birt 10. febrúar 2019

Verkir eru merkileg fyrirbæri. Flest okkar halda að verkur í læri eða tá þýði að eitthvað sé að einmitt þar. En málið er miklu flóknara en svo. Verkurinn verður nefnilega hvorki til í lærinu né tánni. Hann verður til í heilanum, því að þar eru verkir framleiddir og hvergi annars staðar. Þetta er svolítið eins og í bílnum okkar; rautt ljós í mælaborðinu þýðir ekki alltaf að einhver vélarhlutur sé bilaður. Kannski er bara skynjarinn bilaður, eða jafnvel ljósið.

Bráðir verkir og langvinnir
Til að einfalda málið má skipta verkjum í tvo flokka, þ.e.a.s. bráða verki og langvinna (króníska) verki. Bráðu verkirnir eru líklega svolítið einfaldari en hinir. Þegar við rekum fingur í heita eldavélahellu berast boð þaðan til randkerfis heilans og eru túlkuð þar í snatri í sjálfvirkum stöðvum þar sem flestum ósjálfráðum hlutum taugakerfisins er stjórnað. Þar verður verkurinn (brunatilfinningin) til og viðbrögðin gerast sjálfkrafa áður en meðvitaðri hluti heilans nær að meðhöndla boðin og skrá atburðinn.

Langvinnir verkir geta stafað af því að skemmd hafi orðið þar sem verkurinn finnst, en þeir geta líka stafað af einhverju öðru, þ.e.a.s. því að heilinn framleiði verk án þess að neitt sé að í viðkomandi líkamshluta. Ástæðan fyrir þessari framtakssemi heilans getur verið mjög flókin, t.d. sú að heilinn sé í stöðugri varnarstöðu af ótta við að meiðsli taki sig upp og þyki þess vegna öruggast að senda út viðvörun til að minnka líkur á óhöppum.

Gert við skemmdir á 3-6 mánuðumÞegar maður meiðist er strax hafist handa við viðgerðir. Venjuleg tognun eða minni háttar beinbrot eru dæmi um skemmdir sem líkamanum tekst yfirleitt að laga á fáum vikum. Á meðan á viðgerð stendur er eðlilegt að maður finni til í meiðslinu endrum og sinnum og á þeim tíma er sjálfvirkur varnarbúnaður notaður til að sárið fái frið til að gróa. Þessu kynntist ég m.a. sumarið 2017 þegar ég braut á mér hægri öxlina.Fyrstu nóttina eða kannski fyrstu tvær næturnar varð mér það stundum á að snúa mér yfir á hægri hliðina í svefni, en eftir það gerðist það aldrei, án þess þó að ég væri nokkuð að spá í það. Þegar öxlin var gróin þurfti ég svo að taka meðvitaða ákvörðun um að prófa aftur að liggja á hægri hliðinni. Léttklæddur Stefán skundar í fönn.

Líkaminn getur gert við flestar skemmdir á vöðvum, beinum, sinum og liðum á þremur til sex mánuðum. Ef maður finnur enn fyrir verk að þeim tíma liðnum er vel líklegt að hann stafi af einhverju öðru en skemmd í viðkomandi líkamshluta.

Draugaverkir og nagli í fæti
Draugaverkir í horfnum líkamshlutum eru líklega augljósasta dæmið um að verkir eigi sér ekki eins einfalda skýringu og manni hættir til að halda. Á sama hátt getur maður fundið fyrir miklum verkjum án þess að hafa meiðst. Eitt af frægustu dæmunum um það var gert að umtalsefni í British Medical Journal 1995. Þar var sagt frá 29 ára byggingarverkamanni sem kom sárkvalinn á bráðamóttökuna eftir að hafa stokkið niður á 15 cm langan nagla sem stóð upp úr stígvélinu þegar að var komið. Eftir að hafa gefið manninum deyfingu var naglinn dreginn út neðan frá og þegar stígvélið var fjarlægt kom í ljós að maðurinn var alveg ómeiddur. Naglinn hafði nefnilega farið á milli tánna.

Einhver staðar heyrði ég að maðurinn sem um ræðir hafi haft miklar áhyggjur af neikvæðum áhrifum slyssins á afkomu fjölskyldunnar og að það kunni að hafa ýtt undir verkinn. Ég finn ekki heimildir um þetta tiltekna atriði, en hins vegar er vel þekkt að áhyggjur og streita geta átt sinn þátt í að auka verki og viðhalda þeim. Á sama hátt geta aðferðir til að losa um áhyggjur og streitu dregið úr verkjum.

