Ingvar Hjartarson sigraði í utanvegahlaupi á Ítalíu

birt 19. mars 2019

Ingvar Hjartason sigraði í Trail dei Monti Pisani, utanvegahlaupi sem fram fór í nágrenni Pisa á Ítalíu um síðustu helgi. Hlaupið var 30 km með 2000m hækkun en þátttakendur voru 90. Ingvar sem er 25 ára er í skiptinámi á Ítalíu um þessar mundir. Í tilefni af sigrinum um helgina sló blaðamaður hlaup.is á þráðinn til Ingvars sem um árabil hefur verið einn af efnilegri hlaupurum landsins.Hlaupaleiðin þyrnum stráð„Hlaupið var í fjöllunum norðan við Písa. Undirlagið var mjög fjölbreytt, blanda af gömlum fjallavegum, gömlum hlöðnum vegum, misgrýttu og grónu einstigi  og smá malbik í byrjun. Umhverfið er auðvitað allt öðruvísi en það sem maður á að venjast, skógi vaxið svæði, ekki bara gamlar kindagötur eða alvöru malarvegir eins og maður á að venjast á Íslandi. Sum staðar var stígurinn það þröngur og umlukinn þéttum þyrnóttum gróðri að það komu göt á fötin og hnén urðu skrámug og blóðug eftir barninginn," svarar Ingvar aðspurður um hlaupið.

Ingvar hafnaði einnig í öðru sæti í 10 km hlaupi fyrir tveimur vikum þar sem 500 manns tóku þátt. Það er að hans mati síst minna afrek ef tekið er mið af fjölda þátttakenda og styrkleika þeirra.

Mikill munur á íslenskum og itölskum hlaupalífstíl

Spurður um muninn á því að vera hlaupari á Ítalíu og Íslandi stendur ekki á svörum hjá Ingvari. „Það er náttúrulega þvílíkur munur að hafa ekki séð snjó í vetur og geta tekið allar alvöru æfingar úti en ekki á bretti. En hér er allt flatt og ég sakna mikið að geta tekið æfingar sem eru ekki bara flatar eða í fjöllum eins og t.d. í Grafarvoginum eða efri byggðum á Íslandi. Svo er allt öðruvísi hlaupamenning hérna úti heldur en heima, t.d. á sunnudögum hittast yfir þúsund manns og hlaupa fyrirskrifaða leið. Þá leggja hlauparar af stað á milli kl 8-8:30 og geta valið á milli 3-20 km vegalengda, en það er alltaf mismunandi hlaupahópur í héraðinu sem heldur viðburðinn og því mismunandi staðsetning hverja helgi."

Námið og hlaupin fara vel saman

Eins og áður segir er Ingvar búsettur á Ítalíu þar sem hann er í verkfræðinámi í borginni Pisa. „Námið sem ég er í á Ítalíu er bara kennt einn dag í viku og því frekar þægilegt eins og er. Ég er núna á lokasprettinum í meistaraverkefninu mínu í HÍ og kem heim til Íslands í apríl að verja það. Svo byrjar starfsnám sem er hluti af náminu hérna úti í kjölfarið. Ásamt þessu er ég að reyna að læra ítölsku. það gengur mjög vel að tvinna saman æfingar og skóla enda stjórna ég mér mjög mikið sjálfur með ritgerðina og ítölskuna," segir Ingvar léttur í bragði og eflaust meðvitaður um að margur íslenski hlauparinn öfundar hann af því að geta hlaupið í framandi borg í mildara loftslagi um hávetur.Undanfarin ár hefur Ingvar verið þjakaður af meiðslum sem hafa hamlað honum mjög í hlaupunum en nú virðist vera að birta til eftir mikla þrautargöngu. „Hlaupin eru loksins að ganga vel hjá mér eftir meira en fimm ár af meiðslum sem hófust með kálfameiðslum vorið 2013. Ég hef oft náð stöku hlaupum þokkalega áður en ég meiðist aftur og svo bættust álagsbrot við. Náði loksins í fyrra að halda mér heilum (fyrir utan smá eymsli) í heilt ár. Ég gerði það með breyttum áherslum, fór yfir í utanvegahlaupin í stað götuhlaupa auk þess að hjóla mikið og synda. Núna í vetur hef ég ekkert hjólað eða synt og er loksins farinn að geta hlaupið eins og ég vil."Ofdekraður af frábærum hlaupaleiðumEins og heyra má þá virðist sem utanvegahlaupin geri Ingvari gott og þar virðist hann frekar ná að halda meiðslum í skefjum, athyglisverð staðreynd það. Í nánasta nágrenni við heimili Ingvars er að finna ógrynni af skemmtilegum og fallegum utanvega- og fjallaleiðum.Ingvar tekur við gullverðunum um síðustu helgi.

„Ég er stöðugt að prófa nýjar leiðir og læra á umhverfið. Í byrjun árs breytti ég til og fékk Tobba (Þorberg Inga Jónsson) til að þjálfa mig. Fyrst ég er að stefna á utanvegahlaupin fannst mér ekki vit í öðru heldur en að fá þann besta sem ég þekki í bransanum til að leiðbeina mér."

Á leiðinni á HM utanvegahlaupum

Ingvar er á leiðinni á HM í utanvegahlaupum þann 8. júní næstkomandi og viðurkennir að hann hlakki mjög til að prófa sig meðal hinna bestu í heimi. Í undirbúningnum mun hann taka þátt í fjallahlaupum á Ítalíu eins og t.d. Eco Trail Flórens og Elbu hlaupinu en þangað stefnir einmitt hópur frá Náttúruhlaupum.Sumarið er að öðru leyti óráðið hjá Ingvari með tilliti til hlaupanna, annaðhvort muni hann taka þátt í áhugaverðum fjallahlaupum á Ítalíu eða setja markvissa stefnu á ákveðið hlaup. Þá mun Ingvar koma heim frá Ítalíu í ágúst og verður án efa þátttakandi í því sem eftir lifir af íslenska hlaupasumrinu.„Til lengri tíma litið langar mig núna að keppa í Laugavegshlaupinu á næsta ári og reyna að bæta tímann minn frá því í fyrra. Með meiðslin í huga þá virðist virka vel að leggja áherslu á utanvegahlaupin en mig langar líka að reyna við gömlu tímana mína í götuhlaupunum. Það gæti því verið að ég færi mig aftur í götuhlaupin eftir Laugavegshlaupið á næsta ári en það er aldrei að vita hvort ég verði ekki orðinn háður utanvegahlaupum ef ég held áfram í 1-2 ár í viðbót," segir þessi metnaðarfulli hlaupari að lokum.