Hlynur Andrésson og Baldvin Þór Magnússon
Á síðustu níu mánuðum hafa þeir Hlynur Andrésson (1993) og Baldvin Þór Magnússon (1999) sett ný viðmið í íslenskum langhlaupum með frábærum árangri sínum. Hafa skipst á að setja Íslandsmet, sérstaklega skemmtileg barátta þeirra um metið í 5.000 m hlaupi. Þessi nýja bylting, ef svo má segja, byrjaði með því að Hlynur setti Íslandsmet (28:55,47 mín) í 10.000 m hlaupi 19. september 2020 í Leiden, Hollandi. Mánuði síðar eða 17. október bætti Hlynur Íslandsmet Kára Steins Karlssonar (1:04:55 klst) í hálfmaraþoni er hann hljóp á 1:02:47 klst á heimsmeistaramótinu er fram fór í Gdynia, Póllandi. Hlynur lét ekki þar við sitja og stórbætti Íslandsmet Kára Steins (2:17:12 klst) í maraþonhlaupi er hann hljóp á 2:13:37 í Dresden 21. mars síðastliðinn. Hlynur segist vera að velta fyrir sér að reyna aftur við maraþonið í Valencia í byrjun desember. Ætla hefði mátt að Hlynur hefði þurft góða hvíld eftir maraþonmetið en það var öðru nær. Hann hóf þegar æfingar fyrir brautarhlaupin og setti Íslandsmet í 3.000 m hlaupi utanhúss 8:01,37 mín þann 13. maí og stórbætti svo Íslandsmet sitt í 10.000 m er hann hljóp á 28:36,80 mín í Birmingham 5.júní. Hlynur lét ekki þar við sitja og bætti nýlegt Íslandsmet Baldvins Þórs í 5.000 m er hann hjóp á 13:45,20 mín í Heusden-Zolder í Belgíu 3. Júlí og síðan aftur í 13:41,06 mín í Flanders 18. júlí eftir að Baldvin hafði bætt það í millitíðinni.
Baldvin Þór stundar nám í Bandaríkjunum og hefur einbeitt sér að keppni í brautarhlaupum innan- og utanhúss. Hann vakti athygli fyrir góðan árangur í fyrra en hefur heldur betur bætt í á undanförnum vikum. Byrjaði á því að hlaupa 3.000 m innanhúss á 7:53,92 mín þann 6. febrúar og var rúmum 5 sek undir Íslandsmeti Hlyns en þar sem hlaupið var á 300 m hringbraut fékkst tíminn ekki staðfestur sem Íslandsmet. Tónnin var hins vegar gefinn um framhaldið og Baldvin setti Íslandsmet 7:53,72 mín á löglegri braut í Fayetteville, USA, þann 13. mars. Hann fylgdi því svo eftir með því að bæta Íslandsmet Hlyns (13:57,89 mín) í 5.000 m hlaupi utanhúss er hann hljóp á 13:45,66 mín á móti í Raleigh í Norður Karólínufylki 25. mars. Hafandi misst metið í hendur Hlyns kom Baldvin sterkur tíl leiks í 5.000 m þann 10. júlí á Evrópumeistaramóti 22 ára og yngri er fram fór í Tallin. Hann gerði sér lítið fyrir og náði þriðja sæti á 13:45,00 og bætti þar með Íslandsmet Hlyns um 20 hundruðustu úr sekúndu. Þá er ónefnt að Baldvin bætti 39 ára gamalt met Jóns Diðríkssonar í 1.500 m hlaupi utanhúss (3:41,65) er hann hljóp á 3:40,74 mín í Redmond, Kentucky, 17. apríl. Baldvin hefur þar með sýnt að hann er fljótur og getur örugglega bætt Íslandsmetið í 800 m (1:48,83) ef hann svo vill. Hann er greinilega jafnvígur á millivegalengdahlaup og langhlaup og verður gaman að sjá í hvora áttina hann þróast.
