Pistill eftir Andra Teitsson: Spyrjið mig eftir viku !

uppfært 08. maí 2020

Reynslusaga af 100 km Hengilshlaupinu 7.-8. september 2019, til fróðleiks og hvatningar fyrir aðra hlaupara.  Andri Teitsson, Akureyri.

Aldur og fyrri störf
Ég mætti á fyrstu æfingu mína hjá Eyrarskokki á Akuryri fyrir þremur árum, í lok ágúst 2016. Var þá 49 ára. Hafði í tuttugu ár þar á undan farið „út að hlaupa" svona 5-10 sinnum flest sumur en stundum ekki neitt.

Andri Teitsson 20190908 130610
Andri sáttur með bronsið.

Sleit hásin 2009, tognaði illa á þeim kálfa 2010 var 2-3 ár að koma mér í gang eftir það. Hef í gegnum tíðina af og til fengið heiftarlegan verk í mjóbakið en það hefur alltaf jafnað sig á nokkrum dögum. Var svolítið á gönguskíðum flesta vetur og mjög mikið frá 2015. Hef undanfarin þrjú ár hlaupið með Eyrarskokki í maí-okt en verið á gönguskíðum um veturinn og keppt á Landsmótum, Fossavatnsgöngu, 90 km Vasagöngu ofl.

Skíðagangan heldur mér að sjálfsögðu í góðu formi á veturna en mér hefur fundist það taka u.þ.b. þrjár vikur að skipta úr skíðaformi yfir í hlaupaform í maí ár hvert. Ég hef alltaf verið mjög grannur (mjór!) og léttur á fæti.

Ég hef keppt í 2-3 utanvegahlaupum undanfarin þrjú sumur, þ.e. Þorvaldsdalsskokki 24 km einu sinni, Súlur Vertical 28 km tvisvar sinnum, Jökulsárhlaupi 32 km þrisvar sinnum (PB 2:58) og Laugavegshlaupi 55 km tvisvar sinnum (PB 6:06). Ég hef klárað öll hlaupin en í fimm af átta hlaupum fengið slæma krampa á seinni hlutanum. Hef reynt öll helstu trix við því þ.e. að taka inn magnesíum-töflur vikum saman, drekka vatn og orkudrykki og taka salttöflur í hlaupinu, allt að tíu í sama hlaupi, án þess að finna að það breytti neinu.

Blanda af kvíða og tilhlökkun
Það var nokkrum dögum fyrir Laugavegshlaupið núna í sumar sem mér datt í hug að það gæti verið spennandi að fara í Hengil 100 km. Ég þorði samt varla að nefna það við nokkurn mann, ákvað að sjá til fyrst hvernig gengi með Laugavegshlaupið og hin hlaupin. Ef mér gengi illa í þeim þá væri ljóst að ég hefði ekkert að gera í Hengilinn. En þetta gekk vel og ég bætti tíma minn í öllum þremur hlaupum. Fékk heilmikla krampa í Laugavegshlaupinu á síðustu 23 km - eins og árið áður - en enga í hinum tveimur hlaupunum. Og fann ekki fyrir neinum meiðslum eða vandamálum. Svo að með fjögurra vikna fyrirvara skráði ég mig í Hengil 100 km.

Undirbúningurinn byrjaði vel, ég æfði af kappi í tvær vikur og tók miklar brekkuæfingar hvað eftir annað, með 700 til 1000 metra hækkun t.d. á Hlíðarfjall og Súlur, margar þeirra með Sonju Sif, sem var að stefna á Hengil 50 km.

Lengsta hlaupið var um 40 km. Svo kom bakslag, ég fékk slæma hálsbólgu og hita í nokkra daga, losnaði svo við hitann en fimm dögum fyrir hlaupið var ég ennþá sár í hálsi og viðkvæmur fyrir kulda. Leist ekki á blikuna. Tók frekar létta æfingu tveimur dögum fyrir Hengil og fannst ég vera alveg frískur og með þokkalega orku, svo að ég ákvað að láta slag standa.

