Þórólfur Ingi Þórsson hlaupari - 20 ára keppnisafmæli

uppfært 20. júlí 2022

Einn af okkar allra bestu hlaupurum Þórólfur Ingi Þórsson fagnaði þann 8. júlí síðastliðinn 20 ára keppnisafmæli. Hlaup.is fékk að birta hlaupasögu Þórólfs.

Ég man ekki nákvæmlega hvenær ég fór fyrst út að hlaupa eftir að ég varð fullorðinn, ég man bara að ég var búinn á því að hlaupa upp “brekkuna” sem er frá farfuglaheimilinu við Laugardal og upp að Laugarásvegi.  Ég held ég hafi ná ca 300m áður en ég varð að stoppa á 3 km hring.  Það er hins vegar skráð hvenær ég fór í mitt fyrsta keppnishlaup, 8. júlí 2002, Námsflokkahlaupið.  Markmiðið var að ná undir 60 mínútur, tíminn 54:39, þvílík gleði, þarna upplifði ég í fyrsta skipti sælutilfinninguna sem kemur eftir góða áreynslu og vel heppnað hlaup.

Í tilefni 20 ára keppnisafmælisáfangans langar mig að rifja upp örfáar minningar, ekkert endilega í nákvæmlega réttri tímaröð en svona hér um bil.

Þórólfur 20 Ára Keppnisafmæli Ég Og Kári Steinn
Kári Steinn og Þórólfur

Fyrstu árin æfði ég ekki markvisst og ekki vel, mætti kannski 1-3 sinnum í viku á æfingar, var fljótlega farinn að spretta fram úr all flestum æfingafélögunum á sprettæfingum og fannst það nóg, þegar ég byrjaði var ég 25 ára og yngstur í hópnum. Þótt ég æfði lítið þá var ég virkur í að keppa í allskonar hlaupum. Á þessum tíma, þá hvíldi ég þrjá daga fyrir keppni, eitthvað sem ég tengi við hvíldartímabil í dag að æfa ekkert í þrjár daga.  

Ein af mínum allra skemmtilegustu minningum er frá 2005 í Víðavangshlaupi ÍR.  

Þarna voru allar helstu frjálsíþróttahlaupakempur landsins mættar og all flestar á gaddaskóm, sem var svo fjarlæg hugsun fyrir mig þá. Keppnin var á ÍR svæðinu, hlaupnir fjórir ca. 2 km langir hringir, hlaupið á grasi, í drullu, stokkið yfir skurði og ég veit ekki hvað. Á þessum tíma var Kári Steinn Karlsson langbesti hlaupari landsins. Í þessu hlaupi náði ég þeim glæsta árangri að vera með Kára á mynd þegar hann kom í mark, nema hvað ég var rúmlega heilum hring á eftir honum. 

SUB 40

Ég skildi ekkert í því af hverju ég náði aldrei að hlaupa í keppni undir 40 mínútum sem var “múrinn” í 10 km á þessum tíma.  Lengi vel átti ég 40:03 í “Hlaupið undan vindi” sem hefði seint talist löglegt hlaup.  Góða við þennan tíma að þarna áttaði ég mig á því að það skiptir máli hvernig maður talar við sjálfan sig, ég ætlaði undir 40, undir 40, undir 40.  En ég var rétt yfir 40 mínútum.  Þegar í raun ég hefði átt að selja sjálfum mér hugmyndina að hlaupa á 39 eitthvað.  

En hvað um það, það var ekki fyrr en mér var kurteisislega bent á að ef ég ætlaði hlaupa SUB 40 þá yrði ég líka að fara að æfa betur.  Ég tók málin í mínar eigin hendur fann prógram á netinu sem heitir SUB 40.  Nítján daga prógram með fjórum gæðaæfingum, þetta tók ég í heilan vetur í Powerade seríunni 2005-2006, í fyrstu fjögur skiptin náði ég ekki að klára æfingarnar á réttum hraða, það var ekki fyrr en í fimmtu tilraun sem ég náði að klára æfingar á réttum hraða, sem skilaði sér í að ég braut múrinn.  Í febrúar Powerade 2006 fór ég í fyrsta skipti á 39 eitthvað þegar ég hljóp á 39:28, þarna var ekki aftur snúið og 39 eitthvað orðið staðreynd.  

