uppfært 09. ágúst 2020

Martha Ernstdóttir og Kári Steinn Karlsson eru einu Íslendingarnar sem hafa hlaupið maraþon á Ólympíuleikum. Bæði þurftu þau að ná stífum lágmörkum til að öðlast keppnisrétt og þeir sem hafa í hyggju að komast á Ólympíuleikana sem vonandi verða haldnir í Tókýó í sumar þurfa að uppfylla enn strangari lágmörk. Lágmörkin fyrir leikana í Tókýó eru 2:11:30 klst. fyrir karla og 2:29:30 klst. fyrir konur, sem sagt hreinlega ekki á allra færi. Að vísu er möguleiki að fá keppnisrétt þó að þessi árangur náist ekki í tæka tíð, en þá að því tilskildu að viðkomandi sé nógu hátt á heimslistanum í maraþoni.

Í fjölmennari löndum með meiri maraþonhefð dugar ekki að ná Ólympíulágmörkum, því að frá hverju landi fá almennt bara þrír einstaklingar af hvoru kyni keppnisrétt í hverri grein, jafnvel þótt miklu fleiri hafi náð lágmarkinu. Þannig er til að mynda staðan í Keníu og Eþíópíu, þaðan sem flestir bestu maraþonhlauparar heimsins eru upprunnir. Og í Bandaríkjunum er það sama uppi á teningnum. Þar er farin sú leið að láta eitt tiltekið maraþonhlaup skera úr um hvaða þrír karlar og þrjár konur fái farseðill á næstu Ólympíuleika. Þeir sem eru eitthvað illa upplagðir þennan dag og komast á ekki á verðlaunapall, komast einfaldlega ekki í Ólympíuliðið, hvað sem öllum PB-um og fyrri afrekum líður. Skipun maraþonsliðs Bandaríkjanna á Ólympíuleikunum 2020 réðist í Atlanta 29. febrúar sl. Þessi pistill fjallar um það hlaup, ekki bara um sigurvegarana, heldur líka svolítið um aðra áhugaverða þátttakendur sem eru sem sagt ekki á leiðinni til Tókýó.

Þau bestu af þeim bestu
Úrtökuhlaupið í Atlanta var alls ekki fyrir hvern sem er. Fyrir flesta bandaríska maraþonhlaupara er ekki aðeins Ólympíudraumurinn fjarlægur, heldur er það fjarlægur draumur eitt og sér að komast alla leið í úrtökuhlaupið. Til að öðlast keppnisrétt í hlaupinu í Atlanta þurftu karlar að hafa hlaupið maraþon á 2:19:00 klst. og konur á 2:45:00 klst. á tímabilinu 1. sept. 2017 til 19. jan. 2020. Reyndar var líka hægt að komast inn á hálfmaraþontímum upp á 1:04:00 klst. og 1:13:00 klst., auk þess sem árangur á bandarískum meistaramótum gat gefið keppnisrétt. Samtals náði 771 einstaklingur þessum lágmörkum, þ.e. mun fleiri en nokkru sinni fyrr.

Hlaupaleiðin í Atlanta var bæði hæðótt og hlykkjótt og því þótti ólíklegt að þar næðust góðir tímar. Auk heldur var svalt í veðri og nokkuð hvass vindur þegar hlaupið fór fram.

Galen Rupp í takt við tímann.KarlahlaupiðÚrslitin í karlahlaupinu í Atlanta komu ekki beinlínis á óvart, í það minnsta ekki sigur Galen Rupp (f. 1986). Hann fór reyndar líka með sigur af hólmi í úrtökuhlaupinu fyrir Ólympíuleikana í Ríó 2016, þar sem hann vann síðan til bronsverðlauna. Fyrir átti hann Ólympíusilfur fyrir 10.000 m frá því í London 2012, auk þess sem hann náði 13. sæti í sömu grein á leikunum í Aþenu 2008. Rupp sagði skilið við keppinauta sína í Atlanta eftir rúma 25 km og hljóp einn eftir það. Lokatíminn hans var 2:09:20 klst. Jacob Riley (f. 1988), sem náði 2. sætinu í Atlanta á 2:10:02 klst., kom talsvert meira á óvart en Galen Rupp. Hann var ekki einn af þeim sem spáð hafði verið góðu gengi í hlaupinu og var ekki nema í 12. sæti á lista yfir líklegustu sigurvegarana, sem hópur hlaupasérfræðinga gerði fyrir vefsíðuna Podiumrunner.com. Sjálfum datt honum ekki eini sinni í hug að hann ætti möguleika á að komast í Ólympíuliðið.