Ég hafði miklað talsvert fyrir mér að þurfa að hlaupa alla nóttina, því að hlaupið hefst kl. 20 að kvöldi og ég áætlaði að vera 18-20 klst á leiðinni.

Það sýndist mér eftir að hafa skoðað úrslit í hlaupinu þessi tvö ár sem100 km hlaupið hefur verið haldið. Ég held að það hljóti að vera meira en tíu ár síðan ég vakti til kl 2 um nótt, hvað þá lengur. Og hvað þá hlaupandi um reginfjöll í svarta myrkri. Ég bjóst sem sagt við að verða rosalega syfjaður og þreyttur í Hengilshlaupinu. Til að vinna eitthvað gegn þessu þá tók ég 2-3 daga fyrir hlaupið í það að hnika sólarhringnum til, gat sofið fram að hádegi síðasta daginn.

Með nesti og nýja skó
Veðurspáin fyrir hlaupið var afleit, suðaustan 10-18 metrar og 100 mm af rigningu. Enda fór það svo - á síðustu stundu - að hlaupinu var frestað um sólarhring. Í 100 km hlaupið var skylda að taka með ýmsan öryggisbúnað, svo sem jakka, buxur, húfu, álteppi, flautu og gsm-síma. Einmitt vegna þess að í september er allra veðra von á hálendi Íslands. Það var líka skylda að vera með einn lítra af vökva og 900 kal af næringu. Ég ákvað þess vegna að vera með frekar veglegan bakpoka, ekki bara svona þunnt og létt hlaupavesti. Ég tók með mér Powerade orkudrykk, nokkra Giffla þ.e. mjúka kanelsnúða og tíu gel á fyrri hringinn.

Það var líka skylda að vera með hlaupaúr og gps-hnit leiðarinnar í úrinu. Ástæðan var sú að fyrri hringurinn er hlaupinn í náttmyrkri (nema fyrsta klst eða svo) og þótt leiðin sé stikuð þá er ákaflega erfitt að rata. Enda sést næsta stika ekki alltaf og í myrkrinu sér maður ekki vel hvort maður er á stíg eða bara einhvers staðar í urð eða móa. Höfuðljós var líka skyldubúnaður.

Ég hafði frétt frá Eyrarskokkurunum Rannveigu, Rakel og Söru Dögg sem hlupu 50 km Hengil í fyrra (í dagsbirtu) að það hefði verið mjög erfitt að rata því að merkingar hefðu verið of stopular. Nú var búið að bæta merkingarnar talsvert að sögn mótshaldara og meðal annars setja rauð ljós á fjölmargar stikur til að gera þær sýnilegri um nóttina.

Ég tók með hlaupastafi sem Þorbergur Ingi hafði keypt fyrir mig í Chamonix - Mekka fjallahlaupanna - og ráðlagði mér eindregið að nota. Til að létta sporin upp brekkur og líka til að styðja og hjálpa á seinni hluta leiðarinnar, þegar fæturnir yrðu orðnir mjög þreyttir.

Stóra stundin rann upp
Ég var mættur í Hveragerði klukkutíma fyrir hlaup. Veðurspáin hljóðaði upp á rigningu og þoku um nóttina og 5-10 gráðu hita en sólarglennur og 7-12 gráður í kringum hádegi á sunnudag. Ég þorði ekki annað en að klæða mig vel fyrir nóttina, var í þunnri síðbrók og síðum hlaupabuxum. Tveimur langerma hlaupapeysum, regnheldum jakka og þykkri prjónahúfu. Var líka í háum compression-sokkum sem mér finnst hjálpa til að minnka þreytu og stífleika í kálfum. Ég festi rásnúmerið mitt utan á lærið svo það yrði sýnilegt þótt ég færi úr jakkanum. Og tímatöku-flöguna á ökklann auðvitað. Ég var í Brooks Glycerin hlaupaskóm eins og ég hafði farið Laugavegshlaupið á tvisvar og vissi að þeir voru með góða dempun og meiddu mig ekki. Og mér fannst spyrnan alveg nógu góð þar þótt sólinn sé ekki nærri því eins grófur og á dæmigerðum utanvegaskóm. Ég reiknaði með að leiðin í Hengils-hlaupinu væri álíka gróf og á Laugavegi, þótt ég hefði svo sem engar upplýsingar um það.