Hættur að hlaupa

Ég var varla byrjaður að æfa þegar í skokkhópnum var farið að tala um maraþon og Laugaveginn, kannski er þetta svona ennþá í hlaupahópnum, en það er efni í öðruvísi pistil.  Ég tók tvisvar þátt í Reykjavíkurmaraþoninu og í bæði skiptin hljóp ég langt frá markmiðum, markmið sem voru kannski ekki raunhæf, en ég man það mjög vel eftir að hafa hlaupið á 3:45 í staðinn fyrir 3:30 hversu drullu fúll ég var.  Meðan allir í hópnum hittust eftir hlaup í heitapottinum í Laugardalslauginni, var ég heima, fann til svartan ruslapoka og setti alla hlaupaskóna mína í hann og ætlaði næsta dag með þá á haugana, ég ætlaði ALDREI að hlaupa aftur.  Mögulega liðu tveir dagar þangað til ég var farinn að huga að næsta maraþoni.

Næstum dauður

Einu sinni var startið og markið í Ármannshlaupinu í Laugardalnum.  Hlaupaleiðin lá úr dalnum út á Kirkjusand yfir Sæbrautina, í áttina að Hörpu og til baka.  Sæbrautinni hafði verið lokað meðan á hlaupinu stóð með lögregluvakt á báðum endum.  Ég og Ingvar Hjartarson vorum í keppni um fyrsta sætið og hlupum þétt saman, það var svo á leiðinni til baka þar sem við hlupum á göngustígnum meðfram Sæbrautinni að við tökum 90° beygju út á Sæbrautina, nema hvað lögregla á mótorhjóli var að keyra eftir götunni á ágætis ferð og átti ekki von á þessu.  Mótorhjólið fór fram hjá okkur en aftari hlutinn þar sem er einhvers konar taska, strauk hnéskelina á mér.  Hefði ég verið hálfri til einni sekúndu hraðari hefði ég fengið hjólið í hliðina mér og líklega hefði Ingvar lent í því líka þar sem hann var einu skrefi á eftir mér.  Ég man ekki hvernig hlaupið endaði en þetta er minningin sem situr eftir.

Ófarir í útlöndum

Margar af mínum skemmtilegustu minningum eru tengdar keppnisferðum erlendis, mér þykir sérstaklega vænt um þær ferðir sem ég hef farið út með félögum mínum og fengið að kynnast þeim betur.  En það gengur alveg á ýmsu í útlöndum, tvennt sem mig langar að rifja upp.

Ég fór á EM öldunga í hálfu maraþoni í Aarhus í Danmörku, nema hvað vikuna fyrir hlaup fór ég að vaða í sjóinn við Nauthólsvík með ÍR æfinga félögunum.  Fékk við það þetta fína kvef og þegar ég horfi til baka þá hefði ég aldrei átt að fara út til Danmerkur því eftir að ég kom heim fór ég til læknis og var settur á sýklalyf vegna kinnholusýkingar.

Ég sem sagt fór til Aarhus til að taka massa gott marflatt hálft maraþon.  Góður vinur minn Ólafur Austmann var þá kominn út því hann keppti í brautarhlaupum, hann ætlaði að bíða í markinu og taka á móti mér því hann var ekki að keppa í hálfu maraþoni.  Ég fór af stað, keyrði strax á 3:25 pace sem var fínt í 3 km en eftir 5 km var ég búinn, kvefið var of mikið, svo voru massa brekkur, þvílík vörusvik, ég sem hélt að allt væri flatt í Danmörku.  Ég mátti þola það restina af hlaupinu að hlauparar af öllum aldri fóru fram úr mér.  Þegar ég svo loksins skilaði mér í mark var Óli alveg við það að fara því hann hélt ég hefði hætt í hlaupinu, enda mark klukkan farin að sýna ca. 1 klst og 21 mínútu.  Ég hef sjaldan verið jafn feginn að geta kastað mér í jörðina af þreytu eins og eftir þetta hlaup.

Þórólfur 20 Ára Keppnisafmæli Elín Edda Og Villi
Þórólfur með Elín Eddu og Villa Svans

Fyrir ekki svo mörgum árum fór ég ásamt Elín Eddu og Villa Svans til Leverkusen í Þýskalandi til að keppa í 10 km hlaupi, við flugum í gegnum Frankfurt og tókum lest til Leverkusen, leiðin var virkilega falleg.  Við leigðum okkur íbúð í Leverkusen, það var þarna sem ég heyrði fyrst af Hlaupalíf hlaðvarpinu sem þau voru við það að setja af stað.  Keppnin var á laugardegi og yngstu aldursflokkarnir byrjuðu snemma um morgunin, það var ræst á ca. 30 mínútna fresti, sífellt hraðari hlauparar eftir því sem leið á morguninn.