Stefán hefur hlaupið víðar um Ísland en margur hlauparinn.Sjúkrasagan mínSjálfur hef ég glímt við langvarandi verki í rassvöðvum og niður eftir aftanverðum lærum. Ég man fyrst eftir þessu vandamáli í október 2016 og í janúar 2018 var það orðið svo slæmt að ég átti erfitt með gang og gat alls ekki hlaupið. Í myndatöku kom í ljós að ég var með brjósklos, en í raun bentu engar prófanir til að verkurinn stafaði af því.Næstu mánuði reyndi ég ýmsar leiðir til að bæta ástandið, þar með talda ótal tíma hjá sjúkraþjálfurum, ýmsar óhefðbundnar lækningaaðferðir, bólgueyðandi lyf, sterasprautur og ég veit ekki hvað og hvað. En ekkert dugði og staðan var nánast óbreytt í lok september eftir 8 mánaða baráttu.

Þá hitti ég David McGettigan í fyrsta sinn, en David þessi er írskur sjúkraþjálfari sem beitir svonefndri P-DTR aðferð til að greina ástæður langvinnra verkja og meðhöndla þær. Eftir ítarlega skoðun og yfirferð yfir helstu áföllin sem ég hef orðið fyrir í lífinu, (sem eru reyndar ekki mörg), sagðist hann telja 95% líkur á að verkurinn stafaði ekki af skemmd í stoðkerfinu, heldur ætti hann rætur að rekja til taugaboða sem væru á einhvern hátt misvísandi. Þetta álit opnaði mér algjörlega nýja sýn á vandamálið.

Bataferli byggt á einfaldri uppgötvun
David tókst ekki að losa mig við verkinn í fyrstu tilraun, en þennan dag hófst bataferlið í raun. Í framhaldinu tók ég að venja komur mínar til Guttorms Brynjólfssonar naprapata í Orkuhúsinu, en naprapatar vinna með stoðkerfi og miðtaugakerfi sem eina heild og beita m.a. hnykkingum, nuddi og teygjum til að hjálpa líkamanum í viðgerðarferlinu. Í mínu tilviki reyndist annað heilahvelið virkara en hitt, jafnvægið var ekki alveg í lagi og tilteknar taugar í námunda við heilann voru heldur latar, svo eitthvað sé nefnt. En það var ekkert að rass- eða lærvöðvunum, nema hvað þeir voru frekar rýrir og stífir og áttu það til að dragast saman þegar þeir hefðu betur slakað á.

Til að gera langa sögu stutta var ég farinn að geta skokkað stuttar vegalengdir í lok október 2018 og síðan þá hef ég hlaupið algjörlega verkjalaus þrisvar til fimm sinnum í viku. Ég á að vísu langt í land með að ná fyrri styrk og hraða, en það er út af fyrir sig annað vandamál sem stafar einfaldlega af ófullnægjandi æfingum í of langan tíma.

Er ég ímyndunarveikur?
Nú er eðlilegt að spurt sé hvort ég hafi ekki bara verið ímyndunarveikur allan tímann. Svarið við þeirri spurningu veltur á því hvernig maður skilgreinir ímyndunarveiki. Verkurinn sem ég var að glíma við allan þennan tíma var alveg eins raunverulegur og hver annar verkur og þar af leiðandi ekki beinlínis ímyndun. Og í þessu sambandi ber líka að hafa í huga að verkir eru búnir til í ósjálfráða taugakerfinu sem sjálfráða taugakerfið hefur lítil sem engin yfirráð yfir. Maður getur sem sagt ekki hrist verkinn af sér með rökhugsun. Engu að síður skiptir miklu máli að vita að verkir eiga sér oftar en ekki miklu flóknari skýringar en maður heldur.

Meginniðurstaðan
Meginniðurstaðan er sú að langvarandi verkir eru flókið fyrirbæri sem stafa ekki endilega af skemmdum í stoðkerfinu, heldur hugsanlega miklu frekar af blöndu líkamlegra, sálrænna, menningarlegra og félagslegra þátta, að ógleymdu mataræði, lífsstíl og ýmsum umhverfisþáttum. Lækningin felst því ekki endilega í að meðhöndla svæðið þar sem verkurinn finnst, með verkjalyfjum, skurðaðgerð, sterasprautum eða öðrum inngripum, heldur miklu frekar í að þjálfa heilann og aðra þá hluta taugakerfisins sem koma við sögu.

Leiðin til bata byggir á hreyfingu og markvissum æfingum í langan tíma og þessar æfingar þarf að sérsníða fyrir einstaklinginn og aðstæðurnar. Þegar svona er komið þarf maður að leita sér aðstoðar hjá fagfólki sem er þjálfað í að sjá allan skóginn en ekki bara einstök tré.

Efnisflokkur: Meiðsli, persónulegt

Byggt á eigin reynslu og samtölum við meðferðaraðila, auk m.a.:

Stefán Gíslason, hlaupafrömuður, er pistlahöfundur á hlaup.is. Í pistlunum fer Stefán yfir víðan völl og fjallar um skemmtilegar og stundum ókannaðar hliðar hlaupanna.