Skyndilega einn og yfirgefinn í Reykjavíkurmaraþoni

uppfært 09. ágúst 2020

Matteo Tarsi er ítalskur Íslandsvinur sem búið hefur hér á landi undanfarin ár og hleypur reglulega. Árið 2013 ákvað Matteo að hlaupa 10 km í Reykjavíkurmaraþoninu en lenti í heldur broslegri uppákomu. Það má segja að kappið hafi borið hann ofurliði, kannski að ítalska hvatvísin hafi spilað inn í.

Þessi stórskemmtilegi Ítali hleypur reglulega, gjarnan strandlengjuna sunnan við Reykjavíkurflugvöll og inn í Nauthólsvík enda búsettur í næsta nágrenni, við Háskóla Íslands.

"Er ég ekki örugglega í réttu hlaupi?"
„Einu sinni tók ég þátt í Reykjavíkurmaraþoninu en samt ekki! Þetta var árið 2013. Ég fór á fætur um hálfáttaleytið og hélt að 10 kílómetrahlaupið ætti að byrja kl. 9:30 frá Lækjartorgi. Ég fór því af stað frá íbúðinni minni á Eggertsgötu svona um hálfníuleytið, ef mig minnir rétt. Þegar ég kom að gatnamótum Eggertsgötu og Suðurgötu sá ég heilmikið af fólki sem var að hlaupa suður eftir. Ég hélt auðvitað að mér hefði skjátlast með tímasetningu og byrjaði þar af leiðandi að hlaupa með öllu þessu fólki," útskýrir Matteo með bros á vör. Matteo stakk sér semsagt inn í miðjan hóp hlaupara tilbúinn að taka þátt í þessum gleðidegi. Ítalanum knáa sem er doktorsnemi í íslenskri málfræði var létt, var nokkuð öruggur um að hafa náð að stinga sér inn í rétt hlaup.

Enginn verðlaunapeningur en skemmtisögu ríkari
„Til að vera viss spurði ég nokkuð marga hlaupara hvort þetta væri ekki örugglega 10 km hlaupið en ég fékk hvorki neitun né staðfestingu á því þannig að ég hélt áfram að hlaupa. Þegar við komum að gatnamótum Tryggva- Lækjar- og Hverfisgötu sá ég skilti sem vísaði leið: „Maraþon- og hálfmaraþonhlaupara ÁFRAM, 10 km hlauparar TIL HÆGRI". Auðvitað beygði ég til hægri og varð (allt í einu) EINN!! Ahah, þetta var meiriháttar! Ég fór svo heim án verðlaunapenings en samt einni skemmtilegri sögu ríkari!," segir Matteo og hlær ítölskum hlátri. Matteo hafði í örvæntingu sinni stungið sér inn í hóp maraþon og hálfmaraþon hlaupara en ætlaði sjálfur að hlaupa 10 km. Kostuleg uppákoma.

Eins og heyra má þá grætur Matteo þessi mistök þurrum tárum enda varla annað hægt þegar svona skemmtisaga verður til. Það er því kannski um að gera að hvetja þátttakendur í Reykjavíkurmaraþoni  til að svara samhlaupurum sínum sé spurt um hvort viðkomandi sé ekki örugglega í réttu hlaupi.

Til öryggis fyrir Matteo og alla hina þúsundir þátttakenda þá má finna dagskrá Reykjavíkurmaraþons hér.