Þrír fertugir hlauparar í Ríó

birt 08. ágúst 2016

Meðal þeirra fjölmörgu frjálsíþróttamanna sem keppa á Ólympíuleikum í Ríó í ágúst eru þrír hlauparar sem eiga það sameiginlegt að vera komnir yfir fertugt. Engu að síður eru þeir enn að og hafa lengi verið í fremstu röð í heiminum í sínum greinum. Þetta eru Bandaríkjamennirnir Meb Keflezighi og Bernard Lagat og Kim Collins frá smáríkinu Sankti Kitts og Nevis.

Meb Keflezighi
Mebrahtom Keflezighi, eða Meb eins og hann er jafnan kallaður, fæddist í Erítreu 5. maí 1975 og er því nýorðinn 41 árs. Hann kom til Bandaríkjanna sem flóttamaður með fjölskyldu sinni 12 ára gamall og byrjaði að keppa í hlaupum á menntaskólaárunum. Hann komst í bandaríska Ólympíuliðið í 10.000 m hlaupi fyrir leikana í Sidney árið 2000 og endaði þar í 12. sæti á 27:53,63 mín. Á leikunum í Aþenu 2004 vann hann silfurverðlaun í maraþonhlaupi á 2:11:29 klst., en þetta var í fyrsta sinn í 28 ár sem Bandaríkjamaður komst á pall í maraþoni á Ólympíuleikum. Meb missti hins vegar af leikunum í Peking 2008 eftir að hafa mjaðmarbrotnað á úrtökumótinu vestanhafs. Fjórum árum síðan bætti hann þetta upp með því að vinna úrtökumótið 36 ára gamall á persónulegu meti, 2:09:08 klst, og á leikunum í London 2012 varð hann fjórði á 2:11:06 klst.

Meb kemur í mark sem sigurvegari í Boston 2014.Þátttaka í þrennum Ólympíuleikum og einn silfurpeningur er fjarri því það eina sem Meb hefur afrekað á hlaupum. Af öðru því helsta má nefna að hann vann New York maraþonið árið 2009 á 2:09:15 klst og Boston maraþonið vorið 2014 á 2:08:37 klst, sem er besti tíminn hans til þessa. Þá hafði enginn Bandaríkjamaður unnið hlaupið í 31 ár og auk þess var Meb elsti sigurvegari hlaupsins í 84 ár! Meb varð með þessu eini maðurinn í sögunni sem hefur unnið bæði New York og Boston maraþonin og komist á pall á Ólympíuleikum.Í febrúar á þessu ári náði Meb 2. sæti á bandaríska úrtökumótinu fyrir Ólympíuleikana, hljóp á 2:12:20 klst. Þar með var sýnt að hann yrði meðal keppenda í Ríó.

Eðlilega hafa margir velt því fyrir sér hvernig Meb hafi tekist að halda sér í heimsklassaformi í hartnær 20 ár. Sjálfur telur hann lykilinn að þessu vera mikinn aga í hinni daglegu „rútínu" og áhersla á ótal mörg smáatriði sem skipta kannski litlu máli hvert um sig en eru afgerandi þegar þau leggjast saman. Hlaupin sjálf eru ekki það mikilvægasta, heldur allt hitt sem gerir honum mögulegt að ná sér sem fyrst eftir hverja æfingu og hvert keppnishlaup, þ.m.t. þaulskipulagðar teygju- og styrktaræfingar, ísböð, meðvitað mataræði og sitthvað fleira. Nánast hver einasta mínúta hvers einasta dags er skipulögð, allt frá því að hann fer á fætur kl. 7 á morgnana þar til hann leggst til svefns kl. hálfellefu á kvöldin - og reyndar er svefntíminn ekki síður mikilvægur hluti af þjálfuninni en allir hinir klukkutímarnir í sólarhringnum.

