Sögulegt Berlínarmaraþon framundan

birt 11. september 2017

Berlínarmaraþonið 24. september nk. gæti orðið mjög sögulegt, en þar munu mætast þrír bestu maraþonhlauparar samtímans. Slík þrenning hefur aldrei áður reynt með sér í einu og sama hlaupinu. Reyndar eru þessir þremenningar ekki bara bestu maraþonhlauparar samtímans, heldur raða þér sér í 2., 3. og 4.-5. sæti á maraþonafrekaskrá allra tíma. Þetta eru Eþíópíumaðurinn Kenenisa Bekele (besti tími 2:03:03 klst) og Kenýumennirnir Eliud Kipchoge (2:03:05 klst) og Wilson Kipsang (2:03:13 klst).

Heimsmetin falla í Berlín
Það er ekki tilviljun að þremenningarnir sem hér eru nefndir taka Berlínarmaraþonið framyfir fjölmörg önnur maraþonhlaup sem fara fram núna í haust. Berlín virðist nefnilega henta betur til að slá heimsmet í maraþoni en nokkur önnur borg. Í ár eru einmitt liðin 15 ár síðan heimsmet í maraþonhlaupi var bætt annars staðar en á götum Berlínar. Það gerðist í London árið 2002 þegar Bandaríkjamaðurinn Khalid Khannouchi hljóp vegalengdina á 2:05:38 klst. Síðan þá hefur þróun heimsmetanna verið sem hér segir:

2:04:55 Paul Tergat, Kenýa, Berlín 28. sept. 2003
2:04:26 Haile Gebrselassie, Eþíópíu, Berlín 30. sept. 2007
2:03:59 Haile Gebrselassie, Eþíópíu, Berlín 28. sept. 2008
2:03:38 Patrick Makau, Kenýa, Berlín 25. sept. 2011
2:03:23 Wilson Kipsang, Kenýa, Berlín 29. sept. 2013
2:02:57 Dennis Kimetto, Kenýa, Berlín 28. sept. 2014

Sex síðustu heimsmet í maraþonhlaupi voru sem sagt sett í Berlín og margt bendir til að það sjöunda bætist við síðar í þessum mánuði.

Kenenisa BekeleKenenisa BekeleKenenisa Bekele (f. 13. júní 1982) er af mörgum talinn besti langhlaupari sögunnar. Hann á í fórum sínum þrjú Ólympíugull og fimm gull frá heimsmeistaramótum í 5.000 og 10.000 m hlaupum, auk þess að hafa 11 sinnum orðið heimsmeistari í víðavangshlaupum, þ.á.m. bæði í 4 km og 12 km fimm ár í röð 2002-2006. Enginn annar hefur orðið heimsmeistari í víðavangshlaupi svo mikið sem tvisvar í röð.Kenenisa Bekele á heimsmetin bæði í 5.000 m hlaupi (12:37,35 mín frá 2004) og 10.000 m hlaupi (26:17,53 mín frá 2005). Hann hljóp sitt fyrsta maraþonhlaup árið 2014 og hefur þegar þetta er skrifað lokið samtals fimm hlaupum. Besta árangri sínum á þessu sviði náði hann þegar hann vann Berlínarmaraþonið í fyrra og var aðeins 6 sekúndum frá heimsmeti Dennis Kimetto, þrátt fyrir að hafa glímt við krampa í síðari hluta hlaupsins.Yfirburðir Kenenisa Bekele á hlaupabrautinni hafa ekki síst falist í ótrúlegri getu til að bæta í hraðann undir lokin. Sem dæmi um þetta má nefna hlaup i Lausanne í Sviss árið 2003, þar sem hann hljóp síðustu 400 metrana í 5.000 m hlaupi á 52,63 sek og þar af síðustu 200 m á 24,0 sek. En hann hefur auðvitað elst um nokkur ár síðan.

Eliud Kipchoge
Eliud Kipchoge (f. 5. nóv. 1984) er sá þremenninganna sem af mörgum er talinn líklegastur til að bæta heimsmetið í Berlín. Í vor hljóp hann maraþon á Monza kappakstursbrautinni á Ítalíu á besta tíma sögunnar, en hlaupið var lokahnykkur í „Breaking2" verkefni skóframleiðandans Nike sem vildi sýna fram á að hægt væri að hlaupa  maraþon undir 2 klst í nýjustu skóm fyrirtækisins. Kipchoge var ótrúlega nálægt þessu, en hann lauk hlaupinu á 2:00:25 klst. Sá tími fæst þó ekki staðfestur sem heimsmet, þar sem hraðastjórar („hérar") skiptust á um að halda uppi hraðanum og kljúfa vindinn alla leið.

