Reykjavíkurmaraþon hefur frá byrjun verið aðalmarkmið sumarsins í hugum flestra hlaupara, eins konar lokahátíð götuhlaupanna á hverju sumri. Ég er nú að undirbúa þrjá þátttakendur fyrir maraþonvegalengdina, fjóra fyrir hálfmaraþon og nokkra fyrir 10 km. Alltaf jafn skemmtilegt verkefni að vinna að, sérstaklega að finna og sjá eftirvæntinguna hjá fólkinu síðustu dagana fyrir hlaupið. Stuðningur Glitnis banka við Reykjavíkurmaraþon er mikið fagnaðarefni. Sú kynning sem fram hefur farið á hlaupinu í sumar er hreint ótrúleg og hlýtur að kosta mikla fjármuni. Það er langt í frá sjálfsagt að svo öflugt fyrirtæki styðji við almenningshlaup með slíkum myndarskap. Það þekki ég vel af minni reynslu við framkvæmd hlaupa. Þáttur hins hressilega bankastjóra, Bjarna Ármannssonar, er líka athyglisverður og frábært að hann skuli sjálfur setja fordæmi fyrir sitt starfsfólk og hlaupa maraþonvegalengdina. Áheitahlaupin eru góð nýjung og skila jafnframt ávinningi til þeirra sem aðstoðar þurfa. Þetta er allt gott og blessað og hlýtur að hafa í för með sér mikla aukningu á þátttöku í hlaupinu. Mér kæmi ekki á óvart að fjöldinn næði sex þúsund manns.
Þrátt fyrir að ég sé mjög ánægður með þetta allt saman langar mig eigi að síður að koma fram með ábendingu, sem ég reyndar gerði einnig í hugrenningu minni fyrir hlaupið í fyrra. Hún er sú að gleyma ekki afrekshlaupurum okkar. Nýta hlaupið til að vekja áhuga þeirra og metnað. Það styrkir hlaupið líka - það ætti að vera markmið RM að allir bestu hlauparar landsins taki þátt í hlaupinu. Hlaupahreyfing án afrekshlaupara er fátæk. Við þurfum fleiri og betri afrekshlaupara. Í leikskrá hlaupsins er til að mynda ekkert fjallað um bestu hlauparana, - þeir eru ekki nefndir á nafn hvað þá að viðtöl séu við þá tekin. Auk þess er hvergi minnst á sögu hlaupsins, statistik eða annað fróðlegt. Af hverju ekki að nota tækifærið og kynna okkar efnilega langhlaupara, Kára Stein, til sögunnar svo ég taki dæmi? Mér sýnist að tilgangur leikskrárinnar sé einungis sá að ná til byrjenda. Gott og vel, það skiptir miklu máli því þar er fjöldinn. Mín skoðun er hins vegar sú að það eigi að vera hægt að blanda þessu saman nú eins og hingað til. Með auknu fjármagni inn í hlaupið er jafnframt tækifæri til að efla og hverja okkar bestu hlaupara til enn meiri afreka. Til þess eru ýmsar leiðir sem gott væri að taka umræðu um.
Óska öllum þátttakendum góðs gengis á laugardaginn. Að þessu sinni verð ég á hliðarlínunni og fylgist með ykkur.