Þórður Guðni Sigurvinsson - Ótrúleg frammistaða hógværs hlaupara

uppfært 17. janúar 2024

Á tímamótum, eins og áramótum, líta hlauparar oft yfir farinn veg. Hvernig gekk árið, hvaða markmið náðust ef þau voru sett, hversu langt var hlaupið, hversu hratt var hlaupið. Hlauparar bera sig saman hver við annan og lagt er á ráðin fyrir komandi tímabil. Opnað hefur verið fyrir skráningar í helstu hlaupin og þær kannski þegar komnar í hús. Markmiðin fyrir komandi ár liggja fyrir eða mótast eftir því sem líður á árið. Sumir eru duglegir að auglýsa hvað liggur fyrir á meðan aðrir halda öllum áætlunum fyrir sig. Afrekin þegar þau loks liggja fyrir með tilheyrandi undirbúningi og vinnu hleypa birtu í brjóst hlaupara og eru oftast hvati til frekari afreka.

Eitt er það afrek sem ég frétti af á haustmánuðum sem mér fannst mikið til koma en það tilheyrir Þórði Guðna Sigurvinssyni, en hann hljóp Vormaraþonið, Mývatnsmaraþon, Laugavegshlaupið, Reykjavíkurmaraþon og Haustmaraþonið á hverju ári í tíu ár í röð frá 1998-2007 (sjá töflu hér að neðan). Þetta er fyrir utan allt annað það lausa sem til féll á sama tíma eins og maraþon erlendis. Ótrúleg seigla og elja hjá hógværum hlaupara. Hlaupaferill Þórðar spannar hátt í þrjá áratugi og sést hann enn á hlaupum í Elliðaárdalnum þó eitthvað hafi hægt á honum. Þórður er einn af starfsmönnum Vetrarhlaupsins nær allt frá upphafi.

Þórður Guðni Sigurvinsson Tímar Í Hlaupum 1998 2007 B
Tímar Þórðar í maraþonum frá 1998 - 2007 tímabili

Gleðilegt nýtt ár og farsælt komandi hlaupaár !