Eliud Kipchoge átti að baki glæstan feril í brautarhlaupum áður en hann sneri sér að götuhlaupum árið 2012. Hann sló fyrst verulega í gegn á hlaupabrautinni 18 ára gamall í ágúst 2003 þegar hann kom fyrstur í mark í 5.000 m hlaupi á heimsmeistaramótinu í París á undan sjálfum Kenenisa Bekele og „Eyðimerkurljóninu" Hicham El Guerrouj. Tíminn, 12:52,79 mín, var nýtt meistaramótsmet.Hann vann svo til bronsverðlauna í 5.000 m hlaupi á Ólympíuleikunum í Aþenu 2004, fékk silfur á heimsmeistaramótinu í Osaka 2007 og sömuleiðis silfur á Ólympíuleikunum í Peking 2008. Frá upphafi hafa aðeins þrír hlauparar hlaupið 5.000 m á betri tíma en Kipchoge.Eliud Kipchoge hefur hlaupið 8 maraþonhlaup við löglegar aðstæður og unnið þau öll nema eitt. Það var í Berlín haustið 2013 þegar Wilson Kipsang setti heimsmetið (sjá framar), en þar varð Kipchoge annar. Aðeins einu sinni hefur hann lokið hlaupi á lengri tíma en 2:05:30 klst. Það var á Ólympíuleikunum í Ríó í fyrra þar sem hann vann gullið með nokkrum yfirburðum á 2:08:44 klst.Kipchoge er hógvær maður og berst ekki mikið á. Hann fer þó ekki dult með þá fyrirætlun sína að bæta heimsmetið í Berlín, enda engin ástæða til annars en ætla að það sé vel raunhæft markmið.

Wilson Kipsang
Wilson Kipsang (f. 15. mars 1982) hefur aldrei lagt mikla stund á brautarhlaup en hefur verið þess atkvæðameiri í götuhlaupum, allt frá árinu 2007 þegar hann vann m.a. 10 km götuhlaup í Hollandi á 27:51 mín. Ferilskrá hans í maraþonhlaupum er óvenju glæsileg, en hann á að baki a.m.k. 15 slík. Af þessum 15 hlaupum hefur hann unnið ein tíu, auk þess að krækja í brons á Ólympíuleikunum í London 2012.

Wilson KipsangMeðal sigranna má nefna að hann hefur unnið Frankfurtmaraþonið tvisvar (2010 og 2011), London tvisvar (2012 og 2014) og New York tvisvar (2013 og 2014).Hápunkturinn á ferli Wilson Kipsang var heimsmetið sem hann setti í Berlínarmaraþoninu 2013, 2:03:23 klst. Reyndar bætti hann þann tíma um 10 sek. í Berlín 2016, þar sem hann varð annar á eftir Kenenisa Bekele. Kipsang leiddi það hlaup lengst af en hafði ekki nægan hraða til að fylgja Bekele eftir síðustu tvo kílómetrana. Síðast hljóp Kipsang maraþon í Tókýó í febrúar á þessu ári, þar sem hann setti brautarmet, 2:03:58 klst. Samtals hefur hann hlaupið fjórum sinnum undir 2:04 klst. Það hefur enginn annar gert oftar en tvisvar.Wilson Kipsang sker sig ekki aðeins úr hinum tveimur hvað leiðina á toppinn varðar. Hann er líka mun hávaxnari, 180 cm á móti 167 cm (Kipchoge) og 160 cm (Bekele). Hann er líka sá eini sem nær 60 kg líkamsþyngd. Svona tölur ber þó ávallt að taka með fyrirvara, enda eru þær einungis settar hér fram til gamans.

Hver vinnur í Berlín?
Af framanskráðu er ljóst að sá sem ætlar sér að vinna Berlínarmaraþonið í ár þarf virkilega að hafa fyrir hlutunum. Þeir þrír sem hér hafa verið nefndir virðast allir vera í nógu góðu formi til að slá heimsmetið, a.m.k. ef veðrið verður hagstætt. Ef Kipsang ætlar sér gullið og heimsmetið verður hann líklega að halda uppi hraðanum lengst af, því að annars er hætt við að hinir tveir skilji hann eftir á endasprettinum. Kipchoge er kannski sterkastur á pappírunum eins og málum er háttað, en sá sem þetta skrifar ætlar þó að spá því að rásnúmerin segi til um röðina í mark. Bekele er með rásnúmer 1, Kipchoge nr. 2 og Kipsang nr. 3.

Svona rétt í lokin er rétt að minna á að margnefndir þremenningar verða ekki einir á ferð í Berlín. Með rásnúmer 4 er t.d. enginn annar en Patrick Makau sem setti heimsmet í Berlín 2011.

Þetta verður eitthvað!

Efnisflokkur: Keppnishlaup

Heimildir og lesefni:

  1. Alþjóðafrjálsíþróttasambandið (IAAF) (2017): Athletes‘ Profiles. https://www.iaaf.org/athletes.
  2. Alþjóðafrjálsíþróttasambandið (IAAF) (2017): Records and Lists. https://www.iaaf.org/records/toplists/road-running/marathon/outdoor/men/senior.
  3. Berlínarmaraþonið (2017): Kenenisa Bekele challenges Eliud Kipchoge and Wilson Kipsang at the BMW BERLIN-MARATHON on September 24. Frétt á heimasíðu 29. ágúst. https://www.bmw-berlin-marathon.com/en/news-and-media/news/2017/08/29/kenenisa-bekele-challenges-eliud-kipchoge-and-wilson-kipsang-at-the-bmw-berlinmarathon-on-september-24.html.
  4. Runners‘ World (2017): Kipchoge on the Berlin Marathon: "I Want to Run a World Record". Frétt á heimasíðu 8. september. https://www.runnersworld.com/berlin-marathon/kipchoge-on-the-berlin-marathon-i-want-to-run-a-world-record.
  5. Wikipedia o.m.fl.

Stefán Gíslason, hlaupafrömuður, er pistlahöfundur á hlaup.is. Í pistlunum fer Stefán yfir víðan völl og fjallar um skemmtilegar og stundum ókannaðar hliðar hlaupanna.