Arndís Ýr Hafþórsdóttir: Afrekskona í Köben

birt 17. janúar 2014

Arndís Ýr Hafþórsdóttir langhlaupari úr Fjölni hefur vakið verðskuldaða athygli í íslenska hlaupaheiminum á undanförnum árum. Arndís sem er 24 ára býr í Kaupmannahöfn þar sem hún nemur verkfræði ásamt því að hlaupa og æfa af krafti. Þó gaf Arndís sér tíma til þess leiða lesendur Hlaup.is í allan sannleika um líf afrekshlauparans í Kaupmannahöfn.

Hvernig er aðstaðan í Danmörku, er hún betri eða verri en á Íslandi?
Bæði og myndi ég segja. Aðstaðan til að hlaupa á Íslandi er mjög góð, við erum með mjög góðar gangstéttir sem eru vel flestar upplýstar. Þá er auðveldara að hlaupa í nátturunni á Íslandi og auðvitað er umferðin mun minni. Jafnframt er Laugardalshöllinn frábær fyrir interval æfingar á veturnar. Í Kaupmannahöfn er engin innanhúsfrjálsíþróttahöll, svo ég æfi aðeins úti. Reyndar er veðrið hér oftast betra en á Íslandi sem er jákvætt. Í nágrenni við heimili mitt eru góðir malarstígar en gallinn er samt að þeir eru ekki upplýstir og því er valið um hlaupaleiðir þegar dimmir ekki sérstaklega mikið.

Hvernig hagarðu æfingum í Danmörku?
Ég æfi þrisvar sinnum í viku með félagi sem heitir Trongårdens IF og er staðsett við hliðina á skólanum mínum. En svo æfi ég líka eftir æfingaprógrammi frá þjálfaranum mínum Sigurði P. Sigmundssyni.

Hefur þú verið að keppa mikið upp á síðkastið?
Ég er búin að taka þátt í nokkrum hlaupum í haust, bæði á Íslandi og í Kaupmannahöfn. Nú síðast tók ég þátt í NM í víðavangshlaupum sem var einmitt haldið á Íslandi. Það var mjög skemmtilegt hlaup og gekk ágætlega. Ég hljóp svo 15 km í Marathon Start Op í Kaupmannahöfn sem var haldið síðustu helgina í október og endaði í fyrsta sæti á fínasta tíma.

Hvernig gengur að æfa ásamt því að vera í krefjandi námi?
Það gengur vel, samt koma tímar inn á milli þegar ég er alveg búin á því eftir langa daga, bæði í skóla og svo erfiða æfingu í kjölfarið. En ég læt þetta ganga.

Telur að dvölin í Danmörku sé jákvæð eða neikvæð fyrir hlaupaferil þinn?
Ég held að hún hafi nokkuð góð áhrif á ferilinn, það hafa allir gott af breytingum.

Ertu ánægð með árangurinn á síðasta ári?
Já ég er nokkuð sátt með árið, sérstaklega með bætingar í bæði hálfmaraþoni og 5000m.

Hvað stóð helst upp úr á síðasta ári?
Það er klárlega bætingin í 5000m í Evrópukeppni landsliða sem haldin var í Slóvakíu, ég hljóp á 17:26,11 og endaði í 3 sæti. Og svo bætingin mín í hálfmaraþoni þegar ég hljóp á 1:22:56 sem var eitt af markmiðum mínum.  

Hvað æfir þú oft í viku?
Ég hleyp sjö sinnum í viku og tek eina til tvær lyftingar-/styrkaræfingar.

Getur þú sagt okkur frá dæmigerðri æfingaviku hjá þér?
Í grófum dráttum er hún eftirfarandi. Mánudagar: Styrkaræfingar og mjög létt skokk. Þriðjudagar: Intervalæfing. Miðvikudagar: Skokk. Fimmtudagar: Hraðaleikur. Föstudaga: Styrkaræfingar og mjög létt skokk. Laugardaga: Tempóæfing. Sunnudaga: Langt hlaup.

