Elín Edda: Búin að slaufa maraþonplönum í ár

uppfært 01. september 2020

Heimsfaraldurinn hefur leikið hlaupara grátt, rétt eins og alla heimsbyggðina  þetta árið. Einn fremsti hlaupari landsins er þar engin undanteking. Elín Edda Sigurðardóttir var á leiðinni á HM í hálfmaraþoni í mars þegar allt hrökk í lás. Blaðamaður hlaup.is heyrði hljóðið í Elínu Eddu sem svo sannarlega hefur lifað bjartari tíma sem hlaupari.

Klassísk Covid spurning. Hvernig hefur ástandið breytt þínum plönum? Hvernig varst þú búin að stilla upp hlaupaárinu 2020?

Þegar Covid kom upp þá var ég nánast búin með undirbúning fyrir mitt þriðja maraþon. Ég var á leiðinni á HM í hálfu maraþoni í lok mars og þaðan ætlaði ég að fljúga til Spánar í loka æfingahnikk fyrir maraþonið í Vínarborg. Þessum ferðum og hlaupum var öllum aflýst og það tók sinn toll andlega að vera búin að leggja svona mikla vinnu í eitthvað sem ekkert varð úr. Eftir það hef ég átt mjög erfitt með að stilla upp einhverjum plönum, en var samt bjartsýn á Reykjavíkurmaraþonið og orðin spennt fyrir því að hlaupa hálft maraþon þar þegar því var aflýst líka. Ætli maður reyni ekki að hætta öllu skipulagi núna, halda sér í einhverju grunnformi og lifa í núinu?

Elín Edda RM2019 03842
Elín Edda í Reykjavíkurmaraþoni 2019.

Ertu úrkula vonar um að geta tekið alvöru keppnishlaup erlendis í ár? Heldur þú í vonina um að geta hlaupið alvöru hálfmaraþon eða maraþon á Íslandi í haust?

Ég hef enn ekki heyrt af HM í hálfu maraþoni sem var frestað fram í október, en verð að viðurkenna að mér þykir afar ólíklegt að það verði haldið og líður sjálfri ekkert vel með það að fara út eins og staðan er í dag. Ég er algjörlega búin að slaufa öllum maraþonplönum þetta árið og held að það verði bara gott að einbeita sér að því að vinna í veikleikum sínum, styrkja sig og keyra sig ekki um of í æfingum þegar maður hefur ekkert sérstakt að stefna að.

Þú hefur verið á gríðarlegri siglingu undanfarin ár og tekið mikil og stór stökk. Hafa framfarirnar komið á óvart eða eru þær einfaldlega í samræmi við þín markmið?

Takk fyrir það! Í raun þá á ég Mörthu þjálfara mínum mest að þakka fyrir að ég held áfram að setja mér háfleyg markmið af mikilli alvöru. Hún hefur haft óbilandi trú á mér og það hefur áhrif á hversu mikla trú ég hef á sjálfri mér. Svo er það nær undantekningalaust þannig að þegar ég næ einu markmiði þá líður mér eins og ég muni aldrei geta hlaupið hraðar. Þá sest ég niður með Mörthu og við förum yfir stöðuna og hún plantar nokkrum hugmyndum í hausinn á mér sem hjálpar mér með næstu markmiða. Að mínu mati snýst þetta því að miklu leyti um hugarfar.

Hvaða áhrif hefur þetta hlaupaár haft á sálartetrið? Hefur ástandið dregið úr metnaði þínum sem hlaupari að einhverju marki?

Ég hef gengið í gegnum ýmsar tilfinningasveiflur á þessu ári. Í upphafi Covid tímabilsins var ég frekar róleg og fannst ég ná mjög góðu sambandi við sjálfa mig, fór að einbeita mér mikið að hugleiðslu, náttúrutengingu, yoga og fleira. Ég dró mikið úr hlaupunum á sama tíma, tók mér off-season og það fór ágætlega í mig. Mér leið því frekar vel þrátt fyrir að vera starfandi á svæfingar- og gjörgæsludeild Landspítala og var frekar stolt af því hvernig ég tæklaði þetta allt saman. Síðan þegar ég var að reyna að koma mér í hlaupagírinn aftur var eins og ég fengi smá bakslag með andlegri niðursveiflu og þá fann ég líka fyrir smá sorg yfir því að hafa ekki getað hlaupið maraþonið sem ég var búin að æfa fyrir. Ég finn alltaf fyrir mikilli tengingu á milli andlegrar og líkamlegrar líðunar og þessu fylgdi því að ég fór að finna fyrir minniháttar meiðslum hér og þar. Ég hef aftur náð mér á gott strik núna, en finnst metnaðurinn alls ekki vera sá sami þegar ég veit ekki alveg hverju ég er að stefna að. Hreyfing er mér samt svo mikilvæg að ég myndi ekkert hætta að hlaupa þó að ég mætti aldrei keppa aftur. Þetta er bara lífstíll!

Elín Edda ADI2018 0047
Elín Edda í Adidas Boost hlaupinu 2018.

Að lokum, Hlaupalíf Hlaðvarp hefur heldur betur slegið í gegn síðan það hóf göngu sína fyrir rúmu ári. Finnur þú fyrir mikilli eftirspurn og áhuga á hlaðvarpi sem þessu hér á landi? Við hverju mega hlustendur ykkar búast á næstu misserum?

Við Villi erum akkúrat búin að hafa mjög mikið að gera í sumar vegna íbúðakaupa og framkvæmda. Við höfum því alls ekki náð að sinna Hlaupalíf Hlaðvarp eins og okkur langar í sumar og finnum fyrir mikilli eftirspurn og áhuga, sérstaklega þegar fólki er farið að lengja eftir næsta þætti. Hlustun er misjöfn bæði eftir þáttum og tímabilum, en sumir þættir hafa fengið yfir 3000 hlustanir sem er langt yfir öllu sem við hefðum nokkurn tímann þorað að vona. Við erum ótrúlega þakklát fyrir allar góðu viðtökurnar og erum með ýmislegt skemmtilegt á teikniborðinu fyrir næstu misseri.

Það er svo sannarlega óhætt að mæla með Hlaupalíf Hlaðvarp fyrir alla hlaupara. Hlaðvarpið er í umsjón Elínar Eddu og sambýlismanns hennar Vilhjálms Þórs Svanssonar sem einnig er hörkuhlaupari. Þættina má finna hér eða á öllum helstu hlaðvarpsveitum.