Frásögn: Gautur Þorsteinsson segir frá sínum "big five"

birt 28. maí 2015

Gautur og eiginkona hans Marta, að loknu Berlínarmaraþoni árið 2007.Ég heiti Gautur Þorsteinsson og ég byrjaði að hlaupa haustið 1996. Ég fór út einn daginn eftir vinnu og gaf mig fram við Erlu Gunnarsdóttur, hlaupahópsstjóra Fjölnis í Grafarvoginum og hef verið að hlaupa undir hennar stjórn síðan. Fyrst fór ég út tvisvar í viku, svo þrisvar og allt upp í átta sinnum í viku þegar mest var. Skömmu eftir að ég byrjaði fór konan mín, Marta Þorvaldsdóttir að mæta á æfingar og frá þeim tíma höfum við bæði stundað hlaupin með Grafarvogshópnum. Þetta hefur reynst vera hið mesta gæfuspor í lífi okkar.Þegar ég kom inn í hlaupahópinn þá var hann í þróun. Allir voru að keppast við að æfa, taka þátt í hlaupakeppnum og bæta tímana sína. Maraþon voru fjarlægur draumur og enginn í hópnum hafði farið í slíka keppni.

Þetta var ágætt, því það er ekki góð byrjun á hlaupaferlinum að fara beint í maraþonhlaup. Nei, við vorum að taka fimm og tíu kílómetra hlaup og þess háttar vegalengdir. Kannski eitt hálfmaraþon á ári. Og það var gaman. Að keppast við að bæta tímann sinn. Komast undir fjörutíu í tíu. Keppa við þennan og hinn um að vera fljótari.

Hópurinn fór yfirleitt saman í keppnishlaup og samheldnin var mikil. Við kynntumst öðrum hlaupurum, enda er þetta skemmtilegt fólk og skemmtilegt samfélag. Af þessu hlaust heilmikið félagslíf og skemmtanir. Ferðalög út á land í keppnishlaup.

Flestir voru með fjölskyldur og þær voru oftast með á þessum ferðalögum, enda oft bæði hjónin með hlaupabakteríuna. Ein ferðin var í Mývatnssveitina til þess að hlaupa hálfmaraþon. Það var þá sem við fórum að gefa maraþoninu auga. Og fljótlega á eftir fór sá fyrsti af okkur í slíkt hlaup og hlaut mikla aðdáun fyrir. Ég fór mitt fyrsta maraþon nokkru síðar í Reykjavík árið 1998 og síðan þrisvar í Mývatnsmaraþon, þar sem ég náði mínum besta tíma árið 2001, 2:58:24. Svo fór okkur að langa til útlanda í maraþonhlaup.Hópurinn hennar Erlu ásamt börnum í Mývatssveit á síðustu öld.

Hver eru þessi fimm stóru
Maraþonhlaup kennd við fimm stórborgir hafa fengið þetta heiti. Þetta eru Boston, New York, London, Berlín og Chicago. Það er markmið margra hlaupara að fara þau öll. Það var fjarri okkur Grafarvogshlaupurum að við ættum sum eftir að fara öll þeirra, en það varð raunin í mínu tilviki. Eitt af öðru tíndust þau inn. Svona eins og óvart.

London 2002
Londonmaraþon var það fyrsta og árið var 2002. London maraþon var haldið þann 15. apríl þetta árið og við byrjuðum að æfa þann 2. janúar að mig minnir. Þetta var mikill snjóavetur og margur hlaupatúrinn var tekinn í blindhríð og kulda. Ég æfði vel og ætlaði að bæta tímann frá árinu áður. En sex vikum fyrir hlaup var ég einn að taka 10 km á sunnudagskvöldi og stökk upp tröppur úr undirgöngum án þess að horfa á tröppurnar. Annar fóturinn lenti á tröppunefinu og small niður á næstu tröppu með þeim afleiðingum að ég sleit illilega vöðva í kálfa. Ég komst heim á öðrum fæti og var hjá góðum sjúkraþjálfara næstu þrjár vikurnar, án þess að hlaupa nokkuð, en gat aðeins náð mér á strik síðustu þrjár vikurnar fyrir hlaup. Þessar þrjár vikur á víst reyndar  að trappa niður fyrir hlaupið.