Hvaða æfingar leggur þú mesta áherslu á meðfram hlaupunum, finnur þú að slíkar æfingar skipti máli?
Það er mjög mikilvægt að teygja en ég mætti nú gera meira af því. Ég teygi þó alltaf en mismikið. Styrktaræfingar eru mikilvægar og ég reyni að hafa þær 2x í viku. En þegar mikið er að gera, þá geri ég ekki eins mikið af þeim. Þegar ég bjó á Íslandi fór ég einu sinni í viku í Hot yoga sem var mjög gott og ég sakna þess mikið.

Hvað er framundan hjá þér á komandi mánuðum og á næsta ári
Framundan eru mjög spennandi verkefni. Ég stefni að því að keppa á Heimsmeistaramótinu í hálfmaraþoni í lok mars á þessu ári en það er einmitt haldið í Kaupmannahöfn.

Hver eru þín markmið til lengri og skemmri tíma?
Þau eru að bæta mig í lengri hlaupunum, 10 km og hálfmaraþoni auk þess að halda áfram að hafa gaman af þessu.

Hvað með mataræði og hvíld, eru það þættir sem skipta langhlaupara miklu?
Já klárlega, maður þarf að nærast og sofa vel til að vera tilbúin í næstu átök. Ég reyni að ná þessum klassíska átta tíma svefn. Svo þarf ég til dæmis að passa að borða helst ekki mjólkurvörur fyrir æfingar, því þær fara mjög illa í mig. Svo er bara að borða nóg að öllum mat. Ég borða líka mikið af grænmeti og ávöxtum á hverjum degi. Í Danmörku verða gulræturnar mjög oft fyrir valinu því þær eru alltaf á tilboði og svo er auðvelt að taka þær með í skólann.

Hvernig hagar þú síðustu 48 tímum fyrir keppni með tilliti til mataræðis og hvíldar?
Ég tek oftast hvíld tveimur dögum fyrir keppni. En ef ég er stíf, skokka ég mjög stutt til þess eins að teygja vel eftir á.  Þá finnst mér best að fara í heita pottinn (þegar ég er á Íslandi). Daginn fyrir keppni þá tek ég létt, stutt skokk, nokkrar hraðaraukningar, drillur og enda á góðum teygjum. Mataræðið er bara eins og aðrar daga hjá mér, nema ég sleppi oftast rauðu kjöti deginum fyrir keppni, oftast verður kjúklingur og eitthvað kolvetnaríkt meðlæti fyrir valinu. Á hlaupadegi þá passa ég að drekka nóg af vatni og  ég fæ mér oftast ristað brauð með smjöri og sultu og borða peru með. Hljómar kannski ekki svakalega vel en er mjög gott og fer vel í minn maga.

Sérðu fyrir þér að þú eigir langan feril framundan, verða keppnishlaup hluti af þínu lífi næstu árin?
Ég mun eflaust vera hlaupandi allt mitt líf og hlaup munu vera partur af mínum lífstíl. Ég á líka eftir að hlaupa maraþon, það er ekki á stefnuskránni næstu árin. En til lengri tíma litið þá er það klárlega eitthvað sem ég ætla að prófa.

Þú er á seinna ári þínu í mastersnámi, hvað ertu að læra?
Ég er að læra Management Engineering í DTU (Danmarks Tekniske Universitet).

Býrðu ein í Kaupmannahöfn?
Ég á kærasta, hann heitir Flosi. Hann er einmitt frekar nýlega byrjaður að hlaupa og er farinn að ógna mér í hlaupunum. Flosi starfar á Íslandi svo við skiptumst á að fara á milli. 

Hvernig kanntu við þig í Köben?
Ég kann mjög vel við mig í Köben. Þetta er yndisleg borg og hefur margt að bjóða. Líka gaman og prófa eitthvað nýtt og víkka sjóndeildarhringinn.

Hvað hyggstu gera að námi loknu? Kemur til greina að vera áfram erlendis, verður fókusinn á hlaup eða vinnu?
Ég mun flytja heim eftir námið en svo veit maður aldrei hvað gerist. Ég fer á fullt að finna mér vinnu og æfa samhliða. Hlaupin eru svo þægileg, það er alltaf hægt að finna tíma til að fara út að hlaupa.