Meb hefur haft sama þjálfarann, Bob Larsen, frá því á árinu 1994, en þá kom Bob honum á skólastyrk í UCLA háskólanum í Los Angeles, sem var óvenjulegt á þeim tíma þegar langhlauparar áttu í hlut. Bob fylgist ekkert endilega með hverri einustu æfingu Mebs, en þegar einhver stórátök eru í nánd leggur hann sig sérstaklega eftir því að fylgjast með léttu æfingunum. Þá sést nefnilega best, að mati Bobs, hvernig ástandið á líkamanum er.

Bernard Lagat
Bernard Kipchirchir Lagat fæddist í Kenýa 12. desember 1974 og verður því 42ja ára í lok þessa árs. Verðlaunasafnið hans inniheldur hvorki meira né minna en 13 verðlaunapeninga frá heimsmeistaramótum og Ólympíuleikum, þ.á.m. 5 gullpeninga. Hann á bandarísku metin í 1.500 m hlaupi og míluhlaupi innanhúss og 1.500 m, 3.000 m og 5.000 m hlaupi utanhúss, auk þess sem hann á Kenýamet í 1.500 m hlaupi, sem jafnframt er næst besti tími sögunnar á þeirri vegalengd (3:26,34 mín). Þetta var í Brussel 2001. Síðan eru liðin 15 ár!

Allt er fertugum fært, en þá þarf líka að taka á því.Bernard Lagat keppti fyrir Kenýa til ársins 2004, þ.á.m. í 1.500 m hlaupi á Ólympíuleikunum í Sidney árið 2000 þar sem hann hreppti bronsið og í Aþenu 2004 þar sem silfurverðlaunin komu í hans hlut. Árið 2004 fékk hann bandarískan ríkisborgararétt en þangað vestur fór hann árið 1996 til náms og hlaupaæfinga við háskólann í Washington. Frá og með árinu 2005 hefur hann síðan keppt fyrir Bandaríkin.Síðustu 10 ár hefur Lagat að miklu leyti fært sig úr millivegalengdum (1.500 m) yfir í langhlaup (5.000 m). Hann varð níundi í 5.000 m hlaupi á Ólympíuleikunum í Peking 2008 og fjórði í London 2012. Fyrr í sumar varð ljóst að hann yrði meðal keppenda á fimmtu Ólympíuleikunum í röð þegar hann vann eftirminnilegan sigur í 5.000 m hlaupi á bandaríska úrtökumótinu. Þessi 41 árs meistari var sjötti þegar einn hringur var eftir, en síðustu 400 metrana hljóp hann á 52,82 sek, sem dugði til að „skilja ungu mennina eftir" og vinna hlaupið.

„Aldur er bara tala", sagði Bernard Lagat í viðtali við tímaritið Runner‘s World 2014. Til að viðhalda hraðanum tekur hann m.a. langar hraðaæfingar sem líkjast keppnishlaupum. Hann borðar fjölbreyttan mat og mikið af honum, tekur ekki fæðubótarefni og notar aldrei púlsmæli, enda segist hann finna hversu mikið álag líkaminn þoli. Hann gerir styrktaræfingar einu sinni í viku en lyftir aldrei lóðum. Þá hefur hann það fyrir reglu að taka sér 5 vikna algjört frí frá hlaupum á hverju hausti. Þá gerir hann ekkert annað en borða og leika sér við krakkana, svo vitnað sé í hans eigin orð í fyrrnefndu viðtali. Á þessum tíma eiga nokkur kíló það til að bætast við líkamsþyngdina, en þau eru fljót að fara aftur þegar hlaupnir eru 110-120 km á viku eins og Lagat gerir yfir veturinn.

Kim Collins
Kim Collins fæddist í Sankti Kitts og Nevis 5. apríl 1976 og er því nýorðinn fertugur. Það þykja kannski ekki óskaplega stór tíðindi að maraþonhlauparar geti haldið nokkurn veginn í horfinu hvað árangur varðar fram að fertugu, en saga Kim Collins er jafnvel enn áhugaverðari en þeirra félaga Meb og Lagat. Kim Collins keppir nefnilega í 100 m hlaupi í Ríó og er til alls líklegur.