Fjölnismenn í London 2002Svo fór stór hópur úr Grafarvoginum til London.  Flestir til þess að taka þátt, en nokkrir makar mynduðu klapplið. Við gistum á ágætis hóteli í Marylebone hverfinu, sem er mjög miðsvæðis. Svona stórhlaup kalla á heilmikið skipulag hjá hlauphöldurum. Þarna þarf að sinna 30-50 þúsund hlaupurum sem allir þurfa að fara af stað á sama tíma og allir þurfa sína þjónustu á leiðinni.Bretar kunnu vel að skipuleggja, rútur fluttu mannskapinn út í stóran garð í Greenwich og þar var fólki skipað í ræsingarstaði og í krær eftir getu. Borðalagður embættismaður sá til þess að enginn svindlaði sér í ranga kró. Þarna sá maður alkunna „fyrirhlaupstaugaveiklun" í gangi með tilheyrandi klósettferðum, en þetta tók þó frekar fljótt af.

Ræsingin var með rakettu eins og í gamlárshlaupinu í Reykjavík og allir þrír ræsingarstaðirnir fóru af stað á sama tíma. Þeir voru dálítið aðgreindir fyrst en hlauparastraumarnir sameinuðust síðan fljótlega. Veður var gott og gaman að hlaupa. Fljótlega fóru skemmtiatriði að sjást. Enskur kvennakór, lúðrasveit, jassband, pönkrokkhljómsveit og einn breskur pöbb var kominn með borð út á götu og útsölu á bjórnum á sunnudagsmorgni fyrir drykkfellda áhorfendur. Allt var þetta með hæfilegu millibili. Svo kom skýringin á skrýtinni lykkju á leiðinni, en þar var farið fram hjá fornfrægu ensku seglskipi, Cutty Sark, sem átti á sínum tíma hraðametið milli Ástralíu og London og er nú er geymt á útisafni. Leiðin í þessu hlaupi er fjölbreytt og oftast skemmtileg og víðast hvar voru áhorfendur við leiðina til þess að hvetja hlauparana, sem voru af öllum stærðum og gerðum. Einn af okkur þurfti að horfa á fótalausan mann hlaupa fram úr sér. Sá var með stálspengur neðan á fótastúfunum, svipað og spretthlauparinn Pistorius. Síðasti leggurinn upp með Thames ánni var frekar erfiður því að þar er einhverskonar steinlögn sem hentar hlaupurum illa. Reynt hafði verið að bæta úr þessu með því að setja teppislengju eftir leiðinni, en mér fannst það lítið betra því að mishæðirnar í undirlaginu voru samt fyrir hendi, en sáust ekki fyrir teppinu. Þarna er hlauparinn líka orðinn þreyttur. En svo var beygt frá ánni og markið var í nánd. Og það var ógleymanlegt að taka beygjuna hjá Buckinghamhöll inn á The Mall þar sem markið er og hlaupa svo í mark framhjá þúsundum áhorfenda. Flögutíminn var 3:03:58, sem ég var sáttur við í ljósi meiðslanna sem ég hafði orðið fyrir og truflunar á æfingum í framhaldinu.

Marksvæðið var til sóma og hópurinn okkar safnaðist saman við bókstafinn „I" fyrir Ísland. Þar varð einn hlaupafélaganna fyrir því að í þann mund sem hann var að skipta um brækur og skein í beran rassinn, þá gaut forsætisráðherrafrúin Claire Blair að honum augunum úr nálægri götu. Hún hafði orð á því við nærstadda að maðurinn væri vel vaxinn til bakhlutans og fljótlega var kominn blaðamaður frá Evening Standard til þess að taka viðtal við strípalinginn. Fór vel á með striplingi og blaðamanni, en aldrei vissum við hvort atburðurinn komst í fréttirnar.Daginn eftir fórum við út að borða á fínum stað og enduðu síðan flestir á næturklúbb við Leicester Square þar sem við dönsuðum fram eftir nóttu þrátt fyrir að vera nýbúin í maraþonhlaupi.Félagslífið skipar sinn sess hjá Fjölnisfólki.

