn. Mér þótti mjög vænt um að hafa verið með honum við þetta tækifæri.