Helen Ólafs: "Skýr markmiðssetning, skynsemi, vinnusemi og slatti af þrjósku."

birt 22. febrúar 2014

Helen leggur mikið upp ur fjölbreyttri þjálfun."Vera heil, hlaupa af ástríðu og njóta þess að takast á við krefjandi markmið sem ég hef sett mér á árinu," segir Helen Ólafsdóttir, maraþonhlaupari um markmið ársins 2014.Helen átti einkar gott ár í fyrra og hljóp m.a. á besta tíma ársins í Berlín, 2:52:30, sem er annar besti tíminn í maraþonhlaupi íslenskra kvenna frá upphafi. Helen náði einnig besta tíma ársins 1:22:52, í hálfmaraþoni í Reykjavíkurmaraþoni. Einnig bætti hún sinn persónulega árangur í 10km hlaupi 37:30 sem var jafnframt næstbesti tími ársins.Það sem gerir árangur Helenar ennþá athyglisverðari er að fyrir síðasta keppnistímabil hafði hún glímt við meiðsli í tvö ár. Hlauparar á Íslandi tóku svo sannarlega eftir árangri Helenar því þeir kusu hana langhlaupara ársins 2013 í kosningu hlaup.is nú fyrir skömmu.Úr vítahringnum með breyttum aðferðumAðspurð um uppskrift að árangri síðasta árs svarar Helen því til að skýr markmiðssetning, skynsemi, vinnusemi og slatti af þrjósku hafi skipt miklu máli. Einnig nefnir Helen sem er 42 ára, breyttar áherslur í þjálfun sinni. „Ég fór loksins að hlusta á góðar ráðleggingar þjálfara míns. Ég nýtti mér ýmsar mælingar sem við gerðum reglulega til að fylgjast með ástandinu á mér og niðurstöður mælinganna voru notaðar til að styrkja veikleika mína."

Það var ekki að ástæðulausu að Helen breytti um kúrs því um tveggja ára skeið, árin 2011 og 2012 var Helen annaðhvort frá eða gat ekki beitt sér að fullu vegna meiðsla. Árangur hennar árið 2013 er því ennþá athyglisverðari fyrir vikið.

-Hvað var að plaga þig í þess tvö ár og hvernig tókst þér að koma til baka af svona miklum krafti? „Ég byrjaði að finna fyrir meiðslum út frá baki vorið 2011. Gat ekki verið með það sumarið og byrjaði ekki að skokka aftur fyrr en í nóvember það ár.    Hér má sjá þróun á árangri Helenar undanfarin ár.

Í undirbúningi mínum fyrir maraþon í Boston á vordögum 2012 byrjaði ég að finna fyrir iljarfellsbólgu (Plantar Fasciities). Eftir hlaupið var ég orðin mjög illa haldin á báðum fótum. Restin af 2012 fór meira og minna í þetta vesen. Ég var þó allan tímann sannfærð um að ég færi að hlaupa aftur og notaði aðra þjálfunarþætti til að viðhalda þol og styrk. Því var ég langt frá því að vera á byrjunarreit hvað formið varðaði þegar ég var tilbúin að fara að hlaupa aftur. Ég er svolítið þrjósk að eðlisfari, ég var búin að sannfæra sjálfa mig um að ef ég væri heil þá ætti ég alveg möguleika á að ná mínum markmiðum, ég var því staðföst í því að koma sterk til baka. Gulrótin var maraþon í Berlín en skráningin mín í hlaupið síðasta haust var sú þriðja sem ég hafði gert. Í hin skiptin varð ég að draga mig út úr hlaupinu vegna meiðsla. Ég ætlaði mér á startlínuna... allt annað var bónus."

Vinnur markvisst í sínum veikleikumÞað getur verið erfitt fyrir keppniskonu í hlaupum að þurfa allt í einu að kúpla sig út vegna meiðsla og Helen viðurkennir að meiðslin hafi tekið á. En með mikilli hjálp og breyttum aðferðum tókst henni að koma til baka með þeim krafti sem áður hefur verið lýst. Helen þakkar m.a. Gauta Grétarssyni sjúkraþjálfara og breyttum æfingum fyrir það hvernig henni tókst að komast út úr vítahring meiðslanna. Gauti hafi hjálpað henni að átta sig á hvað skipti mestu máli í þjálfun langhlaupara.Í kjölfarið hafi þau einblínt á ákveðna þætti sem hafa skilað Helen miklum árangri. Þjálfunin breyttist og tók m.a. mið af ýmiskonar mælingum sem Helen gekk í gegnum og gengst reglulega undir enn í dag. Um er að ræða ýmiskonar mælingar s.s. kraft- og liðleikamælingar, Kine mælingar og mjólkursýru- mælingar svo eitthvað sé nefnt. Áherslurnar í þjálfun Helenar eru á hverjum tíma aðlagaðar að niðurstöðum mælinga hverju sinni. Þannig er Helen stöðugt að vinna í veikleikum sínum sem skilar sér í betri, sterkari og heilbrigðari hlaupara.Helen beitir ýmsum aðferðum til að bæta árangur sinn.