Jake er að vísu enginn nýgræðingur í hlaupum, en fyrir tveimur árum leit út fyrir að ferillinn væri á enda eftir erfið veikindi og aðgerð á hásin til að lagfæra fæðingargalla sem orsakaði útvöxt aftan á hælbeini. Í hlaupinu í Atlanta fylgdi hann áætlun þjálfarans um að auka hraðann eftir 30 km. Þá var hann hálfri mínútu á eftir fyrstu mönnum en náði að vinna upp muninn einn síns liðs, hægt og bítandi.

Eitt sögulegasta augnablikið í karlakeppninni var líklega þegar Abdihakem Abdirahman kom sem þriðji maður í mark einni sekúndu á eftir Jacob Riley. Þeir sem hafa fylgst með hlaupurum vestra kannast eflaust við þetta nafn. Abdi hefur látið til sín taka í hlaupakeppnum á þriðja áratug en oftast staðið í skugga annarra hlaupara sem annað hvort voru örlítið fljótari eða meira áberandi í fjölmiðlum. Hann stóð líka í skugganum á lista Podiumrunner, þar sem hann var í 14. sæti. Abdi fæddist í Sómalíu 1. janúar 1977 og var því orðinn 43ja ára þegar hljóp sig inn í Ólympíuliðið í Atlanta. Þar með varð hann elsti bandaríski hlauparinn sem tryggir sér Ólympíufarseðil. Reyndar eru Ólympíuleikar ekkert nýtt fyrir Abdi. Hann fékk bandarískan ríkisborgararétt árið 2000 og frá þeim degi hefur hann keppt fyrir Bandaríkin á fernum Ólympíuleikum (2000, 2004, 2008 og 2012). Hann náði einmitt líka 3. sætinu í úrtökuhlaupinu 2012, en í maraþonhlaupinu í London þurfti hann að hætta á miðri leið vegna meiðsla. Í hlaupinu í Atlanta var Abdi ekki nema 1:07 mín frá sínu besta, sem hann náði í Chicagomaraþoninu haustið 2006!

Abdi var ekki sá elsti sem tók þátt í hlaupinu í Atlanta. Þar var líka Bernard Lagat, sem vafalítið má telja einn allra besta langhlaupara sögunnar. Lagat fæddist í Keníu í desember 1974 og var því orðinn 45 ára þegar hlaupið í Atlanta fór fram. Lagat hefur keppt á fimm Ólympíuleikum og í safni hans má m.a. finna 13 verðlaunapeninga frá heimsmeistaramótum og Ólympíuleikum, þar af fimm úr gulli. Hann á m.a. næstbesta tíma sögunnar í 1.500 m hlaupi (3:26,34 mín frá 2001). Hann er hins vegar nánast byrjandi í maraþonhlaupi, en þá vegalengd hljóp hann fyrst haustið 2018, tæplega 44 ára gamall. Í Atlanta var hann í 18. sæti á 2:14:23 klst., en á best 2:12:10 klst. frá því í fyrra.

Meðal annarra athyglisverðra þátttakenda í Atlanta má nefna Jim Walmsley (f. 1990) sem náði 22. sæti á 2:15:05 klst. Walmsley er ekki þekktur sem maraþonhlaupari enda aldrei prófað svoleiðis áður. Hann er hins vegar besti utanvegahlaupari heims um þessar mundir, a.m.k. ef marka má styrkleikalista ITRA (International Trail Running Association). Á þeim vettvangi hefur hann unnið ótal sigra og á m.a. brautarmetið í Western States 100 mílna hlaupinu (14:09:28 klst). Með þátttöku sinni í Atlanta vildi Walmsley m.a. minna á að utanvegahlauparar eru ekkert endilega mjög hægfara.

Jared Ward var líklega sá sem varð fyrir mestum vonbrigðum í Atlanta. Hann þótti líklegur sigurvegari, en endaði í 27. sæti á 2:15:55 klst. Og Leonard Korir vantaði 3 sek. upp á Ólympíusætið sem honum hafði verið spáð.