Hengill Ultra 69815206 2091667994472971 7017993393640833024 N
Topp þrír í karla- og kvennaflokki. Andri til hægri.

Allir þeir tuttugu hlauparar sem voru mættir í 100 km hlaupið voru kallaðir saman hálftíma fyrir start, til að fara yfir öryggisbúnaðinn, segja frá tveimur minniháttar breytingum sem þurfti að gera á hlaupaleiðinni vegna úrhellis rigningar undanfarinn sólarhring, og segja frá drykkjarstöðvum. Sú fyrsta var á Ölkelduhálsi eftir um 13 km, næsta í Sleggjubeinsskarði eftir 22 km, þá aftur Ölkelduháls eftir 40 km og Hveragerði eftir fyrri hring 53 km.

Við söfnuðumst saman við rásmarkið og tilkynnt var að ein mínúta væri í startið. Ég áttaði mig á að ég var ekki búinn að kveikja á úrinu og „trackinu" sem átti að beina mér rétta leið. Ég var búinn að æfa mig á þessu fyrr um daginn en nú fór allt í handaskolum. Ég kveikti alla vega á „run" svo ég sæi vegalengd, pace osfrv.

Ég var búinn að sjá það viku fyrr að á meðal keppenda voru Ragnheiður Sveinbjörnsdóttir og Hildur Aðalsteinsdóttir, sem ég vissi að höfðu hlaupið þessa leið áður, og voru eitthvað álíka fljótar og ég. Þannig að ég var búinn að hugsa mér gott til glóðarinnar að fylgja þeim á fyrri hringnum.

Við hlupum stutta leið meðfram Varmá, svo gegnum skóginn og upp að þjóðveginum í Kömbunum. Með samstilltu átaki hópsins sem þarna taldi um 6-7 manns tókst að kveikja á „trackinu" hjá mér. Þá hlupum við að „uppblásna íþróttahúsinu", svo kindagötur að ferðamanna-bílastæðinu í Reykjadal eftir um 5 km. Þar er göngubrú yfir Varmá og svo tekur við talsverð hækkun á ágætum malarstíg upp Reykjadalinn að hverasvæðinu þar sem ferðamenn baða sig. Þá meiri kindagötur og svo kafli á malarvegi að drykkjarstöðinni við Ölkelduháls eftir 1 klst 34 mín. Þar var í boði orkudrykkur, vatn, banani og snickers. Hraðinn á hópnum hafði verið aðeins meiri en ég átti von á en mér leið vel. Við hlupum áfram og nú skall myrkrið á. Það fór að heyrast „ping-pingaling" og eftir svolitla stund áttaði ég mig á að þetta var síminn minn. Hann var kominn inn í eitthvert forrit og búinn að éta upp meira en helming af hleðslunni.

Hlupum yfir langan grýttan mel og svo mjög grýttar kindagötur. Ég fann alveg fyrir því að sjónin mín er ekki lengur fullkomin og sérstaklega hefur rökkursjónin daprast eftir fertugt. Þannig að ég var af og til að reka tána í grjót og það var óþægilegt því að maður átti á hættu að detta kylliflatur og svo var það líka mjög sársaukafullt. Ég fann fljótlega að nokkrar táneglur myndu ekki lifa þessa nótt af.