Í Evrópubikarkeppni 2. deildar (9 landslið) er fram fór í Stara Zagora í Búlgaríu dagana 19. og 20. júní siðastliðinn sýndu Hlynur og Baldvin hversu öflugir hlauparar þeir eru orðnir. Hlynur sigraði í 5.000 m á 14:13,73 mín í taktísku hlaupi þar sem hann hljóp síðustu 800 m á um 2:04 mín og stakk aðra keppinauta af. Seinni daginn varð hann fjórði (9:01,83) í 3.000 m hindrunarhlaupi. Baldvin Þór sigraði í 3.000 m hlaupinu á 8:01,56 mín rétt við Íslandsmet Hlyns eftir gríðarlega keppni við Danann Joel Ibler Lillesö (8:01,88) en seinasti hringur hlaupsins var um 58 sek. Fyrri daginn varð Baldvin þriðji í 1.500 m á 3:47,54 mín. Sá sem þetta ritar sat heima í stofu og horfði á þessi hlaup í beinni útsendingu. Ekki amalegt að fylgjast með íslenskum langhlaupurum sigra marga góða hlaupara í landskeppni. Af sem áður var þegar íslenskir langhlauparar (ég þar meðtalinn) voru gjarnan aftarlega í landskeppnum. Nú unnu þeir félagar tvo af þremur sigrum Íslenska landsliðsins í keppninni. Hingað til hafa kastararnir séð um að hala inn flest stigin fyrir Ísland í landskeppnum. Svo var ekki í þetta skiptið – langhlaupararnir okkar stálu senunni.
Horfur framundan
Hlynur og Baldvin Þór hafa þegar vakið athygli á alþjóða vettvangi í frjálsíþóttum fyrir afrek sín. Þeir eru ungir og ljóst að það eru miklar væntingar gerðar til þeirra á komandi árum. Þeir eru komir í sviðsljósið og verður gaman að fylgjast með þeim. Sérstaklega skemmtilegt að fylgjast með hvernig þeir hafa verið að skiptast á að taka metin hvor af öðrum. Við hér heima á Fróni fyllumst stolti yfir því að eiga núna langhlaupara sem hafa getu og möguleika til að nálgast og keppa við bestu langhlaupara í heimi.
Aðrir hlauparar standa þeim nokkuð að baki þessa stundina en hafa eigi að síður verið að ná góðum árangri undanfarin ár. Þar ber fyrstan að nefna Arnar Pétursson (1991) sem hefur verið sigursæll hér heima. Hans besti árangur hingað til er 1:06:12 klst í hálfmaraþoni í Haag árið 2020. Arnar á mikið inni og verður fróðlegt að sjá hvaða tíma hann nær þegar hann fær loks tækifæri til að hlaupa maraþon í sínu besta formi við góðar aðstæður. Trausti Þór Þorsteins (1998) sem er við nám í Bandaríkjunum hefur náð athyglisverðum árangri í millivegalengdum og ber þar hæst 3:47,96 mín í 1.500 m árið 2019 og 4:04,11 mín í míluhlaupi (1.609 m) innanhúss árið 2020. Hann sýndi með góðu 3.000 m hlaupi innanhúss (8:16,17) í lok árs 2019 að hann getur náð góðum árangri seinna meir í lengri hlaupum. Svo er aldrei að vita hvað millivegalengdahlauparinn Sæmundur Ólafsson (1995) gerir á næstu árum en hann náði góðum árangri í 3.000 m innanhúss (8:34,22) árið 2014 þá aðeins 19 ára.
Með framansagt í huga er framtíðin björt í langhlaupum hvað varðar árangur bestu manna en breiddin mætti vera meiri. Það er áhyggjuefni að engir aðrir framúrskarandi hlauparar virðast vera að koma fram, hvorki í millivegalengda- eða langhlaupum. Um það vitna úrslit í mótum yngri aldursflokka undanfarin misseri. Fjölnismaðurinn, Dagur Arnarson (1999) gæti þó náð góðum árangri þegar hann hefur jafnað sig fyllilega á erfiðum meiðslum. Hann var mjög efnilegur, hljóp m.a. 800 m á 1:56,22 og 3.000 m á 9:10,86 árið 2016, þá aðeins 17 ára. Á mótunum í vetur tók ég þó eftir 18 ára pilti, Jökli Bjarkasyni (2003) sem var sprækur og sýndi góða takta, hljóp 1.500 m á 4:17,98 og 3.000 m á 9:21,39. Ég er nokkuð viss um að þar er á ferðinni efnilegur hlaupari sem getur náð langt með því að æfa vel.
