Hundrað ferðir Hafdísar á Esjuna

birt 20. október 2018

Hafdís Guðrún Hilmarsdóttir hefur hlaupið yfir hundrað ferðir á Esjuna í ár. Í mars setti hún sér það markmið að hlaupa hundrað ferðir á Esjuna á þessu ári, Hafdís gerði gott betur og náði markmiði sínu í lok september. Því lítur nærri að Hafdís hafi hlaupið á Esjuna að jafnaði annan hvorn dag á tímabilinu, geri aðrir betur.

Hvað kom til að þú settir þér þetta markmið um 100 ferðir á Esjuna? „í upphafi ársins skráði ég mig í 100 km utanvegahlaup í Grenoble í frönsku ölpunum í ágúst og ákvað þess vegna að vera duglegri en undanfarin ár að fara á Esjuna. Í annari ferð ársins þann 6. mars var dásamlega fallegt vetrarveður og þá setti ég mér þetta stórskemmtilega markmið að fara 100 sinnum á árinu 2018."

Af hverju Esjan, hentar hún betur til æfinga en önnur fjöll? „Esjan er svo dásamlega fjölbreytt og skemmtileg. Hún er líka mátulega krefjandi og einhvern veginn aldrei eins milli daga, veðrið og náttúran breytist svo hratt að hver ferð er alltaf eins ný leið. Esjan er líka í svo hentugri fjarlægð og frábært að taka tvær til þrjár ferðir í einu."

Vakti þetta uppátæki þitt mikla athygli? Voru margir sem sem tóku þátt í þessu með þér? „Já, þetta markmið vakti ansi mikla athygli hjá vinum mínum og í hlaupasamfélaginu. Það voru alveg örugglega einhverjir sem efuðust um að ég myndi endast í þessu. Ég fékk ansi mikið af hlaupurum, samstarfsfélögum og eiginmanninn til að hlaupa með mér. Jóda vinkona mín sem fór með mér í 100 km hlaupið í Grenoble í ágúst fór margar ferðir með mér en ég fór hins vegar flestar ferðirnar ein."

Sástu einhvern tíman eftir að hafa sett þér þetta markmið? Ertu líkleg til að fara á Esjuna aftur á næstunni? „Ég sá aldrei eftir að hafa sett mér þetta markmið og var í raun og veru pínu svekkt þegar fór að nálgast hundruðustu ferðina og verkefnið að klárast. Ég er búin að fara þrjár ferðir síðan ég kláraði hundruðustu ferðina og ætla að halda áfram að fara u.þ.b. einu sinni í viku út árið.

Hvernig fannst þér Esjuferðirnar nýtast þér í Frakklandshlaupinu? „Esjubröltið mitt nýttist frábærlega í Grenoble. Ég var búin með 89 ferðir þegar ég fór í hlaupið og með nóg af upp- og niðurhlaupum í lærunum. Mér hefur sjaldan liðið svona vel í hlaupi og ég var hálfsvekkt þegar ég kom í mark og hlaupið búið." (Sjá umfjöllun hlaup.is um íslensku hlauparana í UT4M hlaupunum í Grenoble.)

Segðu okkur aðeins frá þinni þróun sem hlaupari í gegnum árin? Og hvert stefnir þú í framtíðinni? „Ég byrjaði að hlaupa alveg óvart árið 2008. Ég var í fótbolta þegar ég var yngri og fannst útihlaup það leiðinlegasta í heimi. Eftir að ég hætti í fótbolta var ég alltaf dugleg að lyfta en hljóp aldrei neitt. Sumarið 2008 var ég á Spáni og var með hlaupaskó með mér, ég hljóp á hverjum degi í hitanum og datt það snjallræði í hug að skrá mig í hálft maraþon í Reykjavíkurmaraþoni. Eftir það var ekki aftur snúið en það tók mig nokkur ár að hafa mig í að hlaupa úti í vetrarfærðinni. Nú læt ég veðrið aldrei stoppa mig og hleyp nánast undantekningalaust úti allt árið um kring. Galdurinn er að eiga réttan búnað fyrir veturinn.

Eftir að hafa prófað að hlaupa Laugaveginn árið 2013 með góðum undirbúningi á Laugvegsnámskeiðinu hjá Sigga P. og Torfa var ég kolfallin fyrir utanvegahlaupum. Ég fór Laugaveginn aftur árin 2014, 2015 og núna í sumar. Ég fór svo í mitt fyrsta utanvegahlaup erlendis árið 2017 þegar ég hljóp í OCC hlaupinu í UTMB seríunni. Eftir það hlaup sem var 56km með 3500 metra hækkun langaði mig að prófa lengri vegalengd. Ég fór svo í Master100 í UT4M seríunni í ágúst og er á leiðinni í 100km hlaup í Hong Kong í janúar og hlakka mikið til.Næsta sumar langar mig í CCC hlaupið sem er 101km með 6100metra hækkun og mig langar líka mikið til að taka þátt í 11 Esjum. Ég á líka eftir að prófa að hlaupa lengra hlaup á næstu árum t.d. 170 km hlaupið í UTMB seríunni."

Til gamans spurði blaðamaður Hafdísi hvaða hlaupum hún hafi tekið þátt í það sem af er ári?
„Ég er búin að taka þátt í fjölda hlaupa á árinu. Utanvegahlaupin sem standa upp úr eru Snæfellsjökulshlaupið, Ecotrail, Laugavegurinn, Jökulsárhlaupið og UT4M. Af götuhlaupum eru það Powerade hlaupin, ÍR hlaupið á sumardaginn fyrsta, hálft í vorþoni, Kópavogsmaraþoni og Reykjavíkurmaraþoni. Svo Adidas hlaupið og Flensborgarhlaupið. Ég ætla svo að taka mitt fyrsta og eina maraþon á árinu í haustþoninu núna í lok mánaðarins."