New York 2004
Stóra eplið,eins og innfæddir kalla New York borg, heldur eitt af stóru hlaupunum fimm. Þangað var ferð Skokkhóps Erlu heitið næst og var dagsetningin þann 7. nóvember 2004. Við áttum hauk í horni þar sem félagi okkar Matthildur Hermannsdóttir var, en hún undirbjó ferðina eins og margar aðrar ferðir hlaupahópsins. Hlaupari sem hafði tekið þátt í þessu hlaupi hélt kynningu fyrir okkur og lýsti aðstæðum. Þar kom meðal annars fram að það væri brottrekstrarsök úr þessu hlaupi að reyna að svindla sér inn í aðra byrjunarkró en þá sem maður var skráður í. Allir höfðu skilning á því, enda reyndir úr Londonhlaupinu þar sem eftirlit var með besta móti. Þeir engilsaxnesku taka reglubrjóta engum vettlingatökum, það er rétt að gæta sín, hugsuðum við.

New York maraþonið er haldið í byrjun nóvember og hentar sú tímasetning vel fyrir þá sem hafa haldið sér í þokkalegri æfingu yfir sumarið, kannski tekið þátt í hálfu Reykjavíkurmaraþoni og síðan farið á fullt í maraþonáætlun eftir það. Þetta gerðum við og æfðum þokkalega um haustið.

Svo var flogið út og gist á mjóu en háu hóteli á fimmtu breiðgötu sem er ein af flottu búðargötum borgarinnar. Eins og í öðrum hlaupum var þarna stór kaupstefna samhliða afhendingu mótsgagna. Við gengum þangað enda eru leiðir á miðri Manhattaneyju ekki mjög langar. Eftir langa dvöl við mátun og kaup á hlaupabúnaði á góðum kjörum var haldið í stórverslun Whole Foods við Columbus Circle. Þar var mættur forseti Íslands og karlakórinn Fóstbræður til þess að opna á einhverja sölu íslenskra afurða í búðinni.


Það er auðvelt að detta í verslunargírinn í stóra eplinu eins og Fjölnismenn kynntust af eigin raun.

Eftir það var hópnum stefnt í nýja íþróttavörubúð í sama húsi þar sem mörg góð tilboð voru vegna opnunar verslunarinnar. Síðan var gengið heim á hótelið og voru allir orðnir dauðþreyttir þegar þangað kom. Þarna varð okkur ljós sá sannleikur að best er að hafa sig sem hægastan daginn fyrir maraþonhlaup. Ekki eyða meiri tíma en nauðsynlegt er á kaupstefnunni. Ekki fara í verslunarferðir. Ekki fara í gönguferðir. Reyndu að vera uppi á herbergi og hvíla þig sem mest.°

Eitt er þó heppilegt við Ameríkuferðir og það er að tímamunurinn vinnur með manni. Í byrjun nóvember er klukkan í New York nefnilega 5 tímum á eftir klukkunni á Íslandi.  Það þýðir að þótt að hlaup sé ræst snemma morguns og rútuferðir á upphafsstað hefjist enn fyrr, þá er Íslendingurinn samt vel vaknaður fyrir allar aldir ef hann hefur gætt þess að fara að sofa að íslenskum tíma kvöldin áður. Þá er leikur einn að vakna klukkan fjögur að nóttu til og fara í morgunmat. Gefa sér síðan góðan tíma til undirbúnings og vera reiðubúinn í rúturnar milli sex og sjö.