Sagan – hverjir mörkuðu brautina
Á bak við ný Íslandsmet eru gömul Íslandsmet sem hafa verið slegin oftar en einu sinni. Áhugavert er að skyggnast aðeins aftar í sögu íslenskra langhlaupa í karlaflokki, hverjir settu þessi met og voru þar með áhrifavaldar. Alltaf spurning hvar á að byrja. Ég vel hér að byrja á þeim sem sköruðu fram úr um og eftir árið 1960. Hins vegar ber ég mikla virðingu fyrir þeim sem gerðu garðinn frægan þar á undan. Nefni þar sérstaklega Jón Kaldal (1898) en árið 1922 hljóp hann 3.000 m á 8:58,0 mín og 5.000 m á 15:23,0 mín en þau met stóðu lengi.
Jón var með mikla hæfileika og hefði án efa náð mjög góðum árangri við núverandi aðstæður. Þá er rétt að taka fram að margir góðir hlauparar sem hér eru ekki upptaldir náðu góðum árangri á síðustu 60 árum þó þeir hafi ekki slegið Íslandsmet. Þeir skiluðu mörgum Íslandsmeistaratitlum, tóku þátt í landskeppnum og áttu stóran þátt í að efla langhlaupin hér á landi. Þó nokkrir þessara hlaupara hafa jafnframt tekið mikinn þátt í félagsstarfi frjálsíþrótta, staðið að framkvæmd móta og götuhlaupa og þjálfað. Hafa þannig verið miklir áhrifavaldar í langhlaupasögu okkar. Held að á engan sé hallað þó ég nefni þar sérstaklega Gunnar Pál Jóakimsson, sem var mjög góður 800 m hlaupari (1:50,2), en hann hefur verið einstaklega duglegur alla tíð að vinna að framgangi millivegalengda- og langhlaupa hér á landi.
Kristleifur Guðbjörnsson
Árið 1972, þegar ég var 15 ára og byrjaður að keppa í hlaupum, kom út afrekaskrá 100 bestu í frjálsíþróttum eftir Ólaf Unnsteinsson. Ég eignaðist þessa bók og hafði gaman af því að skoða afrek í einstökum greinum. Í langhlaupunum var nafn Kristleifs Guðbjörnssonar (1938) efst í flestum greinum. Íslandsmet hans í 3.000 m var 8:21,0 mín (1959), 8:56,4 mín í 3.000 m hindrunarhlaupi (1961) og 14:32,0 í 5.000 m (1964). Þetta þótti góður árangur á þeim tíma enda stóð Kristleifur sig jafnan vel í landskeppnum og stórmótum og eru til frásagnir um harða baráttu hans um sigurinn m.a. við danann Thygesen en Kristleifur þótti með eindæmum keppnisharður. Á þessum árum var skóbúnaður lélegur og hlaupabrautir allar úr möl.
Eftir að Kristleifur hætti æfingum og keppni aðeins 26 ára gamall minnist ég ekki að hafa séð hann á frjálsíþróttamótum. Dró sig í hlé en vakti athygli síðar á æfinni fyrir góðan árangur í ræktun rósa en hann var lögreglumaður að aðalstarfi. Ég hitti Kristleif ekki fyrr en árið 1984 þegar hann allt í einu mætti á hlaupabrautina 46 ára gamall og setti fjölda Íslandsmeta í aldursflokki 45-49 ára á vegalengdum 1.500 til 10.000 m sem stóðu öll fram á þessa öld.