Nú vorum við bara þrjú saman ég, Ragnheiður og Hildur og planið mitt var að virka mjög vel því að þær rötuðu alveg fumlaust í náttmyrkri og þokusúld. Við kíktum á „trackið" á úrunum ef við vorum í vafa og það virkaði mjög vel. Við hlupum fram á mann sem hafði verið aðeins á undan okkur en svo villst af leið. Það var Sigurður Óli Kolbeinsson og slóst hann í för með okkur. Við óðum tvær litlar ár, bara svona 3-4 skref og ökkladýpi, hlupum svo um tíma eftir sléttu engi og þá niður mjög brattan og hálan stíg niður í Sleggjubeinsskarð. Búnir 22 km og 2 klst 57 mín.   Vegalengdarmælingin á úrinu mínu var reyndar komin í rugl því að ég var af og til að reka mig í pásu-takkann. Í Sleggjubeinsskarði var í boði kjötsúpa auk hefðbundinna drykkja og orku.

Hringadróttins-saga
Við Sigurður Óli vorum eitthvað fljótari en Hildur og Ragnheiður að næra okkur og sögðum þeim að við myndum dóla af stað. Sjá lesendur aðvörunarljósin sem þarna áttu að kvikna? Við Sigurður örkuðum til baka upp skarðið og svo inn á hásléttuna. Sáum bráðlega að okkur hafði borið verulega af leið eða sem nam um 800 metrum. Ég hafði sem sagt yfirgefið hinar ratvísu stúlkur en fylgt í staðinn manni sem ég vissi að hafði villst klukkutíma áður. Jæja við Sigurður Óli þrömmuðum þvert upp háa brekku til að reyna að komast á rétta leið, þurftum að leita talsvert til baka til að finna færa leið og það tókst að lokum. Ég áætla að við höfum tapað um 15 mínútum á þessu brölti. Leiðin upp að tindinum Vörðu-Skeggja (810 mys) er merkt með svörtum stikum og rauð ljós á mörgum þeirra. Oft er samt full langt á milli þannig að við þurftum að hafa okkur alla við að rata. Við hlupum um grjótmeli, furðulega vindsorfnar klappir og glæfraleg einstigi utan í snarbröttum hlíðum. Alltaf heldur á fótinn. Það var þoka og súld með köflum en glitti líka stundum í stjörnubjartan himin.

Við höfðum á orði að við værum eins og Fróði og Sámur í Hringadróttins-sögu, ráfandi um reginfjöll í svartamyrkri. Það vantaði bara Gollrir eða þá köngulóna. Við fórum um hrikalegt klettagil sem heitir held ég Snjógil og fundum svo brautarvörð sem benti okkur leiðina síðustu 300 metra upp á tindinn. Hildur og Ragnheiður komu í því vetfangi niður af tindinum, voru sem sagt komnar fram fyrir okkur eftir villuráfið okkar og voru nú svo sem 10 mínútum á undan.

Við fórum á tindinn og vörðurinn gaf okkur vottorð um það. Nú var stefnan tekin niður í Innstadal, við vorum smá stund að finna rétta leið fram af um 2-4 metra háum klettum en svo gekk vel að rata. Hlupum niður frekar brattan kamb og svo yfir engi og inn á sömu leið og áður, til baka að Ölkelduhálsi.

...... því nóttin er svo löng !
Við Sigurður Óli komum að Ölkelduhálsi upp úr kl. 2 um nóttina eftir 40 km hlaup og 6 klst. 14 mín. Okkur leið vel, vorum alveg heilir heilsu en svolítið þreyttir, eðlilega. Starfsmennirnir á drykkjarstöðinni spurðu hvort við hefðum séð norðurljósin, en við höfðum því miður misst af þeim, líklega rýnt of mikið niður á jörðina, enda þurfti einbeitingu í hverju skrefi. Við fréttum að á undan okkur væru fimm hlauparar, þar á meðal Hildur og Ragnheiður. Við héldum af stað í áttina niður Reykjadal, hlupum rólega niður brekkurnar til að spara lærin. Ég fann fyrir þreytu og stífleika í sköflungum og ristum en leið annars vel. Við komum niður allar brekkurnar og skelltum okkur út í ána, þegar hún var orðin hnédjúp þá rifjaðist upp að þarna hafði verið göngubrú þegar við áttum leið um kvöldið áður, og var eflaust ennþá! Við hristum af okkur kuldann og bleytuna og skokkuðum kindagöturnar í átt að Hveragerði. Mættum stúlkunum og Búa Steini Kárasyni sem voru þá rétt lögð af stað á seinni hringinn.

