Þátttökugjald

  • 11 km4.500 kr
  • 22 km4.500 kr

Um hlaupið

  • Vegalengdir11 km, 22 km
  • Dagsetning20. maí 2023
Sjá úrslit Myndasafn úr hlaupinu

Stjörnuhlaup VHE fer fram laugardaginn 20. maí. Ólíkt fyrri Stjörnuhlaupum verður nú haldið utanvegahlaup í fallegu umhverfi í landi Vífilsstaða og Heiðmörk.

Hlauparar verða ræstir kl. 10:00 og í boði eru tvær vegalengdir, annars vegar 11 km (einn hringur) og hins vegar 22 km (tveir hringir).

Stjörnuhlaup VHE hefur eignast nýja og stórglæsilega heimahöfn – Miðgarð sem er hið nýja fjölnota íþróttahús Garðbæinga í Vetrarmýrinni þaðan sem stutt er í Heiðmörkina. Báðar vegalengdir byrja og enda við Miðgarð.

Aðstaða fyrir þátttakendur er eins góð og hugsast getur. Gott aðgengi að salernum, hægt að geyma verðmæti á öruggum stað meðan hlaupið er, upphitun fyrir hlaup og teygjur eftir hlaup við kjöraðstæður. Fyrir þá sem það vilja er einnig hægt að skola af sér eftir hlaup.

Staðsetning og tími
  • Hlaupið byrjar og endar við íþróttahúsið Miðgarð í Garðabæ
  • Stjörnuhlaup VHE er utanvegahlaup í Heiðmörk
  • Tvær vegalengdir 11 km og 22 km (tveir hringir) eru í boði
  • Hlaupið byrjar kl. 10:00

Þátttökugjald, skráning og afhending gagna

Skráning fer fram á hlaup.is, sjá hér efst á síðunni til kl. 22 föstudaginn 19. maí. Hægt er að skrá sig á staðnum á hlaupdag milli 8:30 og 9:00.

  • Þátttökugjald í hlaupið til og með 19. maí er 4.500 kr í báðar vegalengdir 11 km og 22 km.
  • Þátttökugjald hækkar á hlaupdegi 20. maí og er 5.500 kr í báðar vegalengdir 11 km og 22 km.

Afhending gagna verður í íþróttahúsinu Miðgarði föstudaginn 19. maí frá kl. 16:00 til 18:00 og á hlaupdag um morguninn laugardaginn 20. maí frá kl. 8:30 – 9:00.

Drykkjarstöð

Ein drykkjarstöð er á leiðinni við nýja Skátaheimilið (6 km).

Verðlaun

Veitt verða verðlaun fyrir fyrstu þrjú sætin í báðum vegalengdum í kvenna- og karlaflokki.

Hlaupaleiðin

Hægt er að sjá kort af leiðinni neðst á þessari síðu (hringur hlaupinn réttsælis).

Einnig er hægt að skoða leiðina hér á Fatmap.

22 km brautin er viðurkennd af ITRA og hlauparar sem klára innan 3 klst fá ITRA stig fyrir hlaupið sem meðal annars gilda fyrir Laugavegshlaupið.

Rás- og endamark er við innganginn í íþróttahúsinu Miðgarði sem stendur við golfvöllinn í Vetrarmýrinni. Hlaupaleiðin liggur í landi Vífilsstaða og Heiðmörk og m.a. um útvistarskógana í Smalaholti og Sandahlíð.

Farið er frá Miðgarði eftir slóð austur undir Hnoðraholti og meðfram golfvellinum inni í skóg Skógræktar Garðabæjar í Smalaholti og hlaupið þar á stígum upp á Smalaholtið sem gefur fallegt útsýni yfir Vífilsstaðavatn og Bláfjöllin.

Þaðan liggur leiðin á stíg í Smalaholtinu austur að hesthúsum Garðabæjar þar sem farið er yfir Vatnsendaveg og upp í Sandahlíðina fyrir ofan hesthúsin. Komið er upp á mela Sandahlíðar Garðabæjar-megin fyrir ofan Guðmundarlund.

Leiðin þaðan liggur stuttlega á hestastíg í átt að nýja Skátaheimilinu í Garðabæ.  Tekin er skörp beygja við Skátaheimilið þar sem drykkjarstöð er og farið í vesturátt að Vífilsstaðavatni eftir nýjum malarstíg sem tengist við malarstíginn í botni Vífilsstaðavatns. Áður en farið er niður stíginn er útsýni í vestur ægi fagurt og á góðum degi er útsýni yfir hafið og blasir Snæfellsjökullinn við.

Þegar komið er niður að Vífilsstaðavatni ofan af hæðinni er haldið beint áfram meðfram Vífilsstaðavatni að neðra bílastæði við útfallið í Hraunslæk (Vífilsstaðalækinn), farið yfir göngubrúna og beygt til vinstri að efra bílastæðinu og yfir Flóttamannaleiðina og áfram að Vífilsstöðum. Farið er framhjá Vífilsstöðum  á bílaplaninu  og beygt til hægri.  Þá liggur leiðin beint að Miðgarði á nýrri malbikaðri göngubraut sem er 800 m niður að Miðgarði með góðum endaspretti.

Brautin er í hækkunarferli um hóla og hæðir fyrstu 5,5 km með hæsta punkt í 150 m hæð frá Miðgarði. Hæsti punkturinn er í hlíðinni ofan við nýja Skátaheimilið. Leiðin þaðan er nánast öll niður á við og skörp og löng lækkun er niður nýja stíginn að Vífilsstaðavatni. Samanlögð hækkun brautarinnar er um 200 m.

Undirlag brautarinnar er ekki torfært heldur þjappaðir moldarstígar eins og eru í víðast hvar í Heiðmörk, hestastígar að hluta og góðir malarstígar. Fyrir kappsama hlaupara er hægt að gefa í eftir að klifri lýkur á 5,5 km sem er í hlíðinni fyrir ofan Skátaheimilið í Heiðmörk.

Framkvæmdaraðili biður þátttakendur að skilja ekkert eftir sig eins og umbúðir og annað í brautinni. Hægt er að losa sig við það á drykkjarstöðinni við Skátaheimilið eða á marksvæðinu.

Fyrirvari

Skráðir hlauparar sem taka þátt í Stjörnuhlaupi VHE eru alfarið á eigin ábyrgð og börn eru á ábyrgð foreldra. Framkvæmdaraðili hlaupsins sem er Hlaupahópur Stjörnunnar (Stjarnan), getur á engan hátt verið ábyrgt fyrir skaða sem skráðir hlauparar hugsanlega verða fyrir eða valda öðrum meðan á þátttöku í hlaupinu stendur.  Með skráningu í þennan viðburð staðfestir þátttakandi skilning á þessu og samþykkir þennan skilmála.