Tor des Geant, 330 km utanvegahlaup - Ágúst Kvaran

birt 24. september 2018

Pistill Ágústar Kvaran um þátttöku í ofurhlaupinu Tor des Geant (TDG)/ "leið risanna", 330 km og 24000 m samanlögð hækkun í Alpafjöllunum umhverfis Aosta dalinn á Ítalíu frá og að Courmayeur.

Laugardaginn 9. september, kl. 12:00 að hádegi að staðartima (10:00 að íslenskum tíma) hóf ég þátttöku í TDG ásamt ca. 890 öðrum hlaupurum. Hlaupinu skyldi lokið innan 6 daga og 6 klst. (150 klst) með viðkomu í 6 grunnbúðum á leiðinni. Það var skemmtilegt að þetta skyldi einmitt vera í framhaldi af nýafstöðnu  66. ára afmælinum mínu og að ég bar hlaupanúmerið 1006! Auk grunnbúðanna voru fjölmargir áningarstaðir í fjallaskálum á leiðinni.

Ógnvænleg þrekraun

Hlaupaleiðin var á hæðarbilinu 330 m - 3300 m yfir sjávarmáli að stórum hluta eftir torfærum gönguslóðum. Veður var "gott" (jafnvel of gott!), hiti og sólríkt að degi til og heiðskýrt og kaldara að nóttu. Undirlag og umhverfi var mjög fjölbreytt. Einungis að litlum hluta var hlaupið á malbiki í þorpum á láglendi. Þaðan lá leiðin gjarnan um skógarstíga uns komið var upp fyrir skóglendið í grasi gróin svæði og/eða í grjót og urð. Nær fjallstindum voru gjarnan snarbrattar skriður og /eða stórgrýti.

Leiðin var vel merkt með einkennandi flöggum og endurskinsmerkjum sem auðkenndu bestu leiðirnar hverju sinni í myrkri. Ósjaldan voru snarbrattar brekkur, háir stallar og glæfralegir stígar þar sem notast þurfti við reipi eða keðjur. Útsýni af hæstu tindum var ægifagurt þar sem meðal annars mátti sjá "risana"/fjallstinda sem vörðuðu leiðina á borð við Matterhorn og MtBlanc. Í skálum og grunnbúðum á leiðinni var gnægð vista og aðstaða til að sofa.

Fótamein gera vart við sig

Ég naut hlaupsins til fulls framan af; leið vel og gætti þess að matast og drekka reglulega. Konan mín var í hlutverki aðstoðarmanns og ætlaði að hitta mig í grunnbúðunum. Ég sleppti því að sofa fyrstu nóttina. Þess í stað fékk ég mér smá blund (ca. 2 klst) í grunnbúðum nr. 2. Þá var ég farinn að finna ögn fyrir fótameiðslum vegan blöðrumyndunar sem ollu mér nokkrum áhyggjum.

Þetta gerðist þrátt fyrir ráðstafanir sem hafa gefist mér vel á undanförnum árum í fjalla-ofurhlaupum, sem voru 1) -að plástra /"tape-a" tær og iljar rækilega með "sport-tape, 2) nota "twin-skin" (tvöfalda) sokka og 3)-nota tiltölulega mjúka utanvegar hlaupaskó sem ég hefi haft góða reynslu af. Skýringin á vandamálinu tel ég vera þá að ég byrjaði hlaupið í aðeins of þröngum skóm (hafði stærri til skiptana síðar) auk þess sem hitinn um hádaginn var mikill (yfir 30 C). Sár byrjuðu að myndast á jaðartám (utan á litlu og stórutám) allt of snemma í hlaupinu , dæmigert vegna núnings og þrengsla. Við endurbættum plástrunina á fótum í grunnbúðum 2 (Cogne).

Á endastöð eftir 222 km

Ég skipti um skó og hélt ótrauður áfram. Það er þó skemmst frá því að segja að skaðinn var skeður og  allar ráðstafanir til úrbóta (skóskipti og endurplástrun) komu að litlu gagni og virkuðu einungis sem "gálgafrestur".

Til að gera langa sögu stutta urðu þessi fótamein (blöðrur og sár) þess valdandi að ég þurfti að hætta hlaupi eftir 222 km og 20276 m samanlagða hækkun, að loknu ca. þriggja sólarhringa og 17 klst hlaupi og ca 5 og ½ klst svefni! Er þetta þó lengsta samfellda hlaup sem ég hefi tekið þátt í til þessa.


Allt í standi.. nema fæturnir

Aðrir þættir, sem viðbúið er að geti sett strik í reikninginn í svona þrekraunum, á borð við álagsmeiðsli, takmörkuð næringarinntaka, þrekleysi, svefnskortur og vonleysi, tel ég ekki að hafi verið til trafala, þvert á móti.

Að taka þátt í þrekraun á borð við TDG er ógleymanlegt og afar gefandi upplifun. Að fara úr þessu verndaða líferni sem við flest/öll lifum í hversdagslega og upplifa aðstæður á jaðri hins mögulega er til þess fallið að kynnast sjálfum sér enn betur og jafnvel að endurskoða ýmis lífsviðhorf. Að fá fréttir af hvatningu og áhuga vina, kunningja og ættingja í gegnum fésbókina, meðan á hlaupinu stóð, var afar mikilvægt og gefandi. Þá má geta þess að án aðstoðarmanns míns /konunnar, Ólafar Þorsteinsdóttur , sem annaðist alla mikilvæga skipulagningu á leiðinni hefði ég eflaust aldrei klárað þó þetta. Takk fyrir mig.

Vefsíða hlaupsins: http://www.tordesgeants.it/it

Svipmyndir af hlaupaleiðinni:
https://www.youtube.com/watch?v=fhfT3xch7sQ

Hlaupaleiðin (stutt útgáfa):
https://www.youtube.com/watch?v=CCurUApjyFE