birt 20. ágúst 2008

Á laugardaginn kemur fer fram 25. Reykjavíkurmaraþonið. Þó svo ég taki ekki þátt í því núna hef ég aldrei verið jafn spenntur. Aldrei fyrr hef ég haft með undirbúning jafn margra að gera og nú, en ég hef verið að leiðbeina 18 manns sem taka þátt í 10 km, 29 sem taka þátt í hálfmaraþoni og 6 sem taka þátt í maraþoni, samtals 53 manns. Ekki laust við að ég finni til ábyrgðar og nokkurs kvíða - skyldu æfingaáætlanirnar og æfingarnar skila þeim árangri sem viðkomandi er að stefna að. Í svo stórum hópi hefur gengið á ýmsu á undirbúningstímabilinu. Mikið hefur verið um ferðalög innan sem utanlands, ekki síst gönguferðir um hálendið sem sífellt eru að verða vinsælli meðal fólks sem komið er á miðjan aldur. Það getur því verið nokkuð vandasamt að prjóna hlaupaæfingar inn í slíkt, en allt er hægt ef fólk er með fókusinn stilltan á verkefnið. Eitthvað hefur verið um veikindi, eymsli og smávegis meiðsli sem alltaf má búast við þegar álag eykst. Hópurinn hefur í heild sloppið vel hvað þetta varðar og virðist vel stemmdur. Síðustu dagarnir fara í það að hvíla, hlaða kolvetnisbirgðirnar og stilla sig inn á hlaupið, fara yfir tékklistann og passa að allir hlutir séu í sem bestu lagi. Svo er bara að vona það besta varðandi veðrið.

Segja má að Reykjavíkurmaraþon sé fyrsta hlaupið á haustvertíð hlaupaáhugafólks. Þá hlaupa margir hálfmaraþon til að taka stöðuna á forminu með þátttöku í maraþoni erlendis í huga í haust. Ef við lítum á árangur fyrri helming ársins þá hafa Eva Margrét Einarsdóttir (3:09:47) og Birgir Sævarsson (2:38:10) náð bestum árangri Íslendinga í maraþoni á árinu. Þau hafa bætt sinn fyrri árangur verulega. Sigurbjörg Eðvarðsdóttir (50 ára) náði einnig mjög athyglisverðum árangri í London (3:12:03). Samtals 8 karlar hafa hlaupið undir 3:00 klst. sem er engan veginn nægilega góð breidd, en það á væntanlega eftir að lagast er líður á árið. Árangurinn í hálfmaraþoni hefur verið fremur slakur en þó má nefna að Verónika S. Bjarnadóttir hljóp mjög vel á Akranesi (1:29:11) og núverandi sundkappi og fyrrum landsliðsmaður í millivegalengdum, Steinn Jóhannsson (41 árs) náði einnig athyglisverðum árangri í sama hlaupi (1:17:45). Í Laugavegshlaupinu vakti athygli að íþróttavörubúðareigandinn, Daníel Smári Guðmundsson, sýndi mikla seiglu og kom fyrstur í mark á góðum tíma (4:54:28). Hann á greinilega nokkuð inni ennþá þó svo aldursárin nálgist fimmtíu.