Hraðasta hlaupið og það sem við vorum skráð í átti að hefjast klukkan eitt.  Það var komið alveg ágætis rok þegar við byrjuðum upphitunina, ég kláraði að ganga frá greiðslu í hlaupið á staðnum klukkutíma fyrir.  Alltaf bætti í vindinn og það var komið rok, svo var komið hífandi rok og hvítu tjöldin við það að fjúka.  Það var svo ca. 30 mínútum fyrir hlaup að því var aflýst!  Við þrjú komin frá Íslandi í eitthvað no-name hlaup og fengum ekki að keppa og bæta okkur.

Þar sem óveðrið sem skall á var það vont að tré brotnuðu yfir lestarspor gátum við ekki ferðast með lest til Frankfurt daginn eftir til að ná fluginu.  Eftir leit á netinu fundum við aðila sem var að fara á bíl til Frankfurt á sunnudagsmorgun og var að selja far.  Eldsnemma á sunnudagsmorgni, fundum við þennan gaur á bílastæði við bensínstöð og hoppuðum upp í.  Við máttum þola miður skemmtilega tónlist á repeat í nokkrar klukkustundir en það var þess virði til að ná fluginu sem rétt hafðist.  Þetta er ferðamáti sem ég væri alveg til í að upplifa ekki aftur, haha.

Lærði loksins að hlaupa

Fyrstu árin var ég oft að detta í meiðsli, einu sinni var ég skráður í Laugaveginn og þurfti að hætta við nokkrum vikum áður, það var á þeim tíma sem það seldist ekki upp í hlaupið. En svo var alltaf að koma upp meiðsli í og við kálfann á öðrum fæti.  Oft reyndi ég að þrauka áfram í staðinn fyrir að hætta strax að æfa og vinna að bata, ég var líka oft hjá sjúkraþjálfara á þessum tíma.  Skórnir mínir slitnuðu líka alltaf eins, utanvert aftan á hæl, ég var held ég Íslandsmeistari í því að lenda á hælnum í niðurstiginu.

Á þessum tíma var ég byrjaður að æfa hjá ÍR.  Það var ekki fyrr en Martha Ernstdóttir og Jón Oddsson maðurinn hennar tóku við þjálfun hjá meistaraflokki ÍR að ég lærði að hlaupa, þarna var ég örugglega búinn að hlaupa í ca. 12 ár.  Minningin er mjög skýr þegar við sem æfðum í hópnum vorum látin stilla okkur upp við endann á 60 m brautinni inn í Laugardalshöllinni og vorum látin hlaupa af stað, aftur og aftur og aftur.  Í hvert einasta skipti fékk ég ábendingu frá Jóni og Mörthu um hvað það væri sem ég ætti að laga og hvernig ég ætti að beita mér.  Meðfram hlaupaæfingum vorum við látin taka styrktaræfingar, “sterkan nafla” var ein af möntrunum.  Þarna var grunnurinn lagður að skapa þau tækifæri sem kroppurinn minn þurfti til að geta haldið úti stöðugleika í æfingum svo mánuðum og árum skipti.  Ég verð þeim hjónum Jóni og Mörthu ávallt þakklátur fyrir að kenna mér að hlaupa rétt.

Hlaupastíll í kílómetra fjarlægð

Á fyrstu árunum sem ég var að hlaupa þá þekkti maður alla sem voru að hlaupa, þetta var meira að segja þannig að ef maður sá hlaupara langt í burtu gat maður út frá hlaupastílnum vitað hver það var.  En svo var mikil breyting eftir 2008 og hlaupahópar og mikil vitundarvakning um hreyfingu hefur sem betur gert það að verkum að ég er alltaf að sjá nýtt fólk á hlaupum.

Árangur

Ég á líka margar góðar og skemmtilegar minningar tengt árangri.  Til dæmis í fyrsta skipti sem Íslendingur 40 ára og eldri fór undir 16 mínútur í 5.000m á braut.  En það gerði ég í keppni á Selfossvelli, þegar ég hljóp með Arnari Péturssyni og Hlyni Ólasyni, bætti þáverandi met um rúmlega 30 sekúndur.  Fámennt mót, þar sem ég var næstum hættur við að keppa hálftíma áður af því að ég fann aðeins til í ristinni á vinstri fæti, en sem betur fer lét ég slag standa.

Svo þykir mér alltaf sérlega vænt um keppnisferðina á EM öldunga í Alicante árið 2018 sem ég fór með Víði Þór Magnússyni, virkilega skemmtileg ferð.  Keppni í 10 km var á föstudagskvöldi, þar bætti ég mig, varð 19. í heildina af öllum hlaupurum 30 ára og eldri í Evrópu og sjötti í mínum aldursflokk.  Svo á sunnudagsmorgni þá var keppni í hálfu maraþoni sem ég bætti mig einnig.

