Þátttökugjald

  • 5 km - 17 ára og yngri500 kr
  • 5 km - 18 ára og eldri1.500 kr

Um hlaupið

  • Vegalengdir5 km
  • Dagsetning9. maí 2024
Myndasafn úr hlaupinu

Forsetahlaup UMFÍ er árlegur fjölskylduviðburður sem haldinn er á mismunandi stöðum á landinu. Hlaupið er tilvalinn viðburður fyrir áhugasama hlaupara á öllum aldri. Engin tímataka verður í hlaupinu og er áhersla lögð á gleði, hreyfingu og samveru – eða hinn sanna ungmennafélagsanda!

Vegalengdir, staðsetning og tímasetningar

Í ár fer viðburðurinn fram á Álftanesi fimmtudaginn 9. maí (Uppstigningardag) á sama tíma og fjölskylduhátíðin Forsetabikarinn. Viðburðurinn er haldinn í samstarfi við Embætti forseta Íslands, Ungmennafélag Álftaness og Hlaupahóp Álftaness.

Upphitun hefst klukkan 10:00 við Álftaneslaug. Ræst verður af stað í hlaupið klukkan 10:30.

Hlaupavegalengd er 5 km.

Hlaupaleið

Upphaf og endir hlaupsins er á stíg norðan megin við Álfaneslaug. Hlaupið er í átt að Breiðamýri og beygt er til vinstri inn á Breiðamýrina. Hlaupið er suður Breiðamýrina, þar er beygt til hægri við Suðurnesveg. Hlaupið er að gatnamótum við Höfðabraut og þar er farið til vinstri áfram veginn. Rétt eftir innkeyrsluna að Vestari-Skógartjörn er snúið við og hlaupið til baka sömu leið og komið var.

Hlaupið er fram hjá gatnamótunum við Breiðamýri og áfram að Bessastöðum. Hlaupið er að hringtorginu við Áftanesveg, þar er farið yfir hringtorgið og áfram inn á Bessastaðaveg. Þegar komið er að Bessastöðum er farið í gegnum hliðið og upp veginn, þar er beygt til hægri fyrir aftan Bessastaðakirkju og tekinn er hringur fyrir framan Bessastaðastofu og aftur út á veginn. Því næst er hlaupið sömu leið til baka Bessastaðaveg, í gegnum hliðið, yfir hringtorgið á Suðurnesveginn. Þar er beygt til hægri inn Breiðamýrina og til baka sömu leið að markinu við sundlaugina.

Skráning og verðlaun

Þátttökugjald er 1.500 kr. fyrir 18 ára og eldri og 500 kr. fyrir 17 ára og yngri. Hægt verður að skrá sig til kl. 22 miðvikudaginn 8. maí, kvöldið fyrir hlaup. Einnig er hægt að skrá sig á staðnum.

Afhending gagna verður fyrir hlaup frá kl 9:00 til 10:00 í Íþróttamiðstöðinni á Álftanesi.

Allir fá þátttökuverðlaun.