Katrín Lilja: Efnafræðingur utan vega í sænsku skóglendi

birt 11. febrúar 2014

Fjölbreytni er ein lystisemda hlaupanna og einn þeirra þátta sem hafa orðið þess valdandi að hlaupin eru jafn vinsæl og raun ber vitni. Að hlaupa erlendis er einn angi hlaupanna, margir fara t.a.m. í stóru maraþonin í stórborgunum. En margir fara hlauparar fara annað þó ferðir þeirra fari ekki jafn hátt. Ýmislegt er í boði og ekki þarf að leita langt til að finna hlaup sem eru mjög frábrugðin þeim sem eru í boði á Íslandi.

Hlaupið í voldugu sænsku skóglendi

Katrín Lilja Sigurðardóttir er þrítug, efnafræðingur, þriggja barna móðir, þjálfari ólympíuliðsins í efnafræði og síðast en ekki síst hlaupari. Hún er ein þeirra sem tekur hlaupaskóna með þegar hún fer erlendis, síðast í nóvember síðastliðnum þegar hún og Kristín Lilja Eyglóardóttir, systir hennar tóku þátt í utanvegahlaupinu Finalloppet í Gautaborg í Svíþjóð.

Katrín bjó í Gautaborg sem barn og Kristín Lilja er búsett þar um þessar mundir og því ákvað Katrín að slá tvær flugur í einu höggi, fara í heimsókn og taka þátt í utanvegahlaupi. Hlaupið er svo sannarlega frábrugðið þeim sem í boði eru hér á landi enda landslagið ólíkt og það er eflaust töfrandi reynsla að spretta úr spori og ögra sér mitt í hinu volduga sænska skóglendi.

Hafði ekki ánægju af hlaupunum til að byrja með

Katrín sem er að ljúka meistaranámi sínu í efnafræði auk þess að kenna í háskólanum, byrjaði að hlaupa árið 2007. Þrátt fyrir að vera með stóra fjölskyldu og koma að hinum ýmsu verkefnum tengdum efnafræðinni hleypur Katrín reglulega. Katrín viðurkennir að hafa ekki haft sérstaka ánægju af hlaupum í byrjun, það hafi hins vegar fljótt breyst eftir að hún byrjaði að æfa með hlaupahópnum Bíddu aðeins. Í kjölfarið hafi hún komist að þvi hve félagsskapurinn er stór og ánægjulegur þáttur af hlaupunum. Um þessar mundir hleypur Katrín eftir áætlun frá Sigga P. (Sigurði P. Sigmundssyni), tekur gæðaæfingar með hlaupahópnum hans auk þess að hlaupa af og til með hlaupahópi Stjörnunnar og hlaupahópi Háskólans.

3.800 manns tóku þátt í hlaupinu sem fram fór skammt fyrir utan Gautaborg.Finnalloppet, hlaupið sem þær systur tóku þátt í er rótgróið utanvegahlaup sem hefur verið haldið allar götur frá 1968, boðið er upp á þrjár vegalengdir, 18,8 km, 10 km eða 4 km auk þess sem boðið er upp á vegalengdir fyrir börn. Þess má geta  að 3.880 manns luku keppni í Finalloppet 2013.Katrín hljóp 18,8 km en systir hennar 10 km. Gefum Katrínu orðið: "Í stóra hringnum er hlaupið á skógarstígum, á malarvegum, í mýri, á malbiki og grasi Leiðin er hæðótt og mín upplifun er að 7 km kafli hafi verið mjög torfær. Sá kafli var blautur og troðinn skógarstígur sem var þakinn stórum trjárótum. Annars var leiðin nokkuð greið en mikið um brekkur," segir Katrín.

Sjálfsálitið í hæstu hæðum eftir "tredje kvinnan"

Fyrir tilviljun startaði Katrín með keppnisflokki en þar eru einungis sænskir keppnishlauparar gjaldgengir. Sá flokkur var mun fámennari og gaf Katrínu því möguleika á að ná góðum tíma enda slapp hún þar með við fjölmenni og þrengsli á blautum og torfærum skógarstígum. "Fyrstu 10 km var ég á nokkuð góðum hraða. Ég heyrði nokkrum sinnum kallað eftir mér "tredje kvinnan," svo sjálfsálitið var alveg í hæstu hæðum. Þá kom að torfæra kaflanum. Hann reyndist mér ekki erfiður en hann krafðist mikillar einbeitingar ef maður ætlaði að forðast að hrasa. Þá hægði ég eitthvað á mér en þegar leiðin varð aftur greiðari og ég ætlaði að gefa í fannst mér orkan nánast búin," segir Katrín og bætir við að kannski hafi 21 km í Haustmaraþoni vikuna áður setið í henni.

Katrín Lilja endaði í sjötta sæti af 37 í keppnisflokki kvenna á tímanum 1:31:56 sem hefði fleytt henna í sjöunda sæti í opnum flokki kvenna sem var mun fjölmennari.

Góð tilbreyting og skemmtilegt en afskapleg krefjandi

"Finalloppet var mjög krefjandi en um leið afskaplega skemmtilegt. Það var góð tilbreyting að hlaupa í nýju umhverfi í skóglendinu í Svíþjóð. Allt skipulag og utanumhald var til fyrirmyndar en eitt fannst mér þó virkilega vanta í hlaupið og það var ljósmyndun á leiðinni. Þar eiga íslenskir hlaupahaldarar hrós skilið því úr öllum hlaupum hérna heima á Íslandi má finna minningar á netinu nokkrum dögum seinna," segir Katrín um upplifun sína af þessu forvitnilega utanvegahlaupi í Gautaborg.

Heimir Snær Guðmundsson