Anna Berglind Pálmadóttir gerir upp hlaupaárið 2018

birt 15. desember 2018

Hlaup.is fékk fjölbreyttan hóp hlaupara í lið með sér til að gera upp hlaupaárið sem nú er senn á enda. Afraksturinn mun birtast á hlaup.is á þeim vikum sem enn lifa af hlaupaárinu. Af mörgu er að taka, afrekin óteljandi, almenningshlaupin eru alltaf að verða fleiri og betri, fleiri og fleiri fara erlendis að hlaupa og utanvegahlaupin verða vinsælli ár frá ári.Næst til að gera upp hlaupaárið er Anna Berglind Pálmadóttir, hlaupari frá Akureyri. Eftir að hafa byrjað að hlaupa árið 2014 hefur Anna Berglind skipað sér á bekk með bestu hlaupurum landsins og hljóp m.a. á besta maraþontíma ársins í kvennaflokki.

Hvað stóð upp úr í íslensku hlaupalífi á árinu? Áframhaldandi stórsókn hlaupa hjá almenningi er það sem mér finnst helst standa upp úr sem og stórkostlegur árangur UFA-Eyrarskokkara í Laugaveginum. Almennt séð er algjörlega frábært hvað það eru margir búnir að finna hlauparann í sér og hefur t.d. verið gríðarleg aukning í hópnum okkar hérna á Akureyri, þar sem hlauparar á öllum getustigum eru að hittast og hlaupa saman. Þetta hefur leitt til þess að hlaupadagskráin er orðin þétt, fjölbreytt, skemmtileg og þátttaka almennt góð.Í öðru lagi var ótrúlega skemmtilegt að vera hluti af þeim stóra hópi sem tók þátt í Laugaveginum í sumar.

Þar áttum við fjölmarga sigurvegara og allir komust í mark án mikilla vandræða. Ekki má svo gleyma því að maraþontímar kvenna voru almennt mun betri í ár en undanfarin ár og því greinilegt að það eru margir að taka miklum og stórstígum framförum.

Hvaða íslenski hlaupari stóð upp úr á árinu? Mér finnst mjög erfitt að eiga að nefna bara einn þar sem hlauparar voru að gera svo marga flotta hluti á mismunandi vígstöðvum. Kvenna megin er mjög skemmtilegt að fylgjast með þeim Andreu og Elínu Eddu sem halda áfram að taka ótrúlegum framförum á götunni. Rannveig Odds gerði svo virkilega gott mót þegar hún sló Íslandsmetið í Laugaveginum en þar var ég svo ánægð með það að við hefðum báðar náð að mæta á ráslínu og skilað okkur í mark á fínum tímum. Svo var 400 km ferðalagið hjá Elísabetu Margeirs alveg með ólíkindum að fylgjast með, en þá daga sem hún var að var það mitt síðasta verk áður en ég fór að sofa að taka stöðuna og það fyrsta sem ég gerði þegar ég vaknaði á morgnanna. Karla megin er Arnar Pétursson augljóslega sá sem fyrstur kemur upp í hugann en eins er skemmtilegt að fylgjast með Ingvari Hjartarsyni sem er að koma sterkur inn í utanvegahlaupin. Svo átti Þorbergur Ingi nokkra góða spretti á árinu, ekki síst þegar hann kláraði UTMB á ótrúlegri seiglu og minnir sífellt á yfirburði sína meðal íslenskra fjallahlaupara.

Hvernig gekk þitt hlaupaár persónulega? Mitt hlaupaár gekk rosalega vel en það má segja að þetta hafi verið ákveðið "comeback" eftir erfið og leiðinleg meiðsli. Minn hlaupaferill er mjög óvanalegur þar sem ég byrjaði bara að hlaupa 2014, gekk svakalega vel 2015, var svo í meiðslum allt 2016 og að ná mér á strik 2017. Mitt stærsta afrek í ár var að sigra maraþonvegalegndina í Tenerife Blue trail en það er sterkt fjallahlaup á Tenerife og haldið er í júní. Auk þess var ég önnur í Laugaveginum á þriðja besta tíma sem íslensk kona hefur hlaupið á. Þá varð ég Íslandsmeistari í hálfu og heilu maraþoni og hljóp á besta maraþontíma íslenskrar konu á árinu í Lissabon í október: 3:04:13 en það er áttundi besti tími íslenskrar konu frá upphafi samkvæmt Afrekaskrá FRÍ. Þá kom ég sjálfri mér á óvart með því að hlaupa 10 km vel undir 39 mínútum í tvígang í sumar en allar æfingar miðuðu af lengri hlaupum og átti ég því ekki von á að geta hlaupið styttri vegalengdir á neinum sérstökum hraða.

Hvað mun standa upp úr á næsta hlaupaári? Ég held að við munum halda áfram að sjá flottar bætingar á götunni auk þess sem sífellt fleiri muni gera góða hluti í utanvegahlaupunum. Íþróttafólk er alltaf að ýta sér lengra og lengra og er uppgangur kvenna í sportinu sérstaklega eftirtektaverður. Arnar Péturs er með stór markmið og verður spenanndi að sjá hvernig honum tekst til við að ná þeim.

Eitt atriði sem þarf að bæta í íslensku hlaupasamfélagi? Í heildina samanstendur íslenska hlaupasamfélagið af skemmtilegum og hressum einstaklingum sem allir hafa ánægju af íþróttinni, eru styðjandi og jákvæðir út í lífið og tilveruna. Það sem helst olli vonbrigðum var klúðrið í kringum Reykjavíkurmaraþon en þó er ég þakklát fyrir að við hlaupararnir fengum að gleðjast á deginum sjálfum og í raun hafði þetta ekki áhrif á upplifunina sem slíka heldur niðurstöðurnar eftir á. Eins olli illa merktur Hengill nokkrum pirringi en þar er mjög flottur viðburður sem þjáist fyrir skort á merkingum og brautarvörslu sem ég er sannfærð um að verði bætt úr næst.

Sjá einnig: Arnar Pétursson gerir upp hlaupaárið 2018.