Við Sigurður Óli komum í markið kl. 03:55 eftir 53 km og tæplega 8 klst ferðalag. Ég drakk og borðaði smávegis, klæddi mig úr jakka og tveimur peysum og fór í staðinn í eina þurra peysu. Og fór úr síðu nærbuxunum. Því að samkvæmt veðurspánni átti að verða minni rigning og einhverjar sólarglennur á seinni hringnum. Bætti á forðann af orku-gelum, hafði tekið fimm á fyrri hringnum. Ég sá hvergi Sigurð Óla, ályktaði að hann væri farinn, svo ég dreif mig af stað eftir samtals 10 mínútna stopp. Hinir tveir hlaupararnir stoppuðu eitthvað lengur og voru núna á eftir.

Þetta var fyrsta vers, svo kemur annað vers, það er alveg eins !
Hvernig tilfinning var það að leggja af stað út á seinni hringinn, kl 4 að nóttu, í þreifandi myrkri? Hún var mun betri en ég hafði ímyndað mér fyrirfram. Mér leið vel í skrokknum, nema þessi stífleiki í sköflungum og svo var ég aðeins sárfættur eftir að sparka í steinana. En ég fann ekki fyrir neinum vandamálum sem voru líkleg til að hindra mig í að klára hlaupið. Og mér leið ennþá betur í huganum. Fyrsta skrefið út á seinni hringinn þýddi að ég var meira en hálfnaður. Ég vissi að það yrði bjart af degi bráðlega og ég myndi væntanlega ekki villast á seinni hringnum. Og ég var ekkert syfjaður, sem kom mér verulega á óvart.

Ég fór rólega í gegnum Hveragerði og áleiðis að Reykjadal. Ég mætti af og til hlaupurum sem voru að klára fyrri hringinn, við skiptumst á hlýjum kveðjum og hvatningarorðum. Það eru einmitt svona aðstæður sem vekja samkennd og velvilja hjá fólki. Úrið mitt gaf mér þau skilaboð að lítið væri eftir af hleðslu og það myndi nú hætta gps-þjónustu. Það þýddi að ég varð að reiða mig alveg á stikurnar til að rata um erfiðustu kaflana. Ég gekk ákveðnum skrefum upp allar brekkurnar í Reykjadal, hafði ennþá ágætis orku. Mér fannst löng bið eftir dagskímunni, hún kom ekki fyrr en ég var að nálgast drykkjarstöðina á Ölkelduhálsi í þriðja sinn. Ég var þar kl. 6 eftir 66 km og 9 klst 58 mín. Borðaði bita af banana og eitt Snickers. Starfsmennirnir sögðu mér að það væru bara þrír hlauparar á undan mér. Það kom á óvart en hljómaði spennandi.

Spyrjið mig eftir viku
Fór af stað frá Ölkelduhálsi og hljóp núna í dagsbirtu yfir sömu mela og kindagötur og kvöldið áður. Það var mun betra að fóta sig í birtunni en á móti kom að ég var farinn að þreytast og þá verður maður óöruggari. Ég fékk mér sopa af orkudrykk alltaf annað slagið, en það var smá vesen því ég þurfti alltaf að taka af mér bakpokann til að ná í flöskuna. Ég mætti Búa, Ragnheiði og Hildi efst í brekkunni ofan við Sleggjubeinsskarð og þau virtust bara hress. Þau voru núna í forystu í hlaupinu.

Ég kom niður í Sleggjubeinsskarð um kl. hálf átta að morgni eftir 75 km og 11 klst. 27 mín. Borðaði 3 skeiðar af kjötsúpu en kom ekki meira niður, borðaði í staðinn enn eitt Snickers og drakk kók. Starfsmennirnir sögðu við mig."ef við bjóðum upp á það á næsta ári að hlaupa þrjá hringi, sem sagt 150 km, myndir þú taka þátt í því ? "  !! Ég sagði þeim að ég væri rétt að verða 53 ára og að 100 km væru alveg nóg fyrir mig! En ég hugsaði með sjálfum mér, „spyrjið mig eftir viku" !