Sigfús Jónsson og Ágúst Ásgeirsson
Töluverð lægð hafði verið í langhlaupunum eftir að Kristleifur hætti keppni um miðjan sjöunda áratuginn. Það breyttist þegar Sigfús Jónsson (1951) og Ágúst Ásgeirsson (1952) fóru í háskólanám í Durham í norðuhluta Englands haustið 1973. Þegar leið á veturinn fóru að berast fréttir af góðum árangri þeirra í víðavangs- og götuhlaupum. Þann 17. apríl 1974 hlupu þeir félagar langt undir þágildandi Íslandsmeti í 10.000 m hlaupi (Kristján Jóhannsson 31:37,6) á móti á Crystal Palace vellinum í London, Sigfús var á 30:56,0 mín og Ágúst á 31:19,0 mín. Gamla metið hafði staðið í 17 ár og ljóst að framundan var nýtt tímabil í íslenskum langhlaupum. Sigfús bætti metið í 10.000 m í 30:10,0 mín í Sjotsi árið 1976 sem stóð þar til Kári Steinn Karlsson bætti það rúmum þremur áratugum síðar. Sigfús bætti jafnframt met Kristleifs í 5.000 m er hann hljóp á 14:26,2 mín í Edinborg árið 1975. Ágúst lagði hins vegar meiri áherslu á millivegalengdahlaup og hindrunarhlaup. Setti Íslandsmet í 1.500 m (3:45,47) og í 3.000 m hindrunarhlaupi (8:53,95) hvorttveggja á Ólympíuleikunum í Montreal í júlímánuði 1976. Fyrr á árinu hafði hann sett Íslandsmet í 3.000 m (8:17,6).
Sigfús og Ágúst höfðu mjög hvetjandi áhrif á okkur hlauparana sem vorum aðeins yngri. Þeir voru duglegir að miðla af þekkingu sinni og hjálpa til við skipulagningu æfinga- og keppnisferða. Ég fór tvívegis til Durham í slíkar ferðir, var í 4-5 vikur frá miðjum maí árin 1975 og 1976 ásamt Gunnari Páli Jóakimssyni, Jóni Diðrikssyni, Vilmundi Vilhjálmssyni spretthlaupara (fyrra árið), Leif Österby (fyrra árið), Einari P. Guðmundssyni (seinna árið) og Gunnari Þór Sigurðssyni (seinna árið). Þessar ferðir höfðu mjög mikil áhrif á okkur félagana, mögnuðu upp áhuga okkar og lögðu grunn að bætingum næstu árin. Þeir Sigfús og Ágúst komu okkur meðal annars í kynni við Gordon Surtees sem var einn af bestu og þekktustu hlaupaþjálfunum Englendinga. Af honum lærðum við að það væri nauðsynlegt að æfa miklu meira og skipulagðara en tíðkast hafði meðal hlaupara á Íslandi. Þá komumst við í kynni við erlend hlaupatímarit og bækur og sökktum okkur niður í pælingar þjálfara eins og Arthurs Lydiard.
Jón Diðriksson
Ég sá fyrst til Jóns Diðrikssonar (1955) í keppni á Íslandsmóti unglinga á Sauðárkróki sumarið 1972. Hann hafði þá ekki æft mikið en það fór ekki framhjá neinum sem á horfðu að þar fór efni í mikinn hlaupagarp. Jón hleypti heimdraganum úr Borgarfirði og fór í menntaskóla í Reykjavík og hafði þá tækifæri til að æfa með hlaupurum á höfuðborgarsvæðinu. Jón varð fljótt mjög öflugur og sigursæll. Eftir menntaskólann fór hann til háskólanáms, fyrst í Englandi og síðan til Þýskalands, og var samtals erlendis í 8 ár sem var nauðsynlegt til að geta æft og keppt við góðar aðstæður. Jón lagði lengi vel áherslu nær eingöngu á keppni í 800 og 1.500 m hlaupum. Bætti Íslandsmetin í báðum vegalengdum, hljóp 800 m best á 1:49,2 mín í Bonn árið 1982 og 1.500 m á 3:41,65 mín í Rehlingen 1982 en það met stóð í 39 ár þar til Baldvin Þór bætti það 17.apríl síðastliðinn eins og að framan greinir.
