Þátttökugjald

  • 3 km0 kr
  • 10 km6.500 kr
  • 21 km9.000 kr

Um hlaupið

  • Vegalengdir3 km, 10 km, 21 km
  • Dagsetning25. maí 2024
Sjá úrslit Myndasafn úr hlaupinu

Mýrdalshlaupið,  skemmtilegt og krefjandi utanvegahlaup í mikilli náttúrufegurð, verður haldið í tíunda sinn laugardaginn 25. maí 2024. Skráning hefst föstudaginn 19. janúar kl. 12 á hádegi og þá er hægt að smella á skráningarlink sem birtist hér fyrir ofan.

Vegalengdir

Boðið verður upp á þrjár vegalengdir; 21 km með 1000 m hækkun og tæpa 10 km með 400 m hækkun. Þá er einnig boðið upp á 3 km skemmtiskokk.

  • 21 km - 1100 hæðarmetrar - Ræst kl. 11:00 - Viðurkennd ITRA braut sem gefur 1 punkt
  • 10 km - 490 hæðarmetrar - Ræst kl. 11:00
  • 3 km skemmtiskokk - Ræst kl. 11:30

MYR2020 408
Hlaupið upp á Reynisfjalli

Skráning, þátttökugjald og afhending gagna

Skráning fer fram á hlaup.is og hefst föstudaginn 19. janúar 2024 kl. 12 á hádegi. Skráningu fyrir 10 km og 21 km lýkur annað hvort þegar hámarksfjölda er náð eða miðnætti 18. maí.

  • 21 km - Þátttökugjald er 9.000 kr - 18 ára (á árinu) aldurstakmark
  • 10 km - Þátttökugjald er 6.500 kr - 16 ára (á árinu) aldurstakmark
  • 3 km skemmtiskokk - Frítt - Ekkert aldurstakmark

Annað

  • Hámarksfjöldi þátttakenda er 500 manns í 21 km og 10 km samtals.
  • Ekki verður biðlisti í hlaupið, ekki verður hægt að fá endurgreitt, en leyfilegt er að gera nafnabreytingar.
  • Afhending skráningargagna verður kynnt síðar.
  • Innifalið í þátttökugjaldi er brautarvarsla, tímataka með flögu, þátttökuverðlaun og hressing eftir hlaup.

Staðsetning og hlaupaleiðir

Keppendur mæti við Víkurskóla í Vík í Mýrdal um 30 mínútum fyrir ræsingu og hópurinn gengur/skokkar saman niður í Víkurfjöru þar sem hlaupið verður ræst. Búast má við 5-10 mínútna göngu.
Leiðin verður vel merkt og brautarvarsla á leiðinni. Tvær drykkjarstöðvar verða í lengra hlaupinu (4,5 km og 13 km) og ein í styttra (4,5 km).

Hægt er að sjá 10 km og 21 km hlaupaleiðirnar á korti hér neðst á síðunni.

3 km leiðin:
Skemmtiskokkið er ræst við íþróttamiðstöðina og er hlaupið meðfram Reynisfjalli að fjörunni. Þarna er sendinn stígur með melgresi og grasi í bland. Áður en komið er niður í fjöru er beygt til vinstri inná varnargað sem er í raun malarvegur og hlaupið eftir honum yfir göngubrú á Víkurá. Þar er beygt til vinstri og hlaupið stuttan spöl á malbikinu áður en beygt er aftur til vinstri inn á malarstíg og yfir aðra göngubrú. Þaðan liggur leiðin beint í markið eftir malbikuðum vegi.