Ég trítlaði af stað áleiðis upp skarðið og mætti Sigurði Óla neðst í brekkunum, það voru fagnaðarfundir. Hann var svo sem tíu mínútum á eftir mér og leið vel nema var þreyttur í lærunum. Ég hélt áfram og fann núna að ég var að þreytast, gat ekki arkað sleitulaust upp bröttu brekkurnar heldur þurfti aðeins að hægja ferðina. Kom að gatnamótunum þar sem áberandi skilti vísar leiðina áleiðis upp að Vörðu-Skeggja, það var óskiljanlegt hvernig við höfðum misst af því um nóttina. Núna sá ég meira af landslaginu á fjallinu, það er víða stórbrotið og fallegt. Eitthvað var veðurspáin að klikka því að sólin sýndi sig ekkert, hins vegar buldu á mér hressilegar skúrir af og til. Ég kom niður af tindinum og mætti Sigurði Óla aftur, við hvöttum hvor annan til dáða.

Í dagsbirtunni gekk vel að finna leiðina niður af klettunum og núna sá ég mjög fallegar jarðmyndanir í Innstadal, sem minntu á Landmannalaugar. Ég kom að gatnamótunum við aðal-leiðina og núna byrjaði ég að mæta halarófu af 50 km hlaupurum. Það var mjög skemmtilegt og upplífgandi. Sigurjón Ernir fyrsti karl. Mari og Sonja Sif fyrstu konur. Sigurður Kiernan svona tíundi og það hvarflaði að mér hvort hann hefði misst af startinu. Ég hljóp og gekk til skiptis á grýttu kindagötunum, fannst erfitt að fóta mig og var orðinn mjög stífur í sköflungunum. Sigurður Óli náði mér og við voru samferða um stund. Svo hvatti ég hann til að fara á undan mér því að hann hafði greinilega meiri kraft en ég.

Paradise by the Dashboard Light
Ég kom að drykkjarstöðinni á Ölkelduhálsi í fjórða sinn, nú eftir 93 km og 14 klst. 34 mín. Borðaði smá af banana og greip með litla kók. Nú var lokaáfanginn framundan og ég var orðinn viss um að ég myndi klára hlaupið. Tók eina salttöflu og eina íbúfen svona til málamynda, þótt ég hefði ekki fengið neinn fyrirboða um krampa. Ég hljóp og gekk til skiptis, þegar ég kom á góða stíginn niður Reykjadal þá var mikið um ferðamenn. Ég mætti þremur hópum í hestaferð og fór út fyrir stíginn til að hræða ekki hestana með látum og glamri í stöfunum. Kom á kindagöturnar og svo í löngu brekkuna upp að þjóðveginum við Kambana. Þar opnast útsýni yfir Hveragerði og var það langþráð sjón. Ég sá engan hlaupara fyrir aftan mig og var orðinn mjög bjartsýnn á að ná þriðja sæti í karlaflokki. Það hafði ekki hvarflað að mér fyrir hlaupið. Hljóp núna við fót síðasta spölinn í gegnum Hveragerði og í mark. Rak upp siguróp þegar ég fór yfir marklínuna. Sigurður Óli tók á móti mér og við óskuðum hvor öðrum til hamingju með stóru knúsi.

Gaddavírsrokk
Stóra niðurstaðan er að hlaupið gekk vel hjá mér. Ég var mjög þreyttur þegar ég kom í mark en kenndi mér einskis meins utan það sem áður var nefnt, mjög stífir sköflungar og hnjaskaðar tær. Engir krampar, sem ég held að skýrist af að ég hljóp aldrei neitt hratt í þessu hlaupi. Engin eymsli í hné eða kálfa eða baki. Smávegis nuddsár eftir bakpoka og buxnastreng og blöðrur á þumalfingrum eftir stafina. Stafirnir hjálpuðu mér mjög mikið að ég tel. Maginn í nokkuð góðu standi en ég var samt lystarlaus fyrstu 2-3 klst eftir keppnina.