Kvennahlaupið
Fjórtán fyrstu konur héldu hópinn lengi vel í hlaupinu í Atlanta, en eftir rúmlega 30 km fóru línur aðeins að skýrast. Þegar upp var staðið fór hlaupið allt öðru vísi en spáð hafði verið. Aliphine Tuliamuk kom fyrst í mark á 2:27:23 klst., Molly Seidel önnur á 2:27:31 klst. og Sally Kipyego þriðja á 2:28:52 klst. Þær voru svo sem allar á listanum hjá Podiumrunner, en engin þeirra ofarlega.

Sigurvegarinn Aliphine Tuliamuk fæddist í Keníu árið 1989 en fékk bandarískan ríkisborgararétt 2016. Hún hefur keppt í hlaupum frá unglingsárum, en hafði líklega ekki hlaupið nema þrjú maraþon fyrir hlaupið í Atlanta. Besti árangur hennar í þeirri vegalengd var þegar hún náði 3. sæti í Rotterdammaraþoninu 2019 á 2:26:48 klst.Molly Seidel (f. 1994) var að hlaupa sitt fyrsta maraþon í Atlanta og varð fyrsta konan í sögunni til að tryggja sér Ólympíufarseðil í fyrsta hlaupi. Líklega reiknuðu fáir með að hún myndi blanda sér í baráttuna, en nafnið hennar hafði þó með naumindum náð inn á lista eins sérfræðinganna hjá Podiumrunner, líklega eftir gott hálfmaraþon í Houston í janúar þar sem hún var þriðja bandaríska konan í mark og nr. 13 í heildina á 1:09:35 klst.Aliphine Tliamuk.

Molly vann nokkur gull í hlaupum á háskólaárunum en er nánast nýtt nafn á „stóra sviðinu". Molly Seidel og Aliphine Tuliamuk eru æfingafélagar og eflaust hafði það sitt að segja í hlaupinu, ekki síst þegar haft er í huga að aðstæður voru með erfiðara móti.

Sally Kipyego (f. 1985) þótti fyrirfram líklegust þessara þriggja kvenna til að blanda sér í baráttuna um Ólympíusæti, en hún var í 8. sæti á lista sérfræðinganna hjá Podiumrunner. Hún er síður en svo byrjandi í hlaupum, var farin að keppa 14 ára gömul og á m.a. silfurverðlaun í 10.000 m hlaupi bæði frá heimsmeistaramótinu í frjálsum íþróttum 2011 og frá Ólympíuleikunum í London 2012. Enginn hlaupari hefur unnið eins marga háskólatitla í Bandaríkjunum og hún. Sally er fædd í Keníu en fékk bandarískan ríkisborgararétt í ársbyrjun 2017.

Það hvaða bandarísku konur komast ekki í maraþonið á Ólympíuleikunum virðist jafnvel þykja enn fréttnæmara en það hverjar hafi tryggt sér farseðilinn. Engin þeirra sem spáð var bestu gengi í Atlanta hafði nefnilega erindi sem erfiði. Meðal þeirra sem sitja eftir með sárt ennið eru Desiree Linden sem varð í 4. sæti, 9 sek. á eftir Sally Kipyego. Des hefur lengi verið í allra fremstu röð vestanhafs, hljóp fyrsta maraþonið sitt árið 2007 og keppti í greininni bæði á Ólympíuleikunum 2012 og 2016. Hún náði ekki að ljúka hlaupinu í London 2012 en varð sjöunda í Ríó 2016. Önnur stærstu nöfnin í þessum hópi eru Emily Sisson, sem þótti fyrirfram líklegasti sigurvegarinn (hætti eftir tæpa 35 km), Molly Huddle (hætti líka eftir tæpa 35 km), Sara Hall (hætti eftir rúma 35 km), Jordan Hasay (26. sæti á 2:37:57 klst.) og Amy Cragg (hætti við þátttöku vegna meiðsla og veikinda). Þær sex konur sem hér hafa verið nefndar röðuðu sér í sex efstu sætin í spádómum Podiumrunner.

Efnisflokkur: Saga, keppnishlaup

Heimildir: Byggt á afrekaskrám Alþjóðafrjálsíþróttasambandsins (IAAF), heimasíðu ITRA (International Trail Running Association) og fjölmörgum öðrum vefheimildum, þ.á.m.:

Stefán Gíslason, hlaupafrömuður, er pistlahöfundur á hlaup.is. Í pistlunum fer Stefán yfir víðan völl og fjallar um skemmtilegar og stundum ókannaðar hliðar hlaupanna.