Ívar Adolfsson hljóp sitt 93 maraþon í Reykjavíkurmaraþoni 2022. Hann sá fram á að hlaupa allavega 100 maraþon og ákvað að stilla það þannig af að hann færi sitt 100 maraþon í Reykjavíkurmaraþoninu 2023. Með Ívari hljóp um 30 manna hópur af hlaupavinum hans sem fylgdu honum í þessu hundraðasta hlaupi. Markmiðið var að hlaupa undir 4 tímum, en þess má geta að ekkert af þeim hlaupum sem Ívar hefur hlaupið hefur verið á lengri tíma en 4 tímum og meðaltíminn í öllum þessum maraþonum væri um 3:20.
Hlaup.is ákvað að spjalla aðeins við Ívar og heyra um þetta verkefni og hvernig hlaupaferillin hefði þróast og hvernig hann væri kominn á þann stað að hafa náð að hlaupa að meðaltali 4 maraþon á ári síðastliðin 24 ár.
Ívar sagðist hafa byrjað að hlaupa árið 1997 en hlaupið sitt fyrsta maraþon tveim árum seinna í Haustmaraþoninu á tímanum 3:58. Ívar sagðist ekki hafa verið með íþróttabakgrunn þegar hann byrjaði að hlaupa og hafa byrjað að hlaupa einn til að byrja með en farið síðan í Skokkhóp Námsflokka Reykjavíkur, undir stjórn Péturs Frantzsonar sem skilað hefur mörgum afburðahlaupurum. Núna er Ívar hluti af Laugaskokkshópnum og sínum besta maraþon tíma 2:52 sagðist hann hafa náð á Nýja Sjálandi árið 2009.
Ívar er ekki einn í fjölskyldunni að hlaupa því konan hans hleypur líka, ásamt börnum, tengdabörnum og barnabörnum.
Ívar sagði að ekki væri mikill munur á því hvernig hann æfði núna eða á fyrstu árum hlaupaferilsins. Líklegast hefði magnið aðeins farið niður og svo hafi hraðinn líka minnkað. Ívar sagðist hafa verið heppinn með að lenda ekki í miklum meiðslum á ferlinum og þakkaði það helst lukkunni og því að fara aldrei úr formi.
Við spurðum Ívar að því hversu mörg maraþon á Íslandi og hversu mörg erlendis hann væri búinn að hlaupa og hann sagði okkur að svona um það bil helmingur hefði verið hlaupinn hér heima og helmingur erlendis.
Ívar sagðist ekki gera mikið af öðrum æfingum, eins og styrktaræfingum og/eða liðleikaæfingum, þó vissulega fylgdi það með í einhverjum mæli.
Hugmyndina að hundraðasta maraþonhlaupinu kom fyrir um ári síðan. Ívar sagðist ekki hafa verið að safna maraþonum, bara hlaupið eins og stemmingin hefur verið í það og það sinn. En fyrir um það bil ári síðan, þegar hann hljóp sitt 93 maraþon í Reykjavíkurmaraþoninu ákvað hann að hafa Reykjavíkurmaraþon 2023 sem sitt hundraðasta maraþon og þá þurfti aðeins að spýta í lófana. Það þýddi að hann varð að hlaupa 6 maraþon fyrir RM 2023 í ár og Reykjavíkurmaraþon 2023 er því 7 maraþonið á árinu.
Við spurðum Ívar hvort hann undirbyggi sig eitthvað sérstaklega fyrir hvert maraþon þegar hann hlypi maraþon svona reglulega? Hann sagðist undirbúa sig fyrir hvert maraþon með því að auka alltaf aðeins magnið og það væri einfalt því hann væri alltaf í góðu formi með því að hlaupa í kringum 60-70 km allar vikur.
Eins og hlauparar vita þá eru hefðbundin maraþonhlaup hlaupin á malbiki (götuhlaup) og því lá beint við að spyrja Ívar hvort hann hafi eitthvað tekið þátt í utanvegahlaupum. Hann sagðist ekki vera mikill utanvegahlaupari en hafi þó tekið þátt í flestum utanvegahlaupum á Íslandi og til dæmis hlaupið Laugaveginn 16 sinnum.
Um hvað væri skemmtilegasta æfingin þá sagði Ívar að sér fyndust allar æfingar skemmtilegar, tempó æfingar væru þó í ákveðnu uppáhaldi, enda væru þær góður undirbúningur fyrir keppni í maraþoni.
Við báðum Ívar um góð ráð fyrir hlaupara og það ráð var stutt og einfalt:
"Bara haltu áfram og mæting er bæting."
Að lokum spurðum við Ívar hvort hann sæi fyrir sér að hætta að hlaupa, en hann sagðist ætla að hlaupa eins lengi og hann mögulega gæti.