Hausinn var í lagi allan tímann, ég var aldrei neitt nálægt því að „bugast". Tíminn var betri en ég átti von á, 16 klst. og 18 mínútur. Veðrið var hagstætt til að hlaupa, yfirleitt hægur vindur, súld eða rigning með köflum og hiti 5 til 12 gráður. Núna þremur dögum eftir hlaupið finn ég ekkert fyrir strengjum en er ennþá dálítið stífur í sköflungum og með heilmikinn bjúg á vinstri ökkla. Það hlýtur að jafna sig.

Hvernig er þetta hlaup miðað við Laugaveg - sem margir hlauparar þekkja? Hvor hringur í Hengill Ultra 100 km er jafn langur og í Laugavegshlaupinu, þ.e. 53-55 km. Hækkunin er líka mjög svipuð eða um 1700 metrar. Leiðin í Hengli er verri yfirferðar myndi eg segja, því að í Laugavegshlaupinu eru lengri kaflar sem eru „hlaupalegir" þ.e. góður vegur eða stígur án stórgrýtis og án hálku. G

rundvallarmunur er hins vegar á þrennu. Í fyrsta lagi að í Hengilshlaupinu er erfiðara að rata, leiðin er ekki eins augljós og maður er í fámenni og sér yfirleitt engan framan við sig. Í öðru lagi að fyrri hringur í Hengli 100 km er að mestu í náttmyrkri sem gerir ennþá erfiðara að rata og að fóta sig, og er líka bara sálrænt erfitt. Í þriðja lagi að í Hengli 100 km eru hlaupnir tveir hringir þ.e. tvöfalt lengra en í Laugavegshlaupi.

Í hnotskurn vil ég bera saman þessi tvö hlaup með að nota líkingu um laxveiði á Íslandi og í Rússlandi, sagt er að laxveiði á Íslandi sé ljúfur vals en í Rússlandi hins vegar gaddavírsrokk. Hengill Ultra 100 km er gaddavírsrokk.

Legg þú á djúpið
Ráðlegg ég fólki að skella sér í Hengil 100 km ? Jájá, fyrir þá sem eru til í harkalega áskorun. En fyrir flesta hlaupara þarf vissan aðdraganda og undirbúning. Eftir á að hyggja held ég að upptakturinn hafi verið mátulegur hjá mér og tímasetningin fín. Súlur Vertical 28 km og Jökulsárhlaup 32 km fyrir tveimur árum, Laugavegur 55 km í fyrra og Hengill 100 km núna. Ég var í formi og ómeiddur fyrir fjórum vikum og kýldi á að skrá mig. Maður er aldrei fullkomlega tilbúinn, það verður bara að neyta meðan á nefinu stendur. Og það er lán í óláni við 100 km Hengil að tímamörkin eru nokkuð rúm eða 24 klst. Þannig að maður getur lokið hlaupinu þótt maður gangi mjög mikið og skokki aðallega auðveldu kaflana. Hvað er svo sem það versta sem getur gerst? Kannski að þurfa að játa sig sigraðan eftir fyrri hring eða á einhverri drykkjarstöðinni. Það er nú enginn heimsendir.

En ég ráðlegg þeim sem eru að spá í Hengil 100 km á næsta ári að stúdera leiðina vel á kortum. Læra mjög vel á „track" fídusinn í úrinu sínu. Þar á meðal að stilla á orkusparnað. Fá nákvæmar ráðleggingar hjá þeim sem hafa hlaupið Hengil 50 km eða 100 km. Það eru allir boðnir og búnir að hjálpa og hvetja. Og auðvitað að æfa og æfa í vetur. Svo segi ég bara við þig lesandi góður eins og var sagt við Álfgrím Hansson í Brekkukotsannál: „Og þú ungi maður sem ert að leggja á djúpið, - legg þú á djúpið."

Andri Teitsson, Akureyri.