Bandaríkjamenn eiga fjöldan allan af gömlum skólarútum sem eru gjarnan nýttar til þess að flytja hlaupara á upphafsstaði. Þannig var í New York og var ekið sem leið lá út á Staten Island. Þannig er málum háttað að New York skiptist í fimm borgarhluta eða „Boroughs" á máli heimamanna. Þeir eru Manhattan, Bronx, Brooklyn, Queens og Staten Island. Hlaupið er um alla borgarhlutana og hefst hlaupið í gamalli herstöð,„Fort Wadsworth"  á norðurenda Staten Island. Þegar farið var úr rútunni mátti sjá þar hið stórfenglega stundarsamfélag fólks sem er að undirbúa maraþonhlaup. Tugþúsundir manna sem hafa flestir undirbúið sig vikum og mánuðum saman eru að gæta þess að kólna ekki um of, missa ekki af klósettferð, halda sem lengst í samferðamenn og loks að missa ekki af ræsingunni. Þetta er nú dálítið brjálað samfélag, en það stendur ekki lengi. Von bráðar þurfa allir að fara í sína upphafskró. En nú vantaði breska eftirfylgni. Ólíkt því sem var í London var afar lítið eftirlit með því hvort fólk færi á það rássvæði sem því hafði verið úthlutað á grundvelli upplýsinga um hlaupahraða. Allir reyndu því að koma sér framar en þeir áttu rétt á.

Nú var ræst og mannhafið lagði af stað. Leiðin liggur strax upp á hina miklu „Verrazano-Narrows" hengibrú, sem er ein af lengstu hengibrúm á jörðinni og liggur yfir í Brooklyn borgarhlutann. Þar kom strax í ljós að margir höfðu farið framfyrir í röðinni, því ég þurfti að hafa mig allan við að fara fram úr hægfara hlaupurum. Það var enda erfitt, því þótt brúin sé breið og lokuð fyrir umferð á meðan á hlaupi stendur, þá fylltu hlaupararnir hana alveg á milli handriða. Brúin er um 1300m og eftir að henni lauk þá losnaði dálítið um. Síðan var hlaupið upp eftir Brooklyn hverfinu, en þar getur að líta mjög margbreytilegt mannlíf.

Víða voru skemmtiatriði af ýmsum toga sem lífguðu upp á hlaupaleiðina. Þessi hluti er líka léttur og skemmtilegur því þarna er hlauparinn óþreyttur. Áfram lá leiðin upp í Queens hverfið og loks var tekin vinstribeygja inn á Queensboro brúna, sem liggur yfir á Manhattan. Þessi brú er um 1100 m og var byggð árið 1909. Hún er gamaldags stálgrindarbrú og er á tveimur hæðum. Hlaupið var á neðri hæðinni og var þetta langleiðinlegasti hluti hlaupaleiðarinnar.  Eins og að hlaupa inni í tómum göngum.En það átti nú aldeilis eftir að breytast.  Við hinn endann var Manhattan eyja og hlaupið var niður eftir hringlaga rampa sem endaði á fyrsta breiðstræti til norðurs.  Þar voru þúsundir manna meðfram báðum hliðum og hvöttu hlauparana áfram með hrópum. Þetta var mjög hvetjandi og skemmtilegt.Félagi Gauts, Hallgrímur Gröndal á fleygiferð í NYmaraþoninu.

Leggurinn eftir fyrsta breiðstræti er alllangur, 5-6 km og að honum loknum var komið stuttlega við í Bronx hverfinu. Þar var þreytan tekin að gera vart við sig og hún ágerðist mjög þegar komið var inn í Harlem. Leiðin upp eftir fimmta breiðstræti og síðan inn í Central Park er síðan frekar upp í móti og erfið hlaupara á síðasta hluta maraþonhlaups. Mér finnst það að hlaupa síðustu tíu kílómetrana í maraþonhlaupi ávallt vera það erfiðasta sem ég tek mér fyrir hendur. En þegar markið blasir við þá gleymist þreytan. Marksvæðið var síðan glæsilegt og fjölmenni hvatti hlaupara áfram í mark. Stórfengleg lífsreynsla að baki og flögutíminn minn var 3:20:13.

Daginn eftir voru margir stirðir eftir hlaupið, þar á meðal ég. Við þurftum mörg að ganga afturábak niður tröppur að neðanjarðarlestarstöðvar. Á götum Manhattan mátti sjá marga sem svipað var ástatt fyrir. Svo skelltum við okkur í skemmtanir. Fórum út að borða á fínum veitingastað með útsýni yfir Central Park. Siggi Hall eldaði matinn því hann var þarna vegna matarkynningarinnar sem áður er nefnd.

