Um hlaupið

  • Vegalengdir11,7 km, 23,4 km
  • Dagsetning10. júlí 2021
Sjá úrslit

Ungmennafélag Borgarfjarðar varð 100 ára 2017 og hélt af því tilefni sitt fyrsta utanvegahlaup í nágrenni Dyrfjalla. Þrisvar hefur verið hlaupin mjög krefjandi leið umhverfis Dyrfjöll gegnum Stórurð og einu sinni hlaupið um Víknaslóðir. Hlaupið verður haldið í fimmta sinn nú í sumar og að þessu sinni verður boðið upp á tvær alveg nýjar hlaupaleiðir um einstaka náttúru Víknaslóða. Hlaupið er eftir gönguleiðum sem hafa notið mikilla vinsælda göngufólks síðastliðin ár. Víknaslóðir eru einstakt svæði. Ljós líparítfjöll og skriður, í bland við dökka og tignarlega basalttinda.

Dyrfjallahlaup - Víknaslóðir 23.4 km (lengri leiðin)

Vegalengd 23.4 km - Heildarhækkun: 1076m - Heildarlækkun: 1132m - Hæsti punktur: 445m.y.s - Lægsti punktur: 5m. y.sm. 

Leiðin hefst við Þverá í innsveit Borgarfjarðar. Fyrst um sinn er hlaupið eftir jeppaslóða áður en er beygt inn á gönguleið um Urðarhóla. Þar er stuttur grófur kafli áður en er komið að hinu fallega Urðarhólavatni. Þaðan er hlaupið eftir gönguleið að Víknaheiði (258m) inn á grófan jeppaslóða sem liggur út Breiðuvík að gönguskála. Farið er yfir Stóruá í Breiðuvík á göngubrú. Frá Breiðuvík er hlaupið eftir gönguleið um gróið land og mela ofan Kjólsvíkur að Syðra-varpi í 445m hæð. Þaðan er hlaupið ofan við Hvalvík og svo út Brúnavík niður að slysavarnaskýli. Þar sem hlaupaleiðirnar mætast. Vaða þarf Brúnavíkuránna sem er ekki mikið vatnsfall og er hún þveruð alveg niður við sjó. Frá Brúnavík tekur við stíf brekka fyrst áleiðis að Brúnavíkurskarði (354m). Hlaupið er þennan hluta leiðarinnar eftir gamalli reiðgötu sem er góð og mikið gengin. Frá Brúnavíkurskarði liggur leiðin niður að sjó og síðustu 400 metrana er hlaupið á malbiki að endamarki við Borgarfjarðarhöfn. Drykkjarstöðvar verða á þremur stöðum á leiðinni í Breiðuvík og Brúnavík með vatn og orkudrykki með ca 6 km millibili.

Skoða leiðina á Fatmap.

Dyrfjallahlaup - Brúnavíkurleið 11.7 km (styttri leiðin)

Vegalengd 11.7km - Heildarhækkun: 701m - Heildarlækkun: 707m - Hæsti punktur: 354m.y.s - Lægsti punktur: 15m. y.sm. 

Rásmark verður við Hólahorn á Borgarfirði og hlaupið fyrst um sinn með grófum jeppaslóða yfir Hofstrandarskarð (350m) til Brúnavíkur. Jeppaslóðinn endar innst í víkinni og þar er farið inn á gönguleið sem liggur að gömlu slysavarnaskýli þar sem hlaupaleiðirnar mætast. Frá Brúnavík tekur við stíf brekka fyrst áleiðis að Brúnavíkurskarði (354m). Hlaupið er þennan hluta leiðarinnar eftir gamalli reiðgötu sem er góð og mikið gengin. Frá Brúnavíkurskarði liggur leiðin niður að sjó og síðustu 400 metrana er hlaupið á malbiki að endamarki við Borgarfjarðarhöfn. Drykkjarstöð verður í Brúnavík með vatn og orkudrykki. 

Skoða leiðina á Fatmap.

Skráning er á tix.is.