Utanvegahlaup á náttborðinu

birt 06. febrúar 2018

Á náttborðinu mínu kennir jafnan margra grasa. Þar fer mest fyrir bókum og tímaritum sem ég ætla að lesa við tækifæri og inn á milli leynast örfá rit sem ég er búinn að glugga eitthvað í. Þessa dagana geymir náttborðið m.a. eina bók um jóga, aðra um Megas, tvær eða þrjár ljóðabækur og eina norska hlaupabók í sænskri þýðingu. En mest fer þó fyrir nokkrum tölublöðum af ameríska tímaritinu „Trail Runner" með undirtitlinum „One dirty magazine". Um það fjallar þessi pistill.

Áskriftin
Ég gerðist áskrifandi að „Trail Runner" fyrir tæpum tveimur árum, annars vegar vegna þess að það var á svo góðu tilboði og hins vegar vegna þess að ég hef mikinn áhuga á utanvegahlaupum. Þetta tímarit hefur fært mér marga áhugaverða lesningu, allt frá greinum um gleðina sem utanvegahlaupin veita manni upp í frásagnir af hörmulegum örlögum hlaupara sem töpuðu glímu sinni við fjöllin. Þarna má líka finna fjöldann allan af frásögnum af ofurhlaupum, ótrúlegar ljósmyndir af hlaupurum í stórbrotinni náttúru, ráðleggingar um hlaup í miklum kulda, prófanir á utanvegaskóm, frásagnir af goðsögnum og rísandi stjörnum í ofurhlaupaheiminum og þar fram eftir götunum, að ógleymdum miklum fjölda auglýsinga, sem stundum taka meira pláss í amerískum blöðum en áhugi manns leyfir. Auglýsingafjöldinn og mikil áhersla blaðsins á utanvegahlaupin vestanhafs varð reyndar til þess að ég sagði áskriftinni upp fyrir nokkru síðan. En þar sem útgefandinn virðist ekki „taka nei fyrir svar" held ég áfram að safna tölublöðunum á náttborðið mitt og bíð spenntur eftir næsta blaði.

Ofskynjanir
Ég verð að játa að stundum finnst mér efnið í „Trail Runner" svo „nördalegt" að það liggi á mörkum þess sem getur átt erindi við tiltölulega værukæran fjallvegahlaupara á sjötugsaldri í íslensku dreifbýli. En „nördalegt" efni getur nú samt verið bæði skemmtilegt og áhugavert. Þetta á t.d. við um ítarlega umfjöllun um ofskynjanir í októbertölublaðinu 2016. Rannsókn sem gerð var á hlaupurum í hinu margfræga eða alræmda 135 mílna Badwaterhlaupi í Dauðadalnum í Kaliforníu leiddi í ljós að ofskynjanir eru tiltölulega algengar í heimi ofurhlaupara. Nánar tiltekið sá um þriðjungur hlauparanna sem þátt tóku í umræddri rannsókn ofsjónir á annarri nóttu hlaupsins. Og það fylgdi reyndar sögunni að líklega væri þetta hlutfall vanáætlað af því að líklega hefðu ekki allir munað eftir þessari nótt að hlaupi loknu.

Sem dæmi um upplifun af þessu tagi annars staðar frá er nefnd reynsla ofurhlauparans Steve Pero sem hljóp meðfram raðhúsalengju í Colorado ofurmaraþoninu 2013 - og fólkið í húsunum var meira að segja úti að grilla og skemmta sér þarna um miðja nótt. Og þegar húsunum sleppti tók ekki betra við, því að þar hafði einhver tjaldað á miðjum hlaupastígnum. Ofurhlauparinn Doug Mayer, sem skrifaði umrædda grein og margar aðrar í „Trail Runner", endar greinina á að þakka hópi af Labradorhvolpum sem hlupu með honum í síðasta hlaupi.

