Um hlaupið

  • Vegalengdir5 km
  • Dagsetning24. júní 2022

Ungmennafélag Íslands og Hlaupahópurinn Flandri í Borgarnesi standa sameiginlega að sérstökum Flandraspretti föstudaginn 24. júní kl. 17:30. Spretturinn er hluti af dagskrá Landsmóts 50+, en er samt opinn öllum óháð aldri. Vegalengdin er 5 km, rétt eins og í hefðbundnum Flandrasprettum, og hlaupaleiðin er með upphaf og endi við Íþróttamiðstöðina í Borgarnesi.

Skráning

Skráning fer fram á heimasíðu UMFÍ, nánar tiltekið á https://www.umfi.is/verkefni/landsmot-50plus. Ákveðið hefur verið að lyfta upp stemningunni og hafa ókeypis í þær greinar landsmótsins sem allir aldurshópar geta tekið þátt í. Þetta á einmitt við um Flandrasprettinn og því verður hann allsendis ókeypis að þessu sinni.

Hlaupið verður ræst við Íþróttamiðstöðina í Borgarnesi kl. 17:30 á föstudag. Afhending þátttökuseðla hefst klukkustund fyrr í anddyrinu og þar verður einnig hægt að skrá sig í hlaupið hafi það ekki þegar verið gert. Fyrirkomulagið er það sama og í hefðbundnum Flandrasprettum, þ.e. skráðir þátttakendur fá afhentan seðil, hlaupa með hann og skila honum svo þegar þeir koma í mark. Nauðsynlegt er að skila seðlinum til að fá hlaupatímann skráðan.

Leiðin

Hlaupið er innanbæjar í Borgarnesi sömu leið og í hefðbundnum Flandrasprettum, þ.e.a.s. frá íþróttamiðstöðinni, áleiðis norður nesið og svipaða leið til baka. Leiðin er mishæðótt en alveg laus við fjöll. Mesta hæð er um 40 m.y.s. og á leiðinni eru m.a. 6 stuttar brekkur með u.þ.b. 20 m. hækkun. Merkingar og brautarvarsla verða í lágmarki en enginn ætti þó að eiga það á hættu að villast.

Hlaupaleiðin er nánar tiltekið þannig að hlaupið er frá Íþróttamiðstöðinni, til norðurs upp Þorsteinsgötu, þá til vinstri og svo áfram norður Kjartansgötu. Þegar Kjartansgatan er á enda er beygt til vinstri og hlaupið norður Kveldúlfsgötu, næstum til enda. Þar er beygt til hægri við hornið á blokkunum, síðan meðfram blokkunum, upp stutta brekku upp á Þórðargötu og áfram beint upp á aðalgötuna (Borgarbraut) gegnt Vírneti. Þar er beygt til vinstri, hlaupið yfir Dílahæð og síðan yfir Vesturlandsveginn á gangbrautinni við leikskólann Klettaborg. Áfram er svo hlaupið til norðurs eftir göngustíg meðfram Vesturlandsveginum, yfir næstu hæð með pizzustaðinn La Colina á hægri hönd og inn á Kvíaholt. Kvíaholt er svo hlaupið áfram til norðurs, að snúningspunkti við biðskyldumerki við gatnamót skammt frá Húsasmiðjunni. Þar eru u.þ.b. 2,65 km að baki. Leiðin liggur síðan sömu leið til baka, nema hvað í stað þess að beygja til móts við Vírnet er aðalgötunni (Borgarbraut) fylgt sem leið liggur framhjá heilsugæslustöðinni og Hótel B59, upp brekkuna á móti menntaskólanum og síðan til hægri þegar upp er komið, þá næstum strax til vinstri og eftir Þorsteinsgötu niður brekku og beint í mark við Íþróttamiðstöðina.

Sjá kort af leiðinni neðst á þessari síðu.

Aldursflokkar

Aldursflokkaskipting er sem hér segir, bæði hjá körlum og konum:

  • Börn og ungmenni 17 ára og yngri
  • 18-39 ára
  • 40-49 ára
  • 50 ára og eldri

Úrslit og verðlaun

Úrslit verða birt á úrslitasíðu UMFÍ og hér á hlaup.is eins fljótt og kostur er eftir hlaup. Verðlaun verða afhent strax að hlaupi loknu.

Sprettur eða ekkisprettur

Þrátt fyrir nafngiftina er Flandraspretturinn ekki endilega spretthlaup í ýtrustu merkingu þess orðs. Hlaupið er fyrir alla, hvort sem þeir eru byrjendur eða heimsmeistarar. Þátttakendum er frjálst að keppa við hverja sem er, en oftast er maður sjálfur mikilvægasti keppinauturinn. Þess má geta að brautarmet karla er 15:45 mín. (Arnar Pétursson, 2018) og brautarmet kvenna 19:20 mín (Arndís Ýr Hafþórsdóttir, 2013), en svo eru líka til dæmi um lokatíma upp á 37-43 mín.

Nánari upplýsingar

Nánari upplýsingar fást hjá UMFÍ og hjá aðalyfirstjórn Flandra. Í henni sitja:
Stefán Gíslason (stefan@environice.is)
Ingveldur H. Ingibergsdóttir (ihi@bondi.is)
Elín Davíðsdóttir (elladav@simnet.is)