Enduðum síðan á því að hertaka skemmtilega krá með góðum diskótekara sem las hópinn vel og skemmti okkur fram á rauða nótt. Á mánudaginn var verslað í stórborginni og á þriðjudaginn flaug ég síðan í tólf manna hópi til Tampa á Flórída. Þar beið okkar fimm daga skemmtisigling um Karíbahafið, en það er önnur saga.

Berlín 2007
Næst liðu þrjú ár þangað til við fórum aftur til útlanda í maraþonhlaup. Ég hef litið á maraþonhlaup sem sparihlaup og gjarnan tekið þátt í einu slíku annað hvort ár. En þessar ferðir eru líka hópferðir og við fylgdum hópnum okkar næst til Berlínar, en hlaupið var þann 30. september 2007. Brautin í Berlín er ein sú vænlegasta til þess að ná góðum árangri, nánast marflöt.  Enda eru þar gjarnan sett heimsmet í maraþonhlaupum.

Við gistum á gamla stórhóteli austur-Berlínar við Alexanderplatz.  Þar gistu áður kommissararar úr allri austur-Evrópu, en nú var það orðið hluti af „Park Inn" hótelkeðjunni.Hlaupið hefst og endar í „Tiergarten", sem er stór almenningsgarður í miðri Berlín. Eftir garðinum miðjum, til vesturs frá Brandenborgarhliðinu liggur gatan Strasse des 17. Juni eða Gata hins sautjánda júní. Það gleður að sjálfsögðu Íslendinginn að hefja hlaupið á þessari götu.  Nafnið tengist þó ekki Íslandi, heldur var gatan endurnefnd til minningar um uppreisn austur-þýskra verkamanna gegn sovésku hervaldi þann 17. júní 1953. Þarna hófst hlaupið í góðu veðri og með fjölda þátttakenda. Mjög fljótlega þarf að krækja framhjá sigursúlunni „Siegessäule", sem er 67 m há og var reist til þess að fagna sigri yfir Dönum 1864, en þeir hættu að vera stórveldi eftir þennan ósigur.Þrjár brosandi valkyrjur úr Grafarvoginum að rúlla upp Berlín.

Síðan liggur leiðin í hring umhverfis miðborgina um ýmis hverfi: Charlottenburg, Tiergarten, Mitte, Prenslauer Berg, Friederichhain, Neukölln, Kreuzberg, Schöneberg, Wilmersdorf og aftur inn í Tiergarten og síðan Mitte.  Allt rann þetta nú meira og minna saman í langa röð af götum.  En leiðin er nokkuð breytileg og þótt hlýtt hafi verið í veðri og sól á lofti þá var oft hægt að hlaupa í skugga af trjám eða húsum.

Eins og áður segir þá er brautin lítt mishæðótt og mesta brekkan sem ég man eftir var yfir brú sem lá í boga yfir ána Spree nálægt þinghúsinu nýja. Mér gekk vel að halda hraða í hlaupinu, þó aðeins sigi á ógæfuhliðina síðustu kílómetrana. Lokaáfanginn er eftir breiðgötunni „Unter den Linden" eða undir Linditrjánum, sem liggur að Brandenborgarhliðinu úr austri.  Hliðið er eitt af sterkustu táknum þýsku þjóðarinnar og er friðarminnismerki byggt um 1790. Það var ánægjuleg sjón að sjá það birtast í fjarska og færast síðan nær. Það var nú samt hálfgerður gabbendir því hlaupið er í gegnum hliðið og áfram nokkur hundruð metra að markinu.  Þetta hafðist nú og tíminn var 3:12:54. Ég var sáttur við þetta, enda tíminn betri en í New York. Eins og hefðbundið er fór hópurinn út að borða daginn eftir hlaupið og síðan reyndi fólk að skoða borgina og búðirnar í henni eftir því sem tími vannst til.

Hér má lesa seinni hluta frásagnar Gauts sem  birtist hér á hlaup.is.