Þátttökugjald

  • 5 km3.500 kr
  • 10 km3.500 kr

Um hlaupið

  • Vegalengdir5,6 km, 10 km
  • Dagsetning12. júní 2021
Myndasafn úr hlaupinu

Álafosshlaupið verður haldið laugardaginn 12. júní, í Mosfellsbæ og verður ræst kl. 10:00. Hlaupið verður frá Varmárvelli um austursvæði Mosfellsbæjar og býður Mosfellsbær öllum þátttakendum í sund í Varmárlaug að hlaupi loknu.

Vegalengdir

Boðið verður upp á 2 vegalengdir, u.þ.b 5,6 km og u.þ.b 10 km. Tímataka er með flögutímatöku.

Skráning

Forskráning fer fram hér á hlaup.is (sjá efst á þessari síðu) og lýkur föstudaginn 11. júní kl. 18:00. Tekið verður á móti skráningum á staðnum frá kl. 8:30 í Vallarhúsinu við Varmárvöll. Skráning á staðnum kostar 1.000 kr meira en forskráning. Afhending hlaupagagna verður í Vallarhúsinu við Varmárvöll milli klukkan 16:30 og 18:00 föstudaginn 11. júní og frá klukkan 8:30 á hlaupadegi.

  • Einstaklingur 3.500 kr. (4.500 kr. ef skráð á staðnum)
  • Hjón 5.000 kr. (6.000 kr. ef skráð á staðnum). Skrá þarf hjón á sama tíma og nota afsláttarkóðann: ALA-HJON til að borga fast gjald 5.000 kr
  • Hjón með börn 6.000 kr. (7.000 kr. ef skráð á staðnum). Skrá þarf alla fjölskylduna á sama tíma og nota afsláttarkóðann: ALA-FJOLSK til að borga fast gjald 6.000 kr

Þess ber að geta að allur ágóði hlaupsins fer í barna og unglingastarf frjálsíþróttadeildar Aftureldingar.

Aðstaða

Hægt er að geyma töskur í Vallarhúsi við Varmárvöllinn. Búningsaðstaða er við sundlaug Varmár (Íþróttamiðstöð) og ókeypis er í sund fyrir þátttakendur eftir hlaupið í Varmárlaug.

Verðlaun

Allir þátttakendur fá verðlaunapening og veitt verða verðlaun fyrir fyrstu sætin í báðum flokkum. Útdráttarverðlaun verða veitt en dregið verður úr hlaupanúmerum.

Upplýsingar

Frekari upplýsingar er hægt að fá hjá Teiti Inga í síma 842 2101 eða Guðrúnu í síma 694 4906.

Einnig á Facebook síðu hlaupsins og þar er hægt að senda inn fyrirspurnir.

Hlaupaleiðin

Hægt er að sjá hlaupaleiðina hér neðst á þessari síðu.

Hlaupið er eftir merktum leiðum, en samt óvenjulegum, göngustígum og malarvegum. Á brattann er að sækja fyrri helming en síðan er farinn malarvegur eða stígar niður í mót. Drykkir verða veittir í hlaupi í 10 km leiðinni og við endamark fyrir alla. Heildarhækkun í 10 km brautinni er um 130 metrar.

Hlaupið er frá Varmárvelli framhjá knattspyrnuvelli Aftureldingar, gegnum útivistarsvæði Mosfellinga við Stekkjarflöt (aparóló) og fram hjá Álafossi sjálfum. Áfram er haldið upp í gegnum Reykjalundarskóg og framhjá Reykjalundi. Þaðan er hlaupin gatan Engjavegur og göngu/reiðstígur í framhaldi upp á Bjargsveg.  Hér skiptast leiðir og þeir sem velja styttri vegalengdina þræða sig til baka á stíg meðfram Varmá. Stígurinn er torfærinn, mikið hefur runnið úr honum í vorleysingunum og talsvert er um trjárætur og stubba sem standa uppúr stígnum. Hér þarf því að fara varlega.

Þeir sem ætla lengri leiðina hlaupa Bjargsveginn að Varmá og beygja þar til vinstri inn hjá útihúsum Reykjabúsins. Þar fyrir ofan er farið yfir Varmá á brú og hlaupið upp brekkuna í átt að Reykjaborginni. Þegar komið er upp fyrir byggð er beygt til hægri og hlaupinn göngu/reiðstígur meðfram Hádegisfelli, fram hjá svæði Skógræktarfélags Mosfellsbæjar í átt að Hafravatni. Þegar komið er að Hafravatnsvegi er beygt til hægri og hlaupið upp brekkuna að drykkjarstöð. Eftir drykkjarstöðina er haldið áfram í átt að Úlfarsfelli á malarvegi að Skarhólabraut, hún er þveruð og hlaupið að Krikahverfi. Þar fer loks að halla undan fæti og stígurinn hlaupinn undir Reykjaveginn í nýju göngunum og þaðan beina leið áfram stíginn aftur niður að Stekkjarflöt. Þá verður hlaupið í mark við Varmárvöllinn aftur á sama stað og ræst var.

Sjá hlaupaleiðina á Relive.

Saga hlaupsins

Álafosshlaupið er sögufrægt hlaup sem fyrst var hlaupið árið 1921 að frumkvæði Sigurjóns Péturssonar á Álafossi og hefur verið haldið með hléum síðan. Framan af var hlaupið á milli Álafoss og Melavallarins í Reykjavík, síðan færðist hlaupið í nágrenni Álafoss. Kveikjan var sigling Einars Péturssonar, bróður Sigurjóns, um Reykjavíkurhöfn á kappróðrarbáti sínum með hvítbláa fánann í skut þann 12. júní 1913. Fáninn var tekinn í vörslu danskra varðskipsmanna. Hermt er að atburðurinn hafi hleypt auknum krafti í sjálfstæðisbaráttu Íslendinga á þeim tíma. UMFÍ tók fánann síðar upp og gerði að sínum.

Frjálsíþróttadeild Aftureldingar þakkar styrktaraðilum hlaupsins kærlega fyrir stuðninginn.

Álafoss Hlaupið 2021 Styrktaraðilar