Hlaupasumarið mitt: Steinunn Una Sigurðardóttir úr Hlaupahópi 3N í Reykjanesbæ

birt 04. ágúst 2017

Steinunn Una Sigurðardóttir úr Hlaupahópi 3N í Reykjanesbæ er næst til að opinbera hlaupasumarið sitt á hlaup.is. Gefum Steinunni Unu orðið.

"Ég er 46 ára og  er í hlaupahópi 3N í Reykjanesbæ. Ég hef verið að hlaupa mikið og vaxandi undanfarin fimmtán ár. Hlaupin duttu  inn í líf mitt eins og lottóvinningur þegar ég var þrítug og var að hætta að reykja. En fram að því hafði ég ekki mikið hreyft mig og aldrei verið í íþróttum að neinu ráði. Var í hláturskasti að fólki sem hljóp að gamni sínu, skildi bara ekki hvað var að þessu fólki. En hlaupin læddust  einhvern veginn aftan að mér. Á sínum tíma var ég þess t.d. fullviss um að ég myndi aldrei hlaupa maraþon, það væri bara algjört rugl."

"Á þessum tíma hefði ég frekar átt von á dauða mínum en því að ég ætti eftir að verða  ástríðuhlaupari og hlaupa mörg maraþon og hlaupin væru það skemmtilegasta sem ég gerði. Hlaupaskórnir fara með mér hvert sem ég fer. Ég er alltaf til í hlaup."

Hlaupasumar Steinunnar Unu
Búin:

Hálfmaraþon í Berlín
London maraþon
Hvítasunnuhlaup Hauka
Snæfellsjökulhlaupið
Akureyrarhlaup íslenskra verðbréfa
Laugavegshlaupið

Eftir:
Adidas Boost hlaupið
Reykjavíkurmaraþon, hálfmaraþon
Ljósanæturhlaup Lífstíls
New York maraþon í nóvember

Skipuleggur þú hlaupasumarið þitt með miklum fyrirvara?
Já, ég byrja að leggja drög svona í janúar varðandi það hvort ég taki vormaraþon og/eða haustmaraþon og æfi út frá því. Hleyp svo yfir sumarið og tek þátt í hlaupum eins og ég get.

Eru einhver sérstök hlaup sem þú sækir í?
Ég sæki töluvert í það að ferðast um heiminn og taka þátt í hlaupum. Það má segja að uppáhaldshlaupin séu maraþon, er að fara tíunda maraþonið nú í haust í New York

Fyrir hvaða hlaupi ertu spenntust?
Reykjavíkurmaraþon er uppáhalds, það er okkar heimavöllur. Ég vil helst ekki missa af því og svo er það Snæfellsjökulshlaupið, ég hef miklar taugar til jökulsins og þykir vænt um þennan stað.

Ertu fastagestur í mörgum þessara hlaupa?
Ég myndi segja að ég væri fastagestur í Reykjavíkurmaraþoni og einnig í Snæfellsjökulshlaupinu.

Markmið fyrir sumarið?
Að hlaupa sem mest í góðum félagsskap, veit fátt skemmtilegra en langhlaup með góðum vinum. Að hlaupa á fjöllum og úti í sveit. Einnig væri ekki verra að komast örlítið hraðar.

Hvern skorar þú á til að opinbera „Hlaupasumarið sitt"?
Björgu Alexandersdóttur í Hlaupahópi Icelandair, hún er auðmjúkur hlaupari en grjóthörð og algjör keppnis, flott hlaupafyrirmynd.