10 km leiðin:
Hlaupið er ræst í Víkurfjöru. Hlaupið er í átt að Reynisdröngum eftir sandinum u.þ.b. 600 m. Beygt er upp úr fjörunni upp við Reynisfjall og hlaupið meðfram fjallinu. Þá er komið inn á Víkurbraut sem er malbikuð gata. Hlaupið er eftir Víkurbraut þar til komið er að Bakkaskarði, þar er beygt til vinstri upp hlíðina. Leiðin liggur síðan eftir malarvegi upp á Reynisfjall. Þegar farið hefur verið yfir pípuhliðið á brún Reynisfjalls er beygt til vinstri inn á þröngan stíg sem liggur eftir allri fjallsbrúninni. Útsýnið yfir Vík og Reynisdranga er stórkostlegt á þessum kafla leiðarinnar.

Drykkjarstöð verður fremst á fjallinu eftir u.þ.b. 4,5 km (við hús sem stendur þar) og síðan er hlaupið áfram eftir vesturbrún fjallsins. Þegar komið er niður Reynisfjall vestan megin er beygt til hægri og farið aftur upp fjallið eftir gömlum malarvegi yfir fjallið, þ.e í átt að Vík. Þaðan er síðan hlaupin sama leið aftur niður í þorpið. Markið er við íþróttamiðstöðina.

10 km leiðina má skoða nánar hér: https://tracedetrail.com/en/trace/trace/128844

21 km leiðin:
Lengra hlaupið er á sömu braut og styttra hlaupið í byrjun en beygir af leið eftir u.þ.b. 7 km. Þá er hlaupið inn eftir Reynisfjalli í norður í stað þess að fara niður í þorpið eins og styttra hlaupið gerir.

Þessi kafli er ýmist kindagötur eða melar og móar með engum stíg á köflum. Farið er niður af fjallinu við fjallsendann, en þar hefur verið komið fyrir keðju til að aðstoða hlaupara við að fara niður mesta brattann. Síðan er farið yfir þjóðveginn og hlaupið eftir gömlum vegi upp að Höttu. Þar er talsverð hækkun og hlaupið utan stíga síðasta kílómeterinn upp á topp á Höttu. Flestir telja þetta vera erfiðasta hluta leiðarinnar. Frá toppi Höttu er síðan mjög skemmtilegt niðurhlaup á göngustígum niður í Víkurþorp. Þar eru mismunandi brattir kaflar en flatir inn á milli. Hluti þessarar leiðar er þó nokkuð brött og getur reynst þreyttum fótum erfið. Hlaupið endar við íþróttamiðstöðina eins og styttra hlaupið. Undirlagið í hlaupinu er u.þ.b. 80% á stígum og slóðum, 18% utan stíga og 2% á malbiki.

Vakin er athygli á því að 21 km hlaupið er krefjandi og einungis fyrir þá hlaupara sem hafa farið í utanvegahlaup áður og teljast nokkuð vanir að hlaupa utanvega. Um tæknilega braut er að ræða og brött niðurhlaup á köflum.

Þessi hlaupaleið er viðurkennd af ITRA og gefur 1 punkt og ITRA stig. Hér er hlekkur inn á ITRA síðu hlaupsins.

21 km leiðina má skoða nánar hér: https://tracedetrail.com/en/trace/trace/120682

Mýrdalshlaup1a
Tímamörk

Tímamörk verða í 21 km hlaupinu nú eins og síðast. Eru þau sett með öryggi hlauparans og skipulag brautarvörslu í huga. Til að ná tímatakmörkum verða hlauparar að vera farnir frá drykkjarstöð nr. 2 (u.þ.b 13 km og 620 m uppsöfnuð hækkun frá ræsingu) eftir 2 klukkutíma og 30 mínútur frá ræsingu. Ef hlaupari nær ekki þeim tímatakmörkum telst hann hafa lokið keppni í hlaupinu og verður boðið far niður í Víkurþorp. Þessi regla á við um alla þátttakendur og er ekki hægt að semja við starfsmenn á staðnum um aðra kosti.

Flokkar

Keppt verður í opnum flokki karla og kvenna.

