Mitt eigið Everest - Góðgerðarnáttúruhlaup

Um hlaupið

  • Dagsetning13. maí 2021

"Mitt eigið Everest - Góðgerðarnáttúruhlaup" er ný áskorun í viðburðinum "Mitt Eigið Everest - Útivistardagur á Úlfarsfelli" sem haldinn hefur verið á Uppstigningardag undanfarin ár.

Náttúruhlaupið er viðburður til fjáröflunar fyrir Empower Nepali Girls samtökin og rennur allur ágóði dagsins óskiptur til samtakanna en þau styrkja nepalskar stúlkur úr lægstu stigum þjóðfélagsins til náms.

Markmið hlaupsins er að fara eina, tvær, þrjár eða fleiri ferðir á Úlfarsfell eftir sem fjölbreyttustu leiðum. Allir geta tekið þátt, farið eins margar ferðir og þeir vilja, á þeim hraða sem þeim hentar því hver og einn finnur sér sitt eigið Everest. Tilgangurinn er að skora á sig og fjölskylduna, fara jafnvel aðeins út fyrir þægindarammann en fyrst og fremst að hafa gaman.

Skráningargjald gildir fyrir fjölskyldu, óháð fjölda. Skráningargjald er fjáröflun til samtakanna. Opnað verður fyrir skráningu þegar nær dregur, í byrjun maí.  

Hlaupa- og gönguhópakeppni

Viðburðurinn er ekki bara einstaklingsáskorun heldur einnig keppni milli hlaupa/gönguhópa um fjölda ferða. 

Hvaða hlaupa-/gönguhópur skráir flestar ferðir og titilinn “Everestgarparnir 2021”?

  • Allar ferðir sem farnar eru á Úlfarsfell frá kl. 6 til 24 á Uppstigningardag telja í keppnina. 
  • Ekki verður sérstakt start/rásmark/mark til þess að dreifa þátttakendum yfir lengri tíma á fleiri stíga og þannig tryggja öryggi og sóttvarnarreglur.
  • Ekki er notast við flögur eða aðrar merkingar fyrir hlaupara.
  • Ferðirnar þurfa ekki að vera farnar samfleytt. 
  • Ferðirnar mega vera frá hvaða upphafsstað gönguleiða upp að vörðunni á (efri) toppnum og aftur niður eftir annarri eða sömu leið.
  • Tekið verður við skráningum ferða fram til kl. 14 föstudaginn 14. maí á sérstöku vefformi sem birt verður á Facebook viðburði þegar nær dregur.

Grunnbúðir verða sett upp að venju sunnan megin við Skyggnisbraut ef aðstæður leyfa.

Gönguleiðin sunnan megin frá Skyggnisbraut og varðan á toppnum verða að venju skreytt í Nepölskum stíl. Náttúruhlaupurum sem taka þátt er skylt að taka tillit til annarra sem eru á fjallinu á sama tíma og virða tilmæli um fjarlægðartakmarkanir og stærð hópa (sjá covid.is). Við erum öll almannavarnir. Hlauparar taka þátt á eigin vegum og eigin ábyrgð.

Um hlaupa-/gönguleiðir

Á Úlfarsfellið eru að minnsta kosti 9 ólíkar gönguleiðir. Þátttakendur eru hvattir til þess að nýta sem flestar leiðir til þess að dreifa álagi og upplifa fellið á nýjan hátt. 

Takmarkaðar brautarmerkingar verða því á fjallinu enda er frjáls aðferð í boði og stígar nær allir bæði merktir með stikum slóðum. Þó verða helstu beygjur neðan til í “Úlfarsfellsblóminu” merktar. 

Úlfarsfellsblómið - 15 km

Dæmi um fjölbreytta, skemmtilega en krefjandi leið er að fara fjórar ferðir í slaufum aldrei upp og niður á sama stað nema í upphafi og endi, sjá kort á Fatmap. 

Mitt Eigið Everest Góðgerðanáttúruhlaup Kort
Þessi leið er um 15 km með um 900m uppsafnaðri hækkun

Einstaklingsmet fyrir fjölda var sett á Uppstigningardag 2019 og stendur í 13 ferðum yfir daginn, samtals 50 km.

Nánari upplýsingar

Um allt sem viðkemur góðgerðarhlaupinu veitir Óskar Þór Þráinsson í netfanginu oskarthr@gmail.com eða í síma 659-8000.