Helen viðurkennir að óþolinmæði hafi komið henni í koll lengi vel, hún hafi margoft farið of snemma af stað eftir meiðsli og í kjölfarið orðið að taka frí og þurft að hefja leik aftur á byrjunareit. „Það var því komið að því að fara í smá sjálfskoðun. Löngunin í að stunda hlaup er svo mikil hjá mér, fyrir mér eru hlaupin lífsstíll og ástríða. Til þess að ná því takmarki að vera á hlaupum þá var ljóst að ég þurfti að hugsa æfingarnar mínar upp á nýtt. Stýra álagi út frá því hvað skrokkurinn minn þoldi. Ég fór loksins að hlusta á ráðleggingar og til að minnka álagið frá hlaupaæfingunum og miklu magni sem ég þoldi illa, þá fór ég að nota krossþjálfun í æfingunum mínum. Ég tamdi mér þann hugsunarhátt að hjól og sund væru ágætis staðkvæmdarvara fyrir hlaupin. Í dag nota ég púlsinn til að stýra álaginu á æfingum og hef gert það núna í um eitt og hálft ár."

Helen dreymir um Ólympíuleikana í Ríó 2013.HRAÐASPURNINGARHvar er skemmtilegast að hlaupa?Upp á hálendi Íslands á sumarkvöldiÁttu fyrirmyndir í hlaupum?Já ég á fullt af fyrirmyndum í hlaupum.  Marga íslenska hlaupara sem ég lít mikið upp til en vil kannski ekki nefna neinn sérstakan hvað það varðar. Svo eru það idolin mín, Kara Coucher og Shalane Flanagan, þessar tvær eru ótrúlegar.Besti hlaupafélaginn?Get ekki gert upp á milli þeirra.  Félagarnir eru svo stór þáttur af  þessu.Uppáhaldshlaupabúnaður tengdur hlaupum?Nýja flotta Garmin úrið mitt. Ótrúlegt tæki sem gefur mér upplýsingar um hina ýmsu þætti sem snúa að hlaupum og hlaupalagi.Uppáhalds hlaupafatnaður?Stuttbuxur og hlýrabolur.Uppáhalds hlaupaskór?Adidas Adizero Adios Boost - maraþonskórnir mínir í Berlín, algjörlega frábærir skór.Hverjar eru syndir Helenar á "frí og nammidögum?"Ís í vöffluformi frá ísbúð Vesturbæjar - stenst hann ekki Hvaða vegalengd er skemmtilegast að hlaupa?MaraþonUppáhaldshlaup innanlands?LaugavegurinnUppáhaldshlaup erlendis?Boston maraþonHlaup sem þig dreymir um að taka þátt í?Maraþon í Ríó 2016

Áhersla á hlaupahagkvæmni, liðleika og styrk fyrir hlaupara
Til marks um það hve mikla áherslu Helen leggur á krossþjálfun er áhugavert að fá innsýn inn í æfingaviku hennar, en um þessar mundir er Helen að undirbúa sig undir HM í hálfmaraþoni sem fram fer í Kaupmannahöfn í lok mars. En Helen leggur áherslu á að æfingaáætlunin sé breytileg, allt eftir því hvað sé framundan. „Fyrir áramót á hefðbundnu undirbúningstímabili, þá hljóp ég 3x í viku, hjólaði 2x í viku og stundaði styrktar- jafnvægis- og liðleikaæfingar 2x í viku. Einu sinni í viku er ég svo í hlaupaleikfimi þar sem lögð er áhersla á æfingar til að auka hlaupahagkvæmni, liðleika og styrk fyrir hlaupara. Ég notaði svo sund sem hálfgert niðurskokk eftir erfiðar hlaupaæfingar, syndi léttan km til að fá góða teygju á skrokkinn."

"Ég fer síðan til sjúkraþjálfara einu sinni í viku og reyni að fara í nudd við og við. Núna er ég í undirbúningi fyrir hálft maraþon og þá eyk ég hlaupaæfingarnar á kostnað hjólsins og þegar líða tekur á undirbúninginn þá minnka ég styrktaræfingarnar mínar," segir Helen sem greinilega leggur ýmislegt í sölurnar til að ná sem bestum árangri. Af þessu má ljóst vera að Helen leggur gríðarlega mikið upp úr fjölbreytni í þjálfun sinni, eitthvað sem margir hlauparar hérlendis mættu eflaust taka sér til fyrirmyndar.