Besti tíminn minn í 10 km er frá því í Ármannshlaupinu árið 2019, held það sé 32:41, en þá héraði Arnar þjálfari mig, þarna var ég að bæta mitt eigið aldursflokkamet.  Ég man það bara hversu erfitt þetta var síðustu tvo km, en hvatningin frá Arnari og keppnisskapið mitt og seigla skilaði góðri niðurstöðu.

Það er skrítið með árangur, hvernig maður getur æft og æft fyrir eina keppni og svo þegar að henni kemur þá eru stundum eintóm vonbrigði.  Svo hin leiðin, að fara í keppni, vel æfður, en ekki endilega með fókus á að toppa í keppninni sjálfri.  Þannig var það með heilt maraþon í Vormaraþoni Félags maraþonhlaupara 2021.  Ég fór í það hlaup sem æfingahlaup, því hætt hafði verið við öll maraþon undangengis vetrar vegna Covid.  

Þórólfur 20 Ára Keppnisafmæli Maraþonmynd
Maraþonkeppni

Ég vissi fyrirfram að ég yrði einn allan tímann að hlaupa þar sem aðrir hlauparar væru hægari en ég, svo var einnig spáð 10 m á sekúndu og það er of mikill vindur til að ætla sér mikil afrek. Eina markmiðið var að hlaupa 10 sek hraðar á km frá Elliðarárdalnum að snúningspunkti á Ægisíðu og svo 10 sek hægar á km til baka.  Mér leið alveg fáránlega vel, þurfti að passa mig að fara ekki of hratt og var sífellt að hægja á mér.  Mótvindurinn til baka í fyrri hring var ekkert mikill, en á seinni hring voru alveg góðir 5 km þar sem var virkilega erfitt að hlaupa og ég datt niður í 3:55 pace á einum km sem var hægasti km.  En ég kláraði maraþonið á 2:34:49, sem var alveg óvart eiginlega, ég hljóp bara í zone-inu.  Eftir hlaup hjólaði ég heim, enda mjög ferskur og fór svo í létta fjallgöngu daginn eftir.

Norðurlandameistaramótið í víðavangshlaupum í nóvember 2021 stendur líka upp úr, þvílíkur heiður að fá að ferðast með og vera innanum flott íþrótta fólk eins og Andreu Kolbeins, Fríðu Rún, Hlyn Óla og Burkna Helgason fararstjóra sem hefur gríðarlega reynslu.  Þarna náði ég fyrsta sæti í mínum aldursflokki í braut sem var eitt drullusvað frá upphafi til enda, ótrúlega skemmtileg reynsla og Norðurlandameistari 45-49 ára í kaupbæti.

Þórólfur 20 Ára Keppnisafmæli NM Hópurinn C
NM hópurinn
Þórólfur 20 Ára Keppnisafmæli NM Drulla
Drullusvað á NM

Það að vera valinn í landsliðið í utanvegahlaupum fyrr á þessu ári, til að keppa á heimsmeistaramótinu í utanvegahlaupum sem fram fer í Tælandi í nóvember, er bara eitthvað annað.  Ég ætla að njóta vegferðarinnar alveg í botn og vonandi toppa og vera mér og teyminu til sóma í nóvember.

Það sem stendur upp úr á þessum tuttugu árum

Ég gæti alveg rifjað meira upp, talið upp fleiri keppnir, sigra og vonbrigði.  En það sem stendur upp úr á þessum tuttugu árum er allt fólkið sem ég hef kynnst, allir vinirnir sem ég hef eignast.  Allt fólkið í fyrirtækjunum sem styrkja mig og hafa styrkt mig sem þekktu mig ekki neitt í byrjun en ákváðu samt að hafa trú á mér og því sem ég ætlaði mér að gera.

Þakklæti er mér því ofarlega í huga.  Þakklæti fyrir allt sem hlaupin hafa gert fyrir mig, allt sem þau hafa gefið mér.  Þakklæti til fjölskyldunnar minnar, stelpurnar mínar sem styðja mig 100%, svo er pabbi sem fylgist með á hliðarlínunni og spyr mig hvort fjölmiðlar hafa ekki verið á staðnum :) svo er það nær fjölskyldan sem hjálpar til og styður við bakið á mér.

Þórólfur 20 Ára Keppnisafmæli Ég Og Stelpurnar
Þórólfur með dætur sínar

En ekki síst, þakklæti fyrir andlega og líkamlega góða heilsu til að geta stundað heilsueflandi íþrótt, það er ekki sjálfgefið en nauðsynlegt til langtíma árangurs.