Verðlaun

Allir keppendur fá verðlaun fyrir þátttöku. Verðlaun verða veitt fyrir fyrstu þrjú sætin í karla- og kvennaflokki. Einnig verða útdráttarverðlaun.

Nánari upplýsingar

Nánari upplýsingar um hlaupið á heimasíðu hlaupsins myrdalshlaup.is. Vinsamlegast hafið samband við aðstandendur hlaupsins á netfangið: myrdalshlaup@gmail.com

Kort af hlaupaleið
Myrdalshlaupkort10kmleid
Kort af 10 km hlaupaleið
Myrdalshlaupkort21kmleid
Kort af 21 km hlaupaleið

Reglur Mýrdalshlaupsins
  1. Skilmálar varðandi skráningar, endurgreiðslur o.þ.h. má finna á skráningarsíðu hlaupsins. Með skráningu í hlaupið samþykkja þátttakendur skilmála hlaupsins og skuldbinda sig til að lúta reglum þess. Þátttakendur skulu fara eftir þeim leiðbeiningum sem starfsmenn hlaupsins leggja til, þ.m.t. tilmæli um fatnað og búnað.
  2. Aldurstakmörk: Ekkert aldurstakmark er í skemmtiskokkið. Í 10 km hlaupið þarf að vera 16 ára á árinu. Í 21 km hlaupið þarf að vera 18 ára á árinu.
  3. Tímamörk: Engin tímamörk eru í skemmtiskokkinu og 10 km hlaupinu. Tímamörk verða í 21 km hlaupinu og eru þau sett með öryggi hlauparans og skipulag brautarvörslu í huga. Til að ná tímatakmörkum verða hlauparar að vera farnir frá drykkjarstöð nr. 2 (u.þ.b 13 km og 620 m uppsöfnuð hækkun frá ræsingu) eftir 2 klukkutíma og 30 mínútur frá ræsingu. Ef hlaupari nær ekki þeim tímatakmörkum telst hann hafa lokið keppni í hlaupinu og verður boðið far niður í Víkurþorp. Þessi regla á við um alla þátttakendur og er ekki hægt að semja við starfsmenn á staðnum um aðra kosti.
  4. Stranglega bannað er að henda frá sér rusli, fatnaði eða búnaði á leiðinni. Hlauparar verða að vera með sín eigin glös eða brúsa til að nota á drykkjarstöðvum. Ekki er boðið upp á einnota pappaglös á drykkjarstöðvum.
  5. Þátttakendur skulu hafa hlaupanúmer sýnilegt framan á sér í mittishæð til þess að auðvelda og flýta skráningu. Til að fá skráðan tíma og í öryggisskyni skulu allir þátttakendur fara yfir tímatökumottur í rásmarki, á tékkpunktum og í endamarki
  6. Óheimilt er að þiggja utanaðkomandi aðstoð einhvers sem ekki er skráður þátttakandi í hlaupið, nema í neyðartilvikum. Það er á ábyrgð hvers þátttakanda að neita utanaðkomandi aðstoð nema um neyðartilvik sé að ræða. Það er á ábyrgð hvers þátttakanda að hlaupa ekki með utanaðkomandi hlaupara (héra). Þátttakendur mega aðstoða aðra þátttakendur með öryggi sitt og annarra í huga.
  7. Viðurlög: Þátttakendur sem ekki fara eftir reglum hlaupsins eiga á hættu að verða skráðir úr hlaupinu.
  8. Skipuleggjendur áskilja sér rétt til að breyta brautinni, aflýsa hlaupinu eða færa rástíma með stuttum fyrirvara vegna veðurs eða annarra ófyrirsjáanlegra aðstæðna með öryggi þátttakenda að leiðarljósi. Við slíkar aðstæður fæst þátttökugjald ekki endurgreitt.
  9. Skipuleggjendur áskilja sér rétt til að krefjast ákveðins skyldubúnaðar sem hlaupari þarf að hafa í ljósi aðstæðna og veðurs á keppnisdegi.