Helen er þeirrar skoðunar að allir hlauparar ættu að stunda styrktar- ,liðleika- og jafnvægisæfingar með hlaupaæfingum. Þá bætir hún við að æfingar sem auki hlaupahagkvæmni séu einkar mikilvægar þeim sem hlaupa með það að markmiði að bæta tíma sinn. „Ég held að sú áhersla hjá mér eigi stóran þátt í öllum bætingunum mínum á síðasta ári. Þessar æfingar hafa líka svo mikið forvarnargildi gagnvart meiðslum," bætir Helen við.Hvíldin vanrækt hjá hlaupurum-En hvaða þátt skyldu íslenskir hlauparar vanrækja hvað mest í æfingum sínum? „Ég held að það sé hvíldin.  Ég á erfiðast með þennan þátt en veit svo sem hversu mikilvægur hann er í æfinga-planinu,"viðurkennir Helen.En eins og íþróttamenn þekkja þá nægja botnlausar æfingar skammt ef andlegi þátturinn er ekki í lagi. Afrek Helenar og saga sýnir að þrautseigja, seigla og andlegur styrkur eru þættir sem hún býr svo sannarlega yfir.- Því er forvitnilegt að vita hvort Helen beiti sérstakri aðferðarfræði þegar kemur að markmiðssetningu? „Ég reyni að sjá markmiðin vel fyrir mér og ég er margsinnis búin að upplifa þau áður en atlagan er loks gerð að þeim. Ég nota orð og setningar til að minna mig á markmiðin. Til dæmis á síðasta ári þá var ég staðföst í því að ná á startlínuna í Berlin. Orðið Startlína kom því víða við í öllum aðgangsorðum hjá mér á síðasta ári. Þannig minnti ég mig á það á hverjum degi hvert ég ætlaði."  Helen leggur mikið upp úr andlega þættinum.

Ólympíuleikarnir í Ríó í seilingarfjarlægð
Árangur Helenar á síðasta ári tryggði henni sæti í Ólympíuhópi FRÍ fyrir ÓL 2016 sem fara fram í Ríó, því er til gríðarlega mikils að vinna fyrir hana á næstu tveimur árum. „Ég er agalega stolt að hafa náð lágmarkinu inn í þennan hóp og teljast þannig líklegur kandídat til að keppa á Ólympíuleikunum í Ríó 2016.  Dyrnar standa opnar og nú er að sjá hvernig ég næ að feta leiðina áfram og hvort að sú slóð komi mér til Ríó."

Alþekkt vandamál hjá íþróttamönnum er að viðhalda ferskleika og hungri á löngum og erfiðum æfingatímabilum. Helen segist ekki notast við sérstakar aðferðir til að viðhalda ferskleika, hún þurfi þess ekki. „Nei eiginlega ekki, ég er algjör hreyfifíkill og öll fjölskyldan er mjög aktív. Ég hef ekki ennþá orðið leið á hlaupum og þegar ég þarf að taka frí frá þeim t.d. vegna meiðsla þá sakna ég þeirra gífurlega. Ég hef notað hlaupin til að losa um streitu og ég er aldrei betri að skipuleggja daglegt amstur en á hlaupum. Til að æfingar verði markvissar þá finnst mér best að vera með einhver verkefni fram í tímann, þá er ég yfirleitt ansi góð að skipuleggja æfingar fram að verkefninu. Svo eru hlaupa- og æfingafélagarnir svo ferlega skemmtilegir að það er nógu mikil gulrót að vita af þeim á æfingu til þess að maður drífur sig af stað."

Helen á ferðinni í Berlín í haustHelen er eins og áður segir 42 ára en hún er þó ekki sérstaklega reynd þegar kemur að hlaupum, enn einn þátturinn sem gerir sögu hennar svo áhugaverða. Helen hljóp sitt fyrsta hálfmaraþon árið 2008, tók Laugaveginn 2009 og fyrsta maraþonið 2010. En þó hefur Helen alla tíð hlaupið sér til ánægju, hún hefur stundað skíði frá barnsaldri og auk þess að hafa alltaf lagt stund á líkamsrækt í einhverju formi. Sem unglingur lagði Helen stund á frjálsar íþróttir með áherslu á 400m grindahlaup, hástökk og millivegalengdir. Ástundun hennar á yngri árum hefur eflaust lagt mikilvægan grunn að þeim mikla íþróttamanni sem Helen er í dag.Njótum með bros á vör.. alla leið í markFyrir utan hlaupin og allt sem þeim fylgir er í nógu að snúast hjá Helen. Hún er viðskiptafræðingur með MSc í fjármálum og starfar sem sjóðsstjóri hjá sjóðsstýringarfyrirtækinu Stefni. Helen er gift Antoni Markússyni og eiga þau tvær dætur, þær Katrínu Steinunni (20 ára) og Ísabellu Töru (10 ára).Afreksmanneskja eins og Helen eyðir miklum tíma í æfingar í viku hverri og því liggur beinast við að spyrja, hvort sé hægt að sameina æfingar, fjölskyldulíf og atvinnu? „Já það er hægt með góðu skipulagi og með góðan stuðning á bak við sig eins og ég hef. Ég er með ótrúlegt teymi í kringum mig sem ég á mikið að þakka, þá á ég við fjölskylduna, þjálfarann minn, æfingafélagana og vinnuveitanda minn. Álagið verður stundum svolítið mikið og þá er gott að hafa einhvern sem bendir manni á að nú sé tími til að slaka aðeins á."

Að lokum biðjum við Helen um eitt ráð til handa íslenskum hlaupurum. „Njóta vegferðarinnar sem hlaupin bjóða upp á með bros á vör... alla leið í mark."

Heimir Snær Guðmundsson