Á seinni hluta keppnisferils síns færði Jón sig í lengri vegalengdir og setti Íslandsmet í 3.000 m hindrunarhlaupi (8:49,58) í Remscheid 1981, í 3.000 m (8:05,63) í Köln 1983 og 5.000 m (14:13,18) í landskeppni í Dublin árið 1983. Jón átti einnig besta tímann í 10 km götuhlaupi (30:11) frá árinu 1983 þar til Hlynur Andrésson sló það árið 2019. Að mínu mati er besta Íslandsmetið hjá Jóni 3:57,63 mín í míluhlaupi (1.609 m) sem hann setti árið 1982 en enginn hefur ógnað því ennþá. Jón Dikk, eins og hann er venjulega kallaður, setti skýr markmið með árangri sínum fyrir þá hlaupara sem fylgdu í kjölfarið árin á eftir. Markmið sem ekki var auðvelt að ná enda féllu flest metin hans ekki fyrr en um og eftir 2010 og eitt stendur ennþá.
Sigurður P. Sigmundsson
Eins og títt var um langhlaupara fyrr á árum byrjaði ég að keppa í millivegalengdum á unglingsaldri, færði mig svo upp í 5.000 og 10.000 m hlaup en frá 25 ára aldri einbeitti ég mér mest að keppni í götuhlaupum enda þá kominn heim til Íslands eftir nám erlendis. Setti fyrsta Íslandsmetið í maraþonhlaupi (2:31:33 klst) á fyrsta MÍ í maraþoni er fram fór í vesturbæ Reykjavíkur árið 1981 en þá voru hlaupnir fimm hringir. Bætti metið svo á hverju ári til 1985 er ég hljóp á 2:19:46 klst í Berlín. Íslandsmetið í hálfmaraþoni bætti ég síðast í Haag 1986 (1:07:09) en þá fórum við sex saman til keppni. Einstaklega skemmtileg ferð og allir náðu góðum árangri, sá seinasti í hópnum var á 1:12:30 klst.
Eftir á séð var ég sennilega fyrsti Íslendingurinn sem hafði verið í landsliði í brautarhlaupum til að æfa markvisst í nokkur ár fyrir keppni í maraþonhlaupi en því miður varð sá ferill ekki langur þar sem ég varð að hætta keppni á afreksstigi aðeins 29 ára gamall vegna þrálátra bakmeiðsla. Ég var þó ekki fyrstur til að æfa sérstaklega fyrir maraþonhlaup og nefni þar til Högna Óskarsson, geðlækni, sem keppti oft í maraþonhlaupum meðan hann var í framhaldsnámi í Bandaríkjunum. Náði best 2:49:14 klst í New York árið 1976. Högni, sem er 12 árum eldri en ég, hafði keppt í brautarhlaupum áður og gaman að segja frá því að ég náði að keppa við hann á Melavellinum í 3.000 m þegar ég var 16 ára.
Sveinn Margeirsson
Skagfirðingurinn Sveinn Margeirsson (1978) kom sterkur fram á sjónarsviðið strax á unglingsaldri. Ég man eftir honum 14 ára gömlum hlaupa hálfmaraþon á 1:25:45 klst í Reykjavíkurmaraþoni árið 1992 en þá var ég framkvæmdastjóri RM. Sveinn sló nánast öll Íslandsmet í langhlaupum í yngri aldursflokkunum. Nefni þar sérstaklega 15:16,97 mín í 5.000 m árið 1994 sem er mjög góður árangur hjá 16 ára pilti.
Björn (1979), bróðir Sveins, átti reyndar eftir að slá sum þessara meta og tiltek ég sérstaklega 8:42,97 mín í 3.000 m hlaupi sem er einnig mjög góður árangur hjá 16 ára pilti. Sveinn fylgdi þessu eftir m.a. með því að setja Íslandsmet í 3.000 m hindrunarhlaupi 8:46,20 mín í Borås árið 2003. Sveinn ákvað að hætta keppni aðeins 26 ára gamall sem var alltof fljótt því hann átti eftir að sanna getu sína í götuhlaupum en þar tel ég að hann hefði getað náð mjög góðum árangri. Sveinn hafði eigi að síður mikil áhrif á langhlaupin hérlendis, reif upp árangurinn eftir að nokkur lægð hafði verið áratuginn á undan og hafði mikil áhrif á Kára Stein sem dvaldi um skeið hjá honum og Rakel konu hans er þau voru við nám og störf í Kaupmannahöfn.