Fellahlaup
Í síðasta tölublaði, þ.e.a.s. í desemberheftinu 2017, er einkar áhugaverð grein um það sem á ensku er kallað „Fell Running", sem hlýtur að liggja beinast við að þýða sem „Fellahlaup" á ástkæra ylhýra. Fellahlaup eru að því leyti frábrugðin þeim utanvegahlaupum sem flest okkar þekkja best, að í fellahlaupum er alla jafna hlaupið úr byggð upp á næsta fjallstind og aftur til baka, oftast eftir ómerktri leið, utan greinilegra stíga. Þessi hlaupahefð á rætur að rekja til Vatnahéraðsins (Lake District) í norðvestanverðu Englandi, en nú á dögum er íþróttin stunduð mun víðar. Sagan segir að þetta hafi allt saman byrjað um miðja 19. öld þegar það komst í tísku meðal ríkra Lundúnabúa að njóta frístunda til fjalla, innblásnir af verkum rómantísku skáldanna Samuel Taylor Coleridge og William Wordsworth. Þar með varð til eftirspurn eftir fjallaleiðsögumönnum sem auðvitað lá beinast við að leita að í hópi smalanna sem hlaupið höfðu um þessi sömu fjöll árum og áratugum saman. Atvinnuviðtölin fólust þá í því að láta smalana hlaupa upp og niður fjöllin og þeir sem voru fljótastir áttu mesta möguleika á að verða ráðnir. Og smám saman þróuðust svo fellahlaupin sem sjálfstæðir viðburðir.

Í fellahlaupum skiptir engu máli hvað leið er farin, svo fremi sem menn láta vita af sér á toppnum til að sanna að þeir hafi ekki haft rangt við. Þetta hefur það í för með sér að staðkunnugir standa oftast betur að vígi en aðkomumenn og þannig hafa orðið til goðsagnir sem hafa sérhæft sig á þessum heimavelli sínum og standast flestum snúning. Ein af þeim frægari í þessum geira er Wendy Dodds frá Lancashire sem komin er hátt á sjötugsaldur en er þó ekkert farin að slaka á í hlaupunum. Í orðabók enskra fellahlaupara, sem svo er nefnd í umfjöllun „Trail Runner", er til orðatiltækið „að vera Doddaður", sem þýðir að maður hafi tapað fyrir Wendy Dodds í tilteknu hlaupi. Ariella Gintzler, sem skrifar umrædda grein, nær að bregða skemmtilegu og fróðlegu ljósi á fellahlaupin og þá sérstæðu menningu sem skapast hefur í kringum þau, en hér gefst ekki færi til að endursegja nema lítið brot af því.

Allt hitt
Í síðasta tölublaði af „Trail Runner" kennir margra fleiri grasa. Þar má nefna vangaveltur um jákvæð áhrif utanvegahlaupa á heilastarfsemi, reynslusögur tveggja ólíkra hlaupara úr UTMB síðasta sumar, prófun á barnakerrum fyrir utanvegahlaupara, umfjöllun um núvitund á hvíldardögum, jógastöður fyrir hlaupara og ráðleggingar til byrjenda í snjóþrúguhlaupum. Í því sambandi má nefna, svona í framhjáhlaupi, að Amber Ferreira frá New Hampshire sem kom fyrst kvenna í mark í Laugavegshlaupinu 2015, var einmitt á sínum tíma Bandaríkjameistari í snjóþrúguhlaupi.

„Drulla"
Ég get varla skilið svo við bunkann af „Trail Runner" á náttborðinu mínu að ég minnist ekki á sérútgáfuna „Dirt" sem leysir hina hefðbundnu útgáfu af hólmi á hverju vori. Mín bíður enn 106 blaðsíðna ólesið eintak frá því í apríl á síðasta ári. Hvar á ég að byrja? Kannski á á bls. 62 á „Running in the Land of Sheep, Bogs and Pubs" eða á bls. 14 á „Race with no end"?

Efnisflokkur: Persónulegt, ofurhlaup

Heimildir:

  • 1. Ariella Gintzler (2017): In the Wake of Legends. The fells of England‘s Lake District are etched with history. Trail Runner Magazine. Issue 124, Des. 2017, bls. 30-39.
  • 2. Doug Mayer (2016): Seeing Things. Hallucinations and how to handle them. Trail Runner Magazine. Issue 115, Okt. 2016, bls. 58-59.
  • 3. Margar aðrar greinar og frásagnir í Trail Runner 2016-2017.

Stefán Gíslason, hlaupafrömuður, er pistlahöfundur á hlaup.is. Í pistlunum fer Stefán yfir víðan völl og fjallar um skemmtilegar og stundum ókannaðar hliðar hlaupanna.