Kim Collins á heimsmet 40 ára og eldri í 100m hlaupi.Kim Collins hefur keppt í spretthlaupum frá 16 ára aldri eða þar um bil. Fyrstu Ólympíuleikarnir hans voru í Atlanta árið 1996 (fyrir 20 árum)! Þar komst hann upp úr undanrásum í 100 metrunum (á 10,27 sek) en féll úr leik í milliriðlum. Á leikunum í Sidney árið 2000 náði hann 7. sæti í úrslitahlaupinu á 10,17 sek.Stærsta sigurinn á ferlinum vann hann á heimsmeistaramótinu í París 25. ágúst 2003 þar sem hann hampaði gullinu eftir að hafa hlaupið á 10,07 sek. Á þeim tímapunkti átti hann best 9,98 sek. Á Ólympíuleikunum í Aþenu 2004 varð hann sjötti á 10,00 sek en féll úr leik í undanúrslitum í Peking 2008 eftir að hafa hlaupið á 10,05 sek. Þar náði hann hins vegar 6. sæti í 200 m hlaupi.

Árið 2009 lagði Kim skóna á hilluna en tók þá fram aftur árið 2011 og mætti til leiks á leikunum í London 2012. Þar meinuðu liðsstjórar Sankti Kitts og Nevis honum hins vegar að keppa þar sem hann hafði farið að hitta konuna sína í Ólympíuþorpinu án leyfis. Aðrar heimildir segja reyndar að hann hafi skrópað á einni æfingu, en báðar ástæðurnar hljóta að teljast frekar léttvægar þegar heildarsamhengið er skoðað.

Leikarnir í Ríó verða sem sagt sjöttu Ólympíuleikarnir sem Kim Collins mætir á og þeir fimmtu þar sem hann fær að keppa. Og hann er ekki að fara þangað „bara til að vera með". Á móti í Bottrop í Þýskalandi í lok maí í vor náði hann sínum besta árangri frá upphafi í 100 m hlaupi, 9,93 sek, en skv. afrekaskrá IAAF hafa aðeins 7 menn hlaupið hraðar það sem af er þessu ári. Þessi árangur er heimsmet 40 ára og eldri (eins og nærri má geta) og Kim Collins er elsti maðurinn sem nokkurn tímann hefur hlaupið 100 m undir 10 sek.

Íbúar á Sankti Kitts og Nevis eru rétt um 50 þúsund. Kim Collins er löngu orðin goðsögn í landinu, myndir af honum hafa verið prentaðar á frímerki og 25. ágúst er opinber „Kim Collins dagur".

Og hvernig fer maður svo að því að halda sér í hópi bestu spretthlaupara í heiminum í 20 ár? Við því er ekki til neitt eitt einfalt svar, en Kim segir það vera lykilatriði að þekkja takmörk sín og æfa ekki undir of miklu álagi. Hann tekur mikið af styrktaræfingum en byrjar alltaf með léttar þyngdir. Og á meðan yngri hlauparar taka tuttugu 100 m spretti á fullu álagi tekur hann í mesta lagi þrjá.

Lokaorð
Þremenningarnir sem hér hafa verið til umfjöllunar verða ekki einu fertugu hlaupararnir í Ríó. En þessir þrír eiga það allir sameiginlegt að hafa verið í fremstu röð í heiminum í u.þ.b. 20 ár. Og þar eru þeir enn! Þessir menn minna okkur á að láta dagatalið eða ártalið ekki trufla okkur í aðgera það sem við viljum gera! „Aldur er bara tala"!

Efnisflokkur: Öldungar

Heimildir (m.a.):

Stefán Gíslason, hlaupafrömuður, er pistlahöfundur á hlaup.is. Í pistlunum fer Stefán yfir víðan völl og fjallar um skemmtilegar og stundum ókannaðar hliðar hlaupanna.