Þorbergur Ingi Jónsson
Segja má að keppni í utanvegahlaupum á Íslandi hafi hafist með fyrsta Laugavegshlaupinu árið 1997. Áður hafði verið keppt í víðavangshlaupum og má þar nefna hið aldargamla Víðavangshlaup ÍR sem áður fyrr fór oftast fram á grasi og malarvegum í bland. Man að hluti hlaupaleiðarinnar lá um Vatnsmýrina þegar ég tók fyrst þátt í því árið 1974. Víðavangshlaup Íslands fór fyrst fram árið 1972 í Laugardalnum ef ég man rétt. Önnur víðavangshlaup voru minni í sniðum og fóru yfirleitt fram á malarvegum, malbikuðum götum og túnum í bland. Þorbergur Ingi Jónsson (1981) hefur lyft utanvegahlaupum á Íslandi upp um margar hæðir en þar liggja hans mestu áhrif í langhlaupum á Íslandi. Gríðarleg aukning hefur orðið í framboði á utanvegahlaupum og þátttakendafjöldinn margfaldast. Nú sérhæfa margir hlauparar sig í utanvegahlaupum og send hafa verið landslið á heimsmeistaramót.
Þorbergur var upphaflega knattspyrnumaður sem hóf að stunda hlaup um tvítugt og náði framan af prýðilegum árangri í brautar- og götuhlaupum þó svo hann næði ekki að setja Íslandsmet. Á seinni hluta hlaupaferilsins hefur hann hins vegar einbeitt sér að utanvegahlaupum og verið ósigrandi á Íslandi og náð góðum árangri í keppnishlaupum erlendis svo eftir hefur verið tekið. Þorbergur hefur sigrað í Laugavegshlaupinu (53,3 km) mörgum sinnum og mettími hans 3:59:13 klst frá árinu 2015 verður seint sleginn, allavega þarf mjög góðan hlaupara til þess.
Kári Steinn Karlsson
Kári Steinn Karlsson (1986) var mjög afgerandi í langhlaupum hérlendis áratuginn áður en Hlynur og Baldvin fóru að setja met. Hann byrjaði á unglingsaldri að æfa hlaup og naut góðrar leiðsagnar Sveins og Rakelar eins og áður sagði og æfði svo á fullorðinsaldri m.a. undir handleiðslu Gunnars Páls Jóakimssonar. Kári Steinn náði fljótt góðum árangri og má sem dæmi nefna 15:03,16 mín í 5.000 m hlaupi er hann var 18 ára og 14:49,71 mín ári seinna. Kári Steinn fór í háskólanám í Bandaríkjunum þar sem hann æfði og keppti við góðar aðstæður. Á þeim tíma voru öll Íslandsmetin í langhlaupum, fyrir utan 3.000 m hindrunarhlaupið, orðin 25 – 30 ára gömul.
Framfarirnar komu fljótt hjá Kára Steini og þar kom að hann sló Íslandsmetið í 10.000 m er hann hljóp á 29:28,05 mín í Stanford í apríl árið 2008. Hann fylgdi því eftir mánuði seinna og bætti Íslandsmetið í 5.000 m, hljóp á 14:07,13 mín einnig í Stanford. Bætti þann árangur svo tvívegis, náði best 14:01,99 mín árið 2010. Þegar Kári Steinn var 25 ára færði hann sig meira yfir í götuhlaupin og byrjaði á því að slá Íslandsmetið í hálfmaraþoni er hann kom fyrstur í mark í RM á 1:05:33 klst árið 2011 og átti eftir að bæta þann tíma í 1:04:55 í Berlín 2015. Í sínu fyrsta maraþonhlaupi hljóp hann á 2:17:12 klst í Berlín 2011 og bætti þar með 26 ára gamalt Íslandsmet. Keppti svo á Ólympíuleikunum í London 2012 og náði þar góðum árangri (2:18:47).
Kári Steinn setti ný viðmið í langhlaupunum hérlendis sem krafðist þess að þeir hlauparar sem á eftir kæmu þyrftu að leggja enn